5.1.2002

Hröð fartölvuvæðing – Silfur Egils - R-listi án stefnu

Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á upplýsingakerfum og tölvukerfum í framhaldsskólum landsins. Er niðurstaða hennar sú, að framhaldsskólarnir skuli fara sér hægt í fartölvuvæðingu sinni á meðan ekki er lokið þeirri tilraun, sem nú fer fram í svonefndum þróunarskólum, það er þremur framhaldsskólum: Menntaskólanum á Akureyri, Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, á notkun fartölva við kennslu. Þessi tilraun fer fram á forsendum, sem menntamálaráðuneytið skilgreindi á sínum tíma, þegar auglýst var eftir skólum til þátttöku í henni. Er stefna ráðuneytisins að nota niðurstöður, sem fást úr tilrauninni, til almennrar stefnumótunar fyrir framhaldsskólastigið allt.

Það er rökrétt ábending hjá Ríkisendurskoðun, að menn skuli fara sér hægt við að innleiða hina nýja tækni, þar til niðurstaða þessarar tilraunar með hana hefur verið kynnt og stefna hefur verið mörkuð með skýrum hætti. Hins vegar var sérkennilegt að hlusta á það í fréttum RÚV í hádeginu 5. janúar, að Gunnar Gunnarsson fréttamaður lét þess ekki getið í frásögn sinni af skýrslu Ríkisendurskoðunar, að unnið væri að þessu tilraunastarfi og hve miklu það skiptir fyrir afstöðu Ríkisendurskoðunar. Sé þessari mikilvægu forsendu sleppt, þegar sagt er frá úttektarskýrslunni, er ekki skýrt rétt frá efni hennar og má auðveldlega draga þá ályktun, að stofnað hafi verið til fartölvuvæðingarinnar af fyrirhyggjuleysi. Er erfitt að ætla, að það hafi þó vakað fyrir fréttamanni RÚV að ýta undir slíkar hugmyndir í þessu mikilvæga máli.

Í ræðu á Siglufirði 27. ágúst 1999 hreyfði ég því fyrst opinberlega að stefna bæri að fartölvuvæðingu framhaldsskólanna, en þá sagði ég meðal annars:

„Helstu tölvufyrirtækin eins og Apple hafa áttað sig á því, að skólamarkaðurinn er helsti vaxtarbroddurinn fyrir vélbúnað og hugbúnað í einkatölvum. Í næsta mánuði kemur hin svonefnda iBook-tölva á markað, sérhönnuð fartölva fyrir skólanemendur. Hvenær hún eða einhver keppinautur hennar tekur við af pennastokknum og skólatöskunni ætla ég ekki að fullyrða. Um það efni bera fæst orð minnsta ábyrgð vegna þess að hraði breytinganna er svo mikill.

Nýlega lagði ég drög að athugun á því, hvort ekki sé skynsamlegt að hafa það sem markmið, að allir nemendur í íslenskum framhaldsskólum hafi eigin fartölvu til umráða við nám sitt. Fyrstu niðurstöður benda til þess, að frá fjárhagslegum og tæknilegum sjónarhóli sé þessi hugmynd ekki fráleit. Er þá gert ráð fyrir, að hugsanlega kunni nemendum að verða veittur einhver fjárhagslegur stuðningur við að eignast tölvuna. Reynist þetta skynsamlegur kostur með tilliti til ráðstöfunar á opinberu fé og til að styrkja þekkingaröflun nemenda, mun ég beita mér fyrir því að þessari hugmynd verði hrundið í framkvæmd. Verði horfið að þessu ráði mun það á skömmum tíma breyta öllum kennsluháttum á framhaldsskólastigi og viðhorfi til framhaldsnáms.”


Ég hef oftar en einu sinni fjallað um þessa nýsköpun í skólastarfi síðan og undrast, hve mikinn áhuga skólamenn og nemendur sýna fartölvuvæðingunni og fara hratt við að nýta sér fartölvunar. Er greinilegt, að þær þykja spennandi nýmæli, á hinn bóginn er það rétt hjá Ríkisendurskoðun, að enn lítur menntamálaráðuneytið á þetta sem tilraunaverkefni í þremur framhaldsskólum. Frásagnir af notagildi fartölvanna við kennslu eru þó almennt á þann veg, að það sé mikið og árangursríkt.

