27.10.2001

4000 leiðarar – fjölmiðlaumræða um stjórnmál – lítið fylgi og R-listinn


Jónas Kristjánsson ritstjóri hefur sett um 4000 leiðara sína á netið. Er þetta merkilegt framtak, því að í skrifum Jónasar endurspeglast viðhorf eins manns til þjóðmála í um það bil þrjá áratugi og afstaða til málefna líðandi stundar, en vefsíðan spannar tímann frá 1973 til dagsins í dag. Ég hef áður vakið máls á því hér á síðunni, að það sé einkenni blaðaútgáfu hér undanfarna þrjá til fjóra áratugi, að ritstjórar þeirra blaða, sem hafa komið út í þennan tíma, hafa verið þaulsetnir. Árið 1974 starfaði ég í nokkra mánuði með Jónasi á Vísi sem fréttastjóri erlendra frétta og skrifaði þá leiðara á móti honum, en eins og kunnugt hefur tíðkast bæði á Vísi, Dagblaðinu og síðan DV eftir samruna blaðanna, að menn riti leiðara þar undir nafni. Síðar var ég í tólf ár í hópi leiðarahöfunda á Morgunblaðinu, en þar eru leiðarar nafnlausir, og þess vegna nálgast menn þar viðfangsefnið á öðrum forsendum en Jónas gerir, því að í raun lýsir hann persónulegri skoðun sinni, þótt um forystugrein blaðs sé að ræða, og oftar en einu sinni hefur það gerst, að þeir, sem skrifa leiðara með Jónasi á sama blaði og hann, lýsa öndverðri skoðun við hann.

Ég ætla ekki að leggja á það dóm, hvaða áhrif Jónas hefur haft með leiðurum sínum. Stjórnmálamenn lesa þá til forvitnast um viðhorf hans til manna eða málefna, en ég held, að þeir kippi sér almennt ekki mikið upp við gagnrýni hans. Honum liggur þungt orð til sumra stjórnmálamanna og getur þá orðið persónulega illskeyttur í gagnrýni sinni, eins og til dæmis á Davíð Oddsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Verður ekki séð, að Davíð hafi beðið neinn skaða af skrifum Jónasar. Í sumar krafðist Jónas afsagnar minnar, vegna þess að Árni Johnsen alþingismaður sætti ámæli fyrir framgöngu sína sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Hann hefur mælt með aðild Íslands að Evrópusambandinu, án þess að valda sérstöku uppnámi – hann var á sínum umdeildur vegna afstöðu sinnar til íslensks landbúnaðar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði í bók sinni Fjölmiðlar nútímans, sem kom út árið 1989, að þeir Indriði G. Þorsteinsson og Jónas Kristjánsson væru nú á dögum “almennt taldir ritfærustu blaðamenn Íslendinga.” Stíll Jónasar er beinskeyttari en áhrif hans.

Fjölmiðlaumræða um stjórnmál

Blaðamennska er orðin ópólítískari en áður var og deilur milli leiðarahöfunda dagblaðanna eru svo að segja úr sögunni, en á þeim árum, sem ég ritaði leiðarana var algengt, að blöðin deildu hart sína á milli í forystugreinum eða dálkum á borð við Staksteina í Morgunblaðinu. Er eftirsjá í því, að sú hefð íslenskrar blaðamennsku hverfi, að átök séu á milli blaða og þau séu öflugir málsvarar ólíkra sjónarmiða. Það dregur úr upplýsandi umræðum um álitamál.

Helst fjalla dagblöðin eða ljósvakamiðlarnir um stjórnmálaflokkana í tengslum við niðurstöður skoðanakannanna, sem fjölmiðlarnir láta sjálfir gera eða greiða fyrir. Nú í vikunni birti DV niðurstöður skoðanakönnunar, þar sem Samfylkingin fékk slæma útreið með aðeins 13,5% stuðning í stað 18% í ágúst sl. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 45,6%, sem er 3,5% aukning frá því í ágúst. Vinstri/grænir fengu núna 24% og bættu stöðu sína um 3,1%. Framsóknarflokkurinn fékk 13%, sem er 0,3% aukning frá síðustu könnun.

