3.8.2002

Deilur um hús - hinn málefnalegi Alfreð - athugun Egils.

Deilur um hús, sem reist eru fyrir opinbert fé, eru algengar, enda er oftar en ekki tilefni til að finna að því, hvernig að slíkum framkvæmdum er staðið. Ákvarðanir um það, hvort nauðsynlegt sé að ráðast í framkvæmdir með opinberum atbeina, valda oft ágreiningi. Síðan er gjarnan fylgst náið með því, hvort staðið sé við áætlanir eða ekki. Dæmin um slíkar deilur eru svo margar úr síðari tíma sögu okkar Íslendinga, að ekki er unnt að nefna þau öll. Mörg þessara húsa setja mikinn svip á umhverfi sitt eins og Hallgrímskirkja og Perlan.

Í mörg ár ræddu vinstri menn um flugstöð Leifs Eiríkssonar á þeim forsendum, að hún hefði verið eitthvert gæluverkefni sjálfstæðismanna og sáu ofsjónum yfir kostnaði við mannvirkið og töldu, að það hvíldi sem alltof þungur baggi á þjóðinni og sligaði ríkissjóð. Fljótlega kom í ljós, að flugstöðin var of lítil og nú hefur hún verið stækkuð til mikilla muna, án þess að nokkuð sé rætt sérstaklega um kostnaðinn vegna þeirra framkvæmda, enda sjá allir sanngjarnir menn, hve mikið notagildi mannvirkið hefur og hve miklu skiptir, að öll þjónusta þar sé samkeppnisfær á alþjóðavísu.

Seðlabankahúsið var lengi til umræðu og í mörg ár var sagt, að nær væri að gera eitthvað annað við fjármunina, sem til þess runnu, en að reisa húsið. Vissulega eru rök fyrir því, að ekki þurfi að reisa sérstakt glæsihýsi yfir starfsemi seðlabanka og öðru máli gegni til dæmis um það mannvirki en ráðhús, sem alls staðar verður eitt af táknum viðkomandi borgar - eða mannvirki eins og Perluna, sem verður sem borgartákni helst jafnað við Eiffel-turninn, þótt ekki eigi hún rætur að rekja til heimssýningar.

Næstu stórmannvirki í miðborg Reykjavíkur eru tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð, sem ætlunin er að bjóða út til einkaframkvæmdar með glæsihóteli við Reykjavíkurhöfn. Á stjórnmálavettvangi er ekki ágreiningur um nauðsyn þess, að hið opinbera, ríki og borg, komi að þessum framkvæmdum, en innan Sjálfstæðisflokksins hafa einkum ungir menn lagst gegn opinberri þátttöku í mannvirkjagerðinni.

Hinn málefnalegi Alfreð

Eitt hinna opinberu húsa, sem nú veldur ágreiningi, er verið að reisa sem höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við Réttarháls í Reykjavík.

Þegar ákveðið var að leggja í þessa framkvæmd var ekki ágreiningur um hana í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eða í borgarráði, enda var lagt upp á þeim forsendum, að kostnaður við mannvirkið yrði tæplega tveir milljarðar og mundi hann verða greiddur af sölu fasteigna OR, það er með því að selja höfuðstöðvar rafmagnsveitunnar, hitaveitunnar og vatnsveitunnar. Við flutning á allri starfsemi OR á einn stað mundi auk þess verða mikil hagræðing. Nú hefur tekist að selja ofan af rafmagnsveitunni og hitaveitunni fyrir samtals 1400 m. kr. en höfustöðvar vatnsveitunnar eru óseldar.

Nú í vikunni var skýrt frá því, að kostnaður við þetta hús OR mundi fara fram úr áætlun, sem síðast var um 2,3 milljarðir króna. Þegar Morgunblaðið spurði forstjóra OR um það, hve þetta frávik yrði mikið, vildi hann ekki svara því, þar sem stjórn OR hefði ekki verið skýrt frá því.

Sama dag og Morgunblaðsfréttin birtist, 31. júlí, hafði fréttamaður RÚV samband við mig og fóru þá meðal annars fram þessi orðaskipti, sem birtust í kvöldfréttum þennan dag:

„Þórdís Arnljótsdóttir: Höfuðstöðvar fyrir á þriðja milljarð króna, þykir þér heldur mikið í lagt?

