12.5.2002

Ábendingar um vatnsskatt og Geldinganes.

Vegna kosninganna fæ ég mikið af tölvubréfum, þar sem kjósendur eru að vekja athygli mína á því, sem þeim finnst einkennilegt við stjórn borgarinnar. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað því öllu sjálfur og því síður hef ég skýringar á mörgum einkennilegum ákvörðunum R-listans. Ég fékk meðal annars þetta bréf frá manni, sem bjó í nokkur ár í Bandaríkjunum:

„Ég á íbúð í Hlíðunum sem ég þurfti að greiða af rúmar 16 þús kr.
í vatnsskatt samkvæmt fasteignagjöldum. Mér finnst þessi tala lýgilega há miðað við reynslu mína af langri dvöl minni í USA. Ég … borgaði þar notkun mína samkvæmt lítra mæli um 12 til 14 þús kr. á ári.

Mér leikur forvitni á að vita hver skýringin á þessu er. Er borgin að taka af mér auka skatt sem notast í aðra hluti en viðkemur vatni, eða er vatnsveitan svona hrikalega dýr í rekstri. Ég vil benda á að íslensk vatnsveita þarf ekki að standa í stórkostlegum kostnaði við að koma sér upp dýrum brunnum og stöðuvötnum, né fokdýrum og miklum hreinsistöðvum. Í … flestum fylkjum Bandaríkjanna, þá er vatn jú mikið hreinsað, flúor og klórbætt, sem allt kostar mikinn pening.

Að borga meira fyrir kalda vatnið í Reykjavík heldur en … jafnvel í New York, hljómar einfaldlega út í hött.“

Ég viðurkenndi fyrir bréfritara, að ég ætti ekki skýringu á þessu. Hins vegar veit ég, að á undanförnum árum hafa verið teknar 17 þúsund milljónir króna frá Orkuveitu Reykjavíkur og þær verið fluttar til borgarsjóðs til að fegra stöðu hans. Ég veit einnig, að undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar hefur eigið fé Orkuveitunnar lækkað úr 44 milljörðum króna í 34 milljarða. Mér er líka ljóst, að Orkuveitan hefur staðið undir stöðugum taprekstri Línu.nets. Skuldir Orkuveitunnar hafa vaxið úr 125 milljónum króna í rúma 20 milljarði síðustu átta ár, þrátt fyrir þennan háa vatnsskatt. Nú er verið að reisa skrifstofuhús yfir Orkuveituna, sem kostar á fjórða milljarð króna. Það eru bara við, sem kaupum vatn og rafmagn af Orkuveitunni kostnaðinn við öll lánin, Línu.net og skrifstofuhöllinni. Ég efast um, að staðið sé að rekstri vatnsveitna eða öðrum orkufyrirtækjum í Bandaríkjunum með þeim hætti, sem verið hefur undanfarin ár undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar.

Þá fæ ég einnig ábendingar um ýmsar vefsíður, þar sem verið er að fjalla um málefni Reykjavíkur. Ég setti hér inn eina slíka varðandi vefsíðu, sem sýndir myndír úr Skuggahverfinu en ákvað að taka þessa tilvísun út vegna tilmæla lesenda síðu minnar, sem þóttu myndirnar óviðurkvæmilegar og ganga of nærri einstaklingum og eignum þeirra. Bið ég þá velvirðingar, sem var misboðið vegna þessa.


Vegna umræðna um Geldinganesið hafa æ fleiri lagt leið sína þangað til að kynna sér jarðraskið mikla, sem ætlunin er að haldi áfram nái R-listinn að halda meirihluta sínum. Nú hafa 250 þúsund rúmmetrar verið fluttir á brott af nesinu og ætlunin er að taka þaðan milljón rúmmetra og skilja eftir mikið svöðusár, sem aldrei grær. Er það til marks um forherðingu R-listans í þessu máli, að í dag fór hann í sunnudagsgöngu frá gamalli grjótnámu í Skólavörðuholti út á landfyllingar við Ánanaust til að staðfesta þann eindregna vilja sinn að flytja suðurhlíðar Geldinganessins þangað. Er talið að þetta tvöfalda umhverfisslys muni kosta okkur borgarbúa 3 til 4 milljarði króna. Þeir sem fara í Geldinganesið eru dolfallnir yfir því skemmdarverki, sem þar hefur verið unnið á náttúrunni. Vil ég hvetja sem flesta til að leggja þangað leið sína og kynnast atlögunni af eigin raun. Að afsaka þessa eyðileggingu með því, að áður hafi verið til grjótnámur í Reykjavík er móðgun við heilbrigða skynsemi Reykvíkinga eins og hin röksemd R-listans, að úr því að það séu landfyllingar við Reykjavík sé í góðu lagi að eyðileggja ströndina við Ánanaust og Eiðisgranda!

Vegna umræðna um flutning Geldinganessins fékk ég þessa ábendingu í tölvubréfi:

„Annars var ég að velta fyrir mér varðandi flutninginn á öllu þessu grjóti í Vesturbæinn þá eru 1.000.000, rúmmetrar um 100 þúsund ferðir ef hver bíll tekur 10 rúmmetra. Ég held að það taki um 2 tíma hver ferð með því að ferma, keyra og afferma, ef það er rétt, þá er það kostnaður upp á 1 milljarð bara bílarnir miðað við að kostnaður er 5000 kr/tímann fyrir stóran trailer og bílstjóra. Mér skilst án þess að vera vitni að því sjálfur að núverandi borgastjóri hafi slegið fram kostnaði upp á 3-400 milljónir.“

Ég læt þessar ábendingar nægja í pistli mínum í dag tæpum tveimur vikum fyrir kjördag. Þær eru til marks um, hve víða er komið við í umræðunum um málefni Reykjavíkur og hve margt er athugavert. Hvort heldur litið er til stórra eða smárra mála, allt ber að sama brunni, það er nauðsynlegt að gera betur og það verður ekki gert nema með því einfalda ráði, að gefa R-listanum frí.