16.9.2001

Stríð við hryðjuverkamenn – vika símenntunar – ráðherrar og R-listinn – þráhyggja vegna Davíðs.

Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að stríðsárás hefur verið gerð á Bandaríkin og forseti þeirra hefur lýst yfir því, að Bandaríkin séu komin í styrjöld samhliða því sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að árásin á Bandaríkin sé árás á þau öll, verða aðrir atburðir næsta léttvægir. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur sýnt góða forystu frá því að fólskuverkið var unnið. Hann hefur hugað að skaðanum á Pentagon og í New York og heitið björgunarmönnum, að þeir, sem ollu skaðanum muni fá að gjalda fyrir hann. Hann hefur fengið einróma fjárheimildir og lögformlegar heimildir frá Bandaríkjaþingi til að gera það, sem þarf. Hann hefur kallað út aukinn herafla heima fyrir og hafið undirbúning undir styrjöld. Hann hefur leitað eftir samstöðu annarra ríkja og tekist að skapa hana. Böndin beinast að Osama bin Laden, sem hefur starfað í skjóli talibana í Afganistan, en því virðast engin takmörk sett, hvaða hörmungar af mannavöldum afganska þjóðin má þola. Frá því að talibanar náðu undirtökum í Afganistan hafa margir spáð því, að undir handarjaðri þeirra yrðu unnin illvirki, sem hefðu áhrif á alla heimsbyggðina og hefur það nú ræst.

Heimspekilegar vangaveltur um stríð og frið eða gildi refsinga gagnvart hryðjuverkamönnum og spádómar um, að verði einum refsað, komi aðrir til sögunnar, eru sjálfsagðar í frjálsum og opnum þjóðfélögum, en þær mega sín næsta lítils, þegar litið er til þeirra frumskyldu stjórnvalda hvers ríkis að skapa borgurum sínum öryggi. Á sínum tíma voru þeir, sem tóku upp hanskann fyrir nasista, og töldu, að lýðræðisþjóðir yrðu að læra að lifa í sátt við þá, eða nytsömu sakleysingarnir, sem vörðu illvirki kommúnista, og töldu, að þau væru nauðsynleg til að bæta böl mannkyns. Sagan geymir mörg dæmi um málsvara friðkaupa við hið illa, hún kennir okkur á hinn bóginn líka, að leiðin til að skapa frið og frelsi og stuðla að framgangi mannkyns er að snúast gegn illvirkjum og leitast við að uppræta þá, helst með friðsamlegum hætti en án ótta við að nota vald, dugi það eitt.

Við stöndum á þeim krossgötum núna, að illvirkjum, sem vega úr launsátri að saklausum borgurum með hryðjuverkum, hefur verið sagt stríð á hendur undir forystu Bandaríkjanna með stuðningi allra þjóða. Lagt er á ráðin um baráttuna gegn þeim á þeirri forsendu, að hún verði langvinn og erfið og háð á annan hátt, en áður hefur þekkst í stríði. Þegar litið verður til baka, kunna menn að líta á sögu þessara átaka í því ljósi, að þau hafi staðið í áratugi, áður en þau tóku á sig nýja mynd hinn 11. september, 2001.

Spurt er, hvað við Íslendingar getum lagt af mörkum við þessar erfiðu aðstæður. Hlutdeild okkar tekur mið af því, að við ráðum ekki yfir herafla og höfum ekki þjálfað neina Íslendinga til slíkra starfa, en að öðru leyti hljótum við að leggja fram aðstöðu, tæki og mannafla í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Jafnframt er nauðsynlegt fyrir okkur að líta í eigin barm og huga að því, hvort nægilegar ráðstafanir hafi verið gerðar innan íslenska stjórnkerfisins í því skyni að tryggja öryggi þjóðarinnar gagnvart árásum hryðjuverkamanna. Ég hef lýst skoðunum mínum í því efni við önnur tækifæri og nefni nýjustu grein mína um það efni, sem birtist í Morgunblaðinu í tilefni af 50 ára afmæli varnarsamningsins við Bandaríkin í maí síðastliðnum.

