22.12.2001

Rannsóknasamningur – fé til háskóla – Insjallah og Björg

Við Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands (HÍ), rituðum föstudaginn 21. desember undir sérstakan samning um rannsóknir við Háskóla Íslands á grundvelli laga nr. 136/1997 um háskóla.

Samningurinn tekur til fjárveitinga til rannsókna og kemur í framhaldi af yfirlýsingu um rannsóknir sem við Páll gáfum jafnhliða undirritun kennslusamnings við skólann þann 5. október 1999. Með rannsóknasamningnum hefur verið mótuð skýr umgjörð um samskipti ríkisstjórnarinnar og Háskóla Íslands, en samningurinn fjallar um árangurstengingu rannsóknastarfs í Háskóla Íslands og er umgjörð um samskipti menntamálaráðuneytisins og skólans. Á samningstímanum á að leggja ríkari áherslu en áður á áætlanagerð í tengslum við vísinda- og rannsóknastarf Háskóla Íslands. Samningnum er einnig ætlað að skerpa á gagnkvæmum skyldum samningsaðila, skýra betur markmið vísindastarfs skólans, skilgreina frekar umhverfi rannsókna og leiðir til að meta árangur og virkni í rannsóknum.

Háskóli Íslands stefnir að því að auka rannsóknavirkni og tryggja að gæði rannsókna og að framhaldsnám uppfylli sambærilegar kröfur og gerðar eru til háskóla í nágrannalöndum. Tekið verður í notkun formlegt gæðakerfi sem m.a. felur í sér mat á árangri rannsókna og hvernig bregðast skuli við niðurstöðum mats á rannsóknum einstakra starfsmanna, deilda eða stofnana. Menntamálaráðuneytið mun á sama tíma gefa út reglur um með hvaða hætti háskólinn skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum rannsókna og nýtingu þeirra fjármuna sem til rannsókna fara.

Ég tel mikilvægt að ná þessum áfanga í samskiptum ríkisins við Háskóla Íslands, því að nú hefur verið betur skilgreint en nokkru sinni fyrr, hvernig staðið skuli að meðferð þeirra fjármuna, sem varið er úr ríkissjóði til skólans, um er að ræða gagnsætt kerfi, þar sem fé á að fylgja árangri. Að þessu leyti höfum við hér á landi náð lengra en flestar aðrar þjóðir við að skilgreina fjárstreymi með þessum hætti. Samningurinn við Háskóla Íslands verður fyrirmynd í viðræðum ráðuneytisins við aðra háskóla um stuðning við rannsóknir og þar verða notaðir sömu mælikvarðar um árangur og á vettvangi Háskóla Íslands. Skiptir miklu, að hvergi sé slakað á faglegum kröfum og flygt sé almennum gagnsæjum reglum.

Fé til háskóla

Síðustu daga þings fyrir jólaleyfi var samþykkt hækkun á skrásetningargjöldum námsmanna í ríkisháskólunum og þau hækkuð úr 25.000 í 32.500. Forvígismenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands fóru mikinn vegna þessara hækkana og formaður ráðsins misnotaði 90 ára afmælishátíð Háskóla Íslands til að koma mótmælum sínum á framfæri. Er sú framganga öll skólabókardæmi um það, hvernig rangt mat á aðstæðum og dómgreindarskortur getur orðið mönnum fjötur um fót í baráttu af þessu tagi. Málstaður forvígismanna stúdentaráðs átti sér veika málsvara á alþingi og stjórnendur Háskóla Íslands gerðu hann ekki að sínum, enda liggja fyrir ítrekaðar yfirlýsingar af hálfu háskólamanna um það, að gjaldtaka við skrásetningu sé til þess fallin að auðvelda allt skipulag á skólastarfinu.

Með þeim samningi, sem við Páll Skúlason rituðum undir 21. desember, er miðað að því að auka fjárveitingar til rannsókna við Háskóla Íslands um 240 milljónir króna á þremur árum (2001, 02, 03). Fjárveitingar til skólans eins og háskólastigsins alls hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár, enda hefur fjölbreytni í námsframboði aukist, bæði þegar litið er til námsgreina og dýptar í námi, og vísa ég þá til rannsóknanáms, meistaranáms og doktorsnáms, einkum við Háskóla Íslands.

Ég verð var við efasemdir hjá sumum utan háskólasamfélagsins og innan þess efnis, að við séum ef til vill ekki á réttri braut með því að efla enn frekar meistara- og doktorsnám hér á landi, hvort ekki sé hagkvæmara fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild, að Íslendingar stundi slíkt nám erlendis. Hér er vandratað meðalhófið. Það er ekki markmið í sjálfu sér, að letja Íslendinga til rannsóknanáms erlendis, á hinn bóginn höldum við aftur af íslensku háskóla- og vísindasamfélagi, ef setjum of stórt lok ofan á það og leyfum því ekki að blómstra með rannsóknum og tengdu námi.

Hugtakið jafnrétti til náms er einkum notað, þegar rætt er um kostnað nemenda við að stunda nám. Þetta er gamaldags umræða nú á tímum, þegar vandinn er sá, hvernig á að veita öllum, sem vilja stunda háskólanám jöfn tækifæri og skapa fjárhagslegar forsendur til þess. Alls staðar standa menn frammi fyrir því við úrlausn þessa viðfangsefnis, að leiðin til að skapa öll þessi tækifæri er ekki fær, ef hún felst í því að hækka skatta á aðra til að standa undir þeim.

