24.3.2002

Endurreisn miðborgarinnar - spurningar vegna Strætó bs.



Nú er fundum vegna borgarstjórnakosninganna að fjölga dag frá degi og er ég þegar farinn að heimsækja vinnustaði og hitta talsmenn ákveðinna hópa. Það var til dæmis mjög fróðlegt að hitta fulltrúa kaupamanna og annarra sem reka fyrirtæki við Laugaveginn og í miðborginni á fimmtudag og heyra, hve illa þeir telja hafa verið staðið að málum, sem snerta hagsmuni þeirra og eru viðfangsefni borgaryfirvalda.

Var það rifjað upp, að við upphaf valdaferils R-listans fyrir átta árum, var ekki farið leynt með þá skoðun af talsmönnum hans í skipulagsmálum, að haga skyldi ákvörðunum um umferð í miðborginni með það að leiðarljósi, að einkabíllinn ætti að víkja fyrir almenningsvögnum auk þess sem hvatt skyldi til þess að fólk kæmi gangandi í miðborgina eða á hjólum.

Að sjálfsögðu hefur þessi stefna R-listans ekki breytt því, að Íslendingar kjósa einkabílinn frekar en strætó, gönguskóna eða reiðhjól, svo að andúð R-listans á einkabílnum í miðborginni hefur bitnað á þeim, sem þangað leggja leið sína, þar starfa eða reka fyrirtæki. Ekki hefur verið reist eitt bílastæðahús síðan R-listinn tók við völdum og við sjáum öll, sem leggjum leið okkar um miðborgina, hve mörg svæði eru illa hirt og nýtt.

Íbúar í Suðurgötu mótmæltu hugmyndum um bílastæðahús þar og þá datt R-listanum það snjallræði í hug, að ætla að gera stæði undir Tjörninni, sem er mjög dýr og óaðlaðandi hugmynd og ég er viss um að vekur enga gleði í hjörtum flestra Reykvíkinga. Að sjálfsögðu er unnt að leysa bílastæðamál miðborgarinnar á einfaldari og ódýrari hátt.

Mér rennur einnig til rifja, að ætlunin sé að grafa út Víkurkirkjugarð til að skapa aðgang að fornminjum við Aðalstræti. Sjálfsagt og eðlilegt er að standa þannig að verki, að sem flestir geti kynnt sér þessar minjar og þar með sögu landnámsins og Reykjavíkur, en það hlýtur að vera unnt að gera það án þess að fara í þennan gamla kirkjugarð.

Til þess að endurreisa miðborgina þarf að gera um það heildstæða áætlun til nokkurra ára og gefa fjárfestum tækifæri til þess að koma að því verki með öryggi um að ekki verði þrengt að þeim með ósanngjarnri friðurnarstefnu eða duttlungafullum stjórnarháttum, sem byggjast á óraunhæfum pólitískum stefnumiðum og óskhyggju um að úr Ráðhúsinu sé unnt að gefa fyrirmæli, sem breyta samgönguvenjum borgarbúa og gesta þeirra.


Samningar vegna Strætó bs.

Furðulegt er að heyra andstæðinga okkar sjálfstæðismanna segja, að með því að Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi spyrji Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um fjármálaumsvif og samninga við Skúla Bjarnason vegna Strætó bs., sé verið að spilla fyrir kosningabaráttunni í Reykjavík – það eigi ekki að ræða um þessi mál heldur önnur.

Sérstaklega þótti mér skrýtið að heyra Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, tala á þennan veg í Silfri Egils í dag, því að engir hafa verið harðari á þeirri skoðun en einmitt samfylkingarmenn á alþingi, að það sé heilög skylda stjórnarandstöðunnar að benda á alla þætti, sem fara miður hjá meirihlutanum – ekki síst þá þætti, sem lúta að stjórnsýslu og meðferð opinbers fjár.

Í ljós hefur komið í umræðunum um Strætó bs., að við ákvarðanir um greiðslur til Skúla Bjarnasonar var ekki farið að réttum reglum. Breytir engu um það, hvort einn eða fleiri vissu um málið fyrirfram, samningurinn við Skúla Bjarnason var gerður án þess að stjórn Strætó bs. vissi um hann en þó vegna starfa hans þar.

Ég þekki hvernig staðið er að því að rannsaka og vinna mál af þessu tagi hjá ríkinu og hvernig þingmenn geta krafið ráðherra svara og rætt við þá um það, sem þeim þykir athugavert. Málum er unnt að skjóta til sérfróðra aðila og þeir gefa álit sitt án tillits til þess, hver er skoðun ráðherra eða embættismanna hans.

Í því máli, sem hefur verið til umræðu og snertir Strætó bs., hefur Guðlaugur Þór mátt una því, að spurningum hans er svarað án þess að borgarstjóri segi fyrst alla söguna og þegar hann spyr aftur og fær þá vitneskju um hinar fordæmalausu afgreiðslur segir borgarstjóri hann aumkunarverðan og á barmi örvæntingar og reynir síðan að sparka málinu frá sér og embættismönnum sínum inn á grátt svæði með þeim orðum, að aðrir hafi líka komið að málinu en ekki bara hún – hverju sem það á að breyta um hina lélegu stjórnsýslu og óeðlilegu málsmeðferð.

Umræðurnar um þetta mál eiga ekkert skylt við neikvæða kosningabaráttu heldur spretta þær af því, að illa hefur verið staðið að málum og sannarlega með ámælisverðum hætti.