Silfur Egils

Fróðlegt hefur verið að sjá, hvernig lagt hefur verið út af því í blöðum og á ýmsum vefsíðum, að við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri skyldum vera samtímis í áramótaþætti Silfurs Egils á gamlársdag. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem sagt hefur verið af þessu tilefni. Á hinn bóginn er ljóst, að sjónvarpsviðræðurnar eru oftúlkaðar, þegar lagt er út af þeim á þann veg, að með þátttöku minni hafi ég verið að staðfesta ákvörðun mína um framboð til borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég kom í þáttinn að ósk Egils Helgasonar eins og ég gerði fyrir ári og vissi ekki fyrirfram, hverjir yrðu viðmælendur mínir.

Andrúmsloftið í þessum viðræðuþáttum Egils er annað en almennt í sjónvarpssal, vegna þess að þeir eru ekki í jafnföstum og stífum skorðum og annars staðar. Sérstaklega á þetta við um þáttinn á gamlársdag, því að þar koma menn og fara eftir því sem Agli hentar hverju sinni og hafa ef til vill beðið í langan tíma utan sjónvarpssalarins, áður en til þátttöku þeirra kemur. Er ekki nokkur vafi á því, að með þáttum sínum hefur Agli tekist að leiða sjónvarpsviðræður í landinu inn á nýjar brautir.

Í þættinum að þessu sinni vakti sérstaka athygli mína, hve Össur Skarphéðinsson lét lítið að sér kveða, einkum miðað við það, þegar við hittumst á þessum vettvangi fyrir ári, en þá sótti hann hart að mér vegna aðgerðaleysis í menntamálum, ef ég man rétt. Nú var ekki minnst á þann málaflokk.

R-listi án stefnu.

Í viðræðum mínum við Ingibjörgu Sólrúnu áréttaði ég þá skoðun mína, að það væri hættulegt fyrir stjórn borgarinnar, að henni væri stjórnað til lengdar af R-listanum, sem aðeins væri til vegna valdanna en ekki á grundvelli neinnar stjórnmálastefnu. Hann starfaði til að vera á móti Sjálfstæðisflokknum en ekki fyrir eitthvað, sem kynnt hefði verið fyrir kjósendum með jákvæðum hætti. Það væri ekki til þess fallið að auka virðingu fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum, að með völd í höfuðborginni færu þeir, sem gætu ekki komið sér saman um neina stefnu og forystuleysi af þeim toga hlyti að spilla fyrir allri stjórn borgarinnar og setja svip sinn á stjórnsýsluna.

Af kynnum mínum af því, hvernig staðið er að ákvörðunum í Ráðhúsinu við Tjörnina undir stjórn R-listans, tel ég, að þar ráði frekar ákvarðanafælni en um sé að ræða skýra farvegi fyrir mál, sem leiði til skjótrar efnislegrar niðurstöðu. Togast er á um mál og beðið eftir, að í þau hafi verið potað úr þessari áttinni eða hinni. Þegar í óefni er komið, er þrautaráðið að stofna nefnd eða starfshóp til að málið sé ekki endalaust í lausu lofti og þar sitja menn og spjalla um það fram og aftur í stað þess að leysa það. Hvað endurspeglar þetta? Skort á pólitísku aðhaldi og skort á leiðtoga í stóli borgarstjóra, sem tekur ákvörðun og fylgir henni fram.

Þegar ég vék að þessum mikla veikleika í stjórn Reykjavíkur undir forystu R-listans, fór Ingibjörg Sólrún að ræða það, að ýmsum borgum Bandaríkjanna væri stjórnað án þátttöku stjórnmálaflokka og nefndi Seattle til sögunnar máli sínu til stuðnings. Ég hef ekki kynnt mér stjórnarhætti í Seattle en veit þó, að þar hefur Microsoft, Bill Gates og félagar, lagt mikið af mörkum til margra þátta, enda eru höfuðstöðvar hins mikla fyrirtækis þar, auk þess sem Boeing-flugvélaverksmiðjurnar eru einnig í þessari borg. Er ekki vafi á því, að þessi stórrekstur setur mikinn svip á Seattle og teknokratar telja sig geta rekið borgina á sama veg og forstjórar stórfyrirtækin. Ekkert sambærilegt á við um Reykjavík og í tíð R-listans hefur frekar verið stuðlað að því að stórrekstur færi úr borginni en laða hann að henni og síðan kvartar Ingibjörg Sólrún undan því, að ríkisstjórnin hafi ekki mótað borgarstefnu, sem á líklega að vera með svipað inntak og byggðastefna, og í stað þess að leggja áherslu á pólitískt grasrótarstarf innan stjórnmálaflokks til að átta sig á viðhorfum borgaranna, hefur R-listinn stofnað til akademísks samstarfs við Háskóla Íslands innan borgarseturs í því skyni að fá nýjar hugmyndir um þróun borgarinnar.