Lokadagur landsfundar
Síðasti dagur 34. landsfundar Sjálfstæðisflokksins hófst klukkan 10.00 að morgni sunnudagsins 14. október og var þá hafist handa við afgreiðslu ályktana um hin ýmsu málefni, en alls störfuðu 25 málefnanefndir fyrir fundinn og voru tillögur frá þeim öllum teknar til afgreiðslu á honum auk tillögu að stjórnmálaályktun, en Vilhjálmur Egilsson alþingismaður var formaður stjórnmálanefndar.
Er ærið verkefni að halda utan um nefndarstörfin á fundinum og sjá til þess, að allar ályktanir séu til fjölritaðar í tæplega 1000 eintökum í tæka tíð, svo að unnt sé að taka þær til umræðu og afgreiðslu. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, og Hanna Birna Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri auk Grétu Ingþórsdóttur, framkvæmdastjóra þingflokks sjálfstæðismanna, halda utan um þennan þátt í störfum fundarins og gekk það með miklum ágætum, þannig að aldrei þurfti að gera hlé á honum vegna skorts á gögnum.
Ályktanirnar eru misjafnlega viðamiklar og umræðurnar eru einnig mislangar eftir því, hvort um ágreining er að ræða eða ekki. Hinu eru engin takmörk sett, hvað það er, sem menn ræða eða greiða atkvæði um á fundinum, en hann var að þessu sinni haldinn undir kjörorðinu: Fleiri tækifæri – farsælla mannlíf.
Töluverðar umræður urðu um orkumálin, þar sem tekist var á um umhverfisþáttinn í tengslum við virkjun fallvatna. Ólafur F. Magnússon, læknir og borgarfulltrúi í Reykjavík, fór fyrir þeim, sem vildu sporna við frekari virkjunum og stóriðju. Andaði köldu í hans garð frá Austfirðingum og sárnaði Ólafi, þegar Einar Rafn Haraldsson, formaður Afls fyrir Austurland, líkti honum við hryðjuverkamann, en Austfirðingurinn Hrafnkell Jónsson mæltist til þess, að Ólafur léti sér annt um einhverja aðra en Austfirðinga að minnsta kosti næstu mánuði, þótt hann ætti ættir sínar að rekja til þeirra. Það vakti athygli mína, að Þorsteinn Siglaugsson, sem hefur ritað greinar í blöð og efast um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar, lýsti yfir stuðningi við þá tillögu, sem var samþykkt samhljóða og án mótatkvæða um orkumál, eftir að breytingartillögur Ólafs F. Magnússonar höfðu verið felldar.
Þegar rætt var um landbúnaðarmál á fundinum, bað Markús Möller um orðið og sagðist flytja síðustu ræðu sína á landsfundi að sinni, þar sem hann hefði daginn áður orðið undir í atkvæðagreiðslu um sjávarúvegsmálin. Þakkaði hann flokkssystkinum sínum fyrir samveruna en nú ætti hann sig sjálfur. Er óvenjulegt, að niðurstaða mála á landsfundi leiði til þess, að þeir, sem ekki fá sitt fram, segi skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Markús hefur um nokkurt árabil látið verulega að sér kveða í umræðum um sjávarútvegsmál á vettvangi Sjálfstæðisflokksins en ekki haft erindi sem erfiði að eigin mati og í upphafi þessa fundar hvatti hann eindregið til þess, að þannig yrði staðið að afgreiðslu sjávarútvegsmálanna á fundinum, að ekki væri neinn vafi um afstöðu flokksins og þess yrði gætt, að niðurstaðan fengist í skriflegri atkvæðagreiðslu. Allt gekk þetta eftir en sjónarmið Markúsar náðu ekki fram að ganga.
Fjörugar umræður urðu um ályktun um réttarfars- og stjórnskipunarmál. Haraldur Blöndal, sem situr í yfirkjörstjórn Reykjavíkur, var fyrsti flutningsmaður tillögu, þar sem varað var við því að fiktað yrði í kosningaaðferðum, þótt látið væri afskiptalaust, hvernig talið yrði. Í umræðum kom meðal annars til álita, hvort efna ætti til rafrænna kosninga eða ekki. Jón Steinar Gunnlaugsson, sem hefur verið formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, taldi tillöguna ekki standa gegn tilraunum með nýjar aðferðir við kosningar. Þá var fellt úr ályktuninni ákvæði um, að ekki skyldu gilda reglur um fjárhættuspil og happdrætti, einnig var því hafnað að lækka sjálfstæðisaldur að nýju í 16 ár, loks var töluvert rætt um kirkjumál og ákveðið að fella niður þessa setningu úr tillögu nefndarinnar: “Efla þarf sjálfstæði þjóðkirkjunnar enn frekar, svo ríki og kirkja verði að fullu aðskilin.”
