3.11.2001

Rás 2 – fjármögnun háskólastigs – fjögur ný dæmi um hortugheit R-listans.

Nokkur mál, sem falla undir menntamálaráðuneytið, hafa verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Mér finnst margt af því, sem sagt er, næsta sérkennilegt, eins og það að gefa sér, að athugun á því, hvort unnt sé að styrkja svæðisbundna þjónustu Ríkisútvarpsins með því að rás 2 verði endurskipulögð í því skyni og miðstöð hennar verði á Akureyri, feli í sér aðför að íslenskri dægurlagatónlist. Á tímum alþjóðafjölmiðlunar hefur það reynst góð leið til að styrkja starfsemi ljósvakamiðla, sem ekki hafa neina burði til að heyja alþjóðakeppni, að þeir færist nær rótum sínum og uppruna. Ríkisútvarp skipar sérstakan sess í þessu sambandi og hefur þá frumskyldu að sinna sínu menningarsvæði sem best, er það augljós leið til að rífa þetta útvarp upp með rótum að fjarlægja það menningarlegu umhverfi sínu.

Hin stafræna tækni auðveldar mjög aðgang að bylgjum til hljóðvarps- og sjónvarpssendinga, viðhorf til dreifikerfa breytast og krafan um að eiga gott efni til að senda á öllum þessum bylgjum verður vaxandi. Sú spurning vaknar, hvort afstaðan til opinberra afskipta af miðlun efnis á þessum bylgjum sé ekki um of háð fortíðinni og hagsmunum þeirra, sem starfa á þessum vettvangi við núverandi aðstæður. Tregðulögmál stofnanakerfis ráði meiru um það, sem hæst ber í umræðum, en vilji til að nýta sér tækifæri breytinganna. Ég hef áður sagt, að hlutverk ríkisins á þessu sviði sé að ýta undir framleiðslu á innlendu efni en ekki endilega að reka allt kerfið, sem þarf til að dreifa því – slíkur rekstur er ekki síður verkefni einkaaðila en rekstur símafyrirtækja, sem nú er verið að einkavæða um heim allan.

Meðal þess sem skilur á milli ríkisfyrirtækis og einkafyrirtækis er afstaða starfsmanna til vinnuveitanda síns á opinberum vettvangi. Ef breytingar eru á döfinni í ríkisfyrirtæki eða nauðsyn krefst fjárhagslegrar hagræðingar af einhverju tagi, er algengt, að starfsmenn geri lítið úr markmiðinu í opinberum umræðum, telji það sprottið af óvild eða annarlegum hvötum og stuðli þar með frekar að meiri vandræðum fyrir umrædda stofnun en að því að efla hana. Er þetta ein af ástæðunum fyrir því, að þeim fjölgar, sem telja einkavæðingu skynsamlegri kost en ríkisrekstur.

Fjármögnun háskólastigsins

Umræður hafa orðið um fjármögnun háskólastigsins, meðal annars var efnt til ráðstefnu um málið í Háskóla Íslands hinn 26. október síðastliðinn. Voru ýmis sjónarmið reifuð og Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, velti vöngum um fjármögnun háskóla og kynnti kenningar Nicholas Barrs, hagfræðings við London School of Economics. Taldi Ólafur mikilvægt að hefja hér og á Norðurlöndunum öllum vitræna umræðu um skólagjöld sem hluta af fjármögnun ríkisháskóla. Eins og lesendur þessara pistla minna hér á vefsíðunni geta kynnt sér, hef ég löngum haldið því fram, að ekki verði undan því vikist hér frekar en annars staðar að ræða stöðu háskóla með hliðsjón af þeirri staðreynd, að sumum er veitt heimild til að innheimta skólagjöld en öðrum ekki.

Í viðræðum við starfsbræður mína á Norðurlöndum hefur það sjónarmið komið fram hjá sumum þeirra, að skynsamlegra sé að hækka skatta til að standa undir auknum kostnaði við háskólanám sífellt fleiri nemenda en áður heldur en veita skólum heimild til að heimta gjöld af nemendum til að standa undir kostnaði við kennslu. Ráðherrar og ráðuneyti hafi meira vit á því, hvernig eigi að verja fé í þágu menntunar og skólastarfs en almenningur og þess vegna eigi að auka almennar opinberar álögur til að ráðuneytin hafi aukið fjárhagslegt svigrúm í þágu háskóla. Með öðrum orðum, einstaklingar verði að laga nám sitt að því, sem í boði er af ríkinu, en ríkið eigi ekki að skapa einstaklingnum svigrúm til að ráða og velja með fjárhagslegum skuldbindingum sjálfs síns gagnvart háskóla með greiðslu skólagjalda.

