21.9.2001

Kraftur í menningarlífinu – nýr kennsluhugbúnaður – þekkingarþorp

Menningarlífið fer af stað með miklum krafti þessa septemberdaga. Í vikunni hefur tónleika José Carreras með Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands borið hæst. Þá hélt Karlakór Reykjavíkur hátíðartónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tilefni af 75 ára afmæli sínu. Þjóðleikhúsið frumsýndi Vilja Emmu á Smíðaverkstæðinu sl. laugardagskvöld en kvöldið áður voru Englabörn frumsýnd í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Dansverk eftir Ólöfu Ingólfsdóttur var frumsýnt í Tjarnarbíói sl. sunnudag. Enn var Þjóðleikhúsið með frumsýningu fimmtudagskvöldið 20. september og að þessu sinni var hún á Litla sviðinu og leikritið ekki af verri endanum: Hver er hræddur við Virginu Woolf? Að kvöldi laugardagsins 22. september frumsýnir Íslenska óperan Töfraflautuna. Síðastliðinn laugardag var opnuð sýning á verkum Kristjáns Guðmundssonar á Kjarvalsstöðum og sama dag opnuðu þeir Gísli Sigurðsson og Hjörleifur Sigurðsson sýningar í Gerðasafni. Fimmtudaginn 20 september opnaði Kristján Davíðsson sýningu í gallerí i8. Með þessu nefni ég aðeins það helsta, sem kemur í hugann, þegar ég sest fyrir framan tölvuna. Gleymi ég vafalaust mörgu, en þessi stutti listi staðfestir enn og aftur hina miklu grósku í menningarlífinu.

Nýr kennsluhugbúnaður

Í umræðum um tölvuvæðingu skólakerfisins hefur stundum gætt nokkurs kvíða vegna þess, að ekki yrði til nægilega mikið rafrænt kennsluefni á íslensku til að setja í allar tölvurnar. Undanfarna daga hef ég séð mörg merki um, að íslenskir kennarar og hugbúnaðarsmiðir láta verulega að sér kveða við að nýta upplýsingatæknina til að miðla kennsluefni. Ég fór á mánudag í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og kynntist því, hvernig þeir nýta tölvur þar, einkum þótti mér forvitnilegt að kynnast fartölvuvæðingunni þar, en börn í 1, bekk nota tölvur í námi sínu. Á þriðjudag var ég í þýskutíma í Menntaskólanum í Reykjavík og fékk leiðsögn um rafræna kennslubók í þýsku, sem var að koma á markaðinn. Síðdegis á fimmtudag var ég svo í Hlíðaskóla, þar sem Bændasamtök Íslands afhentu disk um landbúnað til Námsgagnastofnunar og er hann ætlaður grunnskólabörnum.

Þá bárust mér þær fréttir í dag, föstudag, að Íslendingar hefðu staðið sig mjög vel í samkeppni um verkefni um kennsluhugbúnað á vegum Evrópska skólanetsins. Komust fjórar tillögur héðan í 100 verkefna undanúrslit í samkeppninni, en tillögur bárust um meira en 900 verkefni. Eitt verkefni frá Fjölbrautaskóla Suðurlands var valið í hóp þeirra, sem fá sérstaka viðurkenningu.

Er gleðilegt að sjá, hve víða er áhugi á því að nýta sér hina nýju tækni í skólastarfi. Ef skólar og kennarar halda ekki vöku sinni á þessu sviði, dragast þeir fljótt aftur úr miðað við umhverfið á heimili nemenda, því að tölvueign og aðgangur að netinu er orðinn meiri hér en annars staðar. Undir forystu menntamálaráðuneytisins fer nú fram athugun á því, hvernig skynsamlegt er að þróa Námsgagnastofnun við þessar nýju aðstæður.

Þekkingarþorp

Miðvikudaginn 19. september tók ég þátt í því með forráðamönnum Háskóla Íslands að kynna áform þeirra um svokallað þekkingarþorp á lóð háskólans í Vatnsmýrinni. Þar er unnt að reisa 50 þúsund fermetra vísindagarða fyrir fyrirtæki, sem sjá sér hag af því að starfa í nágrenni við háskóla. Lóðina fékk skólinn frá Reykjavíkurborg á 50 ára afmæli sínu 1961.

