25.4.2002

Samningur við Reykvíkinga – margnota R-listaloforð – línurnar skýrast enn.


Gleðilegt sumar!

Föstudaginn 19. apríl kynntum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík helstu áhersluatriði okkar í kosningunum 25. maí sem samning við Reykvíkinga. Hann var sendur sama dag inn á hvert heimili í borginni. Í stuttu máli hafa viðbrögðin verið meiri og betri en ég vænti. Strax fékk ég mikið af tölvubréfum, sem staðfestu, að fólk kunni vel að meta þetta framtak. Spurt var út í einstök atriði, sem ég hef leitast við að skýra. Sumir hafa tekið fram, að samningurinn hafi orðið til þess, að þeir gerðu tafarlaust upp hug sinn um að styðja okkur.

Um helgina gerði DV síðan skoðanakönnun, sem leiddi í ljós, að stuðningur við okkur meðal kjósenda hefur aukist um leið og fylgi R-listans minnkar. Síðan höfum við frambjóðendur að sjálfsögðu haldið áfram að fara á fundi og hitta kjósendur. Fáum við alls staðar þau viðbrögð, að fólk kunni vel að meta, hve hreint við göngum til verks og hvernig við leggjum mál fyrir án þess að draga nokkuð undan.

Okkur er engin launung á því, að það kostar 860 milljónir króna á ári að fella niður holræsaskattinn, sem nálgast 20% af fasteignagjöldum okkar. Þennan skatt ætlum við að fella niður í áföngum á kjörtímabilinu. Það kostar um 220 milljónir króna að stórlækka fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja og við heitum að leggja 250 milljónir króna á ári til að skapa hjúkrunarrými fyrir eldri borgara. Við teljum hins vegar, að þessum fjármunum sé vel varið og það eigi að forgangsraða með þessum hætti.

Það hefur verið ánægjulegt að fara með þessa stefnu fyrir kjósendur og fá tækifæri til að ræða hana. Ég hef einnig kynnt hana í fjölmiðlum, til dæmis í löngu viðtali við Ingva Hrafn Jónsson á útvarpi Sögu, þar sem hann fór í gegnum alla liði samningsins og spurði mig það, hvernig við ætluðum að standa að framkvæmd þeirra. Eftir það viðtal hef ég fengið staðfestingu á því, að margir hlusta á þessa stöð og kunna að meta, að þar gefst tækifæri til að brjóta mál til mergjar.

Allir sem fylgjast með umræðum um þennan samning okkar sjálfstæðismanna, sjá, hve fánýtar fullyrðingar R-listamanna eru um kostnað vegna hans eða að við höfum skotið okkur undan umræðum um þann þátt. Er með ólíkindum að heyra þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Dag B. Eggertsson halda því blákalt fram, að samningur okkar við borgarbúa kosti 15 til 20 eða jafnvel 25 milljarði króna. Þetta sýnir, hve léttvægur málflutningur R-listamanna. Mesta undrun vekja þó orð Stefáns J. Hafsteins, að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé varaborgarstjóraefni okkar sjálfstæðismanna. Er mér sagt, að andlit þeirra, sem voru á stefnukynningu R-listans hafi orðið eitt spurningarmerki, þegar Stefán J. lét þessi orð falla í stefnuræðu sinni.

Margnota R-listaloforð

R-listinn kynnti loks stefnu sína í dag, sumardaginn fyrsta. Þar kemur ekkert á óvart, því að stefnan byggist á margnota loforðum og komu þau mörg fram hjá R-listanum strax á árinu 1994. Ég nefni nokkur þeirra:


· R-listinn hefur tvisvar lofað að byggja 50m yfirbyggða sundlaug í Reykjavík – þetta loforð hefur ekki verið efnt á tveimur kjörtímabilum.

· R-listinn hefur haft að markmiði að stöðva bruðl og vanhugsaðar skyndiákvarðanir í fjármálum borgarinnar og hefja endurreisn borgarsjóðs. Gera átti langtímaáætlun til að greiða upp skuldir borgarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði safnað – R-listinn hefur ekki staðið við þetta. Hreinar skuldir borgarinnar hafa aukist úr tæpum 4 milljörðum í tæpar 33 milljarða á árunum 1994-2002. Árið 1994 námu skuldir veitufyrirtækja borgarinnar um 125 milljónum króna og árið 2002 nema skuldir Orkuveitu Reykjavíkur 20 milljörðum króna. Skuldir R-listans á hvern borgarbúa hafa vaxið á tímabilinu 1993-2002 úr 39 þús. á einstakling í 286 þús.kr. á einstakling.· Reykjavíkurlistinn lofaði því 1994 að tryggja öllum börnum, sem á þurfa að halda, aðgang að leikskóla.


