Þriðji landsfundardagur
Laugardaginn 13. október hófust landsfundarstörf á fundum þeirra nefnda, sem höfðu ekki lokið störfum að kvöldi föstudagsins, afgreiðsla ályktana hófst hins vegar klukkan 13.30 í Laugardalshöll.
Meðal þeirra ályktana, sem voru afgreiddar í dag nefni ég fjórar, sem snerta sérstaklega verksvið mitt sem menntamálaráðherra, það er um skóla- og fræðslumál, íþrótta- og æskulýðsmál, vísindamál og upplýsingatæknimál.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei áður ályktað sérstaklega um vísindamál en hefur nú mótað skýra stefnu á því sviði. Þar segir meðal annars, að það sé stefna flokksins, að meginhlutverk ríkisvaldsins sé að skapa frjótt umhverfi til atvinnustarfsemi í stað beinnar þátttöku í atvinnulífinu. Áherslur flokksins á grunnrannsóknir og vísindamenntun falli vel að þessum viðhorfum. Mælt er með því, að mótuð verði stefna um að hlutfall opinberra rannsókna- og þróunarsjóða af heildarfjármagni til rannsókna á Íslandi verði í áföngum þrefaldað.
Í ályktuninni um menntamál er fjallað um rafræna menntun, nýsköpun og þróun, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, símenntun og námslán. Fundurinn vill skapa hvata til að einkaaðilar komi að rekstri menntastofnana á öllum skólastigum. Skapa eigi einkaaðilum greiðari leið að rekstri leikskóla með útboðum og hækkun styrkja til barna, sem sækja einkarekna leikskóla. Því brautryðjendastarfi er fagnað, sem hefur átt sér stað með aðkomu einkaaðila að rekstri hverfisskóla og hvatt til þess, að dregið verði úr miðstýringu sveitarfélaganna á grunnskólum t.d. í gegnum fræðslumiðstöðvar eða skólaskrifstofur. Lýst er yfir ánægju með fartölvuvæðingu framhaldsskólanna og sagt brýnt, að stytting framhaldsskólanáms komi sem fyrst til framkvæmda. Fagnað er árangri einkarekinna háskóla, sagt er að eðlilegt sé, að landbúnaðarháskólar heyri undir menntamálaráðuneytið. Menntamálaráðherra er hvattur til að hafa forgöngu um endurskoðun á stjórnarfyrirkomulagi ríkisrekinna háskóla og hefja það starf í samvinnu við Háskóla Íslands.
Í ályktuninni um íþrótta- og tómstundamál eru sveitarstjórnir hvattar til að að stuðla að samvinnu grunnskóla, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og annarra aðila, sem sjá um skipulagt starf fyrir börn og unglinga. Stjórnvöld eru hvött til að marka sér stefnu um afreksíþróttir í landinu og stuðla enn frekar að auknu samstarfi sveitarfélaga, ríkis og annarra. Skorað er á fjölmiðla að gera öllum íþróttagreinum skil í umfjöllun sinni. Fjölmiðlaumfjöllun sé án efa örugg hvatning æsku landsins til íþróttaiðkunar og bætra lífshátta. Hvatt er til þess að áfram verði unnið að rannsóknum á því hvers vegna svo mikið brottfall er í vissum aldurshópum í öllum íþróttagreinum, svo að unnt sé að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Ítrekuð er ályktun umað bannið við ólympískum hnefaleikum verði afnumið.
Allar runnu þessar ályktanir umræðulítið og í góðri sátt í gegnum atkvæðagreiðslu á fundinum.
