20.4.2002

Evrópa – varnarmálin – Rússland


Vikan sem er að líða hefur einkennst af umræðum um utanríkis- og varnarmál. Hefur raunar verið rætt um allar þrjár meginstoðirnar, sem hafa ráðið mestu um íslensk utanríkismál, frá því að við tókum þau í okkar eigin hendur á sínum tíma, það er samskiptin við Evrópu, varnarsamstarfið við Bandaríkin og tengslin við Rússland. Þótt hugur minn sé bundin við málefni Reykvíkinga, get ég ekki látið hjá líða að leggja orð í belg um utanríkismálin.

Evrópa

Hið einkennilega við Evrópuumræðurnar er, hve erfitt er að fá menn til að ræða annað en aðferðafræðina, rammann um umræðurnar og hvort samskipti Evrópu og Íslands séu á dagskrá eða ekki. Svo eru innantómar deilur um það, hvort þessi skoðanakönnunin eða hin gefi rétta mynd af afstöðu þjóðarinnar. Þegar tekið er til við að skilgreina, hvaða ferli þurfi að setja af stað, til þess að menn nálgist Evrópusambandið með nýjum hætti og geti sest til viðræðna við það um aðild, er eins og allt hrökkvi í baklás og enginn segist tilbúinn til að stíga það skref.

Hvers vegna gengur sá stjórnmálamaður ekki fram fyrir skjöldu, sem ætlar að leiða þjóðina inn í Evrópusambandið og lýsir yfir þeim ásetningi sínum? Félagar í hollvinasamtökum Evrópusambandsins eða starfsmenn á áróðurskrifstofum þess geta ekki sífellt verið í þeirri stöðu að krefjast þess af öðrum, að gera það, sem þeir telja þjóðinni til bjargar. – Af hverju hefja þessir menn ekki virka þátttöku í stjórnmálabaráttunni? Af hverju kjósa þeir að sitja annað hvort eins og þeir sem allt vita eða eins og nöldurhanar á hliðarlínunni?

Talsmenn aðildar verða að átta sig á því, að um leið og óskað er eftir umboði frá þjóðinni til að ræða um aðild við Evrópusambandið er nauðsynlegt að leggja fram tillögu um breytingar á stjórnarskránni, sem gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að nálgast málið af nauðsynlegum þunga til að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu. Í umræðum inn á við verður gera þjóðinni grein fyrir því, hvaða réttindum í eigin málum hún er að afsala sér með aðild. Það verður aðeins gert í umræðum um breytingar á stjórnarskránni.

Síðan er hinn þáttur málsins, að átta sig á því, hvaða hagur er af aðild og hvernig best er að halda á málefnum þjóðarinnar gagnvart viðsemjandanum. Fráleitt er, að við getum fengið varanlegar undanþágur eða sérréttindi, sem ganga þvert á það, sem hefur verið samið um við aðrar þjóðir.

Eftir að stjórnarskránni hefur verið breytt og náðst hefur samkomulag við Evrópusambandið, þarf síðan að leggja spurninguna um aðild undir þjóðaratkvæðagreiðslu, ef tekið er mið af yfirlýsingum talsmanna allra stjórnmálaflokka.

Allir sjá í hendi sér að þetta er nokkurra ára ferli. Við blasir, að fyrir þingkosningar vorið 2003 mun ekki skapast samstaða á alþingi um að breyta stjórnarskránni. Næsta reglulega tækifæri til að breyta henni yrði þá í þingskosningunum 2007 nema ákveðið yrði á næsta kjörtímabili að rjúfa þing í þessu skyni. Talsmenn aðildar að Evrópusambandinu hljóta að ganga til næstu þingkosninga með breytingu á stjórnarskránni á stefnuskrá sinni fylgi hugur máli hjá þeim. Er líklegt, að þannig verði að málum staðið?

Varnarmálin

Ásgeir Sverrisson, fréttastjóri erlendra frétta á Morgunblaðinu, opnaði umræður um varnir Íslands og samstarfið við Bandaríkjamenn í fróðlegri grein í blaðinu 18. apríl.

Er tímabært, að þessi mikilvægu mál komi enn á ný til umræðu á efnislegum forsendum, sem veita okkur sýn inn í stjórnkerfi Bandaríkjanna og viðhorf manna þar. Bandaríska varnarmálaráðuneytið er sama sinnis og áður, þegar rætt er um orrustuþotur og Ísland. Allt frá því að flotinn tók við stjórn Keflavíkurstöðvarinnar fyrir um 40 árum hefur flugherinn viljað geta tekið orrustuþoturnar héðan, þegar honum hentar. Jafnlengi hafa íslensk stjórnvöld lagt á það þunga áherslu, að loftvarnir landsins séu tryggðar með tilvist þessara véla í Keflavík og þyrlusveitarinnar, sem þeim fylgir. Spennan á Norður-Atlantshafi magnaðist að vísu svo mjög á áttunda og níunda áratugnum, að orrustþotunum fjölgaði ár frá ári og hingað komum einnig hinar háþróuðu AWACS-ratstjár- og stjórnvélar til að fylgjast með ferðum sovéskra herflugvéla umhverfis landið.