Staða Samfylkingarinnar er í raun með ólíkindum, þegar litið er á yfirlýst markmið forystu hennar, það er að verða ótvíræður keppinautur Sjálfstæðisflokksins. Er óhætt að segja, að ekkert hafi gengið eftir hjá þessum flokki, frá því að hann var stofnaður. Honum hefur ekki tekist að velja sér sigurstranglegan formann, en hefur þó ekki neinn annan en Össur Skarphéðinsson. Honum hefur ekki tekist að skapa sér stöðu með stefnu sinni.

Umræður um stjórnmálaflokkana eru mjög yfirborðskenndar í fjölmiðlum og vegna þess hve lítil rækt hefur verið lögð við þennan þátt blaðamennskunnar eru fáir fjölmiðlamenn í þeim trúnaðartengslum við stjórnmálamenn, að þeir geti í raun skýrt lesendum sínum, hlustendum og áhorfendum frá einhverju bitastæðu, sem gerist á bakvið tjöldin í stjórnmálunum. Pólitísk skrif einkennast því af fullyrðingum, sem hver hefur eftir öðrum, án þess að skoða hvað býr að baki þeim.

Lítið fylgi og R-listinn

Hvernig er til dæmis unnt að rökstyðja, að Framsóknarflokkurinn hafi 13% fylgi vegna þess, að hann sé í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn? Fullyrðing um þetta kemur frá þeim, sem vilja spilla þessu samstarfi, og hún er endurtekin af öðrum eins og um óumdeild sannindi sé að ræða. Eru ekki aðrar skýringar nærtækari? Eins og sú, að Framsóknarflokkurinn hefur afsalað sér sjálfstæðri tilveru í höfuðborginni með aðild sinni að R-listanum? Ekki tapar Samfylkingin á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Gæti hún hins vegar ekki tapað á því að hafa ekki sjálfstæða tilveru í höfuðborginni? Þar er hún eins og Framsóknarflokkurinn undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í nafni R-listans – stjórnmálamanns, sem segir, að Samfylkingin nái ekki árangri, af því að hún eigi engan “pólitískan kúltúr”.

Er einleikið, að þessir tveir andlitslausu flokkar í höfuðborginni, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, mælast með 13% fylgi? Vinstri/grænir hafa ekki afsalað sér pólitísku sjálfstæði í Reykjavík með aðild að R-listanum. Í huga flestra hafa vinstri/grænir yfirbragð dreifbýlis- eða landsbyggðarflokks. Könnun DV sýnir hins vegar, að vinstri/grænir njóta meira fylgis, 24,4 %, á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, 23,7% - Framsóknarflokkurinn fær hins vegar aðeins 8,5% á höfuðborgarsvæðinu en 17,2% á landsbyggðinni.

Er það vegna samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, að Framsóknarflokkurinn nýtur helmingi minni stuðnings á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni? Hvers vegna er skýringarinnar ekki leitað í störfum framsóknarmanna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þeir eru innan R-listans undir forystu Alfreðs Þorsteinssonar?

Sú spurning hlýtur að gerast áleitin á þá, sem vilja veg vinstri/grænna sem mestan, hvort besta leiðin til þess sé að fara undir pilsfald Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í R-listanum. R-listinn undir forystu hennar gerði á sínum tíma út af við Kvennalistann og er nú á góðri leið með að rústa Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna. Ætla vinstri/grænir að taka þessa áhættu? Eða kjósa þeir að halda sjálfstæði sínu og sérstöku svipmóti í Reykjavík? Ef þeir velja fyrri kostinn, hljóta þeir að gera kröfu um, að stefna þeirra setji sterkt svipmót á kosningastefnuskrá R-listans og þeir fái þar fulltrúafjölda í samræmi við styrk sinn, sem verður ekki mældur með öðrum hætti en skoðankönnunum, og ætti þá Framsóknarflokkurinn að fá fæsta fulltrúa, Samfylkingin næstflesta og vinstri/grænir flesta.