10.1.2002

Fulltrúaráðið tekur ákvörðun – nýtt skref gagnvart borgarstjórn.


Í dag, fimmtudaginn 10. janúar, tók stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, tvíþætta ákvörðun. Í fyrsta lagi að efna til skoðanakönnunar meðal um 1400 félaga í fulltrúaráðinu til að fá hugmyndir um 2 til 4 einstaklinga til að skipa efstu sæti lista Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í vor. Í öðru lagi að leita heimildar miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins til að efna til prófkjörs um efsta sætið á væntanlegum framboðslista.Strax eftir að þessi ákvörðun var kynnt, sneru blaðamenn sér til mín og leituðu fregna af því, hvort ég tæki nú ákvörðun um að fara í prófkjörið. Ég svaraði á þann veg, að fyrst vildi ég vita um hug fulltrúaráðsins til mín í skoðanakönnuninni og síðan mundi ég ákveða, hvort ég færi í prófkjörið, ef miðstjórn heimilaði, að til þess yrði efnt.Hinn 22. febrúar 2001 birtist þetta í pistli mínum hér á vefsíðunni:„Þriðjudaginn 20. febrúar birti Hrafn Jökulsson á vefsíðu sinni, Pressunni, frétt þess efnis, að skorað hefði verið á mig að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Strax sama dag tóku fréttamenn að hringja til að leita staðfestingar hjá mér á þessari frétt. Ég lét daginn líða án þess að sinna þessum fyrirspurnum. Miðvikudaginn 21. febrúar hringdi fréttamaður á hljóðvarpi ríkisins, Sveinn Helgason, í mig, til að leita eftir afstöðu minni til fréttar þess efnis, að borgarlögmaður og menningarmálanefnd Reykjavíkur teldu frumvarp til safnalaga brjóta í bága við stjórnarskrárverndað sjálfstæði sveitarfélaga. Lýsti ég furðu minni á þessari afstöðu, sem stenst engan veginn lögfræðilega og hlýtur því að byggjast á viðleitni til að gera frumvarpið tortryggilegt á annarlegum forsendum. Eftir að við höfðum rætt þetta bætti fréttamaðurinn við spurningu um það, sem stóð á vefsíðu Hrafns og þótti mér ekki ástæða til að leyna því, að um þessi mál hefði verið rætt við mig, en ég teldi, að rétt væri að sjá, hvert þessar umræður leiddu, áður en ég segði meira um málið. Má segja, að eftir að ég leyfði, að þetta yrði haft eftir mér, hafi boltinn byrjað að velta með meiri hraða en ég vænti, ef ég marka þann tölvupóst, sem ég hef fengið eða fyrirspurnir frá öðrum fjölmiðlum. Engum, sem hefur lesið þessar síður mínar undanfarin sex ár, getur dulist, að mér hefur blöskrað margt, sem R-listinn hefur verið að gera og hef ég síður en svo farið í launkofa með það. Er að mínu mati mikið áhyggjuefni, ef Reykvíkingar eiga eftir að búa við þessa stjórnarhætti enn að loknum næstu borgarstjórnarkosningum, sem fram fara vorið 2002. Líklega er það meðal annars vegna þessara skrifa minna, sem um það hefur verið rætt við mig, hvort ég hefði hug á því taka virkari þátt í baráttunni gegn R-listanu m. Eftir að vangaveltur um það mál voru komnar inn á vefsíðu Hrafns Jökulssonar, þótti mér ekki fært að segja annað en hið rétta í málinu. ”Frá því að þetta birtist fyrir tæpu ári hef ég hvað eftir annað verið spurður um það í fjölmiðlum, hvort ég hafi tekið ákvörðun um framboð til borgarstjórnar og hef ég svarað eins og rétt er, að ég væri að velta málinu fyrir mér. Frá upphafi hefur mér verið ljóst, að það liggur alls ekki í hlutarins eðli, að ég fari að blanda mér í þennan kosningaslag. Eftir því sem tíminn hefur liðið hafa fleiri hvatt mig til að láta slag standa, þótt ýmsir segi sem svo, að í stjórnmálum skuli ég halda áfram að sinna landsmálum og ekki taka áhættu á nýjum vettvangi stjórnmálanna. Þegar ákveðið hefur verið að gefa 1400 manns í Verði kost á að nefna nýja menn á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er sjálfgefið, að mitt nafn komi þar til álita í ljósi þess, sem á undan er gengið. Menn fá aldrei að vita, hvort eitthvað sé áhættunnar virði, nema þeir taki hana.