Máttlítil stjórnarandstaða – fjárlagaumræður - Múrbrjóturinn
Miðvikudaginn 28. nóvember gaf Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra yfirlýsingu á alþingi og gerði grein fyrir því, að hún hefði ekki skýrt þingheimi rangt frá viku fyrr, þegar hún svaraði fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um viðbragðsflýti lögreglunnar í Reykjavík. Um þetta mál fjallaði ég í síðasta pistli mínum og benti meðal annars á það, að utan þings hefðu margir orðið undrandi yfir því, hve þeir Samfylkingarmenn gerðu mikið veður út af þessu, en Guðmundur Árni taldi sig hafa upplýsingar um það, að 50 mínútur hefðu liðið, áður en lögreglan brást við kalli. Við nánari athugun hjá lögreglu kom í ljós, að þar hafði ekki verið um neyðarkall að ræða, þannig að forsendur Guðmundar Árna voru rangar en ekki svar dómsmálaráðherra.
Þegar dómsmálaráðherra hafði greint frá málavöxtum í þingsalnum, stóð Guðmundur Árni upp með sömu ólund og áður og beindi nú ekki aðeins orðum sínum á yfirlætisfullan hátt í garð dómsmálaráðherra heldur einnig til mín og hélt því áfram síðar, þegar hann spurði mig um sjónvarpssendingar RÚV um gervitungl og lét eins og ég nennti ekki að svara spurningum þingmanna. Gerði ég athugasemd við þennan málflutning í svari mínu og þá greindi Guðmundur Árni frá því, að hann væri að skamma mig fyrir það, sem ég hefði skrifað hér á vefsíðuna í tilefni af uppákomum stjórnarandstöðunnar, sem vektu undrun utan sala þingsins og þættu til marks um málefnafátækt og stefnuleysi. Var sérkennilegt að hlusta á þessar umvandanir og staðfestu þær aðeins réttmæti þeirrar gagnrýni, að stjórnarandstaðan hefði ekkert bitastætt til málanna að leggja.
Í þessum sama fyrirspurnartíma, miðvikudaginn 28. nóvember, spurði Jón Bjarnason, þingmaður vinstri/grænna, mig um það, hvað fælist í þeirri ákvörðun að fella niður rúmlega 7 milljón króna framlag til framhaldsdeilda, það er deilda í framhaldsskóla utan skólans sjálfs, en þær eru nú starfandi í Stykkishólmi og Ólafsvík. Ég svaraði því og taldi Jón svarið bera vott um skilningsleysi á högum dreifbýlisbúa og það þyrfti að gera betur í þessu efni til að halda byggð í landinu. Ég svaraði á þann veg, að þetta réði ekki úrslitum um byggðaþróun og vægi þar til dæmis mun minna en þröngsýn stefna vinstri/grænna í atvinnumálum, þegar þeir vildu bregða fæti fyrir stórhuga hugmyndir í því efni. Bað þá Jón um orðið til að bera af sér sakir, vildi hann taka fram, að hann væri ekki þröngsýnn!
Fjárlagaumræður
Daginn áður, þriðjudaginn 27. nóvember, var fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 til annarrar umræðu og báðu þingmenn ráðherra að vera við og svara spurningum um einstök atriði. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra var á fundi þetta kvöld með nýjum utanríkisráðherra Noregs, sem kom hingað í stutta heimsókn. Að þeim fundi loknum kom Halldór í þingið og svaraði gagnrýni vinstri/grænna á þá ákvörðun að setja upp sendiráð í Japan en á bakvið hana var meðal annars þingsályktun, sem Hjörleifur Guttormsson, núverandi varaþingmaður vinstri/grænna, flutti. Var það samdóma álit þeirra, sem hlýddu á þessar deilur Halldórs og einkum Ögmundar Jónassonar, að Ögmundur hefði farið illa einstaklega illa út úr þeim.
Þegar klukkan var farin að ganga tvö um nóttina svaraði ég spurningum Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri/grænna, um safnasjóð og fleira tengt framkvæmd nýrra safnalaga og þjóðminjalaga. Þótti félögum mínum sumum nóg um, þegar Kolbrún sagðist vera sammála mér um það, hvernig ætti að standa að ákvörðunum um ráðstöfun fjár á þessu sviði, en í orðum mínum fólust efasemdir um, að rétt væri að málum staðið, þegar fjárlaganefnd alþingis væri að veita stóra og litla styrki til einstakra viðfangsefna.