Fyrir um það bil 10 árum fór fram úttekt á varnarþörf Íslands á vegum ríkisstjórnarinnar og tók ég þátt í því starfi með Karli Steinari Guðnasyni, fulltrúa Alþýðuflokksins, og embættismönnum úr forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Var fundað með fulltrúum ríkja beggja vegna Atlantshafs og NATO. Samin var skýrsla, þar sem staða Íslands í öryggismálum er metin eftir hrun Sovétríkjanna og lyktir kalda stríðsins. Síðan hefur utanríkisráðuneytið birt opinberlega mat sitt á stöðu þessara mála og hættunni, sem steðjar að Íslandi. Er það í samræmi við megninsjónarmið fyrrnefndrar skýrslu, en þar segir, að varanlegir öryggishagsmunir Íslands verði best tryggðir með tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin og aðild að NATO.

Íslendingar hafa í meira en 50 ár orðið að gæta hagsmuna sinna á grundvelli varnarsamningsins í viðræðum við Bandaríkjastjórn. Er meiri reynsla af slíkum viðræðum innan íslenska stjórnkerfisins en af öðrum þáttum utanríkismálanna og í bandaríska stjórnkerfinu er einnig mikil skjalfest vitneskja um samskiptin við Ísland og háttsettir menn þar hafa komið beint að málefnum Ísland, þeirra á meðal Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra, en Rumsfeld var fastafulltrúi lands síns hjá NATO í þorskastríðinu 1972 og þegar vinstri stjórn rak ábyrgðarlausa stefnu í varnarmálunum. Wolfowitz var hér meðal annars á ráðstefnu á áttunda áratugnum og lét sig útþenslu Sovétríkjanna á N-Atlantshafi miklu varða. Sótti ég marga fundi á þessum árum, þar sem Wolfowitz var meðal þátttakenda og vorum við sama sinnis um nauðsyn þess að stemma stigu við hernaðarbrölti Sovétmanna.

Á sínum tíma var misráðið að gera tímabundna bókun á grundvelli varnarsamningsins um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli. Þessi aðferð í varnarsamstarfinu er ekki í anda varnarsamningsins, sem er ótímabundinn. Aðferðin kallar á óþarfa spennu í samskiptum okkar við Bandaríkjamenn um varnarmálin, vegna þess að stjórnkerfið fer að keppa við einhverjar dagsetningar, sem skipta í raun engu en gefa tilefni til þess eins að skapa tímaþröng um málefni, sem annars þróuðust áfram í góðu jafnvægi og með eðlilegum breytingum í samræmi við breyttar kröfur eins og hefðbundið hefur verið í varnarsamstarfi okkar við Bandaríkjamenn.

Eftir að ráðist var á Bandaríkin 11. september 2001 hefur viðhorf Bandaríkjamanna til eigin öryggis gjörbreyst, þeir vilja hafa tækjakost í eigin landi, sem var dreifður um allan heim og á það ekki síst við um þyrlur eins og þær, sem eru á Keflavíkurflugvelli. Bandaríkjamenn eiga 105 slíkar þyrlur segir Ásgeir Sverrisson, 64 þeirra eru í daglegri notkun og 5 af þeim hér á landi. Þegar Bandaríkjamenn líta í eigin barm og telja sig þurfa á slíkum tækjum að halda heima fyrir þarf í sjálfu sér engan að undra, þótt þeir spyrji: En hvað með vélarnar á Íslandi, getum við ekki notað þær betur annars staðar? Þá svara þeir Rumsfeld og Wolfowitz, en við erum bundnir af samningi við Íslendinga og finnst það líklega óþægilegt í stöðunni.

Þá hafa Bandaríkjamenn ákveðið að breyta herstjórnarkerfi sínu frá og með 1. október nk. og koma á fót Norðurherstjórn til að annast varnir Bandaríkjanna, varnir annarra þjóða verða undir öðrum bandarískum herstjórnum og er ætlun bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að Ísland falli undir Evrópuherstjórn Bandaríkjamanna með aðsetur í Stuttgart í Þýskalandi en ekki Atlantshafsherstjórnina, sem hefur verið í Norfolk í Bandaríkjunum.

Eins og Þór Whitehead segir frá í bók sinni Ófriður í aðsigi var í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar rætt um það í Bandaríkjunum, hvort fella ætti Ísland undir Monroe-kenninguna eins og gert var með Grænland, en varnarlína Bandaríkjanna vegna Vesturheims í krafti kenningarinnar var dregin á milli Íslands og Grænlands en eftir heimsstyrjöldina hafa Bandaríkjamenn litið á eylöndin sem hluta af Atlantshafshagsmunum sínum og þau hafa ekki verið sett undir Evrópuherstjórn NATO (SACEUR) í Mons í Belgíu heldur fallið undir Atlantshafsherstjórnina (SACLANT) í Norfolk í Bandaríkjunum og yfirmann Atlantshafsflota Bandaríkjanna.

