19.1.2002

Forsendur ákvörðunar – mat andstæðinga

Þegar ég sótti endurmenntunarnámskeið í John F. Kennedy School of Government í Boston vorið 2000 var þar kennari, sem á sínum tíma tók þátt í stjórnmálabaráttu. Hann ákvað hins vegar að segja skilið við stjórnmálin og gaf þá skýringu, að hann hefði fengið nóg, þegar hann sá myndir af sér á auglýsingaskiltum fyrir kosningar og fór að velta því fyrir sér, hvort hann væri virkilega sá maður, sem þar var sýndur.

Svipuð hugsun hlýtur að sækja að öllum, sem bjóða sig fram til opinberra starfa og gefa þar með einnig kost á að rætt sé um þá og verk þeirra undir smásjá fjölmiðla og manna á meðal. Er óhjákvæmilegt, þegar óskað er eftir að fólk taki afstöðu til þessara einstaklinga, að öllum sé gert kleift að gera það með sem haldbestar upplýsingar að leiðarljósi. Enginn veit, hvað vegur þyngst í mati manna, og oft er sagt, að minnstu atriðin, sem skírskoti til flestra, ráði meiru en úrlausn flókinna málefna, sem í raun er aðeins á færi sérfræðinga að skilja og skilgreina.

Eðlilegt er, að ég velti þessum hlutum fyrir mér núna eftir mun eindregnari stuðning um taka að mér forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í málefnum Reykjavíkurborgar, samkvæmt skoðanakönnun í DV fimmtudaginn 17. janúar, en ég vænti. Ljóst er, að tíminn til að taka ákvörðun um þátttöku í kjöri um borgarstjóraefni sjálfstæðismanna styttist, því að í gær samþykkti miðstjórn flokksins tilmæli Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, um að slíkt prófkjör mætti fara fram og verður endanleg ákvörðun um það væntanlega tekin laugardaginn 26. janúar næstkomandi.

Vangaveltur vegna framboðsmála sjálfstæðismanna í Reykjavík hafa staðið lengi og sumum þykir vafalaust of lengi. Á hitt er hins vegar að líta, að það var ekki fyrr en fimmtudaginn 10. janúar sl., sem stjórn Varðar ákvað að beina fyrrgreindum tilmælum sínum til miðstjórnarinnar auk þess að efna til skoðanakönnunar meðal fulltrúaráðsmanna, en kjörnefnd ákvað fyrirkomulag hennar 12. janúar og henni var síðan hrundið í framkvæmd með bréfi, sem var sent hinn 14. janúar. Eins og menn sjá á pistli mínum hér á síðunni frá 10. janúar leit ég þannig á að þessi skoðanakönnun Varðar gæfi fulltrúaráðinu kost á að sýna hug sinn til þess, hvort ég ætti að skipta um starfsvettvang í þágu sjálfstæðismanna í Reykjavík en stjórnmálastörfum sinni ég í umboði þeirra.

Þegar fjölmiðlamenn sáu reglurnar, sem gilda um skoðanakönnunina, fékk ég fyrirspurn um þær og svaraði Ásgeiri Friðgeirssyni á netmiðlinum Pressunni strik.is hinn 15. janúar með þessum hætti:
„Að sjálfsögðu virði ég þær reglur, sem settar eru af kjörnefnd og öðrum við val á mönnum á framboðslista Sjálfstæðisflokksins og sé það svo, að ekki sé unnt að fara í senn að þeim og láta í ljós, hvort fulltrúaráðið vilji þátttöku mína í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna í vor, hlýt ég afla mér vitneskju um vilja ráðsins og flokksmanna með öðrum hætti. Er ég viss um, að formaður ráðsins og kjörnefndar hafa leitt hugann að þessum þætti við útfærslu á þeim reglum, sem settar hafa verið um skoðanakönnunina. Könnunin er ekki hluti af leiðtogakjörinu svonefnda. Um það þarf réttilega að taka aðra ákvörðun meðal annars af miðstjórn flokksins og frestir vegna þess hafa ekki verið ákveðnir og finnst mér rétt að nota vel þann tíma, sem til stefnu er. Þetta eru mikilvægar ákvarðanir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ástæðulaust að hrapa að neinu varðandi þær.”

Niðurstaðan í skoðanakönnun DV er svo ótvíræð, að það virðist almennt mat, að ekki þurfi frekari vitnanna við um vilja borgarbúa í þessu efni, jafnt sjálfstæðismanna sem annarra. Er þetta meðal annars haft eftir Ingu Jónu Þórðardóttur, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur í Morgunblaðinu í dag, 19. janúar: „Hann [Björn] hlýtur að vera búinn að fá nægar vísbeningar um hljómgrunn fyrir hans framboði til að geta tekið ákvörðun.” Ekki er síður mikilvægt, að stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, stærsta flokksfélagsins, hefur tekið þá óvenjulegu ákvörðun að hvetja mig til framboðs.