Einhvers staðar var látið að því liggja, að í ræðu , sem Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, flutti við undirritun Atlantshafssáttmálans, stofnskrá NATO, í Washington, 4. apríl 1949, hefði komið fram sú afstaða, að Íslendingar gætu ekki tekið þátt í skuldbindingum, sem felast í 5. gr. sáttmálans um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll. Fráleitt er að túlka ræðuna á þennan veg. Í henni er sagt afdráttarlaust, að Íslendingar hafi ekki her og geti ekki haft, þeir geti ekki og muni ekki segja annarri þjóð stríð á hendur og þeir geti alls ekki varið sig gegn neinni erlendri, vopnaðri árás, þeir hafi þess vegna verið í vafa um aðild að varnarbandalaginu en svo gæti staðið á, að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norður-Atlantshaf. Með aðildinni að NATO sýni Íslendingar, að bæði sjálfra sín vegna og annarra vilji þeir svipaða skipan á vörnum landsins og var í síðari heimsstyrjöldinni fyrir frumkvæði Breta og með samningi við stjórn Bandaríkjanna. Þá vilji Íslendingar jafnframt láta það koma óvtírætt fram, að þeir tilheyri og vilji tilheyra því frjálsa samfélagi frjálsra þjóða, sem stofnað var með NATO. Og í ræðunni segir orðrétt: “Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alls staðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum. Þegar samningur þessi var ræddur á Alþingi Íslendinga, reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefur aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði, að kasta grjóti með höndunum, en að hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum við, hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari......Allir tilheyrum við sömu menningunni, allir mundum við fremur kjósa að missa lífið en frelsið, hvort heldur frelsi sjálfra okkar eða þjóða okkar. Allir trúum við á vinsamlega samvinnu þjóða í milli – allir óskum við heiminum friðar og mannkyninu velferðar.”

Að túlka þessa ræðu á þann veg, að íslensk stjórnvöld hafi skorast undan ábyrgð samkvæmt Atlantshafssáttmálanum er fráleitt, hins vegar hétu þau því, að taka þátt í NATO á eigin forsendum, sem her- og varnarlaus þjóð. Meira en hálf öld er liðin og nú í fyrsta sinn reynir á ákvæðin um hinar sameiginlegu varnir, þá hljótum við að standa með bandamönnum okkar og jafnframt huga að því, hvort við teljum enn skynsamlegt að standa í sömu sporum varðandi eigið framlag og árið 1949.

Vika símenntunar

Eins og sagði í upphafi eru þessir atburðir, sem gerðust 11. september þess eðlis, að allt annað verður smátt í samanburði við þá. Þó ætla ég að minnast á annað nýlegt, sem ég vil að geymist hér á þessum síðum mínum.

Vika símenntunar var haldin í annað sinn daga 3. til 8. september og eins og þeir sjá, sem skoða dagbók mína hér á síðunni fór ég víða þá daga og átti þess kost að kynnast því, að sífellt meira nám er í boði undir merkjum símenntunar og einnig beint á vegum skóla, sem beita nú í vaxandi mæli kröftum sínum í þágu fjarnema, sem geta stundað nám við skólana á þeim stað og þeirri stund, sem þeim sjálfum hentar. Mbl.is kannaði í vikunni, hve margir hefu skráð sig í fjarnám í skólum landsins þetta haust og komst að þeirri niðurstöðu, að þeir væru 2.700 eða 1% þjóðarinnar. Er þetta meiri fjöldi fólks, en ég hafði gert mér í hugarlund, og sýnir, hve fljótt þetta nám hefur náð vinsældum hér. Í þessari tölu eru ekki þeir, sem stunda fjarnám í tengslum við símenntunarmiðstöðvarnar, sem hafa verið að styrkjast um land allt undanfarin ár.

Í þessari viku símenntunar fengum við til samstarfs fleiri öfluga aðila en áður og má ekki síst rekja það til nýgerðra kjarasamninga, þar sem stofnað var til samstarfs atvinnurekenda og launþega um verkefni á sviði menntunar og endurmenntunar. Til sögunnar hafa komið nýir aðilar eins og Starfsafl, það er starfsmennt Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins, og LandsMennt, sem vinnur að starfsmenntun Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni í samvinnu við Starfsgreinasamband Íslands. Báðir þessir nýju aðilar leggja áherslu á menntamál og fullorðinsfræðslu. Hefur orðið vakning í þessu efni síðustu ár og er ég ekki í nokkrum vafa um, að hún verður til þess að rjúfa þá einangrun, sem margir á hinum almenna vinnumarkaði mega þola vegna skorts á menntun.

Það, sem vakti sérstaka athygli mína að þessu sinni, þegar litið er til einstakra verkefna þeirra, sem sinna símenntun, er áhersla þeirra á að kenna erlendum mönnum íslensku. Vék ég sérstaklega að þessu í ræðu, sem ég flutti á 15 ára afmæli Stofnunar Sigurðar Nordals 14. septemer sl. Er nú víða unnið skipulega að því að þróa námsefni og kennsluaðferðir fyrir þá, sem ekki eiga íslensku að móðurmáli en starfa eða búa hér á landi. Þá er ljóst, að framhaldsskólarnir í landinu verða að búa sig betur undir að taka á móti nemendum, sem hafa ekki íslensku á valdi sínu. Hefur þegar verið lagt á ráðin um það innan menntamálaráðuneytisins hvernig unnið verður að þessu verkefni.