Víst er mikilvægt að velta fyrir sér stöðunni innan herstjórnarkerfis NATO og síðan Bandaríkjanna sérstaklega, en hitt skiptir mestu, að smeiginlegt mat sé lagt til grundvallar á þeim varnarhagsmunum, sem eru í húfi og hvernig þeirra er gætt og hvaða boðleiðir eru milli stjórnmálamanna, sem gefa heraflanum fyrirmæli. Hershöfðingjar eru talsmenn ákveðinna hagsmuna en taka ekki ákvarðanir um það, hvaða pólítískar ráðstafanir eru gerðar til að gæta þeirra.

Þess hefur alltof oft gætt hjá þeim, sem hafa lítinn áhuga eða þekkingu á öryggismálum, að líta á þau, sem málefni fyrir herforingja. Stjórnmálamenn, sem líta þannig á málin, bregðast þeirri frumskyldu sinni að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi borgaranna, sem þeir starfa fyrir. Íslensk stjórnvöld verða að takast á við þetta viðfangsefni, án þess að telja, að unnt sé að leysa það með því að gera einhliða kröfur á Bandaríkjamenn. Varnarsamningurinn byggist á því að verið er að gæta gagnkvæmra hagsmuna á tvíhliða grundvelli. Ef annar aðili hans kemst að þeirri niðurstöðu, að ekki sé lengur þörf á að gera þetta sameiginlega, eru forsendur samningsins brostnar.

Ég hef á undanförnum árum haldið því fram, að gæsla öryggishagsmuna okkar Íslendinga hafi breyst á þann veg, að við hljótum sjálf að axla meiri byrðar vegna þeirra en áður. Atburðirnir 11. september styrktu mig í þeirri trú. Hvað sem við verðum að gera sjálf, getum við hins vegar aldrei gert neitt, sem kemur að styrkleika og öryggi í stað varnarsamningsins við Bandaríkin og þess að hafa bandarískan viðbúnað í landinu. Engin Evrópuþjóð kemst hernaðarlega með tærnar, þar sem Bandaríkjamenn hafa hælana – varnarsamningur okkar við þá hefur auk þess það stórpólitíska gildi, að hann gerir okkur kleift að standa utan við Evrópusambandið.

Rússland.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur verið í Moskvu í vikunni og hitt Vladimir Putin. Lætur Ólafur Ragnar mikið af þeim viðræðum vegna þess, hve Putin hafi verið vel undir þær búinn. Það er í sjálfu sér athyglisvert að taka það sérstaklega fram, að viðmælandi manns í opinberum viðræðum hafi fengið glögga vitneskju um það fyrir fram, hvað efst sé á baugi í samskiptum þjóða. Hefði mátt ætla, að þannig væri ávallt búið um hnúta, þegar menn hittust af svo stóru opinberu tilefni.

Af viðræðum sínum við Putin dregur Ólafur Ragnar þá álykun, að „þessi forseti Rússlands er nýrrar tegundar, ný kynslóð af leiðtoga sem er óhræddur við að ganga inn í framtíðina og stuðla að breytingum...“ Því miður kemur ekki fram í fréttum, hvað það er sem vakti þessi hughrif hjá forseta Íslands. Frá því að kristnitökuafmælið var haldið árið 2000 hefur verið vitað að rússneska réttrúnaðarkirkjan vildi eignast hér guðshús, en um það ræddu forsetarnir í Moskvu. Vegna viðbragða Rússa eftir 11. september varð breyting á samskiptum þeirra við Bandaríkin og NATO, svo að ekki er þar um neitt nýtt að ræða. Ólafi Ragnari þótti í einkasamtali við Morgunblaðið vænt um að Putin nefndi fund Gorbatsjovs og Reagans að fyrra bragði. Putin sagði á blaðamannafundi, að „Ísland gæti verið mikilvægur hlekkur í keðjunni milli Rússlands og Bandaríkjanna“ – þetta er svipuð afstaða og ráðamenn í Kreml hafa í áratugi haft til Íslands, en á tímum kalda stríðsins lögðu Kremlverjar sig oft fram um sérstök vinarhót í garð Íslendinga. Landafræðin hefur ekkert breyst og Ísland er enn á sama stað og þegar skipalestirnar frá Bandaríkjunum til Murmansk höfðu hér viðdvöl á leið sinni yfir hafið eða þegar sovésku herflugvélarnar og kafbátarnir sveimuðu hér allt um kring til að styrkja hernaðarstöðu sína gagnvart Bandaríkjunum.

Þegar ég fer yfir þessi þrjú mál í ljósi umræðnanna síðustu daga, kemur mér í hug franska setningin: Plus ça change, plus c’est la même chose! Við erum ávallt að fást við sömu viðfangsefnin, þótt hlutirnir breytist og nýir menn komi að úrlausn þeirra, einmitt þess vegna skiptir svo miklu, hver heldur á málum okkar og hvort menn byggja afstöðu sína á raunsæju mati eða óskhyggju – hún má aldrei ráða í utanríkis- og öryggismálum.