Hinn þáttur málsins, sem snýr að mér og ég minntist á í samtali við fréttamann sjónvarpsins hinn 17. janúar, er sú staðreynd, að ég ber pólitíska og stjórnarfarslega ábyrgð sem menntamálaráðherra. Hlýtur sá þáttur að sjálfsögðu einnig að móta ákvörðun mína, því að ekki vil ég kveðja hið umfangsmikla starf á þeim vettvangi með þeim hætti, að mér verði legið á hálsi fyrir að skilja eitthvað þar eftir í reiðileysi. Yrði það ekki gott veganesti í baráttu á nýjum stjórnmálavettvangi.

Mat andstæðinga

Mörg orð hafa verið látin falla í umræðum um þessi mál síðustu daga í fjölmiðlum og hef ég ekki vitneskju um nema brot af því og þá helst það, sem birtist á prenti eða netinu. Sá, sem bregst einna verstur við hugsanlegu framboði mínu er Sverrir Hermannsson, þingmaður og forystumaður Frjálslynda flokksins, en í samtali við blaðamann DV veður hann elginn eins og honum einum er tamt, og segir mig standa fyrir „áflogum” í Sjálfstæðisflokknum án þess rökstyðja það nánar. Satt að segja koma þessar ásakanir úr hörðustu átt, þegar Sverrir á í hlut, því að orðið „áflog” á líklega ekki betur við um nokkurn stjórnmálamann en einmitt hann sjálfan og má færa mörg rök fyrir þeirri fullyrðingu úr stjórnmálasögu síðustu áratuga, en Sverrir fjallar eins og kunnugt er einkum um þá sögu á þeim fölsku forsendum, að hann sé handhafi sjálfstæðisstefnu Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, en við í Sjálfstæðisflokknum höfum gengið í björg frjálshyggjunnar undir forystu Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar! Býr ekki nein hógværð að baki því að hefja sjálfan sig á stall með þessum hætti á kostnað genginna forystumanna og berja á þeim, sem halda merki flokks þeirra hátt á loft.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, leiðtogi R-listans og borgarstjóri, lítur á ákvarðanir innan Sjálfstæðisflokksins um borgarstjóraefni flokksins sem „krúnuslag” milli Geirs H. Haade, fjármálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, og mín, en hún segir í DV miðvikudaginn 16. janúar: „Mér finnst öll aðkoma Björns í þessu máli bera þess merki að hann lítur fyrst og fremst á aðkomu sína að borgarmálunum sem tilraun til að styrkja stöðu sína sem tilraun til að styrkja stöðu sína gagnvart Geir Haarde sem arftaka Davíðs Oddssonar á formannsstóli.” Í stjórnmálum sem endranær er vænlegast til árangurs að skilgreina stöðu sína rétt og á haldgóðum forsendum, en svo virðist af þessum orðum, að Ingibjörg Sólrún tapi fljótt áttum, þegar hún ræðir þessi mál og mitt nafn ber á góma, sást það fyrst greinilega á liðnum vetri, þegar við hana var rætt í DV 24. febrúar 2001 en um það viðtal fjallaði ég til dæmis í pistli hér á síðunni hinn 4. mars 2001.

Ég tek undir með Guðrúnu Guðlaugsdóttur blaðamanni, sem spyr í tímabærri Morgunblaðsgrein föstudaginn 18. janúar sl.: Er Davíð að hætta? Lesi menn það, sem ég hef ritað um málefni Sjálfstæðisflokksins hér á þessari síðu undanfarin sjö ár, geta þeir ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri, að mér er einlægt kappsmál, að þjóðin og Sjálfstæðisflokkurinn njóti forystu og starfskrafta Davíðs Oddssonar sem lengst.

Ég skil ekki, hvers Ingibjörg Sólrún telur sér til framdráttar í umræðum um framboðsmál okkar sjálfstæðismanna að setja þau í það ljós, sem hún gerir í DV. Það er ekkert tómarúm í forystusveit Sjálfstæðisflokksins, hins vegar er það hróplega greinilegt í Samfylkingunni, flokki Ingibjargar Sólrúnar, og núverandi formaður þess flokks, Össur Skarphéðinsson, hefur sagt, að hann vilji Ingibjörgu Sólrúnu í sinn stól og flestir sjá það eina lífsmarkið með þeim flokki fyrir þingkosningar vorið 2003 að Ingibjörg Sólrún segi skilið við borgarmálin fyrir þann tíma og taki við forystu flokksins á landsvísu.