29.12.2001

Íþróttahús í Eyjum – verðlaun til Þráins – sögulegt ár.


Nú eru brátt sjö ár liðin frá því að ég hóf að skrifa reglulega pistla á þessa vefsíðu mína og enn einu sinni komið að áramótum. Í dag, laugardaginn 29. desember, fór ég til Vestmannaeyja ásamt Jóhönnu Maríu, aðstoðarmanni mínum, til að taka þátt í vígsluhátíð nýs íþróttahúss þar, auk þess sem ég flutti ræðu á almennum fundi í boði Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna. Var þetta skemmtileg ferð og í íþróttahúsinu voru rúmlega 1000 manns, en íþróttir eru snar þáttur í lífi Eyjamanna og þar stundar unga fólkið til dæmis fimleika af meiri áhuga en annars staðar í landinu og sýndi það meðal annars listir sínar í nýja íþróttasalnum, sem má skipta í tvo löglega handboltavelli og hefur að geyma fullbúna fimleikagryfju. Lýsir það í senn miklum áhuga bæjarstjórnar á íþróttamálum og stórhug í þágu íþróttanna að reisa þetta mikla hús, en það skipar Vestmannaeyjum í fremstu röð að því er alla aðstöðu til íþrótta varðar. Ég heimsótti einnig endurreista húsið Landlyst og stafkirkjuna í Eyjum, en þessi hús hafði ég ekki skoðað áður og gefa þau mannlífinu nýja vídd.

Á Eyverjafundinum var einkum rætt um menntamál, stöðu og þróun framhaldsskólans og tækifæri til háskólanáms í Eyjum. Minnti ég fundarmenn á þær breytingar, sem eru að verða með landsaðgangi að rafrænum tímaritum og rafrænum gagnagrunnum annars vegar og landskerfi bókasafna hins vegar auk þess sem sífellt væri verið að auka hraða og burðargetu fjarskiptaneta fyrir þá, sem nýta sér tölvurnar til náms og starfa. Með því að þróa hið rafræna menntakerfi og bjóða sífellt meiri þjónustu í þágu rannsókna og vísinda á Netinu er verið að gera fjarlægðir að engu á þessu sviði og þar með skapa öllum landsmönnum jöfn skilyrði til náms án tillits til búsetu. Endurtek ég það enn á ný, að mestu skiptir, að menn kynni sér öll tækifærin, sem eru í boði, áður en þeir álykta sem svo, að vegna búsetu njóti þeir ekki fjölbreyttra kosta til að stunda nám.

Undanfarnir mánuðir hafa ekki verið auðveldir fyrir Eyjamenn, sérstaklega ekki eftir að eldur stöðvaði alla starfsemi hjá Ísfélaginu, en þar hefur eigendum og starfsliði tekist að snúa vörn í sókn og var ánægjulegt að heyra þá bjartsýni á framtíðina, sem kom fram í samtölum við heimamenn – er ekki vafi á því að hin nýja glæsilega aðstaða til íþróttaiðkana á enn eftir auka bæjarfélaginu þrótt.

Verðlaun til Þráins


Það var gleðilegt að taka þátt í því, þegar Þráni Eggertssyni, prófessor í hagfræði, voru veitt Ásu Wright-verðlaunin við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu 28. desember. Við höfum þekkst lengi og kynntumst best, þegar ég starfaði sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu undir stjórn Geirs Hallgrímssonar, forsætisráðherra frá 1974 til 1978, en þá var oft leitað til Þráins um margvíslega ráðgjöf á fræðasviði hans. Þráinn er þekktur víða um lönd vegna kennslubókar í fræðigrein sinni, sem hefur verið þýdd á fjölda erlendra tungumála, og er notuð í háskólum til dæmis í Kína og Rússlandi.

Í þakkarræðu sinni í Norræna húsinu vakti Þráinn máls á spurningu, sem nauðsynlegt að velta fyrir sér, það er hvar eigi að setja mörkin við rannsóknarnám hér á landi, það er meistara- og doktorsnám við íslenska háskóla, hvort við séum þegar farin að ganga of langt á þeirri braut að hvetja ekki íslenska námsmenn til að leita sér þekkingar við erlenda háskóla og færa þannig nýja strauma inn í íslenskan fræða- og rannsóknaheim. Taldi Þráinn þau svið ekki mörg, þar sem við gætum skilgreint okkur í fremstu röð og hefðum ekki gagn af því að leita í smiðju til fjölmennari og öflugri þjóða.

Íslenskt menningar- mennta- og vísindastarf er blómlegt vegna þess að það er opið og hér starfa menn á öllum þessum sviðum með sterk alþjóðleg sambönd. Það er sjálfstætt markmið, um leið og innviðirnir heima fyrir eru styrktir, að loka ekki fyrir alþjóðlega strauma.

