13.4.2002

Kosningamiðstöð opnuð - skuldasöfnun kynnt

Könnun Gallups gerð 6. til 11. apríl sýnir, að R-listinn hefur tapað sex prósentum farið úr 61% í 55% en Sjálfstæðisflokkurinn unnið þrjú farið tæpum úr 37% í tæp 40% en óákveðnum fjölgað úr 7% í 14%. Það er komin hreyfing á kjósendur Sjálfstæðisflokknum í hag.
Ég lagði út af þessum tölum, þegar ég opnaði kosningamiðstöð sjálfstæðismanna við Stigahlíð laugardaginn 13. apríl. Þar var mikill fjöldi fólks og góður andi ríkjandi. Er mikill baráttuhugur í sjálfstæðismönnum. Við sjáum á tölunum, að með kröftugu, sameinuðu átaki náum við sigurtakmarki okkar.
Ég lagði ekki aðeins út af þessum tölum heldur einnig kjörorði R-listans, sem kynnt var þennan sama dag í Morgunblaðinu og hljóðar svo: Það gerist hér.
Þetta kjörorð er öfugmæli, þegar litið er á kyrrstöðuna og doðann í Reykjavík. Með því vill R-listinn draga upp enn eina blekkingarmyndina fyrir kjósendur.
Það gerist ekki í Reykjavík, að öryggi borgaranna sé tryggt á þann veg, að þeir geti farið óhultir ferða sinna. Það gerist ekki í Reykjavík, að höfð sé stjórn á skuldasöfnun. Það gerist ekki í Reykjavík, að biðlistum eftir leikskólapklássi sé eytt. Það gerist ekki í Reykjavík, að nægar lóðir séu í boði. Það gerist ekki í Reykjavík, að tekið sé á vanda húsnæðislausra.

Þetta eru staðreyndir, sem við blasa. Hitt er einnig staðreynd, að R-listinn hefur ekki kynnt neina stefnuskrá. Það liggur ekki heldur fyrir, hvenær það verður gert.