16.6.2002

Forsetaheimsókn að ljúka – borgarstjórn – keppni skóla.

Við öndum léttar, þegar ljóst er, að Jiang Zemin, forseti Kína, og hið mikla föruneyti hans hefur komist heilu og höldnu frá landi okkar. Sérkennilegast þótti, að hann söng O sole mio við undirleik Atla Heimis Sveinssonar í veislu forseta Íslands í Perlunni föstudagskvöldið 14. júní. Er þó ekki einsdæmi, að forsetinn taki lagið með stórmenni á góðri stundu.Þá vakti athygli, að forsetanum var ekið niður Almannagjá, en heimild til slíks heyrir til undantekninga. Skýringin er sú, að Jiang er aldraður, fótfúinn og óvanur að ganga mikið, en í máli forseta Íslands kom fram, að hann taldi það mundu hafa lýðræðisleg áhrif á kínverskan starfsbróður sinn að leiða hann á Lögberg.Um leið og Jiang er kvaddur er ástæða til að fagna því, að landamærin hafa verið opnuð að nýju fyrir Falun Gong fólki eins og öðrum. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að sýna Falun Gong iðkendum stuðning sem staðgenglum allra þolenda mannréttindabrota í Kína.Ástæðulaust er að gleyma því, að Jiang er fulltrúi stjórnar og stjórnmálaafls, sem hefur svipt að minnsta kosti 50 milljónir manna lífi. Maó, forveri Jiangs, hefur þann óskemmtilega sess í heimsmetabók Guinness, að vera talinn mesti fjöldamorðingi mannkynssögunnar.Netið er vettvangur, sem ýmsir nota til mótmæla. Hefur alþingismönnum til dæmis borist fjöldi bréfa frá fólki, sem segir sér mjög miðsboðið vegna þess að Falun Gong iðkendur hafa verið sviptir ferðafrelsi til Íslands og innan lands. Sumir senda staðlaðan og vel orðaðan texta, aðrir segja eitthvað frá eigin brjósti og eru ekki að vanda neinum kveðjurnar – því miður er orðfærið of oft þannig að ekki er með nokkrum hætti unnt að taka andmælin alvarlega.Það hefur verið lærdómsrík en óskemmtileg reynsla fyrir okkur Íslendinga að dragast inn í þessi átök Falun Gong og kínverskra stjórnvalda, sem hófust formlega fyrir þremur árum og hafa síðan teygt sig um víða veröld.Alþjóðavæðingin tekur á sig ýmsar myndir og sterkir straumar virða ekki nein landamæri sama hvers eðlis þeir eru. Vilji þjóðir eða stjórnvöld bregðast við þessum straumum þýðir ekki að skella í lás og loka sig frá umheiminum – það sem skiptir mestu er að efla eigin styrk, svo að hann standist áraun hinna alþjóðlegu strauma.Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við Falun Gong taka mið af því, að mikill fjöldi þessa fólks hér á landi kunni að skapa óviðráðanleg öryggisvandamál og auðveldast sé að bregðast við vandanum með því að halda erlendum mótmælendum í öðrum löndum. Hin leiðin er að huga að innri öryggismálum með nýjum hætti í samræmi við breyttar aðstæður.Hef ég áður vakið máls á nauðsyn þess og ætla ekki að rekja sjónarmið mín um það efni að þessu sinni en bendi til dæmis á grein, sem ég skrifaði í Morgunblaðið í tilefni af 50 ára afmæli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna í maí 2001.BorgarstjórnNú er starfið hafið á nýjum vettvangi, því að fyrsti fundur nýkjörinnar borgarstjórnar var haldinn fimmtudaginn 13. júni og þar voru kjörnir embættismenn borgarstjórnar og í borgarráð, en fyrsta fund minn í því sat ég föstudaginn 14. júní. Á fyrsta fundi nýkjörins borgarráðs var samþykkt tillaga frá borgarstjóra um að F-listi Ólafs F. Magnússonar, sem er áheyrnarfulltrúi í borgarráði, skyldi einnig fá áheyrnarfulltrúa í tveimur nefndum á vegum borgarstjórnar. Er þetta nýmæli, en við val á mönnum í nefndir fær Ólafur F. engan mann kjörinn heldur skiptast sæti á milli R og D-lista. Við sjálfstæðismenn í borgarráði féllumst á þessa tillögu, þótt ekki sé heimild fyrir henni í samþykktum um stjórn borgarinnar og fundarsköp eða í sveitarstjórnalögum.Síðdegis á miðvikudögum hittist borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna og ræður ráðum sínum. Við höfum ákveðið að kalla þá, sem skipa 19 efstu sætin á listanum á þessa fundi og mun hópurinn bera hita og þunga af nefndarstörfum innan borgarkerfisins á vegum Sjálfstæðisflokksins næstu fjögur ár. Af hálfu frambjóðenda hvíldi kosningastarfið á þessum hópi og er ég viss um að hann mun láta vel og málefnalega að sér kveða með hagsmuni allra Reykvíkinga að leiðarljósi.Meðal nýmæla, sem nú koma til framkvæmda við stjórn Reykjavíkur, eru hverfisráðin svonefndu, en borginni hefur verið skipt í átta hverfi og skal þriggja manna ráð kjörið af borgarstjórn fara með málefni hvers hverfis, en ráðin eiga að stuðla að eflingu hvers konar hverfisbundins samstarfs, móta stefnu og gera tillögu til borgarráðs sem varða verksvið þeirra. Við sjálfstæðismenn höfum lýst þeirri skoðun, að verksvið þessara ráða sé svo óljóst, að til lítils sé að kjósa í þau. Lögðum við til í kosningastefnu okkar, að borginni yrði skipt í skólahverfi og til sögunnar kæmu skólaráð, sem sameinuðu yfirstjórn grunnskóla og leikskóla og hefðu skýrt lögbundið hlutverk. Í kringum þessi skólaráð ætti síðan að þróa frekara samstarf innan einstakra hverfa.Keppni skóla.Ánægjulegt er að sjá, hvernig framhaldsskólastigið er að þróast, eftir að sú stefna mín náði fram að ganga, að landið allt yrði eitt framhaldsskólasvæði og horfið yrði frá hverfaskiptingunni. Nú keppa skólar um nemendur með kynningarstarfi og auglýsingum. Verður þetta til þess að efla innra starf skólanna, því að þeir verða að standa undir því, sem þeir kynna nemendum í auglýsingum sínum. Þá er það einnig að skila sér í aukinni fjölbreytni, að fleiri framhaldsskólar bjóða nú fjarnám en áður.Keppni milli háskóla setur einnig vaxandi svip á það skólastig. Nú síðast hefur verið kynnt, að kennsla í lögfræði muni hefjast að ári í Háskólanum á Akureyri, en nú i haust verður unnt að stunda laganám í þremur háskólum, þegar Háskólinn í Reykjavík býður námið í fyrsta sinn, en áður var unnt að stunda nám í lögfræði við Háskóla Íslands og Viðskiptaháskólann á Bifröst. Þessi þróun er ekki aðeins til þess fallin að auka fjöbreytni fyrir nemendur heldur kallar hún einnig á fleiri kennara og auknar kröfur til þeirra og þar með einnig betra starfsumhverfi.