6.10.2001

Alþingi hefst – Össur og menntamálin – vinstri/grænir og NATO -listmenntun í skólum.

Alþingi var sett hinn 1. október, hinn 2. október flutti forsætisráðherra Davíð Oddsson stefnuræðu sína, hinn 3. október kynnti ríkisstjórnin ákvörðun sína um lækkun skatta og hinn 4. október var fjárlagafrumvarpið til fyrstu umræðu. Allt hefur þetta sett svip sinn á opinberar umræður og störf okkar stjónrmálamannanna. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað sést, að útgjöld til menntamála aukast meira en oftast áður á milli ára, enda hafa laun kennara hækkað.

Vegna útgjalda til menntamála hafa þau ákvæði í fjárlagafrumvarpinu, sem snúast um hækkun innritunargjalda í Háskóla Íslands einkum vakið gagnrýni, en Stúdentaráð Háskóla Íslands beitti sér fyrir söfnun undirskrifta til að mótmæla hækkuninni og á 90 ára afmælishátíð Háskóla Íslands hinn 5. október snerist ræða formanns ráðsins einkum um þessa hækkun og sakaði hann okkur fjármálaráðherra um lögbrot en háskólarektor hafði boðið mér að flytja hátíðarræðu við athöfnina. Flutti ég hana, áður en formaður stúdentaráðs fékk orðið, þannig að ekki gafst mér tækifæri til að skýra sjónarmið stjórnvalda á þessum vettvangi og raunar datt mér ekki datt í hug, að þessi hátíð ætti að snúast um deilur vegna ákvarðana um gjaldtöku eins og taka þarf vegna fjárlaga, þegar um ríkisstofnanir er að ræða, ef ekki á að minnka fjárveitingar til þeirra vegna aðhaldsaðgerða, en með hækkun þessara gjalda til háskólanna nú er tekið mið af þróun verðlags undanfarin ár. Formaður stúdentaráðs lét ekki við það eitt sitja að flytja skammarræðu um okkur ráðherrana og saka okkur um lögbrot heldur tilkynnti hann úr ræðustólnum, að hann mundi að loknu máli sínu afhenda mér lista með nöfnum þeirra stúdenta, sem vildu ekki sætta sig við hækkunina. Hafði það ekki verið nefnt við mig, áður en til hátíðarinnar kom, að hún yrði notuð til þess að afhenda mér mótmæli, enda ekki til hennar stofnað undir þeim formerkjum.

Össur og menntamálin

Í viðtali við Ævar Kjartansson í útvarpi sunnudaginn 16. september réðst Össur Skarphéðinsson að mér á þeim forsendum, að Samtök atvinnulífsins hefur lýst vonbrigðum með stefnu og störf Sjálfstæðisflokksins í menntamálum. Orðaskiptin voru á þennan veg:

“Ævar: Eru ekki allir sammála um það. Ertu ekki að lýsa hér sýn sem allir geta tekið undir. Björn Bjarnason menntamálaráðherra ég hugsa að hann geti tekið undir mjög margt af því sem þú ert að segja hér þegar er verið að tala um menntakerfi framtíðarinnar. En hver er þá munurinn á jafnaðarmönnum og hvað á að segja borgaralegum öflum. Nú sagðir þú áðan að það yrði að þegar þú varst að tala um gullna þríhyrninginn að með öflugt atvinnulíf. Þú ert ekki að tala um atvinnulíf sem er stjórnað af stjórnmálamönnum heldur þú ert að tala um opið kerfi þar sem atvinnulíf ræður sínum málum býsna mikið. En hverju ætlar þú að ráða?