Björn Bjarnason: Já mér finnst það. Ég held nú að þessi tala eins og ja, mun koma fram að hún kunni að verða á fjórða milljarð króna og ég hef sagt það og það er mín skoðun að það eigi nú að líta til annarra hluta heldur en að reisa svo dýrar höfuðstöðvar eða skrifstofubyggingar yfir þjónustufyrirtæki af þessum toga. En þessar ákvarðanir hafa verið teknar og það er unnið samkvæmt ákvörðunum sem voru teknar áður en ég kom beint að þessu máli.

En þá var líka málið lagt fyrir á þann veg að það ætti að afla fjár til byggingarinnar með sölu á eignum, það hefur heldur ekki gengið eftir. Þannig að það eru tveir þættir sem ekki hafa gengið eftir í þessu máli. Annars vegar salan á eignunum og hins vegar kostnaðurinn við bygginguna. Þannig að þetta gat verður stærra en menn gerðu ráð fyrir í upphafi.“

Í þessum orðum endurtók ég sömu skoðun og ég hafði sett fram í kosningabaráttunni og olli deilum þá. Það er í fyrsta lagi, að líklegt sé, að kostnaður við þetta mannvirki verði á fjórða milljarð króna, og það sé að mínu mati ekki nauðsynlegt að ráðast í slíkar byggingar fyrir þjónustufyrirtæki eins og OR,

Daginn eftir ræddi fréttastofa RÚV við sjálfan Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformann OR, og hann þurfti ekki að bíða eftir því að segja meðstjórnarmönnum sínum frá frávikinu frá kostnaðaráætluninni, áður en hann skýrði frá því í fjölmiðlum, því að hann sagði það vera um 8% eða nema um 200 milljónum króna og síðan sagði hann af sinni alkunnri hógværð og viðleitni til að ræða álitamál á efnislegum forsendum:

„Þessar fullyrðingar Björns Bjarnasonar eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar. Enda þó að kostnaður verði eitthvað hærri en 2,3 milljarðar þá erum við að tala kannki um 8% hækkun frá kostnaðaráætlun sem verður þá 2 milljarðar 490 milljónir, það eru sem sé 8%. Það er nú allt of sumt. En Björn hefur nú haldið þessu lengi fram og hefur verið að tala jafnvel um 4 milljarða. Þetta stenst engan veginn og ég veit ekki satt að segja hvað Björn Bjarnason hefur fyrir sér í þessu.

Mér finnst hins vegar þessi málflutningur hans mjög sérkennilegur með tilliti til þess að þessi sami Björn Bjarnason var menntamálaráðherra ekki alls fyrir löngu þar sem að hann hafði yfirumsjón með endurbyggingu Þjóðminjasafns sem fór 100% yfir kostnaðaráætlun. Þannig að Björn Bjarnason er nú ekki besti maðurinn til þess að fjalla um byggingarkostnað að mínu mati.“

Alfreð nefnir þarna fjóra milljarði króna og kennir þá við mig í þeim eina tilgangi að blekkja fréttamann (Guðjón Helgason) og áheyrendur og hitt, sem hann segir um Þjóðminjasafnið er furðulegt í ljósi þess, að gagnrýni R-listans á mig vegna vegna þess í kosningunum snerist um það, að framkvæmdum væri ekki lokið og ég svaraði með vísan til þess, að það stafaði af því, að áhersla hefði verið lögð á að halda þeim í samræmi við fjárveitingar. 

Alfreð talar hins vegar eins og endurbyggingu Þjóðminjasafns sé lokið og framkvæmdirnar hafi farið 100% fram úr áætlun undir minni yfirumsjón! Ekki hef ég orðið var við, að fréttamaðurinn hafi gert neina tilraun til að leita hins sanna um þessi orð Alfreðs Þorsteinssonar ? þótt hann hafi leitað í smiðju til Alfreðs vegna orða minna um frávik frá áætlunum vegna höfuðstöðva yfir OR.