1. Haustið 1995 hafi öll börn á leikskólaaldri, 3ja ára og eldri fengið þá vistun sem foreldrar þeirra vilja nýta sér.
2. Haustið 1996 hafi öll börn 2ja ára og eldri fengið þá vistun sem foreldrar þeirra vilja nýta sér.
3. Fyrir lok kjörtímabilsins eða 1998 hafi öll börn eins árs og eldri fengið þá vistun sem foreldrar þeirra vilja nýta sér.

0-5 ára Biðlistum eftir leikskólaplássum verði útrýmt.

Þetta loforð R-listans hefur verið svikið. Biðlistum eftir leikskólaplássum hefur ekki verið útrýmt. Þegar R-listinn komst til valda árið 1994 voru 1869 börn á biðlistum eftir leikskólaplássi. Í ársbyrjun 2002 voru þau hins vegar 2360, þrátt fyrir að börn á leikskólaaldri séu 500 færri það ár en árið 1994.· R-listinn lofaði að lækka holræsagjaldið – holræsagjaldið sem R-listinn kom á hefur hann ekki lækkað í samræmi við loforð.

· R-listinn lofaði að setja á stofn heilsugæslustöð fyrir Voga- Heima- og Sundahverfi – þetta hefur R-listinn ekki staðið við. R-listinn lofar þessu enn á ný í stefnuskrá sinni 2002.

· R-listinn lofaði að byggja tvö ný hjúkrunarheimili – þetta hefur R-listinn svikið. Í dag eru 400 manns á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum þar af 250 í brýnni þörf.

· R-listinn lofaði að ljúka hreinsun strandlengjunnar – þetta hefur R-listinn ekki staðið við. Íbúar Grafarvogs hafa orðið varir við megnan óþrifnað við strönd vogarins sem á stundum hefur gert börnum ókleift að leika sér í fjörunni við sjóinn.

Línurnar skýrast enn

Eftir að kosningastefnuskrá R-listans er komin fram skýrast línurnar í kosningabaráttunni enn frekar. Því að nú er ljóst, að D-listinn boðar breytingar í Reykjavík, sem miða að því að Reykjavík verði í fyrsta sæti, en R-listinn er að glíma við eigin fortíðarvanda með margnota loforðum sínum – við mótun stefnuskrárinnar hefur R-listanum ekki tekist að leysa innbyrðis pólitískan ágreining og kýs þess vegna að halda sig við gamla leistann.

Mánudaginn 15. apríl birtist forsíðufrétt í DV um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri sannfærð um að áhrif borgarstjórnarkosninganna yrðu mikil á „pólitískt landslag í landinu til lengri tíma litið; sigur félagshyggjuaflanna í borginni gæti orðið vísbending um það sem koma skuli í landsmálunum. „Ég held að hlutirnir ráðist mjög mikið hér í Reykjavík,” sagði Ingibjörg Sólrún. Þessi ummæli glöddu ekki formenn Framsóknarflokksins og Vinstri/grænna, sem undruðust þetta frumhlaup Ingibjargar Sólrúnar og töldu hana ganga erindum Samfylkingarinnar.

Innan R-listans hefur þetta valdið flokkspólitískri spennu við stefnumótun enda er stefnuskráin mjög útvötnuð. Þá hefur jafnframt sprottið upp keppni milli manna um titilinn varaborgarstjóri og hefur vakið athygli í því sambandi, að Dagur B. Eggertsson gerir mikið úr því, að hann sé mest með Ingibjörgu Sólrúnu, ef svo ber við, að hún fer á vinnustaðafundi. Síðan kvaddi Stefán J. Hafstein sér hljóðs um varaborgarstjóra við stefnukynninguna, greinilega í þeim tilgangi að beina athyglinni að sjálfum sér með nógu furðulegum ummælum – það tókst eins og fram hefur komið í fréttum í dag, því að fjölmiðlamenn, sem ræða við mig hafa jafnvel meiri áhuga á að ræða varaborgarstjóraummæli Stefáns J. en það sem Ingibjörg Sólrún sagði um stefnuna.

Stefnukynning R-listans sumardaginn fyrsta 2002 hefur ekki aðeins leitt í ljós, að hann býður ekki annað en margnota loforð um fyrirheit, sem hann hefur gleymt að efna, heldur einnig að innan hans er mikil togstreita, sem byggist á valdabaráttu um eftirmann Ingibjargar Sólrúnar, því að frambjóðendur á R-listanum eins og aðrir hafa aðeins skilið ummæli hennar í DV á einn veg.