27.1.2002

Framboð ákveðið – krúnuröð R-listans - ábyrgð framsóknarmanna

Nú hefur teningunum loksins verið kastað, sögðu margir við mig í gær, laugardaginn 26. janúar, þegar ég hafði lýst yfir því, að ég ætlaði að gefa kost á mér sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í þéttsetnum Súlnasal Hótel Sögu. Mörgum hefur þótt leiðin að þessari ákvörðun löng og mörg orð hafa fallið á þessari leið, sem eru dauð og ómerk, þegar upp er staðið. Frýjunarorð og hrakspár vinstrisinna hafa orðið að engu og þeir eiga erfitt með að ná vopnum sínum, þegar fyrir liggur, að samstaða hefur náðst innan Sjálfstæðisflokksins um mál, sem andstæðingar hans vildu, að leiddi til óvinafagnaðar.

Atburðarás liðinnar viku hefur verið hröð. Þriðjudaginn 22. janúar boðaði Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, til blaðamannafundar kl. 14.00 í Valhöll og dró framboð sitt í fyrirhuguðu leiðtogaprófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík til baka. Gerði hún þetta í trausti þess, að ég mundi leiða framboðslistann.

Viðbrögð andstæðinga flokksins létu ekki á sér standa. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í Morgunblaðinu 23. janúar: „Það er auðvitað greinilegt að hér hafa heilmikil flokksátök átt sér stað. Þarna er erfðaprins á ferð og það þarf að ryðja hindrunum úr vegi hans að krúnunni. Það er forysta flokksins sem gerir það en hinn almenni flokksmaður kemur þar hvergi nærri.“

Mér þóttu þetta sérkennileg viðbrögð. Í fyrsta lagi vegna þess, að engin flokksátök voru aðdragandi að ákvörðun Ingu Jónu. Hún tók ákvörðun sína án slíkra átaka og skýrði Davíð Oddssyni frá henni skömmu fyrir þingfund, sem hófst kl. 13.30 þennan dag og eftir 30 mínútna umræður utan dagskrár í upphafi þingfundar, þar sem Davíð ræddi um efnahagsmál, hnippti hann í mig og sagði mér frá því, að blaðamannafundurinn færi fram á þessari stundu. Í öðru lagi finnst mér Ingibjörg Sólrún komast einkennilega að orði, því að hún talar um stöðu sína í konunglegu samhengi með því að ræða um erfðaprinsa og krúnur, en ég hef alltaf haft aðrar hugmyndir um það, sem felst í lýðræðislegum stjórnmálastörfum.

Eyþór Arnalds hafði lýst yfir því eins og Inga Jóna, að hann ætlaði í leiðtogaprófkjör, en dró sig til baka miðvikudaginn 23. janúar í fullvissu þess, að ég mundi gefa kost á mér. Hann sagði jafnframt, að ekki væri þörf á sérstöku leiðtogaprófkjöri. Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi var talinn líklegur þátttakandi í leiðtogaprófkjöri en hann sendi frá sér yfirlýsingu föstudaginn 25. janúar, skýrði afstöðu sína og lýsti yfir stuðningi við mig.

Þegar stjórn Varðar kom saman í hádeginu laugardaginn 26. janúar, ákvað hún að gera enga tillögu um leiðtogaprófkjör til aðalfundar Varðar, sem hófst klukkan 13.15 þennan dag. Kom engin slík tillaga fram frá öðrum á fundinum og ríkti þar mikill einhugur og samstaða um öll mál.

Fimmtudaginn 24. janúar fóru fram umræður utandagskrár á alþingi um það, hvort sýna ætti frá heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu í íslensku sjónvarpi. Í umræðunum fóru stjórnarandstæðingar um víðan völl og ræddu jafnvel meira um framtíðaráform mín í stjórnmálum en heimsmeistarakeppnina. Töldu ýmsir, að þessi orð mín í lok umræðnanna: „En ég held að sú keppni sem ég er að fara í verði örugglega sýnd í sjónvarpinu áfram hvað sem orðum Sverris Hermannssonar líður,“ væru fyrsta tilkynning um framboð mitt til borgarstjórnar.

