24.11.2001

Utan dagskrár - mínúturnar og Samfylkingin- vandi stjórnarandstöðunnar

Síðastliðinn mánudag 19. nóvember kom Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna, að máli við mig í matstofu alþingis og spurði, hvort ég vildi svara fyrirpsurn hennar vegna verkfalls tónlistarkennara, ég sagði svo ekki vera, þar sem ég ætti enga aðild að þeirri deilu, hún væri alfarið milli tónlistarakennara og sveitarfélaga, sem reka skólana. Þá sagðist Kolbrún ekki ætla að ræða verkfallið heldur áhrif þess á framkvæmd námskrár, hvort það félli ekki undir verksvið mitt. Ég sagðist ekki telja, að mér væri skylt að taka þátt í umræðum utan dagsrkár um þetta efni á alþingi og mundi því ekki verða til andsvara, ef til slíkrar umræðu væri stofnað. Síðan mun það hafa verið rætt á vettvangi þingflokksformanna og forsætisnefndar þings, hvernig við ætti að bregðast, því að það væri ósvinna, að stjórnarandstaðan fengi ekki tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á máli utan dagskrár á alþingi nema ráðherra þyrfti að vera þar til andsvara, en þannig er viðkomandi ákvæði þingskapanna túlkað af forsætisnefnd.

Í upphafi hvers þingfundar hafa þingmenn tækifæri til að gera athugasemd við störf þingsins eða fundarstjórn forseta og mega slíkar umræður standa í 20 mínútur, en almennt eru umræður utan dagskrár í 30 mínútur nema sérstaklega sé samið um lengri tíma. Í upphafi fundar alþingis þriðjudaginn 20. nóvember stóð Kolbrún Halldórsdóttir upp og ræddi um það undir liðnum athugasemd við störf þingsins, að ég skyldi hafa neitað að taka þátt í umræðu utan dagskrár um framkvæmd námskrár í grunnskólum vegna verkfalls tónlistarskólakennara eins og hún orðaði það, taldi hún það til marks um virðingarleysi í garð stjórnarandstöðunnar, að hún hefði ekki getað ákveðið það, hvort ég tæki þátt í slíkri umræðu, auk þess sem óviðunandi væri, að stjórnarandstaðan gæti ekki tekið upp mál utan dagskrár, án þess að ráðherra væri til andsvara. Á eftir Kolbrúnu komu sömu þingmenn og venjulega í ræðustólinn, þegar stjórnarandstaðan telur nauðsynlegt að segja menntamálaráðherra til syndanna. Voru fluttar svipaðar ræður um það efni og áður, en þó þótti mér einkennilegt, að Sigríður Jóhannesdóttir, samfylkingarkona, skyldi telja kjaradeilu tónlistarkennara og aðgerðarleysi mitt í henni sýna best, hve ég sinnti illa störfum mínum sem menntamálaráðherra og vildi hún minna á, að þau fælust í öðru en að koma fram við hátíðleg tækifæri! – Ef afskiptaleysi mitt af máli, sem er alls ekki á valdi mínu að leysa, sýnir, að ég skorist undan starfsskyldum mínum, er ekki von, að stjórnarandstaðan telji nokkuð einhvers virði í störfum mínum, enda ekki við því að búast, þar sem markmið hennar er að koma mér og öðrum ráðherrum úr embættum okkar.

Ég rifja þetta upp hér til þess að halda atvikinu til haga, því að óvenjulegt er, að ráðherrar verði ekki við óskum stjórnarandstöðunnar um umræður utan dagskrár á alþingi, þótt umræðuefnið sé oft langsótt og raunar út í hött að taka það fyrir undir þessum formerkjum, þegar betur er að gáð. Í flestum tilvikum geta þingmenn komið þeim sjónarmiðum, sem þeir reifa í umræðum utan dagskrár, að í almennum umræðum um eitthvert þingmál. Staðreynd er hins vegar, að það er vís leið til að draga að sér athygli fjölmiðla að fara fram með mál utan dagskrár, og er furðulegt að fylgjast með kapphlaupi innan stjórnarandstöðunnar um að fá tækifæri til að verða málshefjandi í slíkri umræðu, því að frumkvæðið veitir þingmönnum bæði lengri ræðutíma og von um meiri fjölmiðlaathygli. Þessi uppátekt Kolbrúnar Halldórsdóttur varð loks til þess, að það birtist fjögurra dálka mynd af mér á forsíðu Fréttablaðsins í ræðustól á alþingi með texta, sem gekk út á það, að ég hefði verið skammaður á þingi – er það þó líklega minnst fréttnæmt af alþingi, að stjórnarandstaðan skammi ráðherra þar.

