17.12.2001

Kalda stríðið í bókum.


Við Hannes Hólmsteinn Gissurarson vorum saman á Súfistanum að kvöldi miðvikudagsins 12. desember og kynntum bækur okkar, sem komu út fyrir nokkru. Í bók sinni færir Hannes Hólmsteinn rök fyrir því, að innan seilingar sé fyrir okkur Íslendinga að verða ríkasta þjóð í heimi, í því efni sé vilji allt, sem þurfi. Var Súfistinn þétt setinn, þegar við gerðum grein fyrir efni bóka okkar og svöruðum fyrirspurnum milli kl. 20.00 og 22.00 undir stjórn Jakobs F. Ásgeirssonar, útgáfustjóra Nýja bókafélagsins, sem er útgefandi beggja bókanna. Hefðu umræðurnar hæglega getað haldið áfram lengur en Súfistinn var opinn, því að margar spurningar voru lagðar fyrir okkur og held ég, að það hafi ekki farið fram hjá neinum, að boðskapur í bók minni, Í hita kalda stríðsins, um nauðsyn þess að gæta sem öryggis íslensku þjóðarinnar og áskorun Hannesar Hólmsteins eru tvær hliðar á sama peningnum, því að án virkrar þátttöku í alþjóðaviðskiptum og ábyrgrar stefnu í varnar- og öryggismálum er íslenska þjóðfélagið ekki til neinna stórræða nú á tímum.

Á kynningarfundinum reifaði ég þá skoðun mína, að varnarsamstarfið við Bandaríkin gerði okkur Íslendingum kleift að standa utan Evrópusambandsins (ESB). Þá spurði Óli Björn Kárason, ritstjóri DV, mig að því, hvort draga mætti þá ályktun af þessu svari mínu, að varnarsamstarfið við Bandaríkin gerði okkur erfitt um vik, ef við vildum gerast aðilar ESB. Ég játa, að þar til ég stóð frammi fyrir þessari spurningu, hef ég ekki velt henni eða svarinu við henni fyrir mér. Ég svaraði á þann veg, að vissulega yrði að huga sérstaklega að þessum þætti núna, þegar ESB hefði ákveðið að formbinda samstarf sitt í öryggis- og varnarmálum og tala einum rómi í þeim málaflokki eins og öðrum. Meginásin í stefnu Íslendinga í öryggis- og varnarmálum hlýtur að vera að tryggja sem best samstarf Evrópu og Bandaríkjanna, slitni upp úr vináttu þeirra er voðinn vís fyrir þjóð í miðju Norður-Atlantshafi. Það yrði glapræði fyrir Íslendinga að draga úr varnarsamstarfinu við Bandaríkjamenn vegna mun óljósari öryggistryggingar undir handarjaðri ESB.

Ég var beðinn um það um miðja síðustu viku að skrifa ritdóm um nýjustu bók dr. Vals Ingimundarsonar, Uppgjör við umheiminn, í Morgunblaðið. Settist ég við stífan lestur, eftir að mér barst bókin, og notaði meðal annars síðustu sólarhringana, sem alþingi var að störfum fyrir jólaleyfi, til að lesa bókina og velta efni hennar fyrir mér. Rifjaðist margt upp við lesturinn, enda má segja, að ég hafi fylgst með framvindu varnar- og öryggismálanna af áhuga þau ár, sem bókin spannar, 1960 til 1974.

Ég er sammála þeirri heildarmynd, sem Valur dregur, en hefði málað suma fletina öðrum litum. Til dæmis sakna ég þess, að ekki er minnst á það, að norski KGB-njósnari Arne Treholt, sem starfaði í norska Verkamannaflokknum og innan utanríkisþjónustu lands síns, sat á rökstólum með íslenskum fulltrúum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í byrjun áttunda áratugarins um það, hvernig best væri að koma bandaríska varnarliðinu frá Íslandi. Þegar Morgunblaðið vakti máls á þessu á níunda áratugnum og vitnaði í frásögn, sem til er í utanríkisráðuneytinu hér af þessum fundi, brugðust andstæðingar blaðsins við á þann veg, að þeir höfðu meiri áhuga á því að vita, hvar Morgunblaðið hefði fengið hið opinbera skjal en ræða það, sem í því stóð. Minnti þetta helst á það, þegar maðurinn fékk viðurnefnið þjófur, af því að það var stolið frá honum!

Við, sem tókum virkan þátt í umræðunum um öryggismál á tímum vinstri stjórnarinnar, sóttum mikinn fróðleik til Noregs. Johan Jörgen Holst, sem síðar varð varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Noregs fyrir Verkamannaflokkinn, en lést um aldur fram, var á þessum árum forstöðumaður rannsókna innan Norsku utanríkismálastofnunarinnar og undir forystu hennar hófust fræðilegar umræður um hernaðarlegt gildi Norður-Atlantshafsins og útþenslu sovéska flotans og flughersins þar. Johan Jörgen kom hingað með tveimur starfsfélögum sínum, Anders Sjaastad, sem síðar varð þingmaður og varnarmálaráðherra úr Hægri flokknum, og Johan Skogstad, sérfræðingi í öryggismálum, og aðstoðaði ég þá við gagnaöflun varðandi Ísland, sem síðar varð til þess, að ég var beðinn að skrifa greinar um íslensk öryggismál í erlendar bækur og tímarit og taka þátt í ráðstefnum. Það krafðist þess hins vegar, að ég reyndi að taka á málum í samræmi við þær kröfur, sem til slíkra greina eru gerðar eða fyrirlestra. Hlaut ég þar þjálfun í að fjalla um varnar- og öryggismál með öðrum hætti en almennt var í umræðum hér á landi og nýtti ég mér það síðan, þegar ég varð blaðamaður á Morgunblaðinu. Johan Jörgen varð áhrifamaður í norskum stjórnmálum og langt út fyrir Noreg, en í átökunum á níunda áratugnum var hart barist um öryggismál innan Verkamannaflokksins eins og almennt innan jafnaðarmannaflokka í NATO-ríkjunum, en þar voru einarðir andstæðingar kjarnorkuvopnastefnu NATO. Nú eru margir þessara manna meðal helstu málsvara bandalagsins og má þar nefna Javier Solana frá Spáni, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, og Robertson lávarð frá Skotlandi, núverandi framkvæmdastjóra NATO.

Hér á landi hefur ekki enn tekist að koma á laggirnar rannsóknastofnun, sem sinnir sérstaklega utanríkismálum. Undir handarjaðri Öryggismálanefndar, sem starfaði í um það bil 12 ár, frá 1979 til 1991, varð til gagnlegur vísir að slíku starfi og ýmsir þættir stefnunnar í varnar- og öryggismálum voru brotnir til mergjar. Enn þann dag í dag nálgast stjórnvöld og stjórnmálamenn þennan mikilvæga þátt í hagsmunagæslu þjóðarinnar á þann veg, að kannski dugi brjóstvitið best að lokum. Í bók Vals segir frá áhyggjum James Penfields, sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á viðreisnarárunum og mikill vinur föður míns. Valur segir: „Eins og forverum hans þótti Penfield bagalegt að Íslendingar hefðu yfir engum hernaðarsérfræðingum að ráða. Það mundi styrkja stöðu Bandaríkjamanna á Íslandi og bæta andrúmsloftið í samskiptunum, ef þeir gætu rætt við Íslendinga um hermál. Íslendingar brygðust við þessum vanda með tvennum hætti: Annars vegar væru þeir sem töluðu í jákvæðum en einstrengingslegum tón um varnarsamstarfið án þess að hafa hundsvit á því. Hins vegar væru þeir sem hörmuðu fáfræði Íslendinga um hermál. Þeir legðu til að leitað yrði úrbóta svo framarlega sem þeir þyrftu ekki að hafa fyrir því sjálfir. Að dómi Penfields skipti mestu máli að knýja fram hugarfarsbreytingu í þessu máli.“ Þessi skýrsla Penfields er rituð í mars 1967 og má lesa um hana á bls. 92 til 93 í bók Vals.

Joseph Luns, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, kom hingað í september 1973 til að skýra íslenskum stjórnvöldum frá skýrslu hermálanefndar NATO um hernaðargildi Íslands, en bandalaginu var skylt að gera þetta, úr því að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar hafði gert 7. gr. varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna virka á leið sinni til að semja við Bandaríkjastjórn um brottför varnarliðsins. NATO taldi mikla þörf á bandarísku varnarliði á Íslandi, ekki síst í ljósi vaxandi vígvæðingar og umsvifa sovéska flotans á Kólaskaga. Ísland hefði úrslitaþýðingu sem hlekkur í viðvörunarkerfinu fyrir Norður-Ameríku og vestur-Evrópu. Tjónið af missi Íslands yrði óbætanlegt. Á þessum tíma var mikil spenna milli Íslands og Bretlands vegna deilunnar um útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur og Valur segir, að á fundi með Luns hafi andað köldu í garð vestrænna ríkja í máli Ólafs Jóhannessonar. Síðan segir Valur: „Kjarninn í skýrslunni kom honum (Ólafi) ekki á óvart: Hvenær hefðu hermálasérfræðingar viljað fækka í her? – spurði Ólafur. hann viðurkenndi reyndar að hann hefði lítið vit á hermálum og því hefði skýrslan að miklu leyti farið fyrir ofan garð og neðan hjá sér, en hann hefði skilning á einu: pólitík. Það kynni að vera freisting fyrir aðra að hafa Ísland varnarlaust, en hann benti á að sumir héldu því fram að herstöðin sjálf væri freisting. Það yrði því að taka tillit til beggja sjónarmiða. Íslendingar væru ekki ánægðir með að vera aðeins útvörður fyrir aðra. „Við verðum að hugsa um okkar eigið öryggi.“ sagði Ólafur. Magnús Kjartansson (iðnaðarráðherra úr Alþýðubandalaginu og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans) gekk enn lengra og tjáði Luns umbúðalaust að ákvörðunin um brottför hersins hefði verið tekin. Málið snerist aðeins um útfærsluna: hvernig og hvenær.“ (Bls. 271 Uppgjör við umheiminn.)

Þegar lesin er frásögn eins og þessi, hlýtur maður að spyrja: Hvernig ætluðu þeir, sem töluðu á þennan veg að axla þá ábyrgð sína að tryggja öryggi íslensku þjóðarinnar? Af hverju vildu þeir að taka mið og hvernig ætluðu þeir að rökstyðja þá ákvörðun, sem Magnús segir, að hafi verið tekin? Eitt er víst, að svona tal byggist einmitt annað hvort á vanþekkingu á öllum forsendum stefnumörkunar í öryggismálum eða á ásetningi um að rjúfa varnarsamstarf vestrænna ríkja í þágu Sovétríkjanna. Þótt alþýðubandalagsmenn skjóti sér á bakvið það, þegar rætt er um þjónkun þeirra á þessum árum við Sovétríkin, að þeir hafi rofið öll tengsl við heimskommúnismann eftir innrás sovéska hersins í Tékkóslóvakíu 1968, staðfestir hin nýja bók Vals enn á ný, að þeir gengu leynt og ljóst erinda Sovétríkjanna í umræðunum um íslensk öryggismál.