R-listi í vörn - gagnrýni á þáttastjórn - grunnur einsetningarinnar.
Á einum fundanna, sem ég sótti í vikunni, hafði viðmælandi minn á orði, að sér þætti merkilegt við kosningabaráttuna, að R-listinn gerði ekki annað en bregðast við frumkvæði okkar sjálfstæðismanna. R-listinn kæmi með stefnu sína langt á eftir okkur og hefði greinilega reynt að laga hana að þeirri fyrirmynd, sem við gáfum. R-listinn hefði ekkert frumkvæði í auglýsingum heldur væri þar einnig aðeins að bregðast við því, sem fram hefði komið í auglýsingum okkar sjálfstæðismanna.
Þegar maður er á miðju dansgólfinu, gleymist oft að fara upp á svalirnar og líta yfir gólfið allt til að átta sig á stöðunni. Hættan er, að maður sökkvi sér svo niður í dansinn, að heildarmyndin brenglist. Var ég minntur á þetta í þessu samtali um baráttuaðferðir R-listans og frumkvæðisskort hans í kosningabaráttunni. R-listinn lítur í raun meira aftur en fram í málflutningi sínum – hann dreifir súluriti um átta ára verkefni Reykjavíkurborgar, þakkar sér þau öll. R-listinn vill hins vegar ekki horfa fram á veginn og þegar kemur að umræðum um þann þátt beinist athyglin öll að því, hvað kosningaloforð okkar sjálfstæðismanna kosta!
Hvað skyldi kosta að framkvæma kosningaloforð R-listans? Hvernig skyldu þeir fjármálasnillingar, sem þar sitja, fara að því að reikna út kostnaðinn við eigin stefnu? Eitt af því, sem R-listinn hreykir sér af, er, að undir hans stjórn sé áætlanagerð í fjármálum með miklum ágætum. – Gott dæmi um þá snilli birtist síðastliðinn fimmtudag, þegar ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001 var birtur. Þar kom fram, að á árinu jukust hreinar skuldir borgarinnar um 9,5 milljarða umfram áætlun, henni skeikaði um 40%, hvorki meira né minna.
Þegar ég lít á þetta úr fjarlægð, undrast ég, hvers vegna fjölmiðlamenn tala um það, að þessi fjármálaumræða sé svo flókin, að ekki sé við því að búast, að kjósendur skilji hana. Hvað er svona flókið við þessa skuldasöfnun Reykjavíkurborgar? Hún blasir við öllum. Það blasir nú einnig við öllum, að R-listinn hefur engin tök á fjármálunum og hrekst úr eini vígi í annað.
Auglýsing R-listans um eignaaukningu borgarinnar vekur undrun og hneykslan, eins og sést til dæmis á lesendabréfi í Morgunblaðinu í dag, en þar segir Marselíus Guðmundsson meðal annars: „Þessi auglýsing skaut langt yfir markið og svarar á engan hátt árásum sjálfstæðismanna, því að fullyrðing auglýsingarinnar er svo ótrúleg.“ Og hann spyr: „Ef fjármálastjórnunin væri í þetta góðum farvegi, því var almenningi þá ekki gefin[n] kostur á að kaupa skuldabréf í stað þess að taka lán í bönkum og sjóðum?“
Gagnrýni á þáttastjórn.
Annað atriði í umræðum undanfarna daga, sem hefur minnt mig á að gleyma mér ekki á dansgólfinu, snýr að umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi. Ég hef heyrt fleiri en einn halda því fram, að þessir þættir séu um of því marki brenndir, að stjórnendur þeirra líti á sig sem einskonar bergmál af frambjóðendum, endurtaki róttækustu fullyrðingar andstæðinga og skelli þeim á frambjóðendur eins og um staðreyndir sé að ræða.
Þetta er þörf ábending. Hún snertir það til dæmis, þegar umræðustjórar grípa á lofti þann uppspuna R-listans, að kosningastefnuskrá okkar sjálfstæðismanna kosti 10 til 25 milljarða og krefjast þess af okkur að við afsönnum þessa lygi. Hvernig væri, að þessir ágætu menn settust sjálfir yfir að meta kostnað við stefnuskrár flokkanna og legðu fram eitthvað frá eigin brjósti um þennan þátt málsins? Mundi það ekki auðvelda hlustendum þeirra og áhorfendum að átta sig á staðreyndum?
