28.6.2002

Keppt við Brussel-valdið – leikreglum breytt – samfellan í menntakerfinu.

Viðbrögð sendiherra Evrópusambandsins (ESB) gagnvart Íslandi við ummælum Davíðs Oddssonar forsætisráðherra um lýðræðishallann svonefnda innan ESB í Morgunblaðsviðtali sl. sunnudag, koma þeim ekki á óvart, sem fylgst hafa með talsmönnum ESB á alþjóðafundum. Þeir láta oft eins og þeir séu langt yfir fulltrúa einstakra aðildarríkja hafnir, þeirra sé í raun að eiga síðasta orðið, þótt um sé að ræða pólitísk málefni, sem snerta hagsmuni einstakra ESB-landanna. Slíkir hagsmunir verði að víkja fyrir ESB-hagsmunum og það séu einmitt embættismenn ESB, sem einir viti, hvernig túlka eigi ESB-lög og reglur og þar með segja fulltrúum einstakra ríkja, hvernig skuli sitja og standa.

Þessum embættismönnum er að sjálfsögðu mikið í mun að halda því stíft fram, að þeir hafi ekki aðeins túlkunarvaldið heldur einnig einhvers konar yfirþjóðlegt, lýðræðislegt umboð til að líta á pólitíska hagsmuni einstakra ríkja sem horn í síðu ESB-heildarinnar. Þess vegna bregðast embættismennirnir við með sama hætti og sendiherra ESB á Íslandi gerði, þeir hika ekki við að setja ofan í við kjörna fulltrúa þjóða, af því að þeir komast upp með það, einmitt vegna skorts á lýðræðislegu aðhaldi og viðhorfsins í skjóli þess gagnvart hinu upphafna embættismannavaldi í Brussel.

Fréttir hljóðvarps ríkisins af því hvað útlendingar á EFTA-fundi á Egilsstöðum höfðu um skoðun Davíðs Oddssonar að segja kunna að vekja þá trú hjá einhverjum, að Davíð hafi verið að benda á eitthvað, sem aldrei hafi verið rætt af neinum ábyrgum stjórnmálamanni áður. Því fer víðs fjarri, þeim fjölgar sem betur fer jafnt og þétt stjórnmálamönnunum í Evrópu, sem halda svipuðum skoðunum fram, ekki síst vegna þess að þeim líka ekki viðbrögð eins og þau, sem sendiherra ESB á Íslandi sýndi.

Ég hitti sem menntamálaráðherra forvera þess ESB-sendiherra, sem nú situr, en þann núverandi hef ég aldrei hitt. Forverinn brást við af hinu dæmigerða yfirlæti ESB-embættismanna, þegar ég var honum ekki sammála um umræðuefni okkar, og gaf með öllu látbragði sínu til kynna, að hann mundi ná sínu fram, hvað svo sem ég segði. Þessi afstaða, að fyrr eða síðar verði menn að sætta sig við sjónarmið ESB, endurspeglast best í þeirri staðreynd, að Brussel-valdið tekur ekki til langframa mark á því, ef kjósendur í einhverju ESB-landi segja nei við einhverri ESB-samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Knúið er á um að atkvæðagreiðslan sé endurtekin, þar til tekist hefur að fá já – þetta mega Írar reyna núna, eftir að þeir höfnuðu Nice-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þrýst á nýja atkvæðagreiðslu og allt ESB-valdið leggst á þá sveif að fá langþráð já, til að fá meira umboð en áður til að fara sínu fram.

Leikreglum breytt.

R-listinn leggur áherslu á opna stjórnarhætti og segist nú starfa undir kjörorðinu Greiðar götur til að auðvelda almenningi að hafa samband við stjórnendur Reykjavíkurborgar. Liður í því að auðvelda hinum almenna borgara að fylgjast með því, sem gerist innan borgarkerfisins er að sjálfsögðu að starfa fyrir opnum tjöldum og virða almennar leikreglur.

Að minnsta kosti síðan 1976 hefur sú regla verið við lýði í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, að formaður stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar sé annað hvort borgarfulltrúi eða varaborgarfulltrúi. Hinn 20. júní bar svo við, að R-listinn bauð fram mann til formennsku í stjórninni, sem uppfyllti ekki þessi skilyrði og var því ekki kjörgengur.

