Ræða Davíðs á landsfundi – 15 ár frá leiðtogafundi
34. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur síðdegis í dag með ræðu Davíð Oddssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra, en á þessu ári eru tíu ár liðin frá því að Davíð var kjörinn formaður á sögulegum landsfundi, þegar hann bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni. Í ár eru einnig tíu ár liðin frá því að Davíð myndaði fyrstu ríkisstjórn sína, hefur hann setið sem forsætisráðherra síðan og notið óskoraðs trausts flokksmanna sinna og í raun langt út fyrir raðir þeirra.
Á þessum áratug hefur íslenska þjóðfélagið tekið stakkaskiptum og á landsfundinum, sem nú er að hefjast, verður enn lagt á ráðin um það, hvernig megi auka frelsi landsmanna og minnka afskipti ríkisins og ber þar hæst áform um enn frekari skattalækkanir og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Davíð minnti á það í ræðu sinni við upphaf landsfundarins, hve mikil andstaða var við einkavæðingu, þegar hann settist í stól forsætisráðherra. Þá hafi farið fram hin raunverulega hugmyndafræðilega barátta um einkavæðingu, sem sumir virtust líta á sem einhvers konar tilbrigði við landráðastarfsemi. Nú takist menn einkum á um útfærslu og leiðir. Davíð nefndi 22 atriði því til sönnunar, að skattar hefðu verið lækkaðir og boðaði, að eignarskattar á fólk og fyrirtæki yrðu algjörlega afnumdir.
Davíð kvað fast að orði um nauðsyn þess að gera gagngerar breytingar á stjórnarfyrirkomulagi innan Háskóla Íslands, núverandi fyrirkomulag sé full veikt og stirt og ekki fyllilega í takt við nútíma stjórnarhætti, þótt þar haldi margir ágætir menn um stjórnartaumana og í Kastljósi eftir setningu landsfundarins sagði Davíð, að hann væri ekki að beina spjótum sínum að Páli Skúlasyni háskólarektor heldur að skipulaginu og nefndi þá, að hann teldi til dæmis stjórn einstakra deilda skólans alltof veika. Það yrði að vinna bráðan bug að því að taka upp nýja stjórnarhætti eins og gert hefði verið víða á Norðurlöndum til að styrkja háskólann til að keppa á alþjóðavettvangi. Í ræðunni sagði hann: “Það skortir mjög á að háskólamennirnir sjálfir hafi tekið stjórnunarlega veikleika Háskóla Íslands til alvarlegrar umræðu, en fjöldi dæma frá liðnum árum sýnir að nauðsynlegt er, að gera gagngerar breytingar án tafar eigi háskólinn að hafa í fullu tré við alþjóðlega samkeppni.”
Ný lög um Háskóla Íslands komu til sögunnar fyrir rúmum tveimur árum en með þeim var meðal annars stigið það skref að gjörbreyta skipan háskólaráðs og fá þar menn utan háskólans til starfa. Þótti ýmsum innan háskólans þetta goðgá og einnig, að menntamálaráðherra skyldi skipa rektor, þótt ráðherrann væri við það bundinn af tillögu háskólaráðsins. Nú telur forsætisráðherra nauðsynlegt að stíga stærri skref til að styrkja stjórnarhætti háskólans og segir réttilega, að til hans sé varið miklu opinberu fé og það eigi að tryggja með öllum skynsamlegum ráðum, að það nýtist sem best, því að ekkert skili þjóðinni betri arði en öflugur háskóli sem veiti góða menntun.
Það er verðugt verkefni fyrir alla, sem vilja Háskóla Íslands vel að bregðast við kalli þeirra, sem telja nauðsynlegt að styrkja stöðu hans í öllu tilliti og ekki síst með vísan til alþjóðlegrar samkeppni, því að hún harðnar á þessu sviði ár frá ári.
Formaður Sjálfstæðisflokksins notaði hringlandahátt formanns Samfylkingarinnar til að draga athyglina að þeirri staðreynd, að sumir komist upp með að segja eitt í dag og annað á morgun eða fara með fleipur í opinberum umræðum, án þess að fjölmiðlar fylgi því eftir með nokkrum hætti. Þá skaut hann einnig föstum skotum að vinstri/grænum þegar hann sagði: “Til eru þeir sem telja að betra sé að tala við hermdarverkamennina en að taka á þeim, því þeir hljóti að sjá að sér ef gætilega sé við þá talað. Halda menn virkilega að hermdarverkamennirnir sem drápu sjö þúsund menn á einu augabragði og reyndu að drepa tugi þúsunda til viðbótar hafi verið að biðja um fund?” Steingrímur J. Sigfússon flutti þann boðskap á alþingi og í fjölmiðlum mánudaginn 8. október, að það ætti að frekar að efna til funda en gera loftárásir á Afganistan, það væri líklegra til að skila árangri.
