3.6.2002

Ný vegferð - félag qi gong iðkenda - nýjar áherslur á vefsíðu.

Nú er rúm vika liðin frá borgarstjórnarkosningunum. Vil ég þakka þeim lesendum síðu minnar, sem hafa sent mér tölvubréf undanfarna daga og öllum, sem á undanförnum vikum og mánuðum hafa notað þessa samskiptaleið til að láta í ljós álit sitt á ýmsu, sem tengist kosningunum. Mér er og ljúft að þakka hinum fjölmörgu, sem lögðu á sig ómælda vinnu vegna kosninganna og studdu mig í orði og á borði. Er ég sáttur við það, hvernig hinn samhenti frambjóðendahópur stóð að því að kynna góðan málstað okkar og stefnu. Þegar tekist er á í stjórnmálum er það hlutskipti einhverra að vinna og annarra að tapa.



Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur farið mest flokksformanna í fjölmiðlum til að lýsa yfir sigri í kosningunum. Eignar hann sér meðal annars sigur R-listans í Reykjavík, sem staðfestir þá skoðun, að samfylkingarmenn líta á framsóknarmenn og vinstri/græna í Reykjavík sem áhrifalausa hirðmenn í kringum borgarstjóra Samfylkingarinnar. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, sakar Össur um „ósvífni“ í túlkun hans á úrslitunum en ég hef ekki séð eða heyrt neinar athugsaemdir frá framsóknarmönnum.



Þegar úrslitin lágu fyrir, sendi einn lesandi síðu minnar mér þessa tilvitnun í Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta. Ég geri undantekningu og birti hana á ensku:



„It is not the critic who counts: not the man who points out how the strong man stumbles or where the doer of deeds could have done better. The credit belongs to the man who is actually in the arena, whose face is marred by dust and sweat and blood, who strives valiantly, who errs and comes up short again and again, because there is no effort without error or shortcoming, but who knows the great enthusiasms, the great devotions, who spends himself for a worthy cause; who, at the best, knows, in the end, the triumph of high achievement, and who, at the worst, if he fails, at least he fails while daring greatly, so that his place shall never be with those cold and timid souls who knew neither victory nor defeat.“



Við útlistanir á kosningaúrslitunum hefur ýmislegt komið mér á óvart, eins og að í einhverju blaðanna var til umræðu, hvort ég hefði litað á mér hárið eða ekki, sem ég hef ekki gert. Eða hitt að fjölmiðlaspekingar leggja þannig út af síðasta pistli mínum, að ég telji Egil Helgason einhvern örlagavald í kosningabaráttunni með frammígripum sínum. Er vissulega óútreiknalegt, hverju menn henda á loft af því, sem sagt er hér á þessum stað, en þeir, sem lásu síðasta pistil minn sjá auðvitað, að um Egil var ég að vitna í tölvubréf, sem ég fékk, og nefndi síðan, að ég hefði fylgst með því, hvernig Egill tók orðið að Guðlaugi Þór Þórðarsyni í þætti að kosningum loknum - varla hefur hann ráðið miklu um úrslitin?!



Þegar ég var að gera upp hug minn um framboð til borgarstjórnar, sagði ég í einum pistla minna, að ekki væri unnt að komast að því, hvort eitthvað væri áhættunar virði nema með því að taka áhættuna. Úrslit kosninganna liggja fyrir en ný vegferð er að hefjast fyrir okkur, sem setjumst í borgarstjórn. Við sjálfstæðismenn lögðum fram skýra stefnu í kosningabaráttunni og henni munum við halda fram á vettvangi borgarstjórnar og við munum einnig leggja okkur fram um að starfa í þeim jákvæða anda, sem einkenndi kosningarbaráttu okkar.



Félag qi gong iðkenda.



Að morgni laugardagsins 1. júní hittumst við rúmlega 40 iðkendur qi gong undir forystu Gunnars Eyjólfssonar leikara í Skautahöllinni í Laugardal - æfðum í tæpa klukkustund en fórum síðan í Café Flóra í Grasagarðinum og stofnuðum félagði AFLINN til að sinna okkar málum og annarra, sem hafa hug á að stunda qi gong hér á landi. Settum við félaginu lög og kusum stjórn og hlaut ég einróma traust til formennsku, en við Gunnar höfum stundað þessar æfingar saman síðan 1988 og hin síðari ár nokkrum sinnum í viku.