Gerð var atlaga, að þessari setningu í ályktuninni um fjölskyldumál: “Landsfundur hvetur til þess að stefnt verði að 12 mánaða fæðingarorlofi.” Var samþykkt að halda setningunni.
Tekið var út úr ályktun um ferðamál, að huga skuli að því að stofna sérstakt ráðuneyti ferðamála.
Tillögu varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar frá Erni Sigurðssyni, arkitekt og forystumanni í samtökunum um betri byggð, var vísað til miðstjórnar.
Saamþykkt var að stefna að því að lækka tekjuskatt fyrirtækja í 10% en í tillögum nefndar var lagt til að lágmarkið yrði 15%.
Við afgreiðslu ályktunar um menningarmál flutti Pétur Blöndal alþingismaður tillögu um sölu á RÚV og var hún felld, eftir að Halldór Blöndal fundarstjóri hafði þrisvar sinnum gefið fundarmönnum færi á greiða atkvæði um hana. Sagði Halldór tillöguna fellda með sjónarmun atkvæða. Reyndi aftur á afstöðu manna til RÚV við afgreiðslu um viðskipta- og neytendamál, þar sem fjallað er um afnám skylduáskriftar að fjölmiðlum, þá var einnig felld tillaga þeirra, sem vildu ganga lengra gegn RÚV sem ríkisfyrirtæki en kom fram í tillögu nefndarinnar.
Ég tók eftir því, að Árni Snævarr, fréttamaður Stöðvar 2, gerði því skóna í fréttum af fundinum, að eitthvað óeðlilegt hefði verið við það, hvernig Halldór Blöndal stóð að afgreiðslu tillögu Péturs Blöndals um RÚV, úr því að hann lét endurtaka atkvæðagreiðsluna. Finnst mér þessi afstaða fréttamannsins byggjast á nokkurri vankunnáttu. Á þingi Evrópuráðsins tíðkaðist það, þegar ég sat þar, að fyrst leitaði forseti eftir afstöðu manna með handauppréttingu, ef honum þótti hann ekki sjá nægilega vel, hver munur var, bað hann menn að standa upp til að sýna afstöðu sína, ef forseti treysti sér ekki heldur eftir það til að lýsa niðurstöðu í atkvæðagreiðslu var kallað á talningamenn einnig var unnt að krefjast nafnakalls. Það er síður en svo til marks um óeðlilega fundarstjórn á fjölmennum fundi eins og landsfundi, þar sem tæplega 1000 manns geta verið í salnum, að láta greiða oftar en einu sinni atkvæði um sama málið, ef mjótt er á munum.
Ég man eftir því þegar Pétur Ottesen stjórnaði lokafundi landsfundar, þegar hann var haldinn í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og stóð þar uppi í ræðustólnum uppi á sviði með staf sinn og úrskurðaði um afdrif mála af miklum myndugleik til að unnt væri að ljúka fundinum. Var þá mun meiri spenna í lofti en að þessu sinni í Laugardalshöllinni, og sættu menn sig við niðurstöðu fundarstjórans og gengu sáttir af fundi.
Ályktun um utanríkismál var síðasta málið, sem kom fyrir fundinn. Þar er lýst yfir stuðningi við hina alþjóðlegu baráttu, sem er hafin gegn hryðjuverkamönnum og þeim, sem skjóta skjólshúsi yfir þá. Fagnað er einhug innan NATO og staðfestu í þessari baráttu. Lýst er yfir stuðningi við varnarsamstarfið við Bandaríkin, sem hvíli á varanlegum öryggishagsmunum ríkjanna beggja. Áætlanir um að auka getu Íslands í alþjóðlegum friðargæsluverkefnum eru studdar. Ítrekaður er stuðningur við aðild Eystrasaltsríkjanna að NATO. Sagt er að frekari umræða um kosti og galla aðildar Íslands að ESB boði ekki neitt nýtt nema í henni komi skýrt fram ótvíræðir kostir við aðild. Þeir sem mæli með aðild verði því að segja með afdráttarlausum hætti, hverju þeir telja að verði fórnað og hvað gæti áunnist við aðild að ESB. Sagt er, að hvorki sé nauðsynlegt né ráðlegt fyrir Ísland að binda sig Evrópusambandinu frekar en orðið er.