Össur Skarphéðinsson: Ég er að tala um samfélag þar sem ríkisvaldið hefur býsna mikil áhrif. Það er ríkisvaldið sem að skapar umgjörðina í kringum atvinnulífið sem reynir t.d. bara í gegnum það að hafa stjórn á peningamagni í umferð, reynir að hafa áhrif á vexti og verðbólgu. Allt þetta hefur núverandi ríkisstjórn mistekist en við skulum ekki fara út í það. En þú spyrð hver er munurinn á mér og Birni Bjarnasyni. Samtök atvinnulífsins þau sendu frá sér ályktun í vor og þá voru liðin held ég 10 ár frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við völdum í menntamálaráðuneytinu. Hann hefur stýrt menntamálaráðuneytinu samfleytt í 10 ár og hann hefur stýrt menntamálum þjóðarinnar held ég í 14 af síðustu 16 árum. Og Samtök atvinnulífsins sendu í vor frá sér yfirlýsingu þar sem þau vöruðu við þeirri þróun sem nú birtist í atvinnulífinu með þeim hætti að framleiðni hún var ekki bara lág heldur fór hún hraðlækkandi. Þetta þýðir það einfaldlega að menntakerfið það er ekki að leiða til þeirrar framleiðniaukningar sem að við erum að sjá í öllum þessum löndum sem við berum okkur saman við og þá er eðlilegt að þú spyrjir hver er munurinn á mér og Birni. Ég hef sett fram þessa stefnu og félagslegar fjárfestingar í menntakerfinu verður forgangsverkefni mitt þegar að Samfylkingin kemst til valda og þá verða menn einfaldlega að bregða mér og mínum flokki á sömu mælistiku og Birni Bjarnasyni og Sjálfstæðisflokknum og við skulum þá spyrja eftir 10 ár hvort að mér hafi mistekist jafn hrapalega og Sjálfstæðisflokknum en ég segi það eitt, atvinnulíf sem að býr við þá þróun sem við horfum upp á núna guð minn almáttugur hafa þeir einhverju að tapa að reyna að söðla nýjan hest.”

Þegar ég heyrði þessi orð Össurar, leitaði ég álits Ara Edwalds, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á því, hvort Össur væri að túlka ályktun samtakanna. Ari segir í tölvubréfi til mín:

“Samtök atvinnulífsins sendu í sjálfu sér ekki frá sér neina "yfirlýsingu" um þessi efni sem þarna er vikið að. Við birtum umfjöllun í fyrra á fréttavef okkar um þróun framleiðni og menntunarstigs vinnuafls, og reyndar í ársskýrslu 1999-2000 (um framleiðni). Það voru aðallega tveir punktar sem komu fram og þeir tengjast því báðir að vöxtur hagkerfisins var að fara út fyrir þau mörk sem það gat staðið undir til lengdar. Í fyrsta lagi var framleiðni á vinnustund að minnka þegar slaki var búinn í efnahagslífinu, atvinnuþátttaka orðin 84% og vinnuvikan orðin lengri og mikill tilflutningur orðinn á milli starfa (þá nýtist t.d. þjálfun illa). Endurmat á þessum tölum og þróunin síðar segir reyndar að framleiðni hafi ekki minnkað eins mikið og talið var (mat frá í fyrra fyrir 1999 og 2000)og sé sennilega að aukast eitthvað aftur. Framleiðni hafði aukist mikið 1996-1998 og meðaltalið var því gott fyrir allt tímabilið. Í öðru lagi lækkaði menntunarstig með aukinni atvinnuþátttöku, en við því er að búast þegar þátttaka "jaðarhópa" á vinnumarkaði fer vaxandi, en þar er menntun jafnan minnst.

Þessi umfjöllun okkar hefur því ekkert með það að gera að menntakerfið hafi brugðist og býður ekki uppá þá ályktun. Menntun og þjálfun hefur jákvæð áhrif á framleiðni, þótt oft taki mörg ár að uppskera, en okkar áhyggjur snerust um neikvæð áhrif ofþensluástands á vinnumarkaði.”

Bréf Ara sýnir afdráttarlaust, að Össur snýr út úr ályktunum Samtaka atvinnulífsins til að fegra málstað sinn, en í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga, að í upphafi þings leggur Samfylkingin mikla áherslu á, að hún fylgi svonefndri þríhyrningsstefnu til að bjarga þjóðarskútunni, þar sem atvinnulíf og menntun mynda tvö hornin. Sé það, sem Össur sagði um menntamál í samtalinu við Ævar, forsenda þessa þríhyrnings er ljóst, að hann stendur á veikum grunni, svo að ekki sé meira sagt.

Vinstri/grænir og NATO.

