10.2.2002

Gesturinn – Tækni- og vísindaráð – útflutningur tónlistar.


Undanfarið hef ég átt þess kost að sjá margar góðar leiksýningar, Önnu Karenínu í Þjóðleikhúsinu, Fjandmann fólksins í Borgarleikhúsinu, Gestinn í Borgarleikhúsinu og Slava! í leikhúsinu á Akureyri. Allar staðfesta þær hina miklu grósku, sem er í íslensku leiklistarlífi, og af hve miklum metnaði starfað er á þessum vettvangi. Er mikils virði að finna sem best jafnvægi á milli þeirra leikhúsa, sem starfa beint á vegum ríkis og sveitarfélaga, og hinna, sem hasla sér völl til að setja upp einstaka sýningar eða starfa saman á eigin forsendum til lengri eða skemmri tíma. Ríkið stendur þannig eitt að rekstri Þjóðleikhússins, Reykjavíkurborg er bakhjarl Leikfélags Reykjavíkur, sem er burðarásinn í Borgarleikhúsinu, milli menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar er samningur um menningarsamstarf og innan þess ramma er meðal annars samið um stuðning ríkisins við Leikfélag Akureyrar.

Í nýlegum leiklistarlögum er það sett sem skilyrði fyrir því að af hálfu ríkisins sé samið um stuðning við einstaka leikhópa eða leikfélög, að um þríhliða samning ríkis, leikfélags og sveitarfélags sé að ræða. Hefur þannig samningur til dæmis verið gerður um Hafnarfjarðarleikhúsið. Í Reykjavík hafa Möguleikhúsið og Leikfélag Íslands rætt, hvort unnt sé að gera slíkan samning með þátttöku ríkis og Reykjavíkurborgar, en á fjárlögum ársins 2002 er gert ráð fyrir 35 milljónum króna til svonefndra sjálfstæðra leikhúsa eða leikhópa og hækkar fjárhæðin um 10 milljónir króna frá því á árinu 2001. Þessu fé er ráðstafað á grundvelli tillagna frá Leiklistarráði, sem starfar lögum samkvæmt undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins.

Ég sá í DV, að talsmenn sjálfstæðu leikhópanna telja ekki nóg að gert og láta í veðri vaka, að tregða sé í menntamálaráðuneytinu við að verða við óskum þeirra og ekki sé unnt að bera við fjárskorti, af því að samið hafi verið um hækkun við Íslensku óperuna, en fyrir rúmum áratug var sú verkaskipting ákveðin, að ríkið skyldi styðja við bakið á Íslensku óperunni en Leikfélag Reykjavíkur yrði alfarið stutt af Reykjavíkurborg. Ef litið er til þeirrar hækkunar, sem varð á fjárveitingum til sjálfstæðu leikhúsanna á milli áranna 2001 og 2002, er ekki með nokkurri sanngirni unnt að kenna hana við tregðu og það á tímum, þegar meginstefna í ríkisfjármálum er að draga saman seglin í stað þess að auka útgjöldin. Hitt er rétt, að menntamálaráðuneytið hefur ekki tekið að sér að skuldbinda ríkissjóð til að auka þessi útgjöld stig af stigi upp í 85 milljónir króna fram í tímann, eins og talsmenn sjálfstæðu leikhúsanna óska, enda ekki á færi ráðuneytisins eins að ákveða slíkt, þar kemur til atbeini fjármálaráðuneytis, ríkisstjórnarinnar allrar og síðan alþingis, eins og jafnan þegar verið er að ráðstafa skattfé almennings.

Eins og sagði hér að framan var Gesturinn eftir Eric-Emmanuel Schmitt eitt þeirra leikrita, sem ég sá, en sýningin er samstarfsverkefni atvinnuleikhópsins Þíbilju og Leikfélags Reykjavíkur og er Þór Tulinius leikstjóri sýningarinnar, en hann var einn af stofnendum Þíbilju árið 1988. Ég hef fylgst með aðdraganda sýningarinnar í nokkur ár, því að vinur minn Gunnar Eyjólfsson leikari hvatti mjög til þess, að leikritið yrði þýtt á íslensku og hefur Kristján Þórður Hrafnsson gert það á kjarnmikinn hátt.

