Bókaskattur lækkar – gildi EES-samningsins – lengd skóladags – qigong.
Á sínum tíma stefndi Hörður Einarsson hæstaréttarlögmaður íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, þar sem hann taldi að brotinn hefði verið á sér réttur, því að hann þyrfti að greiða hærri virðisaukaskatt af erlendum bókum en íslenskum. Samkomulag varð um að héraðsdómur leitaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, eins og heimilt er að gera þegar um er að ræða álitamál sem varðar túlkun á EES-samningnum. Spurningin sem héraðsdómur lagði fyrir EFTA-dómstólinn snerist um það hvort svona mismunun í skattlagningu væri brot á EES-samningnum. Jafnframt var spurt hvaða lög ættu að gilda ef dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að virðisaukaskattslögin væru andstæð EES-samningnum, en þar með eru lögin í andstöðu við EES-lögin sem Alþingi hefur samþykkt.
Eftirlitsstofnun EFTA tók undir sjónarmið Harðar og það sama er gert í greinargerð sem framkvæmdanefnd Evrópusambandsins sendi dómstólnum um málið. Í febrúar 2002 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ákvæði í landslögum EES-ríkis, sem kveður á um að bækur á tungumáli þess beri lægri virðisaukaskatt en bækur á erlendum málum, samrýmdist ekki 14. gr. EES-samningsins. Ennfremur að slíkt ákvæði í landslögum verði ekki réttlætt með tilvísun til þeirra almannahagsmuna að bæta stöðu þjóðtungunnar. Eftir að þessi niðurstaða lá fyrir, flutti fjármálaráðherra tillögu til breytinga á lögunum um virðisaukaskatt um að lækka hann á erlendum bókum í 14% eins og á íslenskum bókum, sem þýðir allt að 150 milljón króna tekjutap á ári fyrir ríkissjóð og samþykkti alþingi breytinguna 20. apríl sl.
Ríkssjóður var 28. júní dæmdur til að endurgreiða Herði virðisaukaskatt af bókum sem pantaðar voru að utan með pósti. Skatturinn oftekni nam 1.601 krónu en til viðbótar verður ríkið að borga stefnanda málsins 300.000 krónur í málskostnað.
Hinn 1. júlí síðastliðinn kom samþykkt breyting á
virðisaukaskattslögunum til framkvæmda. Hún kemur sér að sjálfsögðu vel fyrir alla, sem kaupa erlendar bækur hér á landi, hvort heldur í bókaverslunum eða með því að panta þær erlendis og fá sendar í pósti.
Hörður Einarsson beitti sér raunar einnig fyrir því með málaferlum gegn íslenska ríkinu, að hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að tollayfirvöld hefðu ekki heimild til að skoða póstsendingar frá útlöndum nema með leyfi móttakanda.
Gott framtak Harðar sýnir, að alls ekki er árangurslaust fyrir einstakling að sækja mál sitt gagnvart kerfinu. Nú hefur nýr öryggisventill komið til sögunnar í slíkri réttargæslu en það er aðild okkar að alþjóðasamningum um frjáls milliríkjaviðskipti eins og EES-samningnum.
Gildi EES-samningsins.
Raunar átta ég mig ekki á þeirri spurningu, sem héraðsdómur lagði fyrir EFTA-dómstólinn og snerist um hvaða lög ættu að gilda hér á landi, ef virðisaukaskattslögin væru að hans mati í andstöðu við EES-samninginn. Ég hélt, að það lægi í augum uppi, að hér á landi giltu íslensk lög og þeirri spurningu hefði verið svarað með afdráttarlausum hætti við meðferð alþingis á EES-samningnum meðal annars með vísan til álits lögfræðinga, en Þór Vilhjálmsson, dómari við EFTA-dómstólnum, var einmitt formaður í hópi þeirra.
Þegar breytingin á virðisaukaskattslögunum vegna erlendu bókanna var til umræðu á alþingi, stóð helsti málsvari Evrópusambandsins (ESB), Bryndís Hlöðversdóttir samfylkingarkona, upp og sagði okkur betur setta innan ESB en utan, því að samkvæmt Amsterdam-sáttmálanum hefðum við getað haft hærri skatta á erlendum bókum í því skyni að verja menningarlega sérstöðu okkar. Spunnust töluverðar umræður um Evrópumálin af þessu tilefni og rifjaði Davíð Oddsson forsætisráðherra upp þá meginniðurstöðu lögfræðingahópsins undir forystu Þórs, að alþingi gæti sett þau lög, sem það kysi, væru þau talin brjóta í bága við EES-samninginn, gæti ESB gripið til mótvægisaðgerða en ekki knúið alþingi til að setja löggjöf með ákveðnu sniði og raunar taldi Davíð fráleitt, að ESB gripi til mótvægisaðgerða, ef alþingi væri að ganga lengra til móts við ESB löggjöf en skylt væri samkvæmt EES-samningnum.