Er ánægjulegt að fylgjast með því, að þeim fjölgar ár frá ári, sem telja sig hafa gagn af þessum æfingum. Með félagsheitinu AFLINN er vísað til eldstóarinnar og þess að járnsmiður gætir þess, að neistinn í aflinum slokkni aldrei.



Á kínverslu er qi gong lýst með tveimur táknum, sem minna á hlóðir og gufu úr potti yfir þeim. Lýsir þetta því markmiði qi gong, að iðkendur nái að magna með sér orku sem veiti öllum líffærum og andanum aukinn þrótt.



Lífsorkuæfingar af þessu tagi eru öllum ómetanlegar og þá er ekki lítils virði að hafa leiðbeinanda eins og Gunnar Eyjólfsson.



Nýjar áherslur á vefsíðu.



Nú þegar tóm gefst frá önnum, sem fylgdu ráðherrastarfi, er tækifæri til að sinna ýmsu, sem setið hefur á hakanum og lýtur ekki að stjórnmálastarfi. Efni pistla minna mun að sjálfsögðu taka mið af nýjum viðfangsefnum og einnig dagbókarfærslur á vefsíðu minni, en þar hef ég aðeins látið þess getið, sem snertir opinberar skyldur og hef ekki hug á að breyta því, en þær eru að sjálfsögðu færri en áður.



Margir þeirra, sem eru á póstlista mínum, skráðu sig væntanlega þar til fylgjast með skrifum um mennta- og menningarmál. Þessir málaflokkar verða ekki eins rúmfrekir og undanfarin ár. Það er jafnauðvelt að skrá sig af póstlistanum og á hann og er það gert á vefsíðu minni.



Ég tók eftir því, að Ágúst Einarsson, prófessor, fyrrverandi þingmaður og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að loka vefsíðu sinni, en hann er meðal tiltölulega fárra íslenskra stjórnmálamanna, sem hafa nýtt sér þessa samskiptaleið við kjósendur með markvissum hætti um nokkurra ára skeið. Gildi þess að nota vefinn með þessum hætti felst í því að sem flestar skoðanir sjáist þar.



Hér á landi er haldið úti spjallrásum um stjórnmál á Netinu, þar sem menn skrifa nafnlausar athugasemdir um menn og málefni og leggjast lægra í skjóli nafnleyndar en þeir mundu ella gera. Spurning er, hvort stefna megi ábyrgðarmönnum síðu, þar sem slíkt spjall með nafnleynd fer fram, fyrir ómakleg orð sem falla. Á slíkt hefur ekki reynt fyrir íslenskum dómstólum.



Þá er haldið úti síðum til að kynna ákveðin sjónarmið í stjórnmálaumræðum og eru þær flestar skrifaðar undir nafni en auðvelt er kynnast því á öðrum, hverjir eru ábyrgir fyrir skrifunum. Stefán Hrafn Hagalín var meðal þeirra, sem stóðu að því að stofna eina af þessum síðum, Kreml.is, og endurspeglar hún sjónarmið jafnaðarmanna. Hefur Stefán Hrafn verið besti höfundurinn á þessari síðu, svo að hún mun setja niður við brotthvarf hans úr Kremlarhópnum.



Þegar þeir Ágúst Einarsson og Stefán Hrafn hætta að láta ljós sín skína á Netinu, fækkar þar röddum, sem oft vöktu verðskuldaða athygli.



Sagt er, að síðan 1993 hafi vefsíðum fjölgað úr 50 síðum í 350 milljón síður árið 2001. Þetta er ótrúlega hröð þróun á átta árum en ég hef verið virkur þátttakandi í henni síðan í ársbyrjun 1995. Á vefnum er mjög fjölbreytt efni og margt, sem manni ofbýður. Veraldarvefurinn endurspeglar hið besta og versta, sem maðurinn gerir.



Ég hef engin áform um að hætta að nota Netið til að viðra skoðanir mínar og rækta tengsl við sem flesta, en eins og ég sagði munu áherslur breytast í samræmi við ný viðfangsefni. Kjósi lesendur að setja fram óskir um efni, fagna ég að sjálfsögðu öllum slíkum ábendingum. Áfram stefni ég að vikulegum pistlum.