27.2.2002

Frönsk kosningabarátta – styrkur Davíðs – listinn ákveðinn

Ég skrapp til Parísar um síðustu helgi og heimsótti Rut, sem dvelst þar í nokkrar vikur til að kynnast tónlistarlífinu, æfa sig og halda tónleika. Einmitt þessa sömu daga voru þeir að hefja baráttuna fyrir forsetakosningarnar í vor Jacques Chirac forseti og Lionel Jospin forsætisráðherra. Kannanir sýna, að fylgi þeirra er jafnmikið, þannig að kosningabaráttan verður spennandi, en allt frá því að ég sökkti mér ofan í frönsk málefni í stúdentabyltingunni 1968 og fylgdist með falli Charles de Gaulles og valdatöku og ferli Georges Pompidous hef ég haft mikinn áhuga á frönskum stjórnmálum og höfuðpersónum þeirra. Er ævintýralegt að fylgjast með úthaldi þeirra, sem þar komast í fremstu röð. Þannig barðist Francois Mitterrand til dæmis í 17 ár fyrir því að komast í forsetastólinn, áður en takmarkið náðist. Þá er ekki síður spennandi sjá allar bækurnar, sem ritaðar eru um einstaklinga og einstök hneykslismál í frönskum stjórnmálum. Er með ólíkindum hvað á gengur og hvernig á málum er tekið. Þeir, sem alltaf eru með það á vörunum, að hér á landi sé ástandið ískyggilegra en víða vegna þess, sem kallað er stjórnmálaspilling, hafa áreiðanlega ekki lagt sig mikið fram um að kynnast umræðum um frönsk stjórnmál og þeim ásökunum, sem þar ganga á milli manna eða fjölmiðla.

Valery Giscard d’Estaing var Frakklandsforseti fyrir um það bil 30 árum og hafði þá sérstöðu að vera á milli höfuðfylkinganna til hægri og vinstri. Ein af ástæðunum fyrir því að hann missti völdin voru ásakanir um að hann hefði þegið gimsteina að gjöf frá Bokassa, hinum alræmda keisara, sem var talinn leggja sér mannakjöt til munns, og þótti meðal spilltustu leiðtoga í Afríkuríkjum. Ég hitti í Parísarferð minni núna gamlan diplómat, sem var talsmaður d’Estaings í utanríkismálum, á meðan hann var í forsetahöllinni. Hann var ekki í neinum vafa um, að talið um spillingu forsetans hefði verið samsæri andstæðinga hans til að koma honum frá völdum. Hvað sem því líður er ljóst, að nú nýtur d’Estaing virðingar sem stjórnmálaleiðtogi og var honum meðal annars nýlega falið að leiða nefnd á vegum Evrópusambandsins (ESB), sem á að gera tillögu um stjórnarskrá þess og líkt er við „the Founding Fathers“ í Bandaríkjunum, eða höfunda stjórnarskrár þeirra. Þá beinist einnig athygli að d’Estaing vegna þess að hann lét á sínum tíma gera á eigin kostnað kvikmynd um forsetaferil sinn og er verið að sýna hana núna í fyrsta sinn opinberlega. Loks beitti hann sér fyrir því, að í heimabyggð sinni yrði gerður eldfjallaskemmtigarður, Vulcania, og hefur hann nýlega verið opnaður. Vekur hann athygli fyrir stórbrotna útfærslu og að sjálfsögðu kostnað, sem fór langt fram úr áætlunum. Garðurinn er um 600 km fyrir sunnan París í Massif Central.
Styrkur Davíðs

Ég get skrifað lengi um frönsk stjórnmál og þá, sem standa þar í fremstu röð, en læt staðar numið að sinni, því að af nógu er að taka heima fyrir.