Í nýjum námskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla eru markmið kennslu í íslensku sem annað tungumál skilgreind og menntamálaráðuneytið hefur gefið út kennsluleiðbeiningar í því skyni að fylgja námskránum eftir. Í grunnskólunum hefur verið gripið til margvíslegra ráða til að bregðast við fjölbreyttari hópi nemenda en við höfum áður kynnst og nú er verið að gera það í framhaldsskólunum og á vinnumarkaði á mun markvissari hátt en mér var ljóst fyrir viku símenntunar.

Ráðherrar og R-listinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri kveinkaði sér undan samskiptum við ráðherra á dögunum og taldi, að dagskipun hefði verið gefin til ráðherra Sjálfstæðisflokksins um að gera henni og R-listanum lífið leitt. Voru þetta sérkennilegir kveinstafir.

Í fyrsta lagi hefur það verið svo frá fyrsta degi á stóli borgarstjóra, að Ingibjörg Sólrún hefur talið allt, sem miður fer í stjórn borgarinnar, ríkisstjórn og einkum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins að kenna. Nægir mönnum að lesa það, sem ég hef haft um þetta mál að segja undanfarin ár hér á síðunni. Borgarstjóri hefur þannig í tæp átta ár alið á því, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu óvinveittir hagsmunum Reykjavíkur.

Í öðru lagi var þetta sérkennileg kvörtun frá borgarstjóra á þessum tíma, því að þá var það Páll Pétursson, félagsmálaráðherra úr Framsóknarflokknum, sem hélt því fram með þungum orðum, að talsmenn R-listans færu með rangt mál í umræðum um félagslegt húsnæðu og biðlista eftir leiguhúsnæði, þegar þeir héldu því fram undir forystu borgarstjóra, að húsnæðisskorturinn í Reykjavík væri ríkisstjórninni og þar með sérstaklega félagsmálaráðherra að kenna. Í þann mund, sem borgarstjóri beindi spjótum sínum að Páli Péturssyni, var Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, að boða heilagt stríð gegn stefnu iðnaðarráðherra úr Framsóknarflokknum vegna virkjunar við Kárahnjúka.

DV gaf Ingibjörgu Sólrúnu kost á að skýra sjónarmið sín í viðtali, sem birtist við hana laugardaginn 8. september undir fyrirsögninni: Dagskipun úr Valhöll. Þar segir borgarstjóri bákalt, að dagskipun hafi verið gefin úr höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll um, að ráðherrar flokksins eigi ekkert “að aðhafast sem geti auðveldað Reykjavíkurlistanum að ná fram sínum markmiðum í borginni.”

Rökstyður hún það fyrst með því að benda á heimasíðu mína! Síðan sakar hún dómsmálaráðherra um, að vilja ekki samstarf við Reykjavíkurborg og ræðst að Sturlu Böðvarssyni vegna Reykjavíkurflugvallar, en þegar blaðamaður DV rifjar upp ádeilu Páls Péturssonar á R-listann vegna húsnæðismálanna, þegar hann svaraði fyrir sig vegna árása frá R-listanum, tekur borgarstjóri allt í einu U-beygju og segist ekki vilja skattyrðast við Pál, það leysi ekki húsmæðisvandann!

Virðist einmitt helsti tilgangur þessa viðtals af hálfu borgarstjóra að friðmælast við Pál Pétursson eftir orrahríðina og í stað þess að beina spjótum sínum að honum, finnur Ingibjörg Sólrún nú nýjan ráðherra til að leysa húsnæðisvandann, sem R-listinn hefur skapað, og það er Geir H. Haarde fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum. Borgarstjóri segir: “Ég geri mér grein fyrir að Páll Pétursson er eflaust allur að vilja gerður til að taka á þessum málum en mér segir svo hugur um að það sé við ramman reip að draga þar sem fjármálaráðuneytið er annars vegar.”(!)

Hef ég sjaldan lesið furðulegri málflutning af hálfu pólitísks forystumanns en skildi hann betur, þegar ég hlustaði á Alfreð Þorsteinsson, forystumann Framsóknarflokksins í R-listanum, sem hefur tögl og hagldir gagnