21.7.2002

Dálkur í Morgunblaðið – friðsemi gagnrýnd – dagbók.


Fyrir þremur vikum tók ég að rita fastan dálk í Morgunblaðið, sem birtist þar á miðopnu á laugardögum. Er ánægjulegt að fá tækifæri til þess á nýjan leik að fást við þann þátt blaðamennskunnar, sem felst í því að láta eitthvað frá sér fara með reglubundnum hætti. Það krefst þess til dæmis að fylgjast betur en ella með öllu, sem er að gerast á vettvangi þjóðmála eða alþjóðamála og vega og meta, hvað er þess eðlis, að ástæða sé til að ræða það frekar.

Eftir að hafa haldið úti föstum pistlum hér á síðunni með því sniði, sem ég hef valið þeim, að vera persónulegri en almennt í blaðagreinum, er það endurþjálfun í sjálfu sér að setjast niður við að skrifa fastan blaðadálk reglubundið og það á jafnvirðulegan stað og miðopnu Morgunblaðsins.

Raunar hefur orðið veruleg breyting á Morgunblaðinu undanfarin ár að því leyti, að blaðamenn rita þar meira undir nafni en áður, þar á meðal dálka á borð við Viðhorf, þar sem þeir geta lýst skoðunum sínum á mönnum og málefnum. Af þessum dálkum sést, að stjórnmálaskoðanir og áherslur blaðamannanna eru eins margar og þeir, sem láta þær í ljós. Þegar ég starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar sem aðstoðarritstjóri heyrði það til undantekninga, að blaðamenn skrifuðu annað en það, sem beinlínis sneri að fréttum og fréttatengdu efni.

Þá urðu fréttaskýringar oft tilefni opinberra umræðna og deilna, en þær hafa tekið á sig annan svip núna en var á áttunda og níunda áratugnum, þegar mikið var fjallað um stjórnmál í slíkum skýringum. Nú lýsa blaðamenn hins vegar skoðunum sínum á stjórnmálum í dálkum eins og Viðhorfi og taka þar afstöðu með og á móti mönnum og málefnum.

Í Morgunblaðið laugardaginn 20. júlí ritar Egill Ólafsson blaðamaður til dæmis um hið risastóra skrifstofuhús, sem Orkuveita Reykjavíkur (OR) er að reisa við Réttarháls. Undir lok greinar sinnar gefur Egill í skyn, að í kosningabaráttunni til borgarstjórnar nú í vor höfum við sjálfstæðismenn lagt blessun okkar yfir þessar framkvæmdir og helst rætt um það, hvort í húsinu skyldi verða kaffihús, aðstaða til líkamsræktar eða myndlistarsýninga. Þessi ummæli Egils gefa alls ekki rétta mynd af því, sem ég sagði um þetta hús fyrir kosningar. Ég gagnrýndi það harkalega á fjölmörgum fundum, að ráðist væri í smíði skrifstofuhúss með þessum hætti og gerði það raunar einnig í ræðu, sem ég flutti í borgarstjórn 20. júní og lesa má hér á síðunni. Fékk ég þá þau svör frá Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni OR, að ég væri að ráðast á starfsfólk OR, það ætti rétt á að fá viðunandi starfsaðstöðu! Spurði ég þá, hvort andstæðingar Ráðhússins hefðu á sínum tíma verið að ráðast á þá, sem vinna í því húsi – en fékk að sjálfsöðgu engin svör. Finnst mér furðulegt, að blaðamaður skuli, þegar hann fjallar um mál sem þetta og afstöðu einstakra flokka til þess, ekki afla sér betri vitneskju en þeirrar, sem kemur fram í niðurlagi greinar hans.

Friðsemi gagnrýnd.

Þegar ég fór að skrifa um dálkinn minn í Morgunblaðinu, ætlaði ég ekki að ræða viðhorfsskrif Egils Ólafssonar, heldur hvaða augum Gerður Kristný, ritstjóri Mannlífs, lítur skoðun mína á ummælum Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri/grænna í The New York Times þriðjudaginn 16. júlí síðastliðinn. Fjalla ég um þann ofstopa í Morgunblaðinu 20. júlí en einnig er unnt að lesa textann hér á síðunni. Undir lokin segi ég: „Ein af meginástæðunum fyrir því, að erlendir stórfjárfestar velja Ísland frekar en önnur lönd, er einmitt festa í stjórnarfarinu, lögbundnir stjórnarhættir, friðasamt þjóðfélag vel menntaðra og víðsýnna manna. Þegar allt um þrýtur er það kannski þessi mynd af Íslendingum, sem Kolbrún Halldórsdóttir vill spilla með ofstopa sínum.”

Í þættinum Í vikulokin, sem Þorfinnur Ómarsson stjórnaði að morgni laugardagsins 20. júlí var Gerður Kristný meðal viðmælenda hans. Þar vitnaði hún til þessara lokasetninga minna og staldraði sérstaklega við orðin „friðsamt þjóðfélag” og taldi skaða, að friðsemdarorð færi af okkur Íslendingum, það væri greinilega ekki nóg að mótmæla virkjunum með því að lesa ljóð á Austurvelli heldur yrði að gera það með róttækari og eftir því sem ætla mátti ófriðasamari hætti í því skyni að fæla erlenda stórfjárfesta frá landinu. Staðfesti hún þar með ályktunina um tilgang ofstopa Kolbrúnar Halldórsdóttur í The New York Times – það er að koma því orði á íslensku þjóðina, að hér séu frumstæðir stjórnarhættir eins og í svonefndum bananalýðveldum. Er þessi afstaða Gerðar Kristnýjar óvænt, því að hún ritstýrir tímariti, sem stuðlar ekki að róttækni í þjóðlífinu, nema hún felist í því að snúast í kringum fræga og fína fólkið og gægjast inn í líf þess.

Dagbók.

Ég hef fengið ábendingar um það frá tryggum lesendum síðu minnar, að ég hafi ekki fært upp dagbókina mína síðan 25. maí. Það er rétt, að ég lét það undir höfuð leggjast en vegna þessara ábendinga hef ég nú fært inn á hana nokkuð af því, sem á daga mína hefur drifið síðan.

Ástæðan fyrir því, að ég hef ekki sinnt dagbókinni með sama hætti og áður, er sú, að ég hef alltaf litið á hana sem hluta af frásögn af opinberum störfum mínum en ekki einkahögum. Hinum opinberu skyldum fækkaði eftir að ég hætti kosningabaráttunni og ég hef verið við jarðvinnu og garðrækt utan Reykjavíkur eins mikið og mér er unnt. Þaðan get ég verið í jafnöflugu tölvusambandi við umheiminn og heiman frá mér eða frá þeim skrifstofum, þar sem ég hef aðstöðu, hvort heldur á vegum alþingis eða borgarstjórnar.

Líklegt er að ég breyti nú færslum í dagbókina og birti þar meiri efnislega umsögn um það, sem þar kemur fram, til dæmis vegna þátttöku minnar í einstökum fundum.