Umræður um þetta snerta ekki þær tillögur, sem eru boðaðar í fjárlagafrumvarpi ársins 2002 um hækkun innritunargjalda í ríkisháskólana, því að þar er tekið mið af verðlagsþróun síðustu 10 ára og lagt til að innritunargjöldin haldi í við hana.

Fjárveitingar til allra háskóla hér á landi byggjast nú á samningsbundnu fjármögnunarkerfi með vísan til reglna um fjárframlög vegna kennslu á háskólastigi eða kennslusamningi. Innan háskóla hafa síðan verði mótuð deililíkön, sem skipta hinu samningsbundna fjármagni milli deilda skólanna. Hér eru í gildi reglur um þessi heildarfjárframlög, sem menntamálaráðuneytið setti í fullu samkomulagi við Háskóla Íslands. Tyggði þetta samkomulag Háskóla Íslands alla þá fjármuni, sem skólinn fór fram á þeim tíma, sem það var gert, og í raun meira fé. Óskina um heildarfjárhæð byggði HÍ á deililíkani sínu, þar er gert ráð fyrir, að hagkvæmni stærðar í fjölmennari deildum vegi upp óhagræði af fámennum hópum í sumum námsgreinum. Tilgangurinn með þessu samkomulagi og reiknilíkaninu er, að háskólar fái skýran ramma um rekstur sinn og hagi skipulagi á starfi sínu í samræmi við hann. Í því felst með öðrum orðum umsamið aðhald, en ávallt er gerð krafa um aðhald við meðferð opinberra fjármuna. Stjórnendum háskóla var með samkomulaginu og líkaninu ljóst, hvernig þeir ættu að haga starfi skóla sinna til að nýta opinbera fjármuni á hagkvæmasta hátt. Fari skólar út af þeirri braut við innri stjórn sína, lenda þeir í ógöngum, en ekki er unnt að skella skuldinni af því á þá, sem sömdu um leikreglurnar eða vilja, að þeim sé framfylgt. Sjálfstæði háskóla við stjórn fjármála sinna innan samningsbundins ramma fylgir ábyrgð, sem ekki verður varpað út fyrir veggi skólans.

Hortugheit R-listans – fjögur ný dæmi.

Í miðopnu Morgunblaðsins í dag, 3. nóvember, er birt viðtal við Gunnar Guðjónsson og Jón Sigurjónsson kaupmenn við Laugaveginn og félaga í Laugavegssamtökunum, þar sem þeir lýsa samskiptum sínum við R-listann og starfsmenn hans hjá Reykjavíkurborg. Ættu allir, sem efast um þá skoðun okkar andstæðinga R-listans, að hjá honum ráði kerfissjónarmið og valdhroki ferðinni, að kynna sér vel efni þessa viðtals og lýsingu kaupmannanna á samskiptum sínum við borgaryfirvöld. Öll fyrirheit R-listans um samstarf við grasrótarsamtök fólksins hafa verið höfð að engu og smíðaður hefur verið svo hár stigi upp til borgarstjórans, að engum er lengur ætlað að fara þá leið.

Þá má einnig benda á frétt á blaðsíðu 2 í DV í dag, þar sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skýrir frá því, að við ákvarðanir vegna endurgerðar Reykjavíkurflugvallar hafi verið miðað við, að fjárfesting við framkvæmdirnar yrði afskrifuð á 25 árum, þess vegna hafi verið ráðist í þær. Um þetta hafi verið rætt og samið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, sem síðan hafi snúið við blaðinu að framkvæmdunum loknum og vilji flugvöllinn á brott eftir 16 ár. Borgarstjóri viðurkennir á hinn bóginn ekki neitt slíkt samkomulag en vísar til umræðna fyrir hina misheppnuðu atkvæðagreiðslu um framtíð flugvallarins máli sínu til stuðnings.

