Lokavikan hefst
Nú er lokavika kosningabaráttunnar að hefjast. Þetta hefur verið mikill annatími, síðan ég lét af ráðherrastörfum og hver dagurinn tekið við af öðrum með nýjum tækifærum til að hitta nýtt fólk og ræða við það um framtíð Reykjavíkur. Fyrir mig hefur þetta verið mjög gefandi tími og spennandi. Skoðanakannanir hafa gjarnan verið mælistikan á árangur hverju sinni og þar hefur gengið ekki alltaf verið gott. Er sérstakt rannsóknaefni fyrir áhugamenn um stjórnmál að kynna sér, hve skjótar niðurstöður ýmsir fjölmiðlamenn hafa dregið af þessum könnunum og hve þunga dóma þeir hafa fellt um menn og málefni í krafti þeirra.
Sveiflan til okkar sjálftæðismanna hefur orðið skýr og afgerandi síðustu daga. Þegar ég skrifa þetta er ég nýkominn úr viðtali í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins, þar sem fjallað var um það, að nú væri um 3% munur á milli R- og D-lista samkvæmt Gallup-könnun – R 48% en D 45% en síðasta könnun Gallup fyrir tveimur vikum eða svo sýndi 17% mun, R 56% og D 39%. Sú spurning hlýtur að vakna, hvort fyrri mælingin hafi verið rétt eða hvort sveiflan hafi í raun orðið svona mikil – ég dreg ekki í efa, að munurinn á milli R og D er nú innan tölfræðilegra skekkjumarka, því að nú sýna DV, Félagsvísindastofnun og Gallup auk Talnakönnunar, að listarnir eru á sama róli, R-listinn með aðeins meira fylgi en D-listi.
Í mínum huga er efalaust, að það er hin jákvæða kosningabarátta hins samhenta og baráttuglaða lista okkar sjálfstæðismanna, sem er að skila árangri. Við höfum lagt okkur öll fram og notið góðrar aðstoðar frábærs samstarfsfólks í öllum hverfum borgarinnar og meðal allra þeirra, sem koma að því að skipuleggja baráttu eins og þessa. Við höfum einnig sett fram skýra stefnu og hún hefur verið kynnt rækilega meðal annars sem samningur við borgarbúa.
Mig undrar hve lágt andstæðingar okkar leggjast til að koma höggi á okkur. Sérstaklega finnst mér ósannindin bera vott um slæman málstað og tilraunir til að fegra málstað sinn á fölskum forsendum. R-listinn er annars vegar í mikilli vörn gagnvart því, sem við höfum fram að færa, og hins vegar byggir hann málstað sinn á veikum eða röngum forsendum, eins og þegar hann gerir heilbrigðisráðherra Jóni Kristjánssyni þann óleik að gera hann ómerkan gagvart samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn. Ég veit það, sem fyrrverandi ráðherra, að menn úr þeim hópi setjast ekki niður með pennan á lofti og skuldbinda ríkið með viljayfirlýsingu eða samningi nema hafa að minnsta kosti rætt það í ríkisstjórn og fengið vitneskju þar um, að gjörningurinn mæti ekki andstöðu. Hvað sem líður einlægum vilja Jóns, lét hann Ingibjörgu Sólrúnu og Helga Hjörvar leiða sig í óvenjulegar ógöngur með fyrirheiti um skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs til fjárfestinga í hjúkrunarheimilum fyrir aldraða, sem eru langt umfram skyldu og heimildir Framkvæmdasjóðs aldraðra – síðan bjó R-listinn til enn eina röngu kosningaauglýsinguna á þessum grundvelli – og svo ræðst Ingibjörg Sólrún á Geir Haarde fjármálaráðherra, þegar Jón Kristjánsson og hún sjálf hafa hlaupið á sig í taugaveiklaðri viðleitni til að auka vinsældir R-listans!
Við sjálfstæðismenn höfum rekið kosningabaráttu okkar með það að markmiði að komast sem næst sem flestum kjósendum okkar í Reykjavík. Hefur það gengið eftir og höfum við frambjóðendur farið víða og hitt marga. Þá hef ég enn notið þess að vera í tölvusambandi við hundruð manna og leitast við að svara öllum.
Við munum halda þessu starfi ótrauð áfram til síðasta dags. Ég vil hvetja alla, sem lesa síðuna mína til að leggja okkur lið á lokadögum kosningabaráttunnar.