Ef við værum aðilar að ESB og alþingi setti lög, sem væru í andstöðu við ESB-réttinn, gætu menn leitað til ESB-dómstólsins og hann knúið á um breytingar á lögunum. EES-samningurinn veitir okkur fullveldisvernd gegn slíkri niðurstöðu, eins og hann var skýrður, þegar Ísland gerðist aðili að honum. Að gera lítið úr þessum þætti hans, felur ekki aðeins í sér ranga túlkun á samningnum, heldur er einnig til þess fallið að veikja réttarstöðu Íslands gagnvart ESB á grundvelli samningsins.
Hvað sem þessum formreglum líður er einnig ástæða til að setja spurningamerki við það, hvort ákvæði Amsterdam-sáttmálans um menningarlega fjölbreytni hefði veitt íslenska ríkinu þá vernd, sem Bryndís lýsir. EFTA-dómstóllinn segir í áliti sínu, að slíkt ákvæði í landslögum verði ekki réttlætt með tilvísun til þeirra almannahagsmuna að bæta stöðu þjóðtungunnar. Dómstóllinn tekur þannig afstöðu til menningarþáttarins. Hitt er síðan einnig álitamál, þegar litið er til þeirrar sérstöðu EES-samningsins meðal alþjóðasamninga, að túlkun á ákvæðum hans tekur mið af þróun Evrópuréttarins, hvort EFTA-dómstólnum hafi ekki verið skylt að líta til Amsterdam-sáttmálans, þegar hann gaf álit sitt.
Lengd skóladagsins.
Nokkrar umræður hafa orðið um lengd skóladagsins hér í Reykjavík eftir að fræðsluráð og síðan borgarráð ákvað að fara að tillögum, sem lágu fyrir 22. apríl síðastliðinn og byggðust á tilraunum, sem gerðar hafa verið í grunnskólum í Breiðholti. Var ákveðið að halda áfram á sömu braut í Breiðholti og einnig taka upp lengri skóladag í skólunum í vesturbæ.
Eftir því sem fleiri kveðja sér hljóðs um málið af hálfu meirihluta R-listans í borgarstjórn þeim mun fleiri spurningar vakna í huga skólastjórnenda, kennara, foreldra og nemenda. Mér heyrist þeir til dæmis ekki skýra málið á sama hátt Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi. Að halda því fram, að með þessu sé verið að framkvæma kosningaloforð R-listans um aukna skólaskyldu, stenst ekki – R-listinn nefndi þetta atriði aldrei sérstaklega og hvernig má það vera, að skólaskylda skuli aðeins ná til einstakra hverfa í borginni? Ákvæði um skólaskyldu er að finna í lögum en haga má tíma umfram viðmiðunarstundarskrá samkvæmt skólanámskrám og ákvörðunum sveitarstjórna. Það sem nú er verið að gera í tveimur hverfum í Reykjavík á sér fordæmi til dæmis í Garðabæ.
Stefán Jón hljóp með málið í fjölmiðla og tók að kynna það, án þess að hafa allar staðreyndir á valdi sínu. Það er alltaf hættulegt fyrir stjórnmálamenn en ekki síst þegar rætt er um skólamál, því að þau snerta svo marga. Vegna þess hve ákvörðunin er seint á ferðinni er mikilvægara en ella að koma öllum staðreyndum um inntak hennar vel og skipulega til skila. Það hefur því miður ekki enn þá verið gert af stjórnendum fræðslumála í Reykjavík.
Qigong.
Enn er rætt mikið um Falun gong í fjölmiðlum og Þórdís Hauksdóttir skrifaði meðal annars um æfingarnar í Morgunblaðið 4. júlí og sagði, að Falun gong hefði verið stundað um árþúsundir án þess að það færi víða, en fyrst verið kynnt opinberlega 1992 og sjö árum síðar hefðu iðkendur í Kína verið 70 milljónir og nú stunduðu það u.þ.b. 100 milljónir manna í um 50 löndum.
Ég veit ekki hvaða heimildir Þórdís hefur um þetta en ég hef hvergi séð, að Falun gong hafi verið stundað um árþúsundir með leynd og fyrst komið fram 1992. Falun gong sækir margt til qigong, sem hefur verið stundað í mörg þúsund ár í Kína og Li Hongzhi, sem er talinn faðir Falun gong, hefur tileinkað sér ýmislegt úr qigong, eins og svo margir aðrir á undan honum.
Qigong er hugmyndafræðilega hlutlaust og hefur hvorki verið bannað í Kína né annars staðar.