Ég tel, að með því að fara þá leið, sem nú hefur verið kynnt, sé Háskóli Íslands að treysta tengsl sín við þær atvinnugreinar, sem þrífast best með hámenntuðu fólki og krefjast þess, að stöðugt sé hugað að rannsóknum og þróun. Takist okkur að skapa góð starfsskilyrði fyrir slík fyrirtæki hér, erum við að tryggja að íslenskt atvinnulíf taki mið af því, sem er að gerast í öðrum háþróuðum þjóðfélögum, en í hópi þeirra viljum við vera og verðum að vera, ef okkur á að takast að halda hér uppi góðum og batnandi lífskjörum.

Daginn eftir að Háskóli Íslands kynnti hugmyndirnar um þekkingarþorpið ákvað bæjarstjórn Garðabæjar að auglýsa deiliskipulag á svæði fyrir þekkingarfyrirtæki eða hátæknigarð á Urriðaholti. Er þar með stefnt að því, að á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu verði slíkir þekkingarkjarnar og vafalaust fjölgar þeim, ef að líkum lætur.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar átti ég í dálítilli ritdeilu við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra um áhugaleysi R-listans á háskólamenntun í höfuðborginni og tók þar sem dæmi skeytingarleysi R-listans í garð Listaháskóla Íslands, sem er með eindæmum gagnvart nýrri menntastofnun, sem vex hratt. Þar eins og varðandi uppbyggingu MR og MH sagði borgarstjórinn, að henni kæmi listaháskólinn ekkert við, því að ríkið ætti að sjá um háskólana, en R-listinn ákvað að skipa ekki mann í stjórn listaháskólans á sínum tíma og hefur ekki viljað leggja honum neitt fjárhagslegt lið, þvert á móti hætt að greiða þá 51 milljón króna, sem áður rann úr borgarsjóði í Myndlista- og handíðaskólann.

Það verður forvitnilegt að sjá, hvort R-listinn tekur áformum Háskóla Íslands um þekkingarþorp af sama kuldalega afskiptaleysi og hann sýnir þeim skólum í höfuðborginni, sem borgarstjóri segir, að ríkið geti sjálft annast og veifar lögfræðiálitum máli sínu til stuðnings. Á grundvelli slíks álits gæti R-listinn hæglega komist að þeirri niðurstöðu, að nóg hafi verið gert gagnvart Háskóla Íslands með því að gefa honum lóðina 1961. Vegna þess hve hér er um stórhuga byggingaráform að ræða, finnst mér þó með ólíkindum annað en borgarstjóri og hennar fólk leggi Háskóla Íslands eitthvert lið en þá vaknar spurning um jafnrétti gagnvart öðrum háskólum í höfuðborginni og stöðu þeirra gagnvart borgarstjórn.

Samkeppni um aðstöðu fyrir þekkingarþorp er nýmæli hér á landi og engin reynsla af slíku. Verður spennandi að sjá, hver framvindan verður í þessu efni. Það var vissulega nokkuð skrýtið að sjá borgarstjóra og fleiri boða til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu og kynna gjafakort til að styrkja stöðu miðbæjarfyrirtækja vegna þess að Smáralind verður opnuð 10. október. Bar sú kynning öll merki þess af hálfu borgarinnar, að hún væri í mikilli varnarstöðu, enda er yfirbragð miðborgarinnar næsta dapurlegt, eins þeir sjá, sem leggja þangað leið sína. Við kynninguna á þekkingarþorpinu í Háskóla Íslands lét ég þess getið, að með því og hinu stóra verkefninu, sem einnig tengist starfssviði menntamálaráðuneytisins og kennt er við tónlistarhús, væri verið að skapa alveg nýjar forsendur í þróun miðborgar Reykjavíkur. Er brýnt að það verði gert, því að miðborgarstarfseminni verður ekki bjargað með gjafakortum, jafnvel þótt þau séu kynnt af borgarstjóranum.