Í nýjasta tölublaði Stúdentablaðsins, sem kemur út við HÍ er viðtal við mennta- og skólamenn við skólann, tvíburana Ármann og Sverri Jakobssyni, en þeir eru ekki síst þekktir meðal þjóðarinnar fyrir staðreyndakunnáttu sína. Þess vegna kom á óvart að lesa þetta haft eftir Sverri: „Við erum á niðurskurðartímabili núna og búum við fjárhagsvanda sem enn er ekki búið að leysa úr. Hitt er annað mál að við Ármann erum svo heppnir að vera á sviði miðaldafræða og það er vel hugsanlegt að maður fái vinnu í útlöndum við þau.“ Hér er ekki farið með rétt mál, þegar litið er til Háskóla Íslands, hann glímir ekki við vanda vegna niðurskurðar á fjárveitingum. Þá hefur mikið verið gert til að auka hlut miðaldafræða hér á landi undanfarið og nægir í því sambandi að minna á tilkomu Kristnihátíðarsjóðs en úr honum verða veittar samtals 500 milljónir króna í fimm ár, í fyrsta sinn í ár, og nýtast þeir fjármunir ekki síst til miðaldarannsókna, sem tengjast hinum kristna menningararfi.

Ég held, að það skipti miklu máli fyrir ímynd Háskóla Íslands ekki síst við nýjar aðstæður, þegar fleiri tækifæri eru hér til háskólanáms en nokkru sinni og fjarnámstækifærum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi fjölgar jafnt og þétt, að ekki sé jafnan látið í veðri vaka af forvígismönnum Röskvu í meirihluta stúdentaráðs eða öðrum, að skólinn sé eiginlega á vonarvöl vegna skorts á fé og aðstöðu, einkum í samanburði við einkarekna háskóla, eða alltof hart gengið á hlut námsmanna af ríkisvaldinu. Það vinnst einfaldlega ekkert með þessum barlómi og fyrir honum eru engin rök.

Barlómurinn er auk þess í hrópandi andstöðu við sóknarandann í öðrum háskólum, en síðast kynntist ég honum í Viðskiptaháskólanum á Bifröst þriðjudaginn 18. desember, þegar ég tók þar fyrstu skóflustungu að nýju skólahúsi. Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst, hefur einmitt svarað með góðum rökum þeirri gagnrýni ýmissa innan Háskóla Íslands, sem sjá ofsjónum yfir fjárveitingum til einkarekinna háskóla og má lesa pistil Runólfs um það á vefsíðu Viðskiptaháskólans á Bifröst

Almennar umræður um háskólanám á Íslandi, rannsóknir og vísindastarf eru að mínu mati nokkuð á eftir tímanum, þegar litið er til hinnar öru þróunar og miklu breytingu, sem hafa orðið. Lengst á eftir eru þó líklega þeir, sem trúa því, sem stjórnarandstæðingar á alþingi eða talsmenn Röskvu við Háskóla Íslands segja um þessi mál.

Insjallah og Björg

Meðal jólabókanna, sem ég hef verið að lesa mér til ánægju, er Insjallah á slóðum araba eftri Jóhönnu Kristjónsdóttur, en við vorum á sínum tíma samstarfsmenn við erlenda fréttaöflun á Morgunblaðinu. Jóhanna er ein þeirra, sem lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna, og hefur lagt mikið af mörkum til Morgunblaðsins á undaförnum áratugum auk þess sem hún er þjóðkunnur rithöfundur. Í þessari bók segir hún frá dvöl sinni í Kairó, höfuðborg Egyptalands, og Damaskus, höfuðborg Sýrlands, en þangað fór hún til að læra arabísku og takast á við sjálfa sig við nýjar og framandi aðstæður.

Bókin sýnir okkur enn, hve mikið er í Jóhönnu spunnið, fyrir utan að opna okkur sérstaka sýn á daglegt líf araba og múslíma. Er líklega ekki algengt, að konur frá Vesturlöndum dveljist á forsendum Jóhönnu meðal múslima og skýri frá daglegu lífi með þessum hætti. V. S. Naipaul, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum á þessu ári, hefur ritað eftirminnilegar bækur um ferðir sínar um múslímaríki og einmitt lýst daglegu lífi þar eins og það blasti við honum. Eiga bækur sem þessar sérstakt erindi við okkur nú á tímum, þegar heimurinn allur glímir við þá spurningu, hvort meðal múslíma sé að mótast óvild í garð fólks úr öðrum menningarheimi með Bandaríkin að hatursfullri táknmynd.

Aðra nýja bók hef ég einnig lesið mér til fróðleiks og ánægju en það er Björg eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, ævisaga Bjargar C. Þorláksson, sem varð fyrst íslenskra kvenna til að taka doktorspróf 17. júní 1926, en Björg fæddist árið 1874 og var systir Jóns Þorlákssonar, fyrsta formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og borgarstjóra. Eins og við vitum hefur Sigríður Dúna verið í fremstu röð þeirra kvenna, sem undanfarna áratugi hafa lagt áherslu á að skilgreina og skerpa hlut kvenna í þjóðlífinu, ekki síst í stjórnmálum og innan háskóla- og vísindasamfélagsins. Hún nálgast viðfangsefni sitt að sjálfsögðu frá þessu sjónarhorni og dregur það ekki úr gildi bókarinnar fyrir samtímann, en ekki verður sagt, að ævi Bjargar hafi verið dans á rósum, þótt miklu fengi hún áorkað, en hún var ekki metin að verðleikum heldur sem kona, er reyndi að brjótast til áhrifa á starfsvettvangi karla og hlaut bágt fyrir hér á landi. Leið henni greinilega best í París, þótt hún byggi þar við þröngan kost og í einsemd. Saga Bjargar er áleitin og er verðugt, að hún skuli skrifuð og gefin út með þessum ágætum.

Ég óska öllum lesendum síðunnar gleðilegra jóla!