Þá gagnrýndi hann einnig R-listann í Reykjavík og sagði, að borgin væri á rangri braut og notaði þjónustufyrirtæki sín til að greiða út stórar fúlgur til að stofna og reka óskyld fyrirtæki, til að keppa við fyrirtæki í einkarekstri. Gengi þessi starfsemi þvert á meginreglur um störf og rekstur sveitarfélaga. Hér víkur Davíð að Línu.net, en öll saga þess fyrirtækis einkennist að aðgerðum, sem ganga gegn lögum, eða felast í því að ausa í það opinberu fé til að halda því á floti. Málefnalegri gagnrýni eða opinberum úrskurðum um ólögmætar athafnir fyrirtækisins svara forystumenn R-listans með hefðbundnu yfirlæti ef ekki beinlínis hroka. Í Kastljósi var Davíð að því spurður, hvort R-listinn stæði ekki svona sterkur af því að hann hefði ekki misstigið sig og svaraði hann á þann veg, að það væri auðvelt fyrir þann, sem ekki gengi, að misstíga sig ekki.
Fyrir okkur sem höfum setið marga landsfundi er alltaf jafnánægjulegt að fá tækifæri til að gera það enn einu sinni. Fundirnir eru einstæðir bæði vegna þess fjölmennis sem sækir þá og vegna þess hve víðtækt svið þeir spanna en snúast þó gjarnan um fáein viðfangsefni hverju sinni í almennum umræðum. Mikil störf eru unnin í nefndum fyrir þá og á meðan þeir standa. Þeir, sem standa utan Sjálfstæðisflokksins eða hafa aldrei setið landsfundi, geta ekki gert sér í hugarlund, hve öflugar samkomur fundirnir eru og hve þeir, sem hafa setið marga þeirra, eru því vanir að leiða til lykta með atkvæðagreiðslu mörg viðkvæm málefni eða velja á milli einstaklinga í tvísýnum atkvæðagreiðslum.
15 ár frá leiðtogafundi
Í dag, 11. október, eru 15 ár liðin frá því að þeir Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov hittust í Höfða í Reykjavík. Þegar það gerðist var ég blaðamaður á Morgunblaðinu, hafði umsjón með erlendum fréttum og var sá, sem ritaði hvað mest um öryggismál, meðal annars þróun kjarnorkuvígbúnaðarins milli austurs og vesturs.
Í mínum huga er ekki minnsti vafi á því, að það var staðfesta Vesturlanda gegn kjarnorkuvígbúnaði Sovétmanna og sigur öflugra vestrænna stjórnmálamanna í áróðursstríðinu við sovéska útsendara á bakvið friðarhreyfingarnar svonefndu, sem réð úrslitum um það, að sovéska herveldið liðaðist í sundur. Í þeirri baráttu skipti baráttuþrek Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta mjög miklu og hér í Reykjavík neitaði Reagan að ganga frá nokkru samkomulagi nema Gorbatsjov féllist á áform sín um eldflaugavarnakerfi, sem þá var kallað stjörnustríðsáætlunin.
Sovétstjórnin hafði enga burði til að etja kappi við Bandaríkamenn undir forystu Reagans, veldi hennar molnaði innan frá og tilraunir Gorbatsjovs til að halda völdum með því að slaka á einræðisstjórninni misheppnuðust.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart, að þeir, sem voru í sveit friðarhreyfinganna svonefndu, skilgreini endalok kalda stríðsins með öðrum hætti og þar með hlut Gorbatsjovs á fundinum hér í Reykjavík. Sú söguskoðun byggist á fölskum forsendum, því að þessir menn voru á sínum tíma á móti því, að Vesturlönd snerust gegn kjarnorkuvæðingu Sovétmanna í Evrópu, þeir vildu leggja upp laupana, efna til funda um það, hvernig best væri að kaupa friðinn með því að beygja sig undir hið sovéska hervald.