6.4.2002

Fjármálaumræðurnar – blekkingar vegna Línu.nets – fjármálahlið Línu.nets – umbjóðendur blekktir

Þegar rætt er um fjármál Reykjavíkurborgar og bent á, hve illa hefur verið staðið að þeim, fer það vafalaust fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum, af því að við eigum öll erfitt með að gera okkur grein fyrir þeim háu tölum, sem um er að ræða. Er mér þetta betur ljóst en áður eftir þá vinnustaðafundi, sem ég hef sótt, þar sem einhver fundarmanna hefur jafnan orð á fjármálunum, þótt áhugamálin innan þess málaflokks séu misjöfn. Það er of stór biti fyrir okkur flest að kyngja því, að skuldir Orkuveitunnar hafi vaxið úr 125 milljónum króna fyrir 8 árum í 20 milljarði króna núna – eða 160 faldast. Við náum einfaldlega ekki upp í þessar tölur og því síður hitt, að tæpum 9 milljörðum af þessu lánsfé hefur verið varið til orkuframkvæmda en rúmir 10 milljarðar hafa farið í borgarsjóð – um 1,5 milljarður í Línu.net.

Síðan sjáum við og heyrum vinstrisinna í Reykjavík og nú einnig í Hafnarfirði segja þessa gífurlegu skuldaaukningu á góðæristímum gleðiefni, af því við höfum efni á því að greiða lánin með orkugjöldunum okkar! Hvað segðu menn, ef fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu 160 faldað skuldir ríkissjóðs á góðæristímunum og hlökkuðu yfir því, vegna þess að skattgreiðendur ættu eftir að greiða skuldirnar og þeim væri það ekkert ofgott? Ástæða er til að spyrja: Hvaða hugarfar ræður hjá þeim, sem bjóða sig til starfa fyrir almenning og fara þannig með traustið, að hlaða skuldaböggum á umbjóðendur sína? Og segja síðan, að þessi aukna byrði skipti engu máli, af því að fólkið eigi hvort sem eftir að standa undir henni!

Er ekki tímabært að það komi nú þegar að skuldadögunum hjá þeim stjórnmálamönnum, sem þannig haga sér? Ég er ekki í neinum vafa um svarið við þessari spurningu og hvet til að það verði veitt með ótvíræðum hætti eftir sjö vikur – í kosningunum 25. maí.

Blekkingar vegna Línu.nets

Ef þessar tölur eru of háar fyrir fólk til að skilja og skynja hvernig að málum er staðið, er unnt að líta á hluta af þessu dæmi öllu frá öðrum sjónarhóli. Þar á ég við Línu.net – en reikningar þess undrafyrirtækis fyrir árið 2001 voru birtir í vikunni.

Minnumst þess, að hlutafélagið Lína,net var fyrst stofnað til að senda okkur rafræn gögn í gegnum rafmagnslínur – það hefur ekki gengið eftir, þá var það talið fyrirtækinu helst til ágætis, að það væri í samkeppni við Símann. Með óljósum og hæpnum rökum hefur því verið haldið fram að Lína.net hafi lækkað gjöld fyrir gagnaflutninga á sama tíma og öll tækni á þessu sviði hefur verið í örri þróun – þá átti að bjarga fyrirtækinu fyrir horn með því að selja Perluna – loks var það kynnt, að best væri að Orkuveitan keypti Símann og þar með var hugmyndin um að Lína.net væri helsti samkeppnisaðili Símans fokin út í veður og vind. Nú er farið að auglýsa fyrirtækið á þeirri forsendu, að það eigi einhvern þátt í því að keppendur Menntaskólans í Reykjavík unnu spurningakeppnina Gettu betur!

Leitað hefur verið allra ráða til að réttlæta tilvist Línu.nets, og farið úr einu víginu í annað í opinberri umræðu og áróðri í þágu þessa einstæða fyrirtækis, sem var stofnað án þess að fyrir lægi nægilega skýr lagaheimild að mati sérfræðinga og hóf viðskipti sín í bága við þá, sem hafa sérþekkingu í samkeppnismálum opinberra fyrirtækja.

Fjármálahlið Línu.nets.

Fjármálahliðin er ekki síður skrautleg en annað varðandi Línu.net. Þar er stundaður blekkingaleikur, ef marka má fréttir í Morgunblaðinu og DV laugardaginn 5. apríl.

Morgunblaðið birti frétt sína á bls. 18 með stuðlinum: Lína.net tapar 172 milljónum króna og aðalfyrirsögn: REKSTRARTEKJUR AUKAST UM 61%.