Í einum útvarpsþætti, Hrafnaþingi, Ingva Hrafns Jónssonar á útvarpi Sögu, hefur mér gefist tækifæri til að ræða kostnaðinn við samning okkar sjálfstæðismanna lið fyrir lið. Fór Ingvi Hrafn yfir samninginn í þeim tilgangi að fá fram málefnaleg svör. Annars staðar setja viðmælendurnir sig í stellingar R-listans, þegar þeir leggja fyrir spurningar sínar. Var þetta til dæmis mjög greinilegt í vikunni, þegar þau sátu þrjú í Kastljósi Hanna Birna Kristjánsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Margrét Sverrisdóttir. Gekk Kristján Kristjánsson þar fram gagnvart Hönnu Birnu eins og hann væri málsvari R-listans í stað þess að leggja spurningar fyrir með hlutlægum hætti.
Grunnur einsetningarinnar.
Ég fæ mikið af tölvupósti með margvíslegum ábendingum. Hér kemur eitt bréfanna, sem ég fékk eftir fyrrgreindan Kastljósþátt, þar sem Stefán Jón Hafstein talaði eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei haft neinn áhuga á skólamálum í Reykjavík.
„Það hefur vakið undrun mína upp á síðkastið að hlusta á lofræður R-listans um framgang skólamála í Reykjavík sl. 8 ár. Það kemur mér líka á óvart hve frambjóðendur D-lista hafa fá svör á takteinum og síðast nú fyrir nokkrum mínútum var ég að fylgjast með umræðum í kastljósi þar sem Stefán Jón átti í orðræðum við m.a. frambjóðanda D-lista og skaut föstum skotum um þetta málefni án þess að fá bágt fyrir.
Það er nefnilega ekki þannig að tilurð R-listans marki þáttaskil í einsetningu grunnskóla í Reykjavík sem og ýmis merk framfaraspor sem þar hafa sem betur fer orðið á sl. áratug.
Var það t.d.R-listinn sem kom á heilsdagsskóla fyrir unga grunnskólanemendur í Reykjavík árið 1993, verkefni sem hófst með tilraun haustið 1992 og náði feikna útbreiðslu á örskömmum tíma og naut þegar mikilla vinsælda? Ég held ekki. Það var hins vegar ásamt fleirum borgarfulltrúi R-listans sem vorið 1994 skrifaði langa grein í Mbl.þar sem
hann taldi þessu verkefni allt til foráttu.
Áætlanir um einsetningu grunnskólanna í Reykjavík lágu fyrir árið 1993/94 og svo mikið þótti til koma að R-listinn lofaði einsetningu grunnskólans í kosningabaráttunni vorið 1994 og skyldi hún koma til framkvæmda á 4-5 árum
Svipuð loforð gáfu sjálfstæðismenn einnig í sömu kosningum. Munurinn er þó sá að R-listinn komst í aðstöðu til að efna þetta kosningaloforð en gerði það ekki.
Stórátak var hafið í skólabyggingum árið 1991 og segja má að um grundvallarviðhorfsbreytingu til skólamála hafi orðið í tíð Árna Sigfússonar sem formanns fræðsluráðs og síðar borgarstjóra.
Frá árinu 1989 til ársins 1994 fækkaði síðdegisbekkjum í grunnskólum Reykjavíkur úr 189 í 135 sem vissulega var liður í einsetningu skólanna og árið1994 var einsetningin í raun markvisst hafin.
Til marks um þróunina varð mikil breyting á fjölda nemenda í grunnskólum borgarinnar til fækkunar á síðustu árum D-listans í borgarstjórn og nemendum fækkaði í hverri bekkjardeild.“
Ég hef í raun ekki öðru við þetta að bæta en þakka bréfritara fyrir þessa góðu lýsingu, sem sýnir, að R-listinn hreykir sér á falskari forsendum en ég mundi af afrekum í skólamálum. Minnumst þess, að það var ekki fyrr en með grunnskólalögunum frá árinu 1995, sem einsetning grunnskólans var ákveðin. Undir stjórn sjálfstæðismanna hafði á árinu 1993 verið mótuð áætlun um einsetningu fram til ársins 1998 og ákveðið fé til hennar. Gengur þetta þvert á orð Stefáns Jóns Hafsteins og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um málið.