13.1.2002

Sjö ára afmæli vefsíðu - menningarleg vernd - The Economist og íslenskan

Hinn 18. janúar 1995 setti ég fyrsta pistilinn inn á vefsíðu mína, þannig að nú dregur að sjö ára afmæli hennar. Mikil breyting hefur orðið í miðlun á Netinu á þessum árum og umhverfið er allt annað núna en fyrir sjö árum. Síðan mín hefur í sjálfu sér lítið breyst á þessum tíma, en ég leit í upphafi fyrst og fremst á hana sem leið til að halda utan um ýmislegt efni, eins og sjá má af því magni af greinum og ræðum, sem er hér að finna. Einnig hef ég haldið dagbók um flest af opinberu tagi, sem á daga mína hefur drifið á þessum árum, án þess að geta um reglulega hluti eins og fundi í ríkisstjórn eða á alþingi. Pistlar, að jafnaði vikulegir, hafa dregið mesta athygli að síðunni. Fyrir nokkru bauð ég þeim, sem það vildu, að skrá sig á póstlista hjá mér til að fá pistlana senda og skipta þeir mörgum hundruðum, sem nýta sér það.

Mér virðist sem almennt séu menn sæmilega sáttir við það núna, að ég haldi úti þessari síðu, en í upphafi heyrði ég þá skoðun, að það væri tæplega við hæfi, að ráðherra miðlaði skoðunum sínum með þessum hætti. Vil ég þakka þeim þúsundum, sem hafa notað síðuna til að senda mér bréf, athugasemdir, hvatningu eða fyrirspurnir. Hef ég leitast við að svara öllum þessum bréfum.

Ég met það mikils að eiga kost á því að vera í sambandi við umbjóðendur mína með þessum hætti, á meðan ég gegni stjórnmálastörfum. Um þessar mundir er ég að velta fyrir mér, hvort ég eigi að beina þessum störfum í nýjan farveg. Við töku ákvarðana um það hefur enn verið ómetanlegt að hafa þessa samskiptaleið og beita henni til að átta sig á afstöðu fólks, sem hefði líklega ekki sest niður til að senda mér venjulegt bréf eða hringt til mín í síma.

Ég notaði síðuna mína síðastliðinn fimmtudag til dæmis til að lýsa afstöðu minni til þeirrar ákvörðunar Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, að efna annars vegar til skoðanakönnunar um nöfn nýrra frambjóðenda í borgarstjórnarkosningunum í vor og hins vegar um að leita heimildar miðstjórnar flokksins um svonefnt leiðtogaprófkjör. Hef ég síðan fengið fjölda tölvubréfa með hvatningu um að láta slag standa. Þakka ég þann stuðning og annarra, sem hafa látið sig málið varða með opinberum hætti hér á Netinu eða í fjölmiðlum. Allt auðveldar þetta mér að komast að niðurstöðu. Raunar fóru tölvubréfin um þetta mál að berast mér undir lok febrúar á síðasta ári, eftir að Hrafn Jökulsson birti fyrstu fréttina um málið á netmiðlinum Pressunni.Það er greinilegt, að á þeim sjö árum, sem liðin eru frá því að fyrsti pistillinn minn birtist hér á þessum stað, hefur Netið skapað nýja vídd í stjórnmálaumræðunum, sem skiptir sífellt meira máli. Stjórnmálamenn, sem nýta sér hana ekki, fara mikils á mis.

Fjöldi manns hefur í áranna rás aðstoðað mig tæknilega við að halda síðunni úri og færi ég þeim öllum innilegar þakkir, einnig þeim, sem á sínum tíma fóru yfir efnið, flokkuðu það og settu með þeim hætti, að unnt er að leita í því.

Menningarleg vernd

Á dögunum fékk ég tækifæri til að sjá kvikmynd, sem Erlendur Sveinsson hefur gert um síðustu æviár föður síns, Sveins Björnssonar listmálara. Myndin en tæplega tveggja tíma löng og það, sem skilur hana frá hefðbundinni heimildarmynd er undiraldan í þræðinum, trúarstefið, náttúran, sköpunarmátturinn og undirbúningurinn undir dauðann.

Ég sé, að höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í dag, 13. janúar, hefur einnig séð þessa ágætu mynd nýlega og hún hefur orðið honum hvatning til að velta fyrir sér leiðum til að vernda menningarleg verðmæti.