Mínúturnar og Samfylkingin.

Í mörgum tilvikum er markmið stjórnarandstöðunnar ekki að upplýsa mál með umræðum af þessu tagi heldur hitt að koma viðkomandi ráðherra í klípu og sauma að honum, til að afla sér samúðar hjá þeim, sem eiga í útistöðum við viðkomandi ráðherra utan þings. Í þeirri viðleitni að finna snögga bletti á ráðherrum geta menn farið að þrátta um atriði, sem vekja nokkra furðu. Má til dæmis nefna til marks um það, þegar forysta Samfylkingarinnar þóttist aldeilis hafa náð sér niðri á Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra, af því að hún greindi frá því í svari um viðbragðsflýti vegna brýnnar neyðaraðstoðar lörgreglunnar, að hann hefði verið lengst sjö mínútur.
Eftir að hafa fengið þetta svar sagði Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, að hann hefði upplýsingar um það, og það hefði verið ástæðan fyrir því að hann lagði þessa spurningu fram, að aðfararnótt 20. október sl. hefði fundist meðvitundarlaus maður í stigagangi húss í Breiðholti og hefði verið beðið um aðstoð lögreglu. Það hefðu liðið 50 mínútur þar til aðstoð barst þannig að ráðherra hefði augljóslega rangar upplýsingar undir höndum. Því hefði verið svarað til af lögreglumönnum þegar þeir komu á staðinn, að allir bílar hefðu verið uppteknir. Þeir vildu með öðrum orðum veita þessa aðstoð en gátu það ekki vegna fárra bíla á vakt og mannfæðar. Taldi Guðmundur Árni, að ráðherra hefði annaðhvort ekki gaumgæft þessi svör eða ekki gengið úr skugga um að þau væru rétt. Þau væru það ekki, því er verr og miður. Taldi Guðmundur réttmæt að hafa efasemdir þegar dregin væru upp þessi gluggatjöld, eins og hann orðaði það, um að allt væri hér í standi þegar raunveruleikinn sem við borgurunum blasti og lögreglumönnunum sjálfum væri allur annar. Þá héldi þessi umræða áfram og þingmenn myndu kappkosta um að hið rétta og sanna kæmi í ljós og menn gerðu raunverulega bragarbót.
Þá stóð Össur Skarphéðinsson, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, upp eftir að hafa beðið um orðið til að ræða fundarstjórn forseta og sagði, að það lægi nú fyrir, að dómsmálaráðherra hefði flutt þinginu rangar upplýsingar. Það væri grafalvarlegur hlutur. Allt benti þó til þess að það stafaði ekki af ásetningi heldur hefði ráðherrann ekki fengið réttar upplýsingar. Taldi Össur mikilvægt, að þingið fengi vitneskju um það, hvað hefði ráðið svari ráðherrans, ekki væri nóg að dómsmálaráðherra kannaði málið, heldur væri það skylda ráðherrans að greina þinginu rétt frá og sagði Össur, að eftir atvikum myndu þeir samfylkingarmenn meta, hvort þeir þyrftu afsökunarbeiðni frá dómsmálaráðherra!

Á Bylgjunni/Stöð 2 var leitað til lögreglunnar til að fá hennar hlið á málinu og þar birtist þessi frétt:

Lögreglan í Reykjavík segist ekki hafa
veitt dómsmálaráðherra rangar upplýsingar
til þess að svara fyrirspurn á Alþingi
varðandi neyðarútköll.


