13.10.2001

Annar landsfundardagur

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hófst föstudaginn 12. október á því, að við ráðherrar flokksins sátum fyrir svörum fundarmanna. Þetta er fastur liður í fundinum og geta menn bæði lagt fyrir okkur skriflegar fyrirspurnir og spurt úr sal. Berast að jafnaði fleiri skriflegar spurningar og snerust þær flestar að þessu sinni um skattamál og fiskveiðimál. Ég var spurður um námslán, fjármál framhaldsskóla, afnotagjöld RÚV, stjórnskipulag Háskóla Íslands og stöðu íslenskrar tungu.

Voru þessar viðræður við okkur ráðherrana málefnalegar og vonandi upplýsandi fyrir fundarmenn, en í gögnum þeirra er meðal annars að finna yfirlit yfir það, sem hefur verið að gerast í einstökum ráðuneytum, þar á meðal í ráðuneytum, sem lúta stjórn ráðherra úr Framsóknarflokknum og er þetta í fyrsta sinn, sem staðið er að kynningu á störfum ríkisstjórnarinnar í heild á landsfundi. Áður hafa menn látið nægja að leggja þar fram gögn um störf ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum.

Í hádegi föstudags á landsfundi er það venja, að menn úr einstökum kjördæmum hittast og borða saman. Nú var skiptingin í fyrsta sinn í samræmi við nýju kjördæmaskipunina, en Reykjavík var þó ekki skipt í tvö kjördæmi eins og verður í komandi þingkosningum. Á þessum fundum eru gjarnan kynntir frambjóðendur til miðstjórnar, en þeir eru boðnir fram á grundvelli kjördæma og með vísan til kynferðis eða aldurs.

Síðdegisfundurinn hófst á umræðum um flokks- og skipulagsmál. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, flutti ræðu sína og lýsti innra starfi flokksins. Geir H. Haarde varaformaður gerði grein fyrir breytingum á skipulagsreglum.

Klukkan 16.00 hófust síðan umræður undir fyrirsögninni: Auðlindanýting og höfðu þau dr. Birgir Þór Runólfsson dósent, Rannveig Rist forstjóri, dr. Hafliði Pétur Gíslason prófessor og Tómas Ingi Olrich alþingismaður framsögu. Nálguðust þau viðfangsefnið hvert frá sínum sjónarhóli, en að máli þeirra loknu voru frjálsar umræður og tók þá Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður, til máls og sagði kvótakerfinu stríð á hendur. Má segja, að með ræðu hans hafi átakalínur á fundinum verið dregnar og að enn á ný verði þar einkum tekist á um aðferðir við fiskveiðistjórnun. Annar andstæðingur kvótakerfisins, Markús Möller, tók einnig til máls og ræddi einkum um fundarsköp í því skyni að fá svör frá formanni flokksins um það, hvernig staðið yrði að því að komast að niðurstöðu um fiskveiðimálin á fundinum.

Fundinum lauk rétt fyrir klukkan 18.00 en þá settust nefndir á rökstóla. Ég fór á fundi skóla- og fræðslunefndar í Glæsibæ, íþrótta- og æskulýðsnefndar í Hótel Loftleiðum og menningarnefndar í Hótel Sögu. Alls staðar fjölmenntu þeir, sem hafa áhuga á þessum málaflokkum og fjölluðu um drög að ályktunum, sem lágu fyrir frá málefnanefndum flokksins. Ég svaraði spurningum nefndarmanna um þessa málaflokka.

Þegar setið er fyrir svörum í Laugardalshöllinni og litið yfir hinn mikla fjölda fólks, sem situr landsfund, fær maður hvað best tilfinningu fyrir því, hve mikil breidd er í Sjálfstæðisflokknum, því að þar er að finna fulltrúa allra byggðalaga og allra starfsgreina. Jafnt ungir sem aldnir láta að sér kveða og ekki síður konur en karlar.