Þarna er að finna fréttatilkynningu frá Línu.neti og birtir blaðið hana án þess að sannreyna hana eða fara ofan í reikninga fyrirtækisins. Hefst fréttin svona: „TAP Línu.Nets á árinu 2001 nam 172 milljónum krróna, sem er 200 milljónum króna minna tap en árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði[ð] var 84 milljónir króna en 59 milljónir árið 2000. Rekstrartekjur félagsins námu 510 milljónum í fyrra en 316 milljónum árið 2000 sem er 61% aukning milli ára.“

Með þessum hætti vilja stjórnendur Línu.nets, að reikningar fyrirtækisins fyrir árið 2001 séu skýrðir og Morgunblaðið birtir skýringar þeirra athugasemdalaust. Á DV var hins vegar valin sú leið að ýta fréttatilkynningunni til hliðar og skoða reikningana sjálfa. Hvað kemur þá í ljós?

Frétt DV birtist á baksíðu blaðsins undir stuðlinum: Tap af reglulegri starfsemi Línu. Nets átta sinnum meira en árið áður:. Aðalfyrirsögnin er: GJÖLDIN AUKAST ÞRISVAR SINNUM HRAÐAR EN TEKJURNAR og undirfyrirsögnin: Tap af reglulegri starfsemi ríflega 290 milljónir króna.

Frétt DV hefst á þeirri setningu að rekstur Línu. Nets hf. dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur hafi versnað til mikilla muna á árinu 2001 frá árinu áður.

Rekstrargjöld hafi aukist milli ára úr 256 milljónum í 426 milljónir það er um 66 % eða nákvæmlega þrisvar sinnum meira en rekstrartekjurnar. sem jukust úr 315 milljónum í 384 eða um 22%.

Í þessum tölum er ekki tekið til svonefndra annarra rekstrartekna, sem eru taldar 126 milljónir, þar af 94 milljónir króna vegna sölu á tetrakerfinu til Okruveitunnar. – séu þær dregnar frá tekjum verður tap fyrirtækisins 417 milljónir króna.

Hreint veltufé var neikvætt um 300 milljónir – en þessi liður þykir jafnan gefa besta mynd af rekstri fyrirtækja – þessi tala mælir, hvort reksturinn sé að brenna peningum – 2000 var veltufé jákvætt um 20 milljónir króna.

Reksturinn verður að batna um 473 milljónir króna í ár til að unnt sé að standa við skuldbindingar fyrirtækisins segir í frétt DV. Þar er einnig skýrt frá því að í reikningum sé leiðrétt skekkja vegna reiknings ársins 2000 en þá var handbært fé frá rekstri sagt nema 166 m.k.r en hið rétta er, að það var neikvætt um 91 milljónir króna.

Umbjóðendur blekktir

Ég tel þetta mismunandi mat Morgunblaðsins og DV á afkomu Línu.nets og þá staðreynd, að hin dapurlega útkoma fyrirtækisins virðist ekki vekja neinar spurningar hjá ljósvakamiðlunum, sýna best, hve unnt er að komast langt með því að auglýsa eigið ágæti á tilbúnum eigin forsendum. Lína.net starfar ekki aðeins i fjárhagslegu skjóli R-listans heldur einnig við þau einstæðu skilyrði, að gagnrýni á fyrirtækið sé liður í pólitískum árásum á R-listann og þess vegna eigi aðeins að líta á tilynningar frá fyrirtækinu og ekki taka mark á öðrum. Er unnt að skapa sér betri stöðu fyrir fyrirtæki, sem þolir ekki að komast undir smásjána?

Spurningarnar um Línu.net snerta ekki aðeins fjármál heldur heiðarleika stjórnenda í umgengni við umbjóðendur sína. Er með ólíkindum, að svo langt geti verið á milli þess, sem stendur í fréttatilkynningu Línu.nets og hins, sem fjölmiðill telur gefa raunverulega mynd af fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Ber allt að sama brunni: Með fréttatilkynningu sinni vildu stjórnendur Línu.nets gera hlut fyrirtækisins betri en raun er. Aðeins DV lét hjá líða í fyrstu atrennu að taka fréttatilkynninguna frá Línu.neti trúanlega og leit á reikninga í staðinn.

Eftir því sem ég kynnist vinnubrögðum R-listans betur sannfærist ég meira um mikilvægi þess að sinna því hlutverki að leita að því, sem er satt og rétt. Brotalömin í stjórn Reykjavíkur felst ekki síst í því, að gengið hefur verið á lagið af stjórnendum R-listans og látið undir höfuð leggjast að skýra satt og rétt frá málum eða hvernig er unnið að úrlausn þeirra.