Á alþingi var hinn 3. október rætt um árásina á New York og Washington 11. september. Þar kom enn fram, að vinstri/grænir undir forystu Steingríms J. Sigfússonar vilja ekki, að NATO beiti sér gegn hryðjuverkamönnum og svari árásinni á Bandaríkin sem árás á öll NATO-ríkin eins og segir í 5. gr. Atlantshafssáttmálans. Halda vinstri/grænir áfram að skjóta sér á bakvið orð föður míns við undirritun sáttmálans 4. apríl 1949 og túlka þau á þann veg, að Íslendingar geti ekki staðið með bandamönnum sínum í samræmi við 5. greinina. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að hér sé um grófa rangtúlkun að ræða og misnotkun á nafni föður míns, og það af mönnum, sem hafa aldrei fylgt annarri stefnu en þeirri, sem gengur þvert á allt hans stjórnmálastarf. Er með ólíkindum að hlusta á þennan ómerkilega málflutning og kynnast því, hve langt er seilst til að fegra vondan málstað, sem gengur þvert á sjónarmið lýðræðissinna um alla Evrópu. Að þessu leyti eru Steingrímur J. og félagar í hópi með þeim, sem ekki hafa þrek til að hverfa frá sjónarmiðum sínum frá tíma kalda stríðsins, sem reyndust ekki á neinum rökum reist.

Fréttir í vikunni bentu til þess, að jafnvel Vladimir Putin, Rússlandsforseti, sem starfaði á vegum KGB í A-Þýsklandi, væri að breyta um afstöðu til stækkunar NATO, sem Steingrímur J. vill feigt. Putin sagði opinberlega, að tæki NATO á sig nýjan svip og yrði pólitísk stofnun mundu Rússar endurskoða afstöðu sína til stækkunar þess, ef þeir teldu sig eiga einhverja aðild að slíku ferli. Í höfuðstöðvum NATO vildu menn ekki gera mikið úr orðum Putins, hann hefði ekki kveðið skýrt að orði og erfitt væri að ráða í það, sem hann hefði sagt. Vinstri/grænir eru einstæðir meðal stjórnmálaflokka á Vesturlöndum í ótvíræðri andstöðu sinni við stækkun NATO.

Föstudaginn 5. október komu leiðtogar þeirra 10 ríka í austurhluta Evrópu, sem vilja komast í NATO, saman til fundar í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu. Töldu þeir árásina 11. september ýta enn frekar undir nauðsyn þess, að ríki þeirra gætu slegist í hóp NATO-ríkjanna 19. Í ályktun fundar leiðtoganna segir, að vegna árásarinnar sé öryggi Ameríku og Evrópu nátengdara en nokkur sinni. George W. Bush Bandaríkjaforseti sendi fundinum kveðju og sagði, að stjórn sín styddi aðild allra nýju lýðræðisríkjanna í Evrópu, frá Eystrasalti til Svartahafs, að NATO.

Bandaríkjaforseta er hrósað fyrir framgöngu sína og núna um helgina slóst Alistair Cook, hin gamalreyndi BBC-maður í Bandaríkjunum, í hóp aðdáenda Bush og sagði, að það væri ekki auðvelt fyrir neinn að feta sig áfram í myrkri án þess að hrasa, en þannig væri komið fyrir forsetanum í leitinni að hryðjuverkamönnunum og hann hefði aldrei tekið rangt skref og áunnið sér virðingu allra sanngjarnra manna. Í ljósi þessi, hvernig Bush hefur haldið á málum síðan 11. september, verða þeir ótrúverðugir, sem halda enn í þá fordóma sína, að hann hafi ekki hæfileika til að gegna ábyrgðarmiklu starfi sínu.


Listmenntun í skólum

Laugardaginn 6. október efndi menntamálaráðuneytið til ráðstefnu um listmenntun í skólum í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands. Þar voru ræðumenn erlendir og innlendir, listamenn og skólamenn, einnig komu nemendur úr mörgum skólum fram og sýnd voru verk þeirra. Ráðstefnan var haldin í Borgarleikhúsinu og var því aðstaða hin besta til að flytja ræður og sýna list. Var mjög ánægjulegt að taka þátt í þessari ráðstefnu og kynnast því, hve víða er unnið gott starf á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum í skólunum. Á hinn bóginn má betur gera, ekki síst með því að virkja listamenn meira og betur í starfi með nemendum.

Ræðumenn sögðu frá mörgu um það, hve mikil áhrif það hefur bæði á listamenn og nemendur að taka þátt í sköpunarverkefnum undir merkjum hinna einstöku listgreina. Með nýjum námskrám er unnt að sinna verkefnum á þessu sviði með skipulegri hætti en áður með skýr markmið að leiðarljósi. Það hefur til dæmis vakið athygli víða um lönd, að hér er kennsla í dansi orðinn skipulagður hluti af starfi grunnskólans og hafa Bretar til dæmis beðið um myndband um það, hvernig staðið er að þessari kennslu hér til að vinna að viðurkenningu á danskennslu í sínum skólum.