Gesturinn hefur aflað höfundi sínum frægðar í Frakklandi og víða um heim, þar sem verkið hefur verið sýnt og alls staðar vakið menn til umhugsunar um stöðu mannsins gagnvart Guði. Líklega höfðar leikritið ekki sérstaklega til þeirra, sem telja manninn upphaf og endi alls og hafna guðlegri forsjón, hina hvetur verkið til að líta í eigin barm og velta fyrir sér spurningum á borð við þær, sem Sigmund Freud glímir við á þeirri örlagastundu í lífi hans, sem þarna er lýst.

Það gaf frumsýningunni sérstakt gildi, að Eric-Emmanuel Schmitt var meðal áhorfenda. Hann sagði mér í hléi, að hann hefði ekki áður séð Freud túlkaðan með sömu snilldartökum og Gunnar Eyjólfsson gerði og þegar ég sagði, að allt frá upphafi hefði Gunnari verið mikið í mun að koma trúarlegu inntaki verksins á framfæri, sagði Schmitt að það væri einmitt í anda þess, sem verkið væri skrifað. Hitt væri ekki síður mikilvægt af hve mikilli tilfinningu Freud í höndum Gunnars kæmi fram við dóttur sína, kveikjuna að sálarangist hans. Og að leikritinu loknu var Schmitt ekki síður ánægður en í hlénu og þótti Ingvar Sigurðsson blómstra í takt við framvindu leiksins og fara á kostum í uppgjörinu í síðari hluta verksins, raunar sagði Schmitt, að í Frakklandi, þar sem leikritið var sýnt fyrir fullu húsi í fjögur ár samfellt, hefði það verið sýnt án hlés og hann hefði haft það að leiðarljósi við gerð þess.


Tækni- og vísindaráð.

Nú er um eitt og hálft ár liðið frá því, að ég hreyfði því fyrst á fundi með Rannsóknarráði Íslands, að nauðsynlegt væri að skapa vísinda- og tæknistarfsemi í landinu nýjan lagaramma og auka hlut vísinda og tækni við mótun almennrar efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar. Taldi ég það best gert með því að virkja ríkisstjórn og ráðherra undir forystu forsætisráðherra meira en áður í þágu þessara mála og skilgreina síðan betur en gert hefur verið skilin á milli vísinda og tækni samhliða því, sem hugað væri að leiðum til að hrinda því í framkvæmd, sem rannsóknir skila, hvort heldur grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir.

Mikilvægur áfangi náðist á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag 8. febrúar, þegar samþykkt var að fara með þrjú frumvörp um þessi mál inn á alþingi, það er um Vísinda- og tækniráð, sem flutt er af forsætisráðherra, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem flutt er af menntamálaráðherra, og frumvarp um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem flutt er af iðnaðarráðherra.

Helstu markmið með þessum breytingum er að stuðla að því að vísindarannsóknir og tækniþróun vaxi og dafni í takt við þjóðlíf, sem bæði þarf trausta undirstöðuþekkingu og tæknikunnáttu til að leysa verkefni samtímans. Með því verða áhrif rannsókna á þjóðarhag og hagvöxt gerð sýnileg og fá aukna opinbera umfjöllun. Einnig verður stuðlað að því að menntun ungra vísindamanna standist alþjóðlegar kröfur og mæti þörfum samfélagsins. Samhliða þessum narkmiðum leggi Íslendingar aukna áherslu á alþjóðasamstarf á sviði vísinda og tækni.

Í frumvarpi menntamálaráðherra er hlutverk Rannsóknasjóðs, sem tekur við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs samkvæmt núgildandi lögum, skilgreint á þann veg, að sjóðurinn styrki rannsóknir samkvæmt skýrum kröfum um vísindalegan framgang, birtingu og skil á vísindalegum niðurstöðum, hvort sem tilgangur er hagnýtur eða ekki. Ítarlegt faglegt mat á gæðum rannsóknaverkefna og færni þeirra einstaklinga, sem stunda rannsóknirnar, verður lagt til grundvallar. Samningur um styrkveitingu er bundinn við rannsóknir ákveðinna einstaklinga hvort sem þeir, eða fyrirtæki eða stofnanir sem þeir starfa hjá, eru formlegir umsækjendur eða aðilar samnings.