Kvikmyndin er áleitin löngu eftir að maður hefur séð hana. Hún snýst um Svein Björnsson en er algild heimild um einmanaleika skapandi listamanns, sem stendur frammi fyrir kröfum listgyðjunnar, þar sem engar málamiðlanir eru leyfðar, allt eða ekkert eru kostirnir. Hún sýnir okkur einnig, hvaða leiðir er unnt að fara til að varðveita þessa skapandi þætti í menningu okkar.
Nú sé ég, að þeir félagar Erlendur og Sigurður Sverrir Pálsson hafa ráðist í að gera kvikmynd um Matthías Johannessen en henni var lýst þannig í Morgunblaðinu hinn 9. janúar sl.:

„Frásagnarrammi kvikmyndarinnar verður venjulegur dagur í lífi Matthíasar, þar sem hann á annasaman dag í ritstjórastarfinu, en skapar sér jafnframt rými til skáldskapariðkunar. „Við fylgdum honum eftir um mánaðarskeið síðasta haustið sem hann gegndi ritstjórastarfinu og lukum svo að mestu tökum á heimi skáldsins nú í haust. Dagurinn sem myndar frásagnarramma myndarinnar er þó fyrst og fremst táknrænn dagur í tilveru skáldsins og ritstjórans. Hann er samsettur úr mörgum dögum, og beinist því ekki að einu ákveðnu máli á t.d. Morgunblaðinu, heldur er hugmyndin sú að gefa tilfinningu fyrir störfum Matthíasar."

Erlendur bendir á að tíminn myndi nokkurs konar grunnþema í kvikmyndinni, og þar sé einnig glímt við tvo ólíka tímaheima. „Annars vegar er um að ræða klukkuna sem tifar á Morgunblaðinu, og minnir á að blaðið þarf að koma út í dagslok, hvað sem á gengur. Hins vegar fær Matthías á þessum sama degi rými til að sinna skáldskapnum og þar ræður ríkjum allt annars konar tími, nokkurs konar eilífðartími skáldskaparins."”

Verður spennandi að sjá, hvernig til tekst með myndina um Matthías, eitt er víst, að myndin Málarinn og sálmurinn hans um litinn um Svein lofar góðu. Í hraða samtímans er mikilvægt að leggja rækt við menningarlega vernd í víðum skilningi. Það fennir fljótt í sporin, þegar eitt verkefni tekur við af öðru.

Þegar rætt er um verndun menningarverðmæta og hina nýju upplýsinga- og stafrænu tækni er ekki unnt að líta fram hjá því, sem gert hefur verið hér á landi til að nýta hana í þessu skyni og miðla vitneskju um þessi verðmæti með nýjum hætti. Fyrir alþingi liggur nú frumvarp um skilaskyldu til safna, sem tekur mið af nýjum kröfum varðandi varðveislu af þessum toga. Þá hefur verið gert átak til að skrá muni og minjar með nýjum hætti og nægir þar að nefna Sarp Þjóðminjasafns Íslands. Listasafn Íslands hefur með gagnagrunni sínum opnað okkur nýjar leiðir til að kynnast þeim verðmætum, sem þar eru geymd, eins og sjá mátti á nýlegri yfirlitssýningu um Gunnlaug Scheving. Fé er nú veitt úr ríkissjóði í sérstaka deild kvikmyndasjóðs til að styrkja gerð heimildarmynda. Stofnun Árna Magnússonar er að vinna að því að kynna handritin með stafrænum hætti og með samvinnu Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns og Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum hefur verið gerður sagnavefur, sem geymir gífurlegt magn íslenskra handrita og þannig mætti engi áfram telja.

The Economist og íslenskan

Í jólablaði vikuritsins The Economist er grein um sigurgöngu enskrar tungu á heimsvísu og stöðu ýmissa annarra tungumála. Sagt er að enskan sé alls staðar, hún sé fyrsta mál 380 milljóna manna og um milljarður manna sé að læra hana, um þriðjungur mannkyns sé undir áreiti hennar og spáð sé, að árið 2050 muni um helmingur jarðarbúa hafa enskuna á valdi sínu en hún sé tunga alþjóðavæðingarinnar, alþjóðaviðskipta, stjórnmála og í alþjóðasamskiptum. Tunga tölva og Netsins. Menn sjái hana á veggspjöldum á Fílabeinsströndinni, heyri hana sungna í Tokyo og lesi hana í opinberum skjölum í Phnom Penh. Deutsche Welle noti hana í útsendingum sínum. Hin íslenska Björk syngi á ensku og hún sé kennslumál í frönskum viðskiptaháskólum. Enska sé vinnumál á ríkisstjórnarfundum í Bólivíu. Blaðið hefði einnig getað látið þess getið, að ungt fólk á Norðurlöndum kjósi ensku sem samskiptamál sín á milli og einnig sé hún notuð í vaxandi mæli milli ólíkra tungumálahópa í Sviss.

