Dagur íslenskrar tungu – Microsoft og tungutækni – Samfylkingarfundur
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í sjötta sinn 16. nóvember og sýnist hann hafa skotið góðum rótum, ekki síst innan skólanna, því að hvarvetna gera nemendur og kennarar sér eitthvað til hátíðabrigða í tilefni dagsins. Stóra upplestrarkeppnin hefur samhliða deginum orðið mikilvægur þáttur í starfi æ fleiri skóla og er ánægjulegt að heyra verðlaunahafa koma fram á mannamótum og lesa ljóð af stakri vandvirkni. Gerðist þetta bæði á hátíðinni í Reykholti 16. nóvember og einnig á málræktarþinginu í Hafnarfirði 17. nóvember.
Íslandsbanki hefur frá upphafi lagt degi íslenskrar tungu lið með því að veita fé til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar, þá hefur einnig skapast skemmtilegt samstarf við Íslandspóst, sem sendir öllum landsmönnum póstkort í tilefni dagsins. Á málræktarþinginu er síðan afhentur styrkur, sem Mjólkursamsalan veitir þeim, sem vinna að rannsóknum í þágu íslenskrar tungu, en ekkert fyrirtæki hefur í hugum landsmanna tengst móðurmálinu meira en Mjólkursamsalan með markvissu málræktarstarfi hennar undanfarin ár.
Fyrir alla, sem koma að því fyrir hönd hins opinbera að skipuleggja menningarlega viðburði eða menningarlegt starf, er ómetanlegt að fá þá hvatningu, sem felst í þátttöku öflugra fyrirtækja í slíku starfi. Þannig hefur Landsvirkjun nú gengið til skipulegs samstarfs við Þjóðminjasafnið, eins og staðfest var með formlegum hætti síðastliðinn fimmtudag, þegar efnt var til blaðamannafundar í geymslum safnsins í Kópavogi. Þar eru dýrgripir þjóðarinnar geymdir við fullkomnar aðstæður og má segja, að betur hafi verið búið að hinum lokaða hluta safnsins en þeim hluta þess, sem er opinn öllum almenningi. Er nú markvisst unnið að því að endurgera safnhúsið við Suðurgötu og skipuleggja þar nýja sýningu.
Um leið og unnið hefur verið að því að skapa Þjóðminjasafninu nýjan starfsramma með endurbótum á húsakosti hefur lögum um safnið verið breytt og eru þau nú að komast til framkvæmda. Þá er einnig unnið að því að skrá muni safnsins í rafrænan gagnagrunn, Sarp, sem mun veita aðgang að miklum upplýsingum, þegar hann kemur til sögunnar. Er gerð grunnsins liður í þeirri viðleitni að skapa hér rafrænt starfsumhverfi á sem flestum sviðum safna- og menningarmála, en skemmst er að minnast þess, að Listasafn Íslands hefur opnað grunn sinn með gögnum, er tengjast Gunnlaugi Scheving listmálara, og er unnt að skoða hann á sýningu í safninu um þessar mundir.
Síðastliðinn miðvikudag var stofnað hlutafélag ríkis og sveitarfélaga um landskerfi bókasafna, sem gerir það að verkum, að það er sama hvar menn sitja við tölvu sína, þeir fá jafnan aðgang að upplýsingum um bókakost í um það bil 400 bókasöfnum um land allt. Með landskerfinu og landsaðgangi að alþjóðlegum gagnagrunnum, sem unnt er að kynnast á síðunni www.hvar.is , hverfa fjarlægðir úr sögunni við aðgang að hvers kyns gögnum, sem ráða miklu um menntun og rannsóknir. Held ég, að menn geri sér ekki almennt nægilega glögga grein fyrir því, hve hér er um stór skref að ræða, til dæmis frá sjónarhóli byggðastefnu, frekar en menn áttuðu sig á því, hvaða áhrif veraldarvefurinn mundi hafa, þegar hann var fyrst kynntur fyrir 10 árum.