Eftir að ég skýrði frá ákvörðun minni fór ég um laugardagskvöldið í viðræðuþátt hjá Árna Snævarr á Stöð 2 og rúmlega 13.00 í dag fór ég í Silfur Egils og hitti þar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, sem fór mikinn eins og venjulega og þótti mér vænt um, að hún hafði af vandvirkni lesið ræðuna, sem ég flutti á fundi sjálfstæðismanna, og minnti á að hana mætti finna á netinu.

Ég met mikils þá samstöðu, sem hefur skapast innan Sjálfstæðisflokksins um framboð mitt. Í öllum vangaveltum mínum um þetta mál hef ég haft að leiðarljósi, að stofna ekki til ágreinings innan flokksins, því að það væri ekki gott veganesti í komandi átökum við R-listann.

Krúnuröð R-listans.

Skýrt var frá því í vikunni, að hinir „þrír vitru menn“ R-listans hefðu ásamt Ingibjörgu Sólrúnu komist að niðurstöðu um það í hvaða röð menn ættu að vera á R-listanum frá einstökum flokkum eða sem sérlegir sameiginlegir fulltrúar þeirra með sérstöku samþykki borgarstjórans. Allt fram á síðustu stundu hafði Samfylkingin gert kröfu um fyrsta sætið á listanum, sem í krúnuröð R-listans er talið tryggja forsæti í borgarstjórn. Nefnd hinna útvöldu vitringar og borgarstjórinn höfðu hins vegar komist að þeirri niðurstöðu, að vinstri/grænir skyldu hækkaðir í krúnuröðinni og taka fyrsta sætið. Jafnframt var ákveðið að sjöunda sætið, hið næsta borgarstjóranum, sem sitja mun í hinu áttunda, yrði frátekið sérstaklega og er litið á það sem erfðaprinsastólinn, ef drottningunni sjálfri verður hafnað af kjósendum.

Eftir að þessi hátíðlegi úrskurður hafði verið kynntur, var skýrt frá því, að einstakir aðilar að R-listanum hefðu nánar skilgreindan tíma til að ákveða, hvernig þeir ætluðu að standa að því að draga í dilkana sína og síðan hefðu vitringarnir ákveðið enn lengri frest til að finna nöfnin.

Allt er þetta valdamakk í órafjarlægð frá þeim aðferðum, sem við sjálfstæðismenn notum við val á fulltrúum okkar, og helgast það af því, að við byggjum á lýðræðislegum reglum og hefðum, sem krefjast þess að farið sé að samþykktum skipulagsreglum, en hjá R-listanum laga menn skipulagið að þörf valdamannanna hverju sinni.

Sérstakur vandi R-listans felst í því, að vinstri/grænir vilja, að þannig sé um hnúta búið, að Ingibjörg Sólrún hlaupist ekki undan merkjum í landsmálin á kjörtíambilinu. Verður forvitnilegt að sjá undir hvaða jarðarmen hún gengur vegna þessarar kröfu.

Ábyrgð framsóknarmanna.

Krúnuröðin er þó aðeins önnur hliðin á vanda R-listans. Hin lýtur að gerð stefnuskrárinnar, en vinstri/grænir telja alltof linlega tekið á málum með vísan til hugmyndafræði sinnar. Í viðræðum okkar Ingibjargar Sólrúnar í Silfri Egils í dag, þótti mér merkilegt að heyra hana í fyrsta sinn kenna einstök vandræðamál R-listans við einstaka flokka innan hans, þegar hún sagði mig í ræðu minni, einkum hafa vikið að málaflokkum á ábyrgð framsóknarmanna og sagt þau í ólestri.

Hvað skyldu framsóknarmenn segja um þessa túlkun hennar? Hún kom mér að minnsta kosti í opna skjöldu og í framhaldi af henni vakna spurningar um aðra málefnaskiptingu innan R-listans og hvernig ábyrgð á þessum málaflokkum er háttað. Er verkefnaskipting þannig, að borgarstjóri stendur utan við úrlausn mála? Hefur hún svipaða stöðu innan stjórnkerfis borgarinnar og forseti Íslands í stjórnkerfi ríkisins, að bera ekki neina ábyrgð á stjórnarathöfnum?