Stjórnmálaályktunin er einskonar samnefnari allra hinna ályktananna. Þar segir, að lækkun vaxta sé ein af meginforsendum nýrra fjárfestinga og uppbyggingar í atvinnulífinu og því sé nauðsynlegt að þeir lækki hratt. Sjávarútveginn skuli reka á grundvelli hagkvæmni og hann eigi ekki að þurfa að bera byrðar vegna óhóflegrar skattheimtu eða annarra hafta. Lýst er einörðum stuðningi við áform um uppbyggingu nýrrar stóriðju á Austurlandi og við Hvalfjörð og þær virkjunarframkvæmdir sem henni tengjast. Næstu stóru aðgerðirnar í einkavæðingu þurfi að verða á orkumarkaðnum með markaðsvæðingu og einkavæðingu þeirrar mikilvægu atvinnugreinar í kjölfarið. Skipulag og rekstur heilbrigðisþjónustunnar sé eitt stærsta og viðkvæmasta verkefni ríkisins þar sem samræma þurfi óskir og metnað til að gera sífellt betur miðað við getu samfélagsins og stöðu ríkissjóðs. Hið almenna velferðarkerfi landsmanna sé eitt mikilvægasta tæki þjóðarinnar í samkeppni milli landa um fólk á tímum þegar sífellt betri tækifæri til að velja sér land til búsetu einkenni þróunina. Ríkið hafi stóru hlutverki að gegna við að efla vísindi og tækni með því að styrkja grunnrannsóknir og stuðla að hagnýtingu þeirra. Vanda þurfi til stjórnunar menntastofnana og nauðsynlegt sé að endurskoða stjórnkerfi Háskóla Íslands þannig að ákvarðanataka verði virkari og markmiðum skólans betur náð. Lögð er áhersla á að auka einkavæðingu í starfsemi sveitarfélaga og yfirfærslu verkefna til einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka.
Í lok stjórnmálaályktunarinnar segir: “Öflugt og frjótt menningarlíf og hið óformlega félagslega öryggisnet, myndað með samheldni fjölskyldna og vina, eru ómissandi þættir í samfélaginu sem gera Ísland aðlaðandi og sérstakt, þannig að flestir þeir sem leita utan til náms eða starfa kjósa að snúa til baka og taka þátt í að skapa það góða land sem Ísland er. Ísland, sem vill standa meðal fremstu ríkja í heiminum, þarf á því að halda að sífellt stærri hluti þjóðarinnar fái þekkingu og reynslu erlendis frá og flytji hana til landsins. Íslendingar þurfa líka að vera opnir og umburðarlyndir gagnvart fólki af erlendum uppruna sem flyst til landsins og vill búa hér og taka fullan þátt í lífi og starfi þjóðarinnar. Íslensk menning nærist á því að komast í snertingu við erlenda strauma og stefnur og íslenskt atvinnulíf eflist í alþjóðlegri samkeppni þegar samfélagið er opið fyrir fólki og nýjungum. Tækifæri íslensku þjóðarinnar eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr og möguleikarnir til þess að skapa fjölbreytt mannlíf á Íslandi eru betri en nokkru sinni fyrr. Sjálfstæðismenn eru stoltir af sögu flokksins og störfum hans í þágu þjóðarinnar og hlakka til þeirra krefjandi verkefna sem bíða í framtíðinni.”
Kosið er í miðstjórn flokksins á landsfundi, það er 11 fulltrúar, en auk þeirra eiga fulltrúar þingflokks og ýmissa stofnana flokksins sæti í miðstjórninni. Að þessu sinni bauð 21 sig fram í þessu 11 sæti og lauk kosningu kl. 12.00 sunnudaginn 14. október, 803 atkvæði voru greidd og hlaut Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar á Ísafirði, flest atkvæði eða 631, næstur kom Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum 610, þá Elínbjörg Magnúsdóttir, verkalýðsforingi af Akranesi 570, Ragnar Sær Ragnarsson, sveitarstjóri Biskaupstungum 553, Ellen Ingvadóttir, fráfarndi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 501, Ásta Þórarinsdóttir, hagfræðingur Kópavogi 486, Magnús Þór Gylfason, framkvæmdastjóri SUS, 457, Magni Kristjánsson, skipstjóri og framkvæmdastjóri Neskaupsstað, sem beitti sér nýlega fyrir málverkasafni Tryggvar Ólafssonar 447, Jón Helgi Björnsson, framkvæmdastjóri Laxamýri 442, Birgir Ármannsson lögfræðingur 418, Jón Magnússon verkfræðingur Skagafirði 418.
