2.3.2002

Listinn ákveðinn – afsögn úr ráðherraembætti – UT2002

Ég sest niður og skrifa þetta á meðan ég bíð eftir Þresti bílstjóra mínum, sem mun innan stundar aka mér til Bessastaða á ríkisráðsfund, þar sem formlega verður gengið frá afsögn minni sem ráðherra. Síðustu dagar hafa verið viðburðaríkir vegna ákvörðunar um framboðslista okkar sjálfstæðismanna hér í Reykjavík og síðan alls þess, sem hafa þarf í huga, þegar ríkisstjórn og ráðuneyti eru kvödd.


Það var einstaklega góður andi á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, þegar listinn var ákveðinn að kvöldi fimmtudagsins 27. febrúar. Salurinn í Valhöll var þéttsetinn og urðu margir að standa. Margeir Pétursson, formaður Varðar, var fundarstjóri en Sveinn Skúlason, formaður kjörnefndar, gerði grein fyrir störfum hennar og niðurstöðu. Að svo búnu var orðið gefið laust, ef menn vildu ræða málið eða koma fram með aðrar tillögur. Enginn kvaddi sér hljóðs og síðan var listinn borinn undir atkvæði fundarmanna og samþykktur einum rómi. Þá flutti ég ávarp fyrir hönd frambjóðenda og síðan ávarpaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, fundinn. Var þessu öllu lokið á um það bil 45 mínútum.

Föstudaginn 28. febrúar fór ég klukkan 7.30 í viðtal á Rás 2 og síðan var minn síðasti ríkisstjórnarfundur klukkan 9.30, þar sem ég lagði fram þau mál, sem ég vildi koma fyrir ríkisstjórn, áður en ég hyrfi úr embætti. Þar á meðal var tillaga um skipulag á menntagátt, eða menntagatt.is, sem síðan var kynnt á ráðstefnunni UT2002, sem ég setti klukkan 13.00 í Menntaskólanum við Hamrahlíð en klukkan rúmlega 13.30 var ég kominn í Alþingishúsið á þingflokksfund, sem samþykkti einum rómi tillögu Davíðs um að Tómas Ingi Olrich yrði eftirmaður minn. Fundurinn var stuttur og að honum loknum tóku við viðtöl við fjölmiðla.

Þá lá leiðin í ráðuneytið, þar sem ég lagði síðustu hönd á að tæma skrifstofu mína og klukkan 16.00 var hóf á fjórðu hæð ráðuneytisins, þar sem ég og Jóhanna María Eyjólfsdóttir, aðstoðarmaður minn, kvöddum samstarfsfólk okkar í ráðuneytinu. Gladdi það mig hve hlýjum orðum var farið um ár mín í ráðuneytinu og samstarfið á þeim vettvangi. Kveð ég gott samstarfsfólk með söknuði.

Hér ætla ég ekki að gera neina úttekt á eigin störfum í ráðuneytinu. Saga ráðherraáranna liggur fyrir hér á vefsíðunni. Má fullyrða, að ekki hafi áður verið rituð samtímasaga með þessum hætti.

Klukkan 11.15 hófst síðan ríkisráðsfundurinn að Bessastöðum og sat ég þar í stutta stund á meðan formlega var gengið frá afsögn minni. Ók Þröstur mér til Bessastaða en heim fór ég í leigubílnum, sem ók Tómasi Inga á vettvang. Síðan hittumst við Tómas Ingi í menntamálaráðuneytinu rúmlega 12.00 og þá afhenti ég honum lyklavöldin í ráðuneytinu. Hér er afhending lykilsins hin táknræna athöfn um ráðherraskipti en annars staðar miða menn gjarnan við það, þegar ráðherrar setjast í fyrsta sinn í ráðherrabílinn og láta aka sér af stað.

Síðdegis þennan laugardag fór ég á UT2002 í MH. Við héldum þessa ráðstefnu í fyrsta sinn að frumkvæði menntamálaráðuneytisins árið 1999 í Menntaskólanum í Kópavogi. Hefur verið ævintýralegt að fylgjast með þeirri öru þróun, sem orðið hefur síðan við nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi og er þessi ráðstefna nú hin öflugasta, sem haldin er um þessa tækni á landinu og vekur hún vaxandi athygli erlendis, vegna þess að hingað geta menn sótt og kynnst frumkvöðlastarfi á heimsmælikvarða. Nota ég þessa ráðstefnu gjarnan sem mælistiku um hina miklu grósku, sem er í íslensku skólastarfi. Hafi menn þá hugmynd, að stöðnun og ótti við nýjungar setji svip sinn á íslenska skóla er það algjör misskilningur. Þvert á móti er þar mikill áhugi á að fara inn á nýjar brautir og tileinka sér það besta á hverju sviði. Sést þetta til dæmis vel á hve mikill áhugi er á rannsóknaverkefnum og framhaldsnámi á háskólastiginu.

Fimmtudaginn 28. febrúar tók ég þátt í síðustu umræðum mínum á alþingi sem ráðherra og snerust þær um frumvörp um vísinda- og tækniráð og opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Eins og lesendur vefsíðu minnar vita, hef ég fjallað mikið um þessi mál undanfarin misseri og er þess vegna ánægður með að koma þeim til þingnefnda áður en ég læt af ráðherraembætti. Er ég sannfærður um, að verði frumvörpin að lögum styrkist þessi mikilvægi þáttur í íslensku efnahags- og atvinnulífi og þar með staða Íslendinga í samkeppni þekkingarþjóðfélaga.

Ég kveð menntamálaráðuneytið sáttur og stoltur yfir þeim árangri, sem þar hefur náðst í góðri samvinnu við skóla- og menningarfólk. Er það mér gott veganesti á nýjum vettvangi en ljóst er, að markmið okkar sjálfstæðismanna nást ekki þar nema með mikilli og málefnalegri baráttu. Ég hef einsett mér, að hún verði á jákvæðum forsendum og þar komi fram, hve mikilvægt er fyrir þróun Reykjavíkur og framtíð íslensku þjóðarinnar, að nýir vindar nái að blása um stjórnkerfi höfuðborgarinnar.