Umræður voru mestar á fundinum í dag um sjávarútvegsmál, en eins og ég sagði í pistli mínum um annan fundardaginn voru dregnar átakalínur í þeim málaflokki í umræðunum síðdegis á föstudeginum og var hart tekist á innan sjávarútvegsnefndarinnar, en þar urðu sjónarmið þau, sem Ellert B. Schram og Markús Möller kynntu, undir í atkvæðagreiðslu. Nefndin samþykkti hins vegar með 63 atkvæðum gegn 53 að taka upp veiðileyfagjald eða eins og þar segir: “Landsfundur tekur undir álit meirihluta nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, um að áfram skuli byggja á aflamarkskerfinu en útgerðin greiði hóflegt gjald fyrir afnot af veiðiheimildum sem annars vegar taki mið af kostnaði hins opinbera vegna stjórnar fiskveiða og hinsvegar af afkomu sjávarútvegsins á hverjum tíma.” Í umræðunum kom fram, að þessi setning: “Fundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að leita allra leiða til þess að bæta hlut minni sjávarbyggða sem treyst hafa á afla krókabáta,” hafi skipt miklu um að sæmileg sátt náðist um niðurstöðuna í nefndinni. Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður sagði meðal annars að þessi setning tryggði stuðning sinn við ályktunina, en hún er til marks um framlag Árna Mathiesens sjávarútvegsráðherra til að ná þessum sáttum. Er enginn vafi á því, að ræða Árna við afgreiðslu ályktunarinnar á fundinum sjálfum síðdegis á laugardeginum styrkti stöðu hans meðal landsfundarfulltrúa, því að hann flutti mál sitt af skörulegri festu og sanngirni. Bæði Árni og Davíð Oddsson sögðust hafa verið andvígir veiðileyfigjaldi en nú féllust þeir á það til sátta og hörmuðu, að Markús Möller og félagar skyldu taka upp og flytja inn á landsfundinn tillögu úr minnihluta endurskoðunarnefndarinnar, sem á rætur hjá pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins.
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson var talsmaður sjávarútvegsnefndarinnar á fundinum en margir fundarmenn tóku að sjálfsögðu til máls meðal þeirra Kristinn Pétursson frá Bakkarfirði, sem fylgir máli sínu fram með góðum rökum og þunga, en hann gagnrýnir framgöngu vísindamanna og segir, að þeir skuldi þjóðinni skýringu á því, hvernig þeir gátu týnt 600 þúsund tonnum af þorski. Í ályktun fundarins er vikið að þessu með þeim orðum, að leita beri leiða til þess að auðvelda aðgang sjálfstætt starfandi vísindamanna úr háskólasamfélaginu og víðar að rannsóknagögnum, þannig megi efla gagnrýna, vísindalega umræðu um þennan mikilvæga málaflokk, sem sé forsenda framfara og árangurs.
Lögð var áhersla á að ljúka umræðum og atkvæðagreiðslu um sjávarútvegsmálin á þriðja degi landsfundarins áður en los síðasta fundardagsins kæmi á fulltrúana og voru menn hvattir til þess að sitja fundinn og taka þátt í hinni mikilvægu atkvæðagreiðslu, en Jónas Elíasson prófessor óskaði eftir því, að fram færi skrifleg atkvæðagreiðsla um tillögu þeirra Markúsar Möllers og fleiri og var til hennar gengið klukkan rúmlega 18.00. 645 greiddu atkvæði, 121 voru með tillögu þeirra félaga en 520 á móti og 4 seðlar voru auðir. Þar með hafði þessari tillögu verið hafnað og var tillaga sjávarútvegsnefndar samþykkt með öllum þorra atkvæða gegn einu, eins Halldór Blöndal fundarstjóri orðaði það, en hann stjórnaði þessari fjölmennu atkvæðagreiðslu af skörungsskap, skipaði mönnum að sitja við borð sín og lét loka hurðum á salnum, svo að ekki væri ráp á fundinum.
Við meðferð landsfundar á þessu máli var í einu og öllu farið að óskum þeirra, sem vildu hnekkja stefnu flokksins í því. Lýðræðislegar leikreglur voru í heiðri hafðar og niðurstaða fékkst, ætti það að leggja grunn að því, að innan Sjálfstæðisflokksins hætti deilur um um grundvallaratriði kvótakerfisins og menn einbeiti sér að því að ræða sem besta framkvæmd þeirra reglna, sem um það gilda.