29.1.2002

Fyrsta skoðananakönnunin – spuni Marðar og Össurar

Það hefur orðið uppi fótur og fit hjá ýmsum í dag vegna skoðanakönnunar Fréttablaðsins, sem sýnir, að R-listinn mundi sigra okkur sjálfstæðismenn í Reykjavík og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur mun meira fylgis en ég sem borgarstjóri.

Ég var í þættinum Í býtið á Stöð 2 klukkan 08.05 í morgun og ræddi málið. Sagði ég þar, að í Sundhöllinni fyrr um morguninn hefði mér helst dottið í hug, að þessi könnun væri eins og menn væru að spá í niðurstöðu í sundkeppni, þar sem annar sundmaðurinn væri á góðum skriði í lauginn en hinn að klæða sig í skýluna.

Þessi könnun er ekki annað en áminning fyrir mig og aðra um það, að þetta verður ströng barátta og árangur næst ekki nema allir leggist á árarnar, sem vilja að andstæðingar R-listans nái fyrstir í mark.

Frá því að ég kynnti ákvörðun mína sl. laugardag hef ég fengið fjölmörg tölvubréf með stuðningi og góðum ábendingum og er ljóst, að margir vilja leggja málstað okkar sjálfstæðismanna lið. Finn ég, að það hefur víða góðan hljómgrunn að vakin sé athygli á þeim stjórnarháttum R-listans, að líta framhjá óskum borgaranna, ekki síst þegar skipulagsmál eru annars vegar.

Spuni Marðar og Össurar

Furðulegt upphlaup varð á alþingi sl. mánudag í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, þegar Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, steig þar í stól með myndband og sagði, að á því mætti sjá, að ég hefði sagt ósatt í Silfri Egils, þegar ég neitaði því, að ég hefði lofað því, að Þjóðminjasafnið yrði opnað á ákveðnum degi. Engir vita það betur en stjórnendur safnsins, að ég hef varað hvað eftir annað við því, að nefndar séu ákveðnar dagsetningar í þessu sambandi, enda hefur öll áætlanagerð tekið langan tíma auk þess sem fjárfestingum ríkisins er haldið innan stangra marka. Stig af stigi hefur Þjóðminjasafninu hins vegar verið búin ný umgjörð á öllum sviðum og nú er unnið að því að endurreisa hús þess við Suðurgötu. Þetta upphlaup Marðar átti að rétta hlut Ingibjargar Sólrúnar í sjónvarpsviðtalinu við mig.

Líklega vill Mörður viljað, að það sé haldið á málefnum Þjóðminjasafnsins og uppbyggingu þess með sama hætti og gert var undir stjórn R-listans við nýbyggingu við Borgarleikhúsið eða endurbætur á Hafnarhúsinu fyrir Listasafn Reykjavíkur, þar sem engar áætlanir stóðust og viðurkennt var, að eftirlitskerfið með útgjöldum við framkvæmdirnar hefði brugðist.

Hitt er hefur ekki síður verið skrýtilegt að lesa það, sem Össur Skarphéðinsson hefur að segja um setu mína í stól menntamálaráðherra, eftir að ég lýsti yfir framboði til borgarstjórnar. Hann lætur í veðri vaka, að það sýni hálfvelgju í framboði mínu, að ég hafi ekki þegar látið af ráðherrastörfum og auk þess ætli ég bara að sinna borgarmálum fram að kosningunum.. Þetta er mikill misskilningur hjá formanni Samfylkingarinnar og spuni af sama meiði og hjá Merði, að það þurfi að gera hlut minn sem verstan til að ýta undir virðingu Ingibjargar Sólrúnar. Össur lætur þess hins vegar ekki getið í þessum skrifum sínum, að hann hefur kveðið manna fastast að orði um það, að Ingibjörg Sólrún eigi að loknum kosningum í vor að snúa sér að landsmálum og leiða Samfylkinguna í þingkosningum vorið 2003 – er ég ekki í minnsta vafa um að Össur flaggar sérstaklega setu minni í ráðherrastólnum til að draga athygli frá þessari hvatningu hans til Ingibjargar Sólrúnar.

Kjörnefnd vinnur nú að því að móta framboðslista okkar sjálfstæðismanna. R-listinn verður til með allt öðrum hætti í fjórum herbúðum, það er hjá Samfylkingunni, þar sem þau Helgi Hjörvar, Hrannar B. Arnarson og Steinunn Óskarsdóttir takast á um tvö sæti, hjá vinstri/grænum þar sem bullandi óánægja er með R-listann en sumir hugga sig við að Árni Þór Sigurðsson fái fyrsta sætið á listanum, hjá Framsóknarflokknum, þar sem Sigrún Magnúsdóttir á undir högg að sækja og einfarinn Alfreð Þorsteinsson telur sig hafa í fullu tré við andstæðinga sína, og hjá Ingibjörgu Sólrúnu, sem raðar sér sjálf eins og áður í 8. sætið og vill nú ráða hinu 7. og finna þar arftaka sinn, þegar hún fer í landsmálin, - en í röðum R-listafólks ganga menn að því sem vísu, að það muni gerast á næsta kjörtímabili.