Í The Economist er sérstaklega rætt um baráttu Frakka gegn áhrifum enskunnar og sagt, að varnirnar séu að bresta. Í Alcatel, fyrrverandi landssíma Frakka, sé enska notuð sem vinnumál. Franskir vísindamenn átti sig á því, að annað hvort birti þeir greinar á ensku eða leggi upp laupana. Minnt er á, að Jacques Toubon, menningarmálaráðherra Frakka, reyndi um miðjan síðasta áratug að halda erlendum orðum utan málhelginnar en síðan hafi Claude Allègre orðið menntamálaráðherra og 1998 hafi hann sagt: „Ekki á lengur að líta á ensku sem erlent tungumál...Þegar fram líða stundir verður staða hennar hin sama [í Frakklandi] og lestrar, skriftar og stærðfræði.”

Í The Economist segir: „Íslendingum hefur tekist einstaklega vel að halda lífi í tungu fornsagnanna, þótt aðeins um 275.000 manns tali hana. Þeir hafa gert það með nýyrðum í stað þess að innbyrða erlend orð. Þjóðverjar hafa til dæmis aldrei vanist á að nota orðið Fernsprechapparat þegar Telefon er tiltækt og Frakkar hafa löngum kosið le shopping og le weekend í stað orða á eigin máli, Íslendingar hafa hins vegar tekið upp orðið „alnæmi” fyrir aids, „skjár” fyrir video monitor og „tölva” fyrir computer. Hvers vegna? Að hluta til vegna þess, að nýju orðin eiga í raun að mestu gamlar rætur... Kunnugleiki auðveldar mönnum að skilja orðin. Hitt spillir síðan ekki fyrir, að Íslendingar eru mjög stoltir af tungu sinni og bókmenntum, og hvatinn til að viðhalda hvoru tveggja er mikill.”

Í The Economist kemur fram, að af 6000 til 7000 tungumálum jarðarbúa um þessar mundir hverfi tvö að meðaltali í viku hverri. Þar megi nefna dæmi um catawaba í Massachusetts í Bandaríkjunum og eyak í Alaska auk livonísku í Lettlandi. Flest hverfi þó í frumskógum Papua Nýju Guineu, en á sínum tíma hitti ég menntamálaráðherra þess lands og sagði hann mér, að mesta kappsmál sitt væri að vernda tæplega átta hundruð tungumál lands síns, en hvergi eru þau fleiri í einu ríki á jörðunni. Sérfræðingum kemur ekki saman um, hve hratt tungumál munu halda áfram að hverfa, sumir segja, að þeim fækki um helming fyrir lok þessarar aldar, aðrir, að þeim muni fækka um allt að 90%.

Ég hef litið á það sem sérstakt hlutverk okkar Íslendinga í alþjóðlegu menningarsamstarfi að minna á gildi þess að vernda tungumálin vilji menn treysta menningarlega fjölbreytni í sessi. Á slíkur boðskapur ekki síst erindi inn á vettvang UNESCO en þess má geta, að frú Vigdís Finnbogadóttir hefur tekið að sér einskonar sendiherrastarf fyrir UNESCO til að stuðla að vernd tungumála.

Niðurstaða The Economist er, að líklega sé ekki unnt að koma í veg fyrir tungumáladauða. Þá fjölgi þeim, sem hafa fleiri en eitt tungumál á valdi sínu. Þetta eigi hins vegar ekki við um þá, sem eigi ensku að móðurmáli, því að færni þeirra í erlendum málum minnki, til dæmis hafi aðeins 9 lokið námi í arabísku frá bandarískum háskólum á árinu 2001. Þannig eyðileggi sigurganga enskunnar ekki aðeins tungumál annarra heldur einangri hún enskumælandi fólk frá bókmenntum, sögu og hugmyndaheimi annarra þjóða. Í stuttu máli sé þetta mjög tvíbentur sigur. En hver vill Esperanto? Ekki starfsmenn The Economist, það eitt sé víst, segir í lok þessarar greinar.

Eftir að ég hafði lesið þessa grein The Economist sendi ég ritstjóra blaðsins stutt bréf og eintak af nýjum bæklingi, sem menntamálaráðuneytið gaf síðastliðið haust, þar sem íslensk tunga, saga hennar og sérkenni eru kynnt á einfaldan hátt hefur textinn verið þýddur á ensku, dönsku, þýsku og frönsku.