Microsoft og tungutækni
Mörg verkefnanna á sviði upplýsingatækninnar eru þess eðlis, að ekki er unnt að lýsa þeim með orðum, menn skilja þau hvorki né skynja áhrif þeirra, fyrr en þeir fá tækifæri til að reyna þau í framkvæmd. Þetta á til dæmis við um margt, sem rætt er undir hugtakinu tungutækni, en þriðjudaginn 13. nóvember efndu menntamálaráðuneytið og verkefnisstjórn um tungutækni til ráðstefnu um málið. Í ræðu minni þar greindi ég meðal annars frá samstarfinu við Microsoft, sem á sínum tíma leiddi til þess, að Windows 98 var íslenskað.
Ég hafði ekki tök á að sitja þessa ráðstefnu til loka en sé í frásögn Morgunblaðsins af henni, að Friðrik Skúlason, sem hefur unnið mikið og gott starf við gerð forrita, taldi það „dapurlegt“, að ég skyldi líta á það, sem árangur í samskiptum við Microsoft, að fyrirtækið hefði samið við hollenska fyrirtækið Polderland um gerð leiðréttingartóls á íslensku. Sagði Friðrik, að ekki hefði einu sinni verið talað við íslenska aðila, sem hefðu boðið upp á sambærilegan búnað árum saman.
Þessi gagnrýni Friðriks kemur mér í opna skjöldu, því að það var Microsoft en ekki menntamálaráðuneytið, sem valdi hinn hollenska samstarfsaðila, en af minni hálfu og samstarfsmanna minna í ráðuneytinu hefur verið lögð á það höfuðáhersla, að íslenska sé viðurkennd í forritaheimi Microsoft, það er sá árangur, sem ég fagna. Á hinn bóginn er ég sannfærður um, að bæði Microsoft og Polderland eiga eftir að átta sig á því, að íslenskun á hugbúnaðinum tekst ekki nema í samvinnu við íslenska aðila og þar hlýtur Friðrik að hafa forskot, kjósi hann á annað borð að eiga samvinnu við aðra.
Microsoft hefur fulltrúa sína hér á landi, sem geta leiðbeint fyrirtækinu um samstarfsaðila, menntamálaráðuneytið hefur bent á þá opinberu aðila, sem sýsla með íslenska tungu og veita opinbera ráðgjöf vegna hennar. Ráðuneytið hefur ekki veitt neinum fjármunum til Microsoft, en af tölvubréfum get ég ráðið, að Microsoft er ekki vinsælt hjá öllum íslenskum tölvumönnum. Fyrirtækið er á hinn bóginn hið öflugasta á heimsvísu og hvaða skoðun, sem menn hafa á því, er mikils virði, að það útiloki ekki íslensku í kerfum sínum. Gegn því hefur menntamálaráðuneytið beitt sér. Þess sjást merki, að Microsoft sé að lina hin ströngu höfundarréttartök, sem það hefur á forritum sínum, svo að ef til vill verður auðveldara að íslenska hugbúnað þess, þegar fram líða stundir, án sérstakra samninga og leyfa, eins og unnt er að gera með hugbúnað frá Apple og Linux.
Á þessari ráðstefnu um tungutækni var meðal annars verið að kynna áætlun um verulega styrki til þeirra, sem sinna verkefnum á þessum sviðum. Að sjálfsögðu samræmist það ekki neinum almennum leikreglum, að útiloka samstarf við erlenda aðila, þegar um slíkar styrkveitingar er að ræða, og verður spennandi að sjá, hvernig innlend fyrirtæki bregðast við þeirri auglýsingu sem menntamálaráðuneytið hefur birt um þessa styrki. Markmiðið er skýrt, að tryggja stöðu íslenskunnar í heimi upplýsingatækninnar.