Dómsmálaráðherra sagði á þingi eftir
lögreglunni að lengstur útkallstími, þar
sem neyðaraðstoð lögreglu hefði verið
óskað, væri 5 til 7 mínútur. Guðmundur
Árni Stefánsson, Samfylkingunni dró
svarið í efa því hann vissi til að
meðvitundarlaus maður hefði beðið eftir
aðstoð lögreglu í 50 mínútur. Geir Jón
Þórisson, yfirlögregluþjónn segir að
upplýsingar dómsmálaráðherra séu réttar.
Dæmið sem Guðmundur Árni tiltók gefi ekki
rétta mynd. Aðfaranótt laugardagsins 20.
október hafi borist tilkynning um að
ölvaður maður svæfi í stigagangi í
Árbæjarhverfi. Þá var klukkan 6 mínútur
gengin í 1. Fjarskiptamiðstöð
lögreglunnar taldi það ekki
forgagnsatriði að fjarlægja manninn enda
voru þeir lögregluþjónar sem næstir voru
uppteknir í útkalli vegna heimilisófriðar
til klukkan hálf eitt. Lögreglan kom til
að sækja manninn þegar klukkuna vantaði
10 mínútur í 1 en þá fyrst berst
neyðarkall frá íbúum hússins. Lögreglan
er þá komin á staðinn og sér strax að
maðurinn hefur hlotið alvarlega
höfuðáverka og kallar þá á sjúkrabíl. Þá
voru liðnar 45 mínútur frá því að
tilkynning barst um að maðurinn væri
sofandi. Rannsókn lögreglu bendir til að
maðurinn hafi dottið í tröppunum.

Ekki hefur verið efnt til þingfundar síðan forystumenn Samfylkingarinnar hófu þessa miklu sóknarlotu gegn dómsmálaráðherra, svo að mínútu-málið hefur ekki verið upplýst á þeim vettvangi. Á hinn bóginn heyrði ég í þættinum Í vikulokin á rás 1 í morgun, laugardaginn 24. nóvember, að þeim, sem þar voru gestir og ræddu mál vikunnar, þótti framganga þeirra Guðmundar Árna og Össurar í þessu máli aðeins staðfesta, að Samfylkingin hefði í raun ekkert til alvöru stjórnmálaumræðna að leggja eins og raunar hefði einnig verið mátt ráða af nýlegu landsþingi hennar. – Og í viðtali á Stöð 2, Íslandi í dag, fimmtudaginn 22. nóvember, sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra gott, að það stæði í 1. gr. samþykkta Samfylkingarinnar, að hún væri stjórnmálaflokkur, að öðrum kosti mundu margir vera í vafa um eðli þessa félagsskapar.


Vandi stjórnarandstöðu

Ég hef aldrei setið í stjórnarandstöðu á alþingi og get því ekki metið þennan málflutning þingmanna vinstri/grænna og Samfylkingarinnar út frá þeim sjónarhóli og vafalaust er erfið þraut að þurfa að velta því fyrir sér á hverjum morgni, til hvaða ráða menn skuli grípa þann daginn til að vekja á sér athygli á alþingi eða annars staðar. Spurning er hins vegar, hvort upphlaup upp af litlu eða engu á þingi sé rétta aðferðin til að draga athygli að stjórnmálastörfum sínum, hvort ekki sé skynsamlegra að sækja fram á málefnalegum forsendum og skilgreina vel og skilmerkilega, hvað það er í raun, sem felst í því, að velja þennan einn frekar en annan.

Fyrir þá, sem aðhyllast vinstristefnu verður sífellt erfiðara að bjóða nýja, trúverðuga kosti í hinum hugmyndafræðilegu átökum, því að sagan hefur dæmt svo margt, sem þessir flokkar hafa talið til helstu stefnumála sinna úr leik. Sumir halda þró áfram í gamla leistann, eins og sést af ýmsu í málflutningi vinstr/grænna, til dæmis varðandi utanríkismálin og þó sérstaklega varnar- og öryggismál. Enn eru talsmenn þessa flokks við það heygarðshorn, að aðgerðir Íslendinga til að tryggja öryggi sitt séu helst til þess fallnar að skapa þeim öryggisleysi, enn vilja þeir hvorki styðja aðild að NATO né tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin. Enn ræður sá tvískinnungur ferðinni hjá þessum flokki, að vera á móti nútímalegum atvinnuháttum og virkjun náttúruauðlinda í þeirra þágu um land allt, en segjast samt berjast mest fyrir byggð í landinu öllu. Enn eru vinstri/grænir andvígir því, að losað verði um tök ríkisins á rekstri fyrirtækja og dregið úr skattheimtu.

Samfylkingin getur ekki státað af því að hafa mótað sér jafnskýra stefnu í nokkrum málaflokki og er þess vegna í miklum tilvistarvanda, sem enn hefur skýrst eftir að talsmenn hennar hafa látið til sín heyra að loknu landsþingi.