Á næsta borgarráðsfundi eftir þetta formannskjör lagði R-listinn fram tillögu um að breyta samþykktum um innkaupastofnunina á þann veg, að fallið var frá almennum skilyrðum um kjörgengi – þegar að var gáð, var tillagan flutt til að bjarga sér frá hinum ólögmæta verknaði 20. júní, en það leiðir til ógildingar kjörs, ef ókjörgengur maður er í framboði.

Á borgarráðsfundinum krafðist ég þess, að fyrst yrði viðurkennt að um ógilt formannskjör hefði verið að ræða og síðan þyrfti að bregðast við þeirri niðurstöðu. Jafnframt óskaði ég eftir greinargerð um kosninguna í borgarstjórn til að fá mætti úr því skorið, hvort staðið hefði verið að öðrum kosningum með lögmætum hætti. Þá taldi ég einsýnt, að taka yrði málið fyrir á öðrum fundi, þegar meiri gögn lægju fyrir.

Málinu var frestað og síðan boðað til aukafundar í borgarráði föstudaginn 28. maí. Þar var fyrst samþykkt samhljóða tillaga um að kosningin skyldi ógild. Síðan samþykkti R-listinn að breyta leikreglunum og sérsníða þær að frambjóðanda sínum og síðan endurkaus R-listinn hinn ókjörgenga mann, sem nú var orðinn kjörgengur með þessum óvenjulega hætti.

Fátt er í raun í meiri andstöðu við opna stjórnarhætti, þar sem byggt er á almennum leikreglum en þessi framganga öll hjá R-listanum. Ég þekki ekkert fordæmi um duttlungarfulla stjórnarhætti af þessum toga en slík geðþóttastjórn er í hróplegri andstöðu við allt, sem er sagt, að falli undir kjörorðið: Greiðar götur. Ef æðstu stjórnendur fara sínu fram með þessum hætti um málefni, sem þá sjálfa varða, er þeim ekki annt um að halda almennar leikreglur í heiðri, en þær eru helsta vörn borgaranna gegn valdhroka stjórnenda sinna.

Það dregur ekki úr alvöru þessa verknaðar R-listans, að stjórnendur Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar gegna því meginhlutverki að fjalla um mál á hlutlægan hátt, samkvæmt skýrum almennum leikreglum. Á síðasta ári var gagnrýnt, hvernig staðið var að því að ráða forstjóra stofnunarinnar og talið, að einum umsækjanda hefði verið hyglað á kostnað annarra. Nú hefur meirihluti borgarráðs ákveðið að breyta samþykktum Innkaupastofnunar Reykjavíkur til að sérsníða þær að frambjóðanda sínum til formennsku í stjórn stofnunarinnar. Með þessu er horfið frá almennum reglum um kjörgengi til formennsku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum borgarinnar, án þess að um málefnaleg rök sé að ræða. Með þessu skapast trúnaðarbrestur gagnvart stofnun, þar sem brýnt er að hafa hlutlægar reglur í hávegum og hverfa ekki frá þeim til að draga taum eins á kostnað annars.

Samfellan í menntakerfinu.

Það kom mér á óvart, að Páll Skúlason háskólarektor skyldi í ræðu á háskólahátíð telja þann ágalla helstan á íslenska menntakerfinu, að ekki væri nægileg samfella milli skólastiga. Hefur þó meira átak verið gert til að skapa slíka samfellu á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Komu hundruð kennara og sérfræðinga að þessu verki við gerð námskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í þeim hópi voru meðal annarra margir starfsmenn Háskóla Íslands.

Breytingar á skólakerfi eru í eðli sínu hægfara, mestu skiptir að þeim sé skipaður skýr farvegur og hefur það verið gert með námskránum á grundvelli nýrrar skólastefnu, sem er að baki þeim. Hafa skólastjórnendur og kenrarar á öllum skólastigum lagt sig fram um að ná nýjum markmiðum á sem skemmstum tíma.

Gagnvart háskólastiginu er mikilvægt að hrinda áformum um samræmd próf í framhaldsskólum í framkvæmd eins og mælt er fyrir um í lögum. Hitt er þó ekki síst brýnt til að skapa samfellu milli allra skólastiga, að háskólar og háskóladeildir sendi sem skýrust skilaboð um kröfur sínar til framhaldsskólanema, svo að þeir geti áttað sig sem best á því, sem er í boði og hvað þurfi til að njóta þess og njóta sín sem best í háskólanámi. Þar hvílir þung skylda á Háskóla Íslands vegna þess að námsbrautir eru flestar innan hans og þangað fara flestir nemendur.