10.3.2002

Að vera á móti – skuldir Reykjavíkur



Eins og við vitum er R-listinn haldinn þeim mikla annmarka, að þar er ekki sameiginlegur vilji til neins annars en halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. R-listinn er til í því skyni að vera á móti en ekki til þess að vera með neinu.

Í pistlum mínum um R-listann á undanförnum misserum hef ég velt því fyrir mér, hvernig færi fyrir vinstri/grænum (v/g), ef þeir tækju ákvörðun um að fara fram undir hatti R-listans. Spá mín hefur verið sú, að þeir mundu tapa almennt fylgi á ákvörðun um að halda ekki sérstöðu sinni í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Þessi spá er að rætast samkvæmt síðustu könnun DV, hinni fyrstu hjá blaðinu, eftir að vinstri/grænir gengu undir R-listamerkið vegna kosninganna í vor. Könnunin sýnir fylgistap vinstri/grænna.Næst reynir á það, hvort settur verði v/g svipur á kosningamál R-listans. Líklegt er að v/g verði skipað að fara sér hægt í því efni.

Í útvarpsþættinum Í vikulokin að morgni laugardagsins 9. mars fór Dagur B. Eggertsson, í 7. sæti R-listans þungum orðum það, að í Morgunblaðsviðtali líkti ég bókhaldsaðferðum R-listans, sem segist ætla að gera borgarsjóð skuldlausan árið 2015, við brellur Enrons í Bandaríkjunum. Enron-fyrirtækið bjó til sjóði um skuldir sínar til að sýna sem besta stöðu út á við. Þetta er einmitt það, sem R-listinn hefur verið að gera til að fegra borgarsjóð.

R-listafólk neitar því ekki lengur, að skuldir borgarinnar vaxa um 8,9 milljónir króna hvern einasta dag, sem það eru við völd. Nú er sagt, að eignir vaxi um 37 milljónir króna á dag. Hvaða eignir vaxa með þessum hætti dag frá degi? R-listinn segir það ekki. Að sjálfsögðu hvíla þessar skuldir á herðum okkar Reykvíkinga allra, við þurfum að greiða þær með einum eða öðrum hætti.

Orkuframkvæmdir skýra ekki skuldasöfnunina nema að litlum hluta. Okruveitan hefur verið skuldsett verulega á undanförnum árum, meðal annars vegna framkvæmda á Nesjavöllum, arðgreiðslna Orkuveitunnar í borgarsjóð sem nema milljöðrum króna, nær tveggja milljarða króna útgjalda í Línu.net og með því að lækka eigið fé Orkuveitunnar um fjóra milljarði, sem hafa runnið í borgarsjóð til að fegra stöðu hans. Nema skuldir Orkuveitunnar nú um 20 milljörðum króna og hafa aldrei verið hærri í sögu hennar.

Skuldasöfnun Reykjavíkurborgar hefur aukist í góðæri á sama tíma og ríkissjóður hefur verið að lækka skuldir sínar. Síðan 1993 í góðæri undanfarinna ára hafa hreinar skuldir borgarinnar rúmlega áttfaldast, en á árunum á undan höfðu sjálfstæðismenn haldið fjármálum og skuldum borgarinnar innan hóflegra marka, þrátt fyrir samdrátt og stöðnunartíma í efnahagslífi þjóðarinnar.

Magnús Erlendsson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar á Seltjarnanesi, ritaði grein í Morgunblaðið síðastliðinn föstudag, sem lauk á þessum orðum:

„Ef meirihluti Reykvíkinga er ánægður með afspyrnu lélega fjármálastjórn, oftar en ekki slælega þjónustu, en þó fyrst og fremst margfalt hærri skatta en íbúar nágrannabæjanna þurfa að greiða, þá sannar það einnig og staðfestir, að þeir sem stýra fjármálum þjóðarinnar, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hefur skapað þá hagsæld, að meirihluti Reykvíkinga telur sig ekkert muna um það greiða tugþúsundir, já jafnvel hundrað þúsund krónur meira í borgarsjóð en grannarnir í nágrannabæjunum.

Og kjörorðið sýnist vera: Ingibjörgu Sólrúnu og hærri skatta! Sannarlega ánægjulegt hve meirihluti Reykvíkinga virðist vel fjáður!“

R-listinn kemst hvorki fram hjá þessari staðreynd né hinu, að hópurinn, sem stendur undir skuldabyrðum Reykjavíkurborgar minnkar vegna þess að ungt fólk og fyrirtæki eru að flytja úr borginni til nágrannabyggðanna, þar sem þeim eru skapaðar betri aðstæður en í Reykjavík.