Alaskalóð - bílastæði undir Tjörnina - Víkurkirkjugarður
Samgönguráðherra Breta varð að segja af sér fyrir nokkrum vikum vegna ýmissa vandræða. Segja má, að þau hafi hafist strax eftir 11. september síðastliðinn, þegar fréttir láku úr ráðuneyti hans þess efnis, að aðstoðarmaður hans hefði látið þau boð út ganga meðal ráðuneytisstarfsmanna, að nú væri rétti tíminn til að birta fréttatilkynningar um óvinsæl efni, því að það væru allir með hugann við árásirnar á New York og Washington. Þetta ráð aðstoðarmannsins er í sjálfu sér ekki frumlegt, því að oft velja stjórnvöld þann tíma, sem athygli beinist örugglega að öðru en störfum þeirra, til að koma ýmsu um kring, sem ella hefði að líkindum vakið mikla athygli, einkum neikvæða, og umtal.
Sumarið er sá tími, sem áhugi á stjórnmálum er hvað minnstur og fólk er almennt með hugann við annað en það, sem stjórnvöld eru að sýsla. Þess vegna getur verið ágætt að taka þá á málum, sem ekki eru endilega til vinsælda fallin. Okkur sjálfstæðismönnum í borgarstjórn virðist sem R-listinn sé að nýta sér þessa stöðu núna varðandi ýmis mál, sem eru vissulega þess eðlis, að nauðsynlegt er að ræða þau og kynna, svo að borgarbúar telji sig ekki standa frammi fyrir orðnum hlut, án þess að hafa nægilegt tóm til að skoða alla efnisþætti.
Þrjú slík mál voru til umræðu á fundi borgarráðs föstudaginn 12. júlí.
Í fyrsta lagi sú ákvörðun að heimila byggingar um 50 íbúða á svonefndri Alaskalóð við Skógarsel í Breiðholti. Hugmyndin hefur sætt mikilli gagnrýni nágranna lóðarinnar, en hún er höfð að engu af R-listanum. Við sjálfstæðismenn teljum of þétta byggð á lóðinni en andmæli okkar eru höfð að engu eins og nágrannanna. Fráleitt er að halda því fram, að allar þessar íbúðir þurfi á lóðinni til að hún nýtist sem útvistarsvæði fyrir hverfisbúa.
Bílastæði undir Tjörnina.
Í öðru lagi áformin um að setja bílastæði undir Tjörnina í Reykjavík. Mikið óðagot hefur verið í því máli hjá R-listanum, því að umræðu um málsmeðferð var ekki lokið í borgarráði, þegar borgarstjóri boðaði blaðamannafund um málið og sagði, að framkvæmdir gætu hafist á haustmánuðum.
Í borgarráði lýstum við sjálfstæðismenn skoðunum okkar meðal annars með bókun, þar sem sagði meðal annars: „Ljóst er, að reynslan af því að reisa Ráðhúsið við Tjörnina og gera bílastæði undir því, er höfð að leiðarljósi við þessa tillögu og er athyglisvert, að hún er gerð undir pólitískri forystu þeirra, sem töldu framkvæmdir við Ráðhúsið mundu spilla fuglalífi á Tjörninni og við hana, ef ekki eyðileggja lífríki hennar.
Síðan Ráðhúsið var reist hefur verið sett ný löggjöf um umhverfismat og vernd fornleifa. Tillagan um bílastæði undir Tjörninni hefur ekki verið metin í ljósi þessara laga. Áður en það er gert, er ekki unnt að taka efnislega afstöðu til þess, hvort hún er framkvæmanleg eða hvað hún kostar í framkvæmd. Tillagan snýst ekki einungis um framkvæmdir undir Tjörninni heldur einnig breytingu á Mæðragarðinum vegna innkeyrslu í fyrirhuguð bílastæði.
Tillögunni fylgja ekki upplýsingar um nýtingu þeirra bílastæðahúsa, sem nú þjóna miðborginni svo sem í kjallara Ráðhússins, í Grjótaþorpi, Kolaportinu, við Hverfisgötu og Bergstaðastræti. Til að leggja mat á þörfina fyrir framkvæmdir vegna bílastæða á þessum viðkvæma stað er nauðsynlegt að hafa tölfræðilegar upplýsingar um nýtingu annarra bílastæðahúsa og hvernig henni er háttað á mismunandi tímum sólarhringsins.