Í frásögn af umræðum í borgarstjórn Reykjavíkur um kjaradeilu tónlistarkennara í Morgunblaðinu 2. nóvember kemur fram, að borgarstjóri telji kjaradeiluna tengda því fyrirkomulagi sem nú ríki á tónlistarkennslu og ástæða sé til að ræða það fyrirkomulag í tengslum við deiluna. Sé hún þeirrar skoðunar, að grunnskóla- og tónlistarkennsla sé best komin hjá borginni en ríkið sjái um framhaldsskóla og háskóla. Lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla eru frá 1985 og samkvæmt samkomulagi um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 1989, sem var staðfest með breytingu á þessum lögum það sama ár, eru það sveitarfélögin, sem fara með með málefni tónlistarskólanna og í 9 gr. laganna segir: “Starfsmenn tónlistarskóla, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum, en njóta styrks samkvæmt lögum þessum, skulu njóta launa í samræmi við kjarasamninga sem launanefnd sveitarfélaga gerir við stéttarfélög þeirra á hverjum tíma, en þeir teljast starfsmenn viðkomandi skóla nema öðruvísi sé um samið. Þeim er heimil þátttaka í söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eða öðrum þeim lífeyrissjóði sem viðkomandi starfsmaður á aðgang að.” Í ljósi þessa lagaákvæðis er erfitt að átta sig á því, hvað borgarstjóri er að fara með þeim orðum, sem hún lét falla í ræðu sinni á borgarstjórnarfundinum eða á bakvið hvað hún er að skjóta sér með þeim. Reykjavíkurborg hefur undir stjórn borgarstjóra til dæmis einhliða neitað að viðurkenna 51 m.kr. greiðsluskyldu sína til listnáms, eftir að Listaháskóli Íslands kom til sögunnar og ekki ljáð máls á neinum samningum um þá fjármuni og skapar það listaháskólanum óvissu í rekstri hans. Þá hefur borgarstjóri af mikilli þvermóðsku neitað að koma að uppbyggingu Menntaskólans í Reykjavík eða Menntaskólans við Hamrahlíð í skjóli lögfræðiálits, sem setur borgarstjóra þó alls ekki neinar aðrar skorður en þær, sem Ingibjörg Sólrún ákveður sjálf á pólitískum forsendum.

Þegar R-listinn var kominn í algjört þrot við að verja fjárausturinn í Línu.net fór borgarstjóri allt í einu að tala um Perluna í sömu andrá og þetta gælufyrirtæki R-listans. Samhengið skildist, þegar Alfreð Þorsteinsson, fjármálastjóri R-listans og yfirborgarstjóri, birtist hróðugur í fyrstu frétt ríkissjónvarpsins fimmtudagskvöldið 1. nóvember, og sagði, að hann vildi selja Perluna, hún væri svo dýr í rekstri og þar væri stunduð samkeppni, það væri bara best að selja hana! Glottið á Alfreð gaf til kynna, að ekki fylgdi hugur máli, heldur væri hann að slengja þessu fram í þeirri von að setja sjálfstæðismenn út af laginu í umræðunum um Línu.net - öll hans pólitíska framganga minnir helst á þá, sem telja, að nóg sé að glotta út í annað, smella fingri og veifa peningabúnti, þá nái maður því, sem að er stefnt.

Alfreð ræðst síðan að mér í DV í dag með dæmigerðum hroka þess, sem er svo stór og uppfullur af sjálfum sér, að enginn þori til atlögu við hann, en þannig hefur hann einmitt komið fram innan R-listans og haft betur. Hann gagnrýnir mig meðal annars á þeirri forsendu, að það vanti fjóra milljarði til að byggja upp framhaldsskólana í Reykjavík, væri hann tekinn á orðinu ætti hann að tryggja 1,6 milljarð króna af þeirri fjárhæð – hann segir auðvitað hvorki nokkuð um það né hitt, að þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur R-listinn ekki getað svarað því með skýrum og endanlegum hætti, hvar séu byggingarlóðir undir Kvennaskólann í Reykjavík eða Menntaskólann við Sund, þar byggjast svör á hálfkveðnum vísum eins og endranær.

Ég vakti máls á því í síðasta pistli mínum, að Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með 8% fylgi í skoðanakönnun hér á höfuðborgarsvæðinu og dró þá ályktun, að forysta Alfreðs innan R-listans í nafni Framsóknarflokksins veikti flokkinn meira en ríkisstjórnarsamstarf flokksins við okkur sjálfstæðismenn. Viðbrögð Alfreðs í DV sýna, að hann veit upp á sig skömmina, en hann vill auðvitað beina umræðum um þessi vandræði sín í annan farveg eins og hann gerði með því að fara að tala um sölu á Perlunni, þegar hann var spurður um fjármál Línu.nets.