Athugun Egils

Höfuðstöðvar OR eru áfram hugleiknar Agli Ólafssyni, blaðamanni á Morgunblaðinu, sem ritar aðra viðhorfsgrein um málið í Morgunblaðið 2. ágúst í tilefni af orðum, sem ég lét falla um fyrri grein hans hér fyrir tveimur vikum. Þykir Agli, að ég hafi vegið að blaðamannsheiðri hans, þar sem ég taldi, að hann hefði átt að afla sér betri vitneskju um afstöðu okkar sjálfstæðismanna til nýrra höfuðstöðva OR, áður en hann komst að þessari niðurstöðu sinni:

„Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar kom ekkert fram sem benti til þess að ósamkomulag hefði verið milli meiri- og minnihluta borgarstjórnar um að fara út í þessa miklu byggingu.“

Athugasemd mín byggðist einfaldlega á þeirri staðreynd, að í kosningabaráttunni gagnrýndi ég þetta mannvirki á mörgum fundum. Egill segir í öðrum pistli sínum um málið, að hann hafi víst aflað sér vitneskju um málið, hann hafi ekkert fundið um afstöðu mína í blaðagreinum eða hér á vefsíðu minni annað en ræðu, sem ég flutti í borgarstjórn 20. júní, en hún sé ómar2tæk frá hans sjónarmiði, þar sem hún var flutt að loknum kosningum -en hann hafi verið að kanna afstöðu manna fyrir kosningar!

Áður en Netið kom til sögunnar notuðu blaðamenn gjarnan símann til að afla sér upplýsinga vildu þeir leita af sér allan grun, ef Egill hefði hringt í mig eða sent mér fyrirspurn í tölvupósti, hefði ég svarað honum á svipaðan hátt og ég gerði í samtalinu við fréttamann RÚV 31. júlí. Þá hefði Egill átt að greina frá því að loknum athugunum sínum, að við ákvörðun í stjórn OR um málið var byggt á því, að þrjár höfuðstöðvar mundu seljast til að standa alfarið undir einum samastað fyrir OR. Hann hefði einnig átt að lýsa því fyrir lesendum Morgunblaðsins, að keypt hefði verið hús við hlið nýja hússins á Réttarhálsi fyrir 400 milljónir og er eðlilegt að bæta þeim kostnaði við þær tölur, sem hér hafa verið nefndar vegna hinna nýju höfuðstöðva. Einnig hefði Egill átt að komast að því, að líklega hefur OR ekki þröf fyrir tvær hæðir í nýja húsinu.

Verst þykir Agli, að í pistli mínum hafi ég ekki getið þess, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR gerðu ekki ágreining í stjórninni, þegar ákveðið var að reisa OR höfuðstöðvar. Gerir hann sérstaka athugasemd við þessi orð mín:

„Undir lok greinar sinnar gefur Egill í skyn, að í kosningabaráttunni til borgarstjórnar nú í vor höfum við sjálfstæðismenn lagt blessun okkar yfir þessar framkvæmdir og helst rætt um það, hvort í húsinu skyldi verða kaffihús, aðstaða til líkamsræktar eða myndlistarsýninga.“

Telur Egill, að með þessum orðum sé ég að segja, að sjálfstæðismenn hafi alla tíð verið andvígir byggingu höfuðstöðvanna. Það er einfaldlega rangtúlkun á orðum mínum, ég er að ræða um kosningabaráttuna og hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þeirrar ákvörðunar að reisa höfuðstöðvarnar. Þar skeikar miklu frá því að málið var lagt fyrir stjórn til ákvörðunar.

Ég ræð af grein Egils, að hann leggi að jöfnu að samþykkja, að starfsemi OR flytji á einn stað við Réttarháls og leggja blessun sína yfir allar framkvæmdir á vegum OR við Réttarháls og þess vegna sé gagnrýni mín eða annarra sjálfstæðismanna fyrir kosningar á þessa mannvirkjagerð ekki marktæk.

Stjórnmálaflokkar eiga að mati Egils að standa við afstöðu af þessum toga. „Ekki síst í ljósi þess að það er hlutverk stjórnmálamanna að horfa til framtíðar þegar þeir taka ákvarðanir,“ segir Egill og gefur þar með til kynna, að hvorki ég né aðrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hefðum mátt mynda okkur nýja skoðun á þessu máli, hvað sem leið upphaflegum ákvörðunum á vettvangi stjórnar OR og hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þeirra.

Ég er þeirrar skoðunar, að fari stjórnmálamenn inn á ranga braut, eigi þeir eins og aðrir að viðurkenna það og breyta um stefnu. Raunar hef ég talið, að almennt viðurkenndu menn þennan rétt þeirra og einnig rétt þeirra, sem koma nýir og óbundnir að einhverju máli að mynda sér skoðun á því, ræða hana og rökstyðja.