Davíð Oddsson hefur enn sýnt styrk sinn sem stjórnmálaforingi með því, hvernig hann hefur tekið á þeim málum, sem borið hefur hæst undanfarna daga og ýmsir hafa leitast við að kenna sérstaklega við Sjálfstæðisflokkinn vegna þeirra einstaklinga, sem eiga í hlut. Til okkar, sem berum pólitíska ábyrgð er annars vegar gerð sú krafa, að við fylgjum því eftir, sem er aðfinnsluvert, og hins vegar að það sé gert með þeim hætti að standist almennar stjórnsýslulegar kröfur, þar sem ber að taka tillit til hagsmuna þeirra einstaklinga, sem eiga í hlut, ekki síður en almannahagsmuna. Hefur Davíð rætt þessi mál af hreinskilni og lagt þau fyrir skynsamlegum hætti.

Athyglisvert er, að á alþingi eru það einkum tveir þingmenn Samfylkingarinnar, þeir Lúðvík Bergvinsson og Guðmundur Árni Stefánsson, sem sækja að forsætisráðherra vegna Símans og Þjóðmenningarhússins. Lúðvík gat þó ekki haldið betur á málstað sínum á þingi í dag en svo, að hann þurfti að snúa út úr fyrir Davíð til að reyna að gera málstað hans tortryggilegan. Hitt var dramatískt augnablik í þingsalnum í dag, þegar Davíð minnti Guðmund Árna á það, að hann stæði með ráðherrum í ríkisstjórn sinni, ekki síst þegar að þeim væri sótt. Vissu allir þingmenn, að með orðum sínum var Davíð að minna Guðmund Árna á stuðning sinn við hann á sínum tíma, þegar hann sagði af sér ráðherraembætti vegna spillingarumræðu.

Mál þjóðskjalavarðar hefur verið rekið af hálfu menntamálaráðuneytisins undir minni forystu. Embættismanninum var sent bréf, þar sem tekið var undir aðfinnslur ríkisendurskoðunar, og óskað eftir að hann gerði grein fyrir viðbrögðum sínum. Þegar þau bárust sendi ráðuneytið þau til ríkisendurskoðunar til athugunar. Að loknu þessu ferli og að höfðu samráði við ríkislögmann verður síðan komist að niðurstöðu í málinu.

Listinn ákveðinn.

Framboðslisti okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík verður ákveðinn á fundi annað kvöld. Kjörnefnd hefur starfað undanfarna daga og vikur og er nú að ljúka störfum.

Með ákvörðun um listann hefst nýr áfangi í undirbúningi kosninganna og þunginn í baráttunni verður sífellt meiri. Ég hef undanfarna daga átt marga fundi með forystumönnum hverfafélaga sjálfstæðismanna í Reykjavík og hefur verið mjög að kynnast þeim viðhorfum, sem þar koma fram. Hverfafélögin starfa í grasrótinni meðal borgarbúa og eru mikilvægu bakhjarl Sjálfstæðisflokksins. R-listinn á enga slíka leið að Reykvíkingum heldur nálgast þá í gegnum embættismannakerfi borgarinnar, ráð og nefndir.

Eftir því sem ég kynnist einstökum þáttum í starfi borgarstjórnar undir forystu R-listans meira, því meira undrandi verð ég á því, hve illa er að verki staðið og hve mikill doði og vandræðagangur einkennir alla stjórn borgarinnar.

Frönsku forsetakosningarnar eru í eðli sínu einvígi milli tveggja manna, þótt fleiri frambjóðendur séu til embættisins. Borgarstjórnarkosningarnar hér í Reykjavík eru af mörgum skilgreindar sem einvígi. Hér eru það þó ekki aðeins tveir einstaklingar sem keppa heldur listar og þarf að ná átta kjörnum til að hljóta meirihluta. Ef annar listinn, R-listinn nær ekki átta, verður hann höfuðlaus og leysist upp í frumeindir, þar sem hver höndin er ekki aðeins uppi á móti annarri á milli eindanna heldur einnig innan þeirra. Þá er ljóst, að leiðtogi R-listans, nái hann kjöri, er aðeins að tjalda til einnar nætur í borgarstjórn, því að þeir kalla á hjálp, sem vilja komast hjá afhroði Samfylkingarinnar í þingkosningum 2003.