Þegar ég tek þátt í vígsluathöfn eins og í Vestmannaeyjum í dag, þar sem fagnað er miklu stórvirki heimamanna, hlusta á íslenskan vísindamann eins og Þráinn, sem hefur áunnið sér alþjóðlega virðingu, eða horfi á leiksýningu eins og Cyrano de Bergerac í Þjóðleikhúsinu, þar sem klassískt verk er fært í glæsilegan íslenskan búning, svo að ég nefni aðeins þrjú atvik úr þessari viku, velti ég því fyrir mér, hvar við Íslendingar eigum að setja mörkin, hvenær við áttum okkur á því, að 300.000 manna þjóð hljóta að verða takmörk sett og verður að kunna fótum sínum forráð í samanburði við fjölmennari þjóðir. Mér finnst, að í samtímanum nálgumst við viðfangsefni síður en áður með þessi takmörk í huga. Æ sjaldnar tölum við um land okkar á mörkum hins byggilega heims, miklum fyrir okkur fjarlægðir til annarra landa eða teljum okkur eitthvað ofvaxið vegna fámennis. Endimörk vaxtarins vefjast ekki mikið fyrir okkur – en þau eru engu að síður staðreynd, hvar sem þau eru dregin.

Sögulegt ár.

Árið 2001 verður talið sögulegt, þó ekki sé nema vegna eins atburðar, árásarinnar á New York og Washington hinn 11. september. Þessi atburður hefur djúptækari áhrif en við gerum okkur grein fyrir á líðandi stundu, hann mun móta afstöðu kynslóða manna til samskipta sín á milli og við hann verður miðað, þegar leitað verður skýringa á ákvörðunum, sem setja svip á framtíðina. Viðbrögðin við árásinni verða notuð sem mælistika á leiðtogahæfileika forystumanna margra þjóða og til þeirra verður vitnað til að kanna skoðanir stjórnmálamanna í stærra samhengi. Það sést til dæmis nú þegar, að framgöngu George W. Bush Bandaríkjaforseta er líkt við hina fremstu, sem gegnt hafa því háa embætti, og ekki síður við þá, sem nutu lítils álits margra við embættistöku en uxu síðan af störfum sínum og skynsamlegum ákvörðunum.

Ég er sammála því mati Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra, að viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar og annarra vinstri/grænna við árásinni 11. september var og er hneyksli. Ég tók þátt í sjónvarpsviðræðum við Steingrím J. um árásina, þar sem hann taldi, að það ætti að bregðast við henni með því að boða til fundar og ræða málið, væntanlega við Osama bin Laden. Vinstri/grænir lögðu áherslu á gamalkunnan hræðsluáróður til að fæla fólk frá stuðningi við að beitt væri hörku gagnvart hryðjuverkamönnunum og þeim ríkjum, sem veittu þeim skjól. Þegar litið er til baka sést, hve fráleitt var að taka upp hanskann fyrir talibanastjórnina í Afganistan, hún sat þar í skjóli heilaþveginna, erlendra málaliða, sem vildu geta notað Afgani sem tilraunadýr í viðleitni sinni til að skapa íslamskt ríki undir járnhæl ofstækis og grimmdar. Eða hitt, að með því að snúast gegn bin Laden væru menn að kalla fram 100 nýja álíka ofstopafulla andstæðinga. Nú er svo komið, að forystumenn múslíma hafa af því áhyggjur, að grimmdarverkin í nafni íslam séu orðin svo skaðvænleg fyrir trúarbrögðin, að nauðsynlegt sé að leggja á ráðin um það, hvernig bæta megi ímyndina og kveða þá niður með aðgerðum inn á við, sem gera málstað bin Ladens að sínum.

Yfirburðir Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi hafa líklega aldrei verið skýrari en eftir að á þá var ráðist með þessum svívirðalegi hætti og þeir ákváðu að sýna óvinum sínum í tvo heimana. Í fyrsta lagi tókst þeim á ótrúlega skömmum tíma að fá allar þjóðir heims á sitt band. Í öðru lagði búa þeir yfir svo öflugum langdrægum herafla, að enginn stenst þeim snúning. Í þriðja lagi halda þeir menn nú um stjórnvölinn í Bandaríkjunum, sem setja mál sitt fram vafningalaust, draga ekkert undan og hrinda ákvörðunum sínum fumlaust í framkvæmd.

Sameinuð Evrópuríki innan Evrópusambandsins eru ekki með tærnar, þar sem Bandaríkin hafa hælana, þegar litið er til öryggis- og varnarmála. Fyrir okkur Íslendinga, sem höfum meira en hálfrar aldar reynslu af samstarfi við Bandaríkjamenn í varnarmálum, er fráleitt að líta fram hjá þeim þætti, þegar við skilgreinum stöðu okkar á alþjóðavettvangi, en hagsmunir þjóða þar ráðast fyrst og síðast af varðstöðunni um eigið öryggi. Er einkennilegt, að þeir, sem nú ganga fram á völlinn og telja nauðsynlegt að ræða um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB), líta einkum til þess, að okkur skorti formleg pólitísk áhrif innan ESB, en leggja sig ekki fram um að skilgreina stöðu Íslands eins og hún er í raun og veru, þar sem varnarsamstarfið við Bandaríkin vegur mun þyngra á pólitískum vogarskálum en samskiptin við Evrópusambandið. Segulmagn Brussel-valdsins er vissulega mikið en ljóminn af því má ekki villa okkur sýn, þegar við hugum að gæslu brýnna íslenskra hagsmuna.

Ég þakka lesendum síðunnar samfylgdina á árinu 2001 og óska ykkur farsældar á árinu 2002!