2.2.2002

Hallgrímur og R-listinn – afsögn Bolla - áhyggjur vegna ráðherrastóls.

Eins og þeir sjá, sem lesa ræðu mína á kjördæmisþingi sjálfstæðismanna í Reykjavík hinn 26. janúar, vitnaði ég þar í Hallgrím Helgason rithöfund máli mínu til stuðnings um það, að R-listinn hefði verið eins og dauð hönd á borgarsamfélagið. Greinilegt er, að ýmsir andstæðingar mínir vilja draga úr gildi þessarar tilvitnunar og orða Hallgríms á þeirri forsendu, að hann hafi einnig gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst í tengslum við atkvæðagreiðsluna um Vatnsmýrina. Mátti til dæmis heyra þetta í pistli Karls Th. Birgissonar í Spegli Ríkisútvarpsins í vikunni.

Karl Th. og fleiri, sem nota þætti sína í útvarpi, blöðum eða á netinu, til að bera blak af R-listanum á þeirri forsendu, að Hallgrímur hafi einnig gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn, sleppa vísvitandi mikilvægasta atriðinu í málinu. Vissulega var mér ljóst, þegar ég vitnaði í Hallgrím, að hann væri gagnrýnin á Sjálfstæðisflokkinn. Ég svaraði til dæmis einni af DV-greinum hans, þegar hann ræddi um skólamál og beindi gagnrýnum spurningum til mín.

Þessir málsvarar láta þess vísvitandi ekki getið, að Hallgrímur setur gagnrýni sína á R-listann fram undir þeim formerkjum, að hann hafi kosið hann, að vísu fullur efasemda, í kosningunum vorið 1998. Svo ég viti hefur Hallgrímur Helgason aldrei lýst yfir því, að hann hafi greitt Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt í kosningum. Hann nálgast hvorki mig né aðra frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins með því fororði, að hann hafi veitt okkur umboð til stjórnmálastarfa með atkvæði sínu og við höfum brugðist trausti hans.

Afsögn Bolla

Stjórnmálamenn geta brugðist trausti borgaranna með ýmsum hætti. Á kjördæmisþingi okkar sjálfstæðismanna laugardaginn 26. janúar ræddi Bolli Kristinsson, kaupmaður í versluninni Sautján, um skipulagsmál og greindi frá skemmtilegum hugmyndum sínum um leiðir til að styrkja miðborg Reykjavíkur. Hann sagði jafnframt frá störfum sínum í miðborgarstjórn, sem starfar undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Var hann ekki vonlaus um, að á þeim vettvangi mætti ná samstöðu um leiðir til að styrkja atvinnustarfsemi í miðborginni, þótt hann kenndi störfin í miðborgarstjórninni við teboð, fór hann jákvæðum orðum um þá aðferð að kalla hagsmunaaðila til samstarfs með þessum hætti. Er ég viss um, að allir, sem voru á fundinum, hafi verið þeirrar skoðunar, að Bolli teldi enn von til þess að ná árangri á þessum vettvangi.

Hinn 30. janúar birtist á hinn bóginn forsíðufrétt í Viðskiptablaðinu um að Bolli hefði sagt sig úr miðborgarstjórninni og hefði í huga að selja eignir sínar við Laugaveginn, þar sem ekki væru forsendur fyrir verslunarrekstri þar vegna afstöðu borgaryfirvalda í skipulags- og friðunarmálum. Bolli hefur sýnt því áhuga að taka að sér vinnu við að skipuleggja Laugaveginn sem verslunargötu með hugmyndum um frekari uppbyggingu og breytingar. Ingibjörg Sólrún hefur ekki getað samþykkt það en heldur ekki tekið af skarið og sagt nei. Þetta er reynsla margra í samkiptum við borgarstjóra – leitast er við að halda málum í biðstöðu í lengstu lög í stað þess að taka af skarið. Að sjálfsögðu treystir enginn sér til þess að stunda atvinnurekstur á gráu svæði og eiga allt sitt undir duttlungum embættismanna í skjóli stefnulausra stjórnmálmanna.