Samfylkingarfundur
Landsfundi Samfylkingarinnar lauk án þess að tekin væri afstaða til þeirra mála, sem menn töldu brýnust, áður en hann hófst, það er til Evrópumálanna og nafnsins á flokknum. Um Evrópumálin er ætlunin að greiða atkvæði í pósti, líklega á næsta ári. Nafnatillögunum var vísað til framkvæmdastjórnar, en nýr formaður hennar er Stefán Jón Hafstein, sem starfar hjá Eddu hf. – útgáfu og miðlun (Mál og menning og Vaka-Helgafell), en hefur áður verið ritstjóri og starfsmaður Ríkisútvarpsins, tekur hann við formennsku af Ágústi Einarssyni prófessor. Stefán Jón er náinn samstarfsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra og er litið á formennsku hans í framkvæmdastjórninni sem lið í undirbúningi undir að Ingibjörg Sólrún taki við formennsku af Össuri á næsta landsfundi Samfylkingarinnar. Öflugur kjarni í forystusveit Samfylkingarinnar starfar innan vébanda Eddu, einkum þess arms fyrirtækisins, sem á rætur í Máli og menningu.
Samfylkingarfundurinn virðist öðrum þræði hafa snúist um að sannfæra fundarmenn um, að flokkurinn sé ekki á hnjánum heldur standi þrátt fyrir allt uppréttur. Sýnist það vekja mesta gleði að fundinum loknum, að hann hafi verið haldinn án mikilla vandræða og jafnvel hafi skapast góð stemmning á stundum. Talað er um óskiljanlegan kraft innan flokksins, sem hafi komið fundarmönnum á óvart, flokkurinn hafi í raun verið kominn að fótum fram en hlotið endurreisn á fundinum. Í lokaræðu sinni á fundinum sló Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar á þessa strengi, þegar hann sagði: „Ég vissi ekki hversu margir myndu gera sér erindi utan af landi á erfiðum árstíma til þess að koma hingað og ræða við okkur um framtíðina... Ég segi það kæru félagar að ég er nánast klökkur þegar ég þakka ykkur kærlega fyrir að þið hafið sýnt það með starfi ykkar - framlagi ykkar- hvað þið metið Samfylkinguna mikils og hvað þið hafið reist flaggið hátt aftur. Þið hafið leitt til þess að við getum farið öll saman af þessum fundi hnarreist - stolt og horft glöðum og vonbjörtum augum inn í framtíðina. Samfylkingin fer af þessum fundi eins og hraðskreið skúta... Við höfum sýnt þjóðinni fram á þann mikla byr sem við búum yfir. Og sá styrkur er meiri heldur en við trúðum á sjálf.“
150 manns greiddu atkvæði um menn í framkvæmdastjórn og minnir sú tala á hinn mikla mun, sem er á þessum fundi og landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þar sem tæplega 900 manns taka þátt í atkvæðagreiðslum. Þá má minnast þess, að um 700 manns tóku þátt í atkvæðagreiðslu á síðasta aðalfundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og mun fleiri sækja þing Sambands ungra sjálfstæðismanna en landsþing Samfylkingarinnar.
Undir lok fundarins vildu sumir Samfylkingarmanna syngja Internasjonalinn, baráttusöng marxista og sósíalista, aðrir mótmæltu, var sæst á að syngja Maístjörnuna. Þetta litla atvik segir ef til vill meira en flest annað um andann á fundinum og hverjir það eru, sem telja sig hafa þar undirtökin. Ég hitti til dæmis mann, sem þekkti vel til innviða gamla Alþýðuflokksins, og sagðist hann hafa orðið mjög undrandi, þegar hann sá nöfn þeirra, sem auglýstir voru sem ræðumenn og stjórnendur málstofa á Samfylkingarfundinum, því að þar hefði hann helst rekist á nöfn fyrrverandi Alþýðubandalagsmanna og fylgismanna Kvennalistans. Í hópnum hefði kannski verið einn, sem starfaði áður með áberandi hætti á vettvangi Alþýðuflokksins. Hið sama virðist uppi á teningnum, þegar litið er á nöfn þeirra, sem valdir voru til foystustarfa innan Samfylkingarinnar, því að í þeim hópi var Jóhann Geirdal efstur, en hann vildi, að nafni flokksins yrði breytt í Alþýðubandalag.