Tillagan kemur fram, af því að horfið var frá því að smíða bílastæðahús á horni Suðurgötu og Túngötu, sem mætti mikilli andstöðu nágranna. Nauðsynlegt er, að við mat á tillögunni séu kynntir aðrir kostir til að leysa úr þeim vanda, sem steðjar að miðborginni vegna skorts á bílastæðum, svo að unnt sé að gera upp á milli þeirra við afgreiðslu tillögunnar.“
Staðreynd er, að ekki hafa verið reist nein bílastæðahús í Reykjavík í þau rúm átta ár, sem R-listinn hefur haft meirihluta. Kemur mjög á óvart, þegar kynnt er jafnróttæk hugmynd og sú að grafa slíkt mannvirki undir Tjörnina og verja til þess að minnsta kosti 700 milljónum króna, skuli ekki liggja fyrir úttektir um nýtingu bílastæðahúsa í Miðborginni eða útreikningar á öðrum kostum. Miðað við óðagotið og blaðamannafundinn, á meðan borgarráð var enn að fjalla um málið, mætti ætla, að mikill tímaskortur væri vegna framkvæmdarinnar. Hvernig má það vera, þegar ekkert hefur verið gert í átta ár?
Ráðist á Víkurkirkjugarð.
Í þriðja lagi eru það síðan hugmyndirnar um að verja um 500 milljónum króna til að rífa Víkurkirkjugarð við Aðalstræti í því skyni að skapa aðgang og umgjörð um fornminjar, sem fundust vestan við götuna, þar sem ætlunin er að reisa hótel. Í tilefni af þessum hugmyndum bókuðum við sjálfstæðismenn á borgarráðsfundinum 12. júlí:
„Saga Aðalstrætis er afar merkileg og einstök í miðri höfuðborg. Haga ber öllu skipulagi þar með tilliti til þess, ekki síst þegar nú hafa fundist minjar í Aðalstræti, sem eru minnismerki um elstu byggð í Reykjavík og landinu öllu.
Víkurkirkjugarður er mikilvægur hluti minjaheildar í Aðalstræti. Það er óvirðing við garðinn og raskar meginmarkmiðum eðlilegrar minjavörslu á svæðinu að ráðast þar í framkvæmdir vegna aðgengis að fornminjunum, sem hafa fundist við Aðalstræti. Þá hlýtur einnig að vera álitamál, hvort það falli að markmiðum minjavörslu á þessum merka stað að reisa þar ný hús í dulargervi gamalla og segja fólki, að það sé gert í virðingarskyni við merka sögu Aðalstrætis.
Ráðgert er að núverandi áform um uppgröft, mannvirkjagerð í Víkurkirkjugarði og sýningu á fornminjunum kosti um 500 milljónir króna.
Sjálfstæðismenn ítreka fyrri tillögur sínar um, að leitað verði fleiri hugmynda um varðveislu og sýningu fornminjanna í Aðalstræti með það fyrir augum, að þær verði hluti af götumynd Aðalstrætis og almenningur fái notið þeirra sem vitnisburðar um upphaf byggðar í landinu.“
Í kosningabaráttunni á dögunum var ýmsum talsmönnum R-listans mikið í mun að ráðast á mig, vegna þess hve hægt miðaði við að endurreisa hús Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu og setja þar upp sýningu í nýjum búningi. Ég svaraði þeirri gagnrýni með því að benda á, að við þessar framkvæmdir hefðu menn fyrst búið fornminjum þjóðarinnar öruggari geymslu en nokkru sinnig og jafnframt haldið sig innan þeirra marka, sem fjárveitingar leyfðu á tímum aðhalds hjá ríkissjóði. Ég skil vel, að fólki, sem finnst sjálfsagt að verja að minnsta kosti hálfum milljarði króna til að skapa umgjörð utan um þessar fornminjar í kjallara hótels í dulargervi gamals húss í Aðalstræti og ryðjast í þeim tilgangi í gegnum næsta kirkjugarð, sé þeirrar skoðunar, að unnt sé að valsa með fé að vild í þágu Þjóðminjasafnsins og huga ekki vel að hverju skrefi.