Kosning formanns og varaformanns er óbundin, það er að allir landsfundarfulltrúar eru í raun í kjöri og fá menn atkvæðaseðil og skrifa á hann nafn þess, sem þeir vilja, án þess að vera bundnir af framboði. Klukkan 15.00 var gengið til þess að kjósa formann og skrifa menn þá það nafn, sem þeir kjósa á seðilinn, ganga síðan í röð úr salnum og setja hann í kjörkassa í anddyri Laugardalshallarninnar. Er gert stutt hlé á afgreiðslu mála, á meðan menn ganga til atkvæða, eftir að niðurstaða í formannskjöri liggur fyrir, er með sama hætti gengið til þess að kjósa varaformann.
Að þessu sinni hlaut Davíð Oddsson 849 atkvæði af 869 eða 98%, sem er einstök niðurstaða á alla mælikvarða og sýnir, hve einhuga menn standa að baki formanni sínum eftir 10 ára heilladrjúg störf hans. Geir H. Haarde fékk 761 atkvæði af 849 eða 89,4% í varaformannskjörinu, sem einnig er til marks um sterka stöðu hans meðal flokksmanna.
Landsfundinum lauk með ræðu Davíðs Oddssonar og er það nýmæli, að flutt sé slík ræða í fundarlok og fer vel á því, að formaður dragi þar saman það, sem honum finnst bera hæst á fundinum og leggi mat á hann. Fjallaði Davíð að sjálfsögðu einkum um sjávarútvegsmálin og taldi brýnt, að menn byggðu nú á þeirri sátt sem hefði tekist til að auka arðsemi í sjávarútvegi. Aðeins á vettvangi Sjálfstæðisflokksins gætu menn leitt saman ólík sjónarmið og smíðað stefnu í sjávarútvegsmálum með þessum hætti. Hefði flokkurinn fullan sóma af því, hvernig til hefði tekist á fundinum að komast að niðurstöðu um þetta mál. Þá vakti hann athygli á því, að í fyrsta sinn hefði Sjálfstæðisflokkurinn ályktað sérstaklega um vísindamál, sem væri enn til marks um hve mikla áherslu hann legði á að þjóðin yrði í fremstu röð í krafti menntunar og þekkingar.
Var fundinum slitið klukkan 17.15.
Eftir að hafa hlustað á nær allar umræður á þessum landsfundi auk þess að sitja fundi nokkurra nefnda hans, er enn unnt að fullyrða, að enginn vettvangur þjóðfélagsumræðna jafnast á við landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar er unnt að hlusta á talsmenn allra meginsjónarmiða, sem setja svip á umræður líðandi stundar, auk þess sem kynntar eru hugmyndir og leiðir til að takast á við viðfangsefni á forsendum stefnu og hugmyndafræði, sem byggist á trú á einstaklinginn og íslensku þjóðina. Oft hefur þess gætt á landsfundum, að menn eru í málflutningi sínum með hugann við það, sem pólitískir andstæðingar eru að gera og velta fyrir sér taktískum viðbörgðum við því. Slík viðhorf settu ekki svip sinn á mál manna á þessum fundi, sem er annars vegar til marks um að þeir hafa mikla trú á eigin stefnu og ágæti hennar og hins vegar staðfesting á því, að andstæðingar flokksins hafa ekki skipað málum með þeim hætti, að sjálfstæðismenn telji sér ógnað af þeim.
Víða í Laugardalshöllinni mátti sjá gamlar og forvitnilegar ljósmyndir af atburðum úr sögu Sjálfstæðisflokksins. Ég velti því fyrir mér, þegar ég leit á þessar myndir, að í raun eru það aðeins núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem geta brugðið upp slíkum myndum úr sögu sinni, því að aðrir flokkar hafa í raun slitið rætur við fortíð sína eða þora ekki að halda henni á loft. Fyrir Framsóknarflokkinn verður hinn sögulegi þráður óskýrari þeim mun lengur, sem hann ruglar reitum með vinstri flokkunum innan R-listans í Reykjavík, því að það samstarf þrífst ekki nema menn séu til þess búnir að slíta hinar sögulegu rætur og svipta sjálfan sig þeim skýra svip, sem þarf að sýna kjósendum til að koma til dyranna eins og maður er klæddur. Þegar litið er til þess trausts, sem Sjálfstæðisflokkurinn nýtur eftir 10 ára stjórnaforystu og formennsku Davíðs Oddssonar, skyldi enginn vanmeta þann styrk, sem felst í heiðarleika og einurð sjálfstæðismanna gagnvart kjósendum og best kemur fram á landsfundum og sannaðist nú enn einu sinni.