Í tilefni af þessari frétt Viskiptablaðsins skrifar Egill Helgason, stjórnandi Silfurs Egils, á vefsíðu sína grein 31. janúar undir fyrirsögninni: Þriðja flokks borg? Þar segir hann í upphafi:

„Það er ljótt ef satt er að Bolli Kristinsson, kaupmaður í Sautján, ætli að selja húsin sín við Laugaveg og hætta að versla þar. Illa má miðbærinn við þessu, ofan á allar búðirnar sem hafa verið að flæmast þaðan. Bolli segir í viðtali við Viðskiptablaðið að samkvæmt nýju deiliskipulagi verði Laugavegurinn með „þriðja flokks hús" sem geti aldrei hýst annað en „þriðja flokks verslanir"; þess sé ekki langt að bíða að Laugavegurinn verði ekki annað en „áframhald af Kolaportinu"....

Laugaveginn þarf að taka í gegn svo hann sé ekki lengur „þriðja flokks". Það á að fjarlægja niðurnídd og óhrjáleg timburhús og rýma til svo hægt sé að byggja almennilegt verslunarhúsnæði, rétt eins og Bolli segir. Reyndar hefur hann sjálfur gefið ágætt fordæmi með nýju húsi sem hann reisti við hliðina á versluninni Sautján og tekur mið af eldri steinhúsum neðar við Laugaveginn.“


Áhyggjur vegna ráðherrastóls.

Á liðnu sumri gekk Margrét Frímannsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fram fyrir skjöldu og krafðist þess, að ég segði af mér embætti menntamálaráðherra í hita umræðnanna um mál tengd Árna Johnsen. Var hart gengið að mér af fjölmiðlum vegna þessa, eins og þessi afstaða Margrétar væri sérstaklega fréttnæm. Mér þótti svo ekki vera, vegna þess að ég veit ekki til þess, að Margrét Frímannsdóttir hafi nokkurn tíma viljað, að ég yrði ráðherra, hvað þá heldur að hún hafi nokkru sinni stutt mig, ef upp hafa komið ágreiningsmál á starfssviði menntamálaráðherra.

Þetta kemur mér í hug, þegar ég les greinar eftir pólitíska andstæðinga mína vegna framboðs míns til borgarstjórnar, þar sem þeir eiga ekki nógu sterk orð til að lýsa undrun og áhyggjum yfir flestu, sem því tengist. Nefni ég þar til dæmis grein eftir Bryndísi Hlöðversdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, sem birtist í DV föstudaginn 1. febrúar, þar sem hún segist undrandi á því, hve illa undirbúinn ég mæti í baráttuna og vísar þar sérstaklega til afstöðunnar til ráðherrastólsins eins og Össur Skarphéðinsson hefur einnig gert. Komandi kosningar snúast hins vegar ekki um þann stól heldur borgarstjórn Reykjavíkur – að sjálfsögðu er það alveg ástæðulaust fyrir þessa andstæðinga mína að hafa þessar áhyggjur, þeir hafa hvort sem er alltaf viljað, að ég færi úr ráðherrastólnum.

Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur setur sig í stellingar fréttaskýranda í DV-grein þennan sama föstudag og kemst að þeirri niðurstöðu, að málverk af föður mínum í bakgrunni ljósmyndar af Ingu Jónu Þórðardóttur, þegar hún tilkynnti stuðning við mig sem borgarstjóraefni sjálfstæðismanna, sé til marks um einhvern óbærilegan þrýsting á Ingu Jónu, þegar hún tók ákvörðun sína. Öll er þessi frásögn Steinunnar hin sérkennilegasta, en R-listafólk virðist viðkvæmt fyrir málverkum af föður mínum. Á sínum tíma var það fréttaefni, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fjarlægði málverk Svölu Þórisdóttur af föður mínum úr Höfða.

Steinunn ræðir framboð í Reykjavík með sama líkingamáli og Ingibjörg Sólrún, þegar hún ræðir um krúnuröð og erfðaprinsa. Ég sagði á fundi sjálfstæðismanna, að R-ið í heiti R-listans stæði fyrir ráðleysi en ekki Reykjavík. Af tali R-listafólksins um hátignir vegna framboðsmála mætti ætla, að R-ið standi fyrir Royal – eða konunglegt.