15.3.2002

Skólastefna kynnt – leikskólinn ræddur í sjónvarpi – R-listinn kemur ekki


Það var ánægjulegt að fara í Rimaskóla í Grafarvogi að morgni fimmtudagsins 14. mars og hitta þar Helga Árnason skólastjóra og samstarfsfólk hans og nemendur. +

Við fórum þangað nokkrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins og ræddum um málefni skólans auk þess að fara í skólastofur. Þá hittum við blaðamenn og gerðum grein fyrir höfuðatriðum í skólamálastefnu okkar, þar sem pólitíska markmiðið er að styrkja tengsl skólanna enn frekar við næsta umhverfi sitt með því meðal annars að skipta Reykjavík upp í nokkur skólahverfi og draga úr miðstýringu fræðsluráðs yfir 45 grunnskólum Reykjavíkur. Er þetta forsenda þess, að foreldrar hafi val um skóla innan Reykjavíkur.

Skólastefnan snýst að meginefni um að efla innra starf skólanna og tryggja, að þeir komi til móts við hvern nemanda miðað við hæfileika hans. Við viljum setja börnin í fyrsta sæti og skilaði sá áherslupunktur sér vel í frásögnum ríkissjónvarpsins og Morgunblaðsins af Rimaskólaheimsókninni.

Rætt um leikskóla í sjónvarpi

Að kvöldi fimmtudagsins hitti ég Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi sjónvarpsins og tóku viðræðurnar töluvert mið af því, að fyrr um daginn hafði ég kynnt skólastefnu okkar sjálfstæðismanna. Gafst mér tækifæri til að ræða einstaka þætti stefnunnar og skýra þá en undraðist, hve erfitt var að halda uppi efnislegum umræðum um málið við Ingibjörgu Sólrúnu, því að hún var óróleg og greip til þess ráðs að drepa umræðunum á dreif með því að taka af mér orðið, flissa og beina spjótum sínum sérstaklega að Garðabæ með röngum fullyrðingum um fækkun barna á leikskólaaldri þar.

Þegar ég boðaði þá stefnu okkar sjálfstæðismanna, að við vildum skilgreina rétt barna til leikskólagöngu eins og grunnskólagöngu og starfa í samræmi við það, var Ingibjörg Sólrún orðin mjög óróleg og sagði tíma til kominn, að hún fengi að segja nokkur orð í þættinum. Tók hún þá til við að reikna það út, að það mundi kosta 900 milljónir króna í nýjum leikskólaplássum og 350 milljónir króna í rekstri á ári að skilgreina rétt 18 mánaða barna og eldri til leikskólagöngu. Taldi hún þessi útgjöld ofviða borgarsjóði, þótt í hinu orðinu léti hún eins og borgarsjóður hefði aldrei staðið betur.

Eftir orðaskak um þessa fjármuni sagði ég: „Ég er með þessi sjónarmið í leikskólamálunum sem ég er að kynna og mér heyrist að Ingibjörg Sólrún telji að þau séu óframkvæmanleg. En hún hefur hins vegar oftar en einu sinni komið fram fyrir kjósendur og lofað því að eyða biðlistunum og skapa þessa aðstöðu. Og er hún þá, hefur hún alveg gefist upp við það? Er hún að segja við Reykvíkinga í þessum þætti hér núna að það fyrirheit að reykvísk börn fái leikskólapláss sé óframkvæmanlegt vegna þess að fjárhagur borgarinnar, að hann sé í þeirri stöðu núna að það sé ekki hægt að ná þessu markmiði? Er það boðskapurinn, sem þú hefur fram að færa núna eftir 8 ár? Samt hefurðu tvisvar sinnum haft þetta sem kosningaloforð.“

Síðar sagði ég: „Það sem Ingibjörg Sólrún segir okkur er að fjárhag Reykjavíkurborgar sé þannig háttað að það sé ekki unnt að veita þessa þjónustu 18 mánaða börnum og eldri í Reykjavík. Reykjavíkurborg hafi ekki burði til þess, fjárhagslega burði til þess að veita þessa þjónustu. Það er það sem Ingibjörg Sólrún er að segja okkur hér í þessum þætti. Ég taldi að fjárhag borgarinnar væri ekki svona illa komið að það væri ekki hægt að sinna þessu mikilvæga verkefni fyrir börn sem eru 18 mánaða og eldri í Reykjavík.“

Enn spurði Kristján Kristjánsson þáttarstjórnandi um það, hvort ég vildi setja þessa fjárhæð 1250 milljónir í leikskólana – ég sagðist vilja sannreyna tölurnar áður en ég tæki afstöðu til þeirra, ég treysti ekki tölum R-listans. Síðan sagði ég: „Ég hef þá reynslu af talnaflóði R-listans að ég tek það allt með miklum fyrirvara. En ég set þetta sem markmið að veita þessa þjónustu hérna í Reykjavík því ég tel að Reykjavík hafi einkennst af því að vera í vörn, vörn á undanförnum árum, ekki síst vegna þess hvernig staðið hefur verið að skólamálunum og leikskólunum og grunnskólunum. Og ég tel að það sé lykilatriði, það er lykilatriði fyrir Reykvíkinga til þess að ná sinni stöðu og vera í fyrsta sæti að huga skipulega að þessum málum. Með því munum við líka kalla fleiri íbúa til bæjarins, borgarinnar, breikka tekjugrunninn og þar með fá það fé sem þarf til þess að taka á málum eins og þessum.“

R-lsitinn fjarverandi

Þriðjudagskvöldið 12. mars fór ég með frambjóðendunum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur á fund hjá Round Table á Grand hótel en þar voru félagar í nokkrum klúbbum komnir saman til að hitta okkur og fulltrúa R-listans. Vissum við ekki betur en R-listafólk ætlaði að koma þarna og eiga við okkur orðastað. Á hinn bóginn gerðist það, að þau boð bárust, að enginn gæti komið úr þeim hópi vegna flensu. Kom það fundarboðendum greinilega á óvart, að fá þetta svar á síðustu stundu, en það kom hins vegar ekki í veg fyrir, að við sjálfstæðismenn fengjum tækifæri til að ræða við fundarmenn í tæpar tvær klukkustundir.

Stefán Jón Hafstein, frambjóðandi R-listans, lét undir höfuð leggjast að koma í úvarpsviðræður við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur um menntamál og fleira, sem höfðu verið ákveðnar. Þegar frá þessu var skýrt í Fréttablaðinu hafði Stefán Jón samband við blaðið og lét hafa eftir sér þá undarlegu skýringu á fjarveru sinni, að hann hefði ekki viljað leggja það á Guðrúnu Ebbu að hitta sig, af því að sjálfstæðismenn hefðu ekki mótað stefnu sína í menntamálunum!