Síðan ég hreyfði hugmyndum um nýskipan þessara mála hafa orðið miklar umræður víða um kosti hennar og galla nú síðast á málþingi á vegum Reykjavíkurakademíunnar í janúar sl. Þótti mér, að fundarmenn tækju tillögunum almennt vel og vona ég, að sama viðhorf komi fram hjá þingmönnum og unnt verði að ljúka afgreiðslu frumvarpanna á næstu vikum, því að mikið er í húfi fyrir vísinda- og tæknisamfélagið, sem verður sífellt öflugra í íslensku þjóðlífi.


Útflutningur tónlistar.

Undanfarin ár hef ég sótt marga alþjóðlega fundi menningarmálaráðherra, þar sem rætt er um stöðu menningarlegra verðmæta á tímum alþjóðavæðingar og hvort eigi að fara með þau sem hverja aðra verslunarvöru eða skilgreina þau á öðrum forsendum til að gefa einstökum þjóðum færi á að rækta menningararf sinn á eigin forsendum. Óttast margir, að alþjóðavæðingin hafi í för með sér aðför að menningarlegum fjölbreytileika, en hann hafi gildi í sjálfu sér.

Á þessum fundum hef ég haldið fram því sjónarmiði, að ekki eigi að líta á alþjóðavæðinguna sem böl heldur skoða þau tækifæri, sem í henni felast. Hef ég nefnt sem dæmi um jákvæðan þátt, að íslenskir listamenn eigi nú greiðari aðgang en nokkru sinni inn á hinn alþjóðlega vettvang, ef þeir hafa á annað borð eitthvað marktækt að bjóða og nefni Björk, sem allir þekkja, þá til sögunnar, máli mínu til staðfestingar. Vilji ég árétta þetta sjónarmið enn frekar, get ég gert það með því að vísa í óteljandi greinar í margvíslegum tímaritum og blöðum, auk þess sem vikuritið The Economist nefndi einmitt Björk fyrir nokkrum árum í úttekt sinni á menningarlegri alþjóðavæðingu, til að draga fram sama atriði og mér er kappsmál að rökstyðja, að smáþjóðir með sérstaka menningu geta á auðveldari hátt en áður kynnt hana, eigi hún á annað borð hljómgrunn.

Ég hef sannfærst um það á þessum fundum, að vilji íslensk stjórnvöld með einum eða öðrum hætti styðja við bakið á þeim, sem eru að flytja út tónlist, sé nauðsynlegt að byggja ákvarðanir um slíkt á skýrum menningarlegum forsendum, svo að ekki sé talið, að um almenna útflutningsstyrki að ræða, sem brjóti í bága við almennar alþjóðareglur um alþjóðaviðskipti, sölu á vörum og þjónustu. Hef ég reifað þessi sjónarmið mín oftar en einu sinni í samræðum við tónlistarmenn og á öðrum vettvangi og lagt áherslu á, að hvað sem öðru liði, ætti slíkur sjóður heima hjá þeim stjórnvöldum, sem sinna menningarmálum, en ekki iðnaði og viðskiptum.

Ég rifja þetta upp hér vegna þess að skoðanir mínar á þessum málum hafa verið affluttar og er það einkum Jakob Frímann Magnússon, stjórnmálaandstæðingur minn og Sjálfstæðisflokksins, sem gengur þar fram fyrir skjöldu og talar eins og fulltrúi tónlistariðnaðarins. Hann tók til dæmis djúpt í árina í morgunútvarpi rásar 2 hinn 6. febrúar sl., þar sem hann hélt því blákalt fram, að ég hefði stöðvað útflutnings- og þróunarsjóð tónlistarinnar en mokað hundruðum milljóna króna í aðrar greinar! Síðan skeytti Jakob Frímann skapi sínu á Davíð Oddssyni forsætisráðherra og lét í veðri vaka, að ekki væri unnt að ná fundi hans vegna utanferða og sumarleyfa, sem er með ólíkindum miðað við skyldurækni Davíðs, sem aldrei dvelst lengur erlendis en brýn nauðsyn krefst og tekur sér ekki leyfi nema fáeina daga ár hvert.

Ég er þeirrar skoðunar, að málstaður þeirra tónlistarmanna, sem hér eiga hagsmuna að gæta, eigi skilið betri og málefnalegri málsvara en Jakob Frímann Magnússon. Honum er meira í mun að koma höggi á pólitíska andstæðinga en hafa það, sem sannara reynist. Hann ætti að huga að einkunarorðum hljómsveitarinnar Purrkur Pillnikk: Málið er ekki, hvað maður getur, heldur hvað maður gerir.