Sviptingar í fjármálum og viðskiptum
Sviptingar í fjármálaheiminum eru ekki síður miklar hér þessar sumarvikur en í Bandaríkjunum, Frakklandi eða Þýskalandi, þar sem stórfyrirtæki riða til falls eða stjórnendur þeirra verða að láta af störfum vegna þess að þeir glata trausti meðal hluthafa.
Jean-Marie Messier, forstjóri franska fyrirtækisins Vivendi Universal, sem setti sér það mark að hefja stöðu Frakka á sama stall og Bandaríkjamanna í kvikmyndagerð með því meðal annars að kaupa Hollywood-fyrirtækið Universal, hrökklaðist úr stóli sínum. Hann sagðist hafa ætlað að breyta ímynd og styrkja stöðu Vivendi með því að flytja í hundruð milljóna króna glæsiíbúð á Park Avenue í New York og gera lítið úr verndarstefnu franskra stjórnvalda gegn menningar- og viðskiptavaldi bandarískra kvikmyndajöfra. Mæltist hvoru tveggja illa fyrir í Frakklandi, þótt glæfraleg meðferð fjármuna hafi að lokum orðið Messier að falli. Vivendi Universal, sem rekur meðal annars frönsku áskriftarsjónvarpsstöðina Canal+, sem þótti fyrir nokkrum árum gulltryggt gróðafyrirtæki, glímir nú við alvarlega fjárhagserfiðleika og Canal+ skilar meira að segja ekki lengur hagnaði. Hefur verið ákveðið að Canal+ breyti um rekstrar- og dagskrárstefnu og snúi inn á svipaðar brautir og í upphafi, þegar sjónvarpsstöðin var arðsöm og naut hylli.
AOL Time Warner í Bandaríkjunum varð til í janúar 2000, þegar trú á Netið og áhrifamátt þess var sem mest í viðskiptalífinu, og þá var samruni þessara risafyrirtækja á sviði fjarskiptatækni, netvæðingar og framleiðslu á efni talinn vera til marks um mikla framsýni, sem gæti ekki annað en skilað miklum og góðum hagnaði, því að allir þyrftu í vaxandi mæli á þjónustu svo alhliða fyrirtækis að halda. Nú glímir AOL Time Warner við mikinn fjárhagslegan vanda, sem stafar einkum af því að auglýsingatekjur hafa dregist saman. Einnig eru uppi efasemdir um, að rétt hafi verið staðið að bókhaldinu eins og hjá WorldCom, risanum, sem nú rambar á barmi gjaldþrots, en átti að marka tímamót í síma- og fjarskiptaþjónustu í Bandaríkjunum. Loks hefur AOL Time Warner átt undir högg að sækja á Netmarkaðinum, meðal annars vegna þess, hve seint það hefur verið að nýta breiðbandið til þjónustu við viðskiptavini sína. Þá þykir nú komið í ljós, að Netið kollvarpar ekki gömlum viðskiptaháttum heldur er fremur litið á veraldarvefinn sem spennandi viðbótarboðleið í heimi viðskipta og fjármála.
Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, beitti sér fyrir því, að Ron Sommer, forstjóri þýska símafyrirtækisins, Deutsche Telekom, sagði af sér, eftir að hlutabréf í fyrirtækinu höfðu hríðfallið, en þýska ríkið á 43% í því. Þýska sjóvarpsfyrirtækið Kirch, sem á sínum tíma, var talið ósigrandi, ekki síst vegna þess hve það hafði tryggt sér mikið efni til sýninga á hagstæðum kjörum. er gjaldþrota.
Hinar miklu sviptingar í kringum öflug fyrirtæki í síma-, fjarskipta-, sjónvarps og netþjónustu hafa alls staðar áhrif á stjórnmálavettvangi, annað hvort vegna þess að stjórnvöld hafa beinna hagsmuna að gæta eins og gagnvart Deutsche Telekom eða vegna þess að grípa þarf til opinberra aðgerða eða lagasetningar vegna uppnáms á markaði eða óvenjulegra og stundum ólöglegra viðskiptahátta. Skýrasta dæmið um skjót opinber viðbrögð við ófarnaði í heimi viðskiptanna er að finna í Bandaríkjunum, þar sem allt stjórnkerfið og þingið hafa brugðist við af miklum þunga, enda mikið í húfi, þegar öflugustu fyrirtæki Bandaríkjanna eiga í hlut og hagsmunir milljóna hlutafjáreigenda, sem eru einskonar eimreið bandaríska hagkerfisins. Sætir George W. Bush vaxandi gagnrýni fyrir lausatök stjórnar hans á efnahagsmálum. Tvær meginræður forsetans undanfarnar vikur til að snúa vörn í sókn á þessu sviði hafa ekki skilað þeim árangri, sem að var stefnt með þeim að dómi vikuritsins The Economist, svo að vitnað sé virt blað, sem studdi Bush í forsetakosningunum en segist nú á báðum áttum um ágæti hans.
Boðaföllin erlendis, þegar hriktir í öflugum fyrirtækjum innan stórra hagkerfa, segja okkur, að eðlilegt sé, að veruleg spenna myndist hér á landi, þegar hugað er að sölu eignarhluta ríkisins í Símanum eða bönkum eða þegar rætt er um framtíð sparisjóðanna og fyrirtækja á borð við Norðurljós, sem rekur Stöð 2 og nokkrar útvarpsstöðva. Skiptir miklu, að staðreyndir flókinna viðfangsefna liggi sem skýrast fyrir og brugðist sé rétt við þeim, því að miklir hagsmunir eru í húfi, hvort heldur fjárhagslegir eða aðrir.
Sérstaklega eru allar umræður um starfsemi banka viðkvæmar, því að þar starfa menn samkvæmt strangri þagnarskyldu og eiga erfitt með að verjast, þegar að þeim er sótt á opinberum vettvangi. Kemur þetta berlega í ljós, þegar Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, kýs að hefja opinberar umræður samskipti sín við Búnaðarbanka Íslands annars vegar og Landsbanka Íslands hins vegar. Annars vegar setur hann mál sitt fram afdráttarlaust en hins vegar ræða talsmenn banka málin almennum orðum til að komast hjá því að rjúfa þagnarskylduna.
Er ljóst, að forstjórinn telur vera í samræmi við hagsmuni fyrirtækis síns að leggja spilin á borðið með þeim hætti sem hann gerir og þá væntanlega í þeim tilgangi að styrkja stöðu þess frekar en veikja.
Laugardaginn 27. júlí skýrir Sigurður G. Guðjónsson Agnesi Bragadóttur, fréttastjóra Morgunblaðsins, frá því í Morgunblaðsviðtali, hvernig staðið hefur verið að málum Norðurljósa undanfarin misseri og sérstaklega lýsir hann hlut þeirra Jóns Ólafssonar og Sigurjóns Sighvatssonar, sem hafa greinilega ekki borið persónulega skarðan hlut frá borði þessa fyrirtækis, sem að sögn forstjórans skuldar 7,6 milljarði króna en stendur með rekstri sínum undir 3,5 til 4 milljarða króna skuld. Augljóst er, að dæmið gengur ekki upp að óbreyttu og útlistaði Sigurður G. það í viðtalinu við Agnesi, hvernig hann teldi unnt að lækka skuldirnar. Sagði hann, að Norðurljós hefðu lagt til að gamla hlutaféð, tæplega 1,7 milljarðar króna, yrði skrifað niður í 20% eða í um 300 milljónir króna. Hluthafarnir vildu koma inn með 600 milljónir króna í nýju hlutafé og halda meirihlutaeign sinni. Lánveitendur ættu hins vegar að breyta 3 milljörðum í 30% eign í félaginu. Morgunblaðið bar þetta daginn eftir undir Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbanka Íslands, sem vildi hvorki staðfesta þessar tölur né neita þeim, hann sagði hins vegar. „En ef við notum tölurnar sem hann gefur upp í dæmaskyni sjá allir hvar sanngirnin liggur í þessum viðræðum,"
Þess er beðið, hvernig eigendur Norðurljósa ætla að leysa þann vanda, sem forstjórinn hefur lýst. Þess er einnig beðið, hvernig einkavæðingarnefnd ríkisins svarar tilboðum í Búnaðarbankann og Landsbankann. Í þriðja lagi er þess beðið, hver verða örlög Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Loks er þess beðið, hvort bandaríska fyrirtækið Alcoa ætlar að reisa álverksmiðju á Reyðarfirði og þar með hrinda af stað þeim gífurlegu framkvæmdum og fjarfestingu, sem þeirri ákvörðun fylgir.
Það er mikið í deiglunni í fjölmiðla-, fjármála-, efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar þessar sumarvikur. Skiptir miklu að farsælar ákvarðanir séu teknar að vel ígrunduðu máli en ekki með þeim heitingum og illsku, sem því miður einkennir um of umræðurnar um þessi mál, eins og þær birtast okkur, þegar þeir ræðast við á opinberum vettvangi, sem þarna eru á öndverðum meiði eða telja sig hafa sérstakra hagsmuna að gæta.