Hefur þetta meðal annars leitt til opinberrar deilu milli Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), en ÍSÍ fer með fjárlagabeiðnir sínar um menntamálaráðuneytið og fær þær afgreiddar þar í samræmi við það ferli, sem ræður ákvörðunum á vettvangi ríkisstjórnar, á meðan UMFÍ fer ekki í gegnum ráðuneytið heldur snýr sér beint til fjárlaganefndar og fékk að þessu sinni 25 m.kr. hækkun milliliðalaust.
Það kemur í hlut menntamálaráðuneytisins að greiða þetta fé til þeirra, sem það eiga að hljóta, og skýrði ég frá því við fjárlagaumræðurnar, að nauðsynlegt væri að herða á kröfum til styrkþega um að greint væri frá því til hvaða verkefna fjármunirnir ættu að fara og hvað gert hefði verið fyrir það fé, sem áður hefði runnið til þeirra með sama hætti á fjárlögum. Einnig er ástæða fyrir ráðuneyti að fylgja því eftir, að aðilar, sem hafa gert við þau samkomulag um fjárveitingar, fari ekki fram hjá slíkum samningum með fjárbeiðnum beint til fjárlaganefndar. Gerist það, er grafið undan slíkum samningsbundnum fjárveitingum, en þær færast í vöxt og gilda til dæmis um framhaldsskólana og háskólana.
Múrbrjóturinn
Laugardaginn 1. desember veittu Landssamtökin Þroskahjálp mér þann heiður við athöfn í Ráðhúsinu í Reykjavík að afhenda mér Múrbrjótinn, sem er viðurkenning fyrir störf í þágu fólks með þroskahömlun.
Tilefni þess, að ég nýt þessa heiðurs er sú þróun, sem hefur orðið innan framhaldsskólanna undanfarin ár, að þar er nú boðið fjögurra ára nám fyrir þroskahefta. Þótti ýmsum slíkt nám fjarlægur draumur, þegar farið var af stað með kröfuna um það, en nú hefur hann ræst með góðri samvinnu margra aðila innan og utan skóla og þeim framhaldsskólum fjölgar, sem opna dyr sínar fyrir þessum nemendum. Er ekki nokkur vafi á því, að það er gefandi fyrir skólana að breikka nemendahópinn með þessum hætti, en víða verð ég enn var við, að menn telja, að kröfur í þessu efni kunni að spilla skólabrag í gamalgrónum stofnunum og raska honum.
Við þróun framhaldsskólastarfsins er þetta ekki aðeins nýmæli heldur einnig hitt, að þar eru svonefndar almennar námsbrautir að koma til sögunnar í þágu þeirra nemenda, sem taka til dæmis ekki samræmd próf úr grunnskóla eða standa sig illa á þeim. Innan nokkurra skóla hafa kennarar lagt verulega mikið af mörkum til að þróa þessar námsbrautir og hef ég hvatt skólameistara til að huga sérstaklega að þeim, því að það hljóti að vera mikil áskorun að leggja sérstaka rækt við þann nemendahóp, sem þarna er um að ræða. Í þeim reglum, sem gilda um fjárveitingar til framhaldsskóla, er hvatt til þess, að sem flestir nemendur þreyti próf, því að fé fylgir þeim nemendum, sem gera það, en miðast ekki við fjöldann, sem innritar sig í viðkomandi skóla.
Hugað er að því við skipulag náms fyrir þroskahefta og fatlaða nemendur, að á þriðja og fjórða námsári tengist þeir eins og unnt er störfum utan skólans, þannig að þeir fái tækifæri til að laga sig að aðstæðum á vinnumarkaði. Eiga námskrár að taka mið af þessu en þær eru í mótun eins og skólastarfið sjálft.
Á vettvangi menntamálaráðuneytisins fér Eygló Eyjólfsdóttir, sem áður var skólameistari í Borgarholtsskóla, sérstaklega með málefni fatlaðra nemenda í framhaldsskólum. Hún vinnur nú einnig að því að búa framhaldsskólana betur undir að taka á móti nemendum, sem hafa íslensku sem annað tungumál. Þar er ekki síður um mikilvægt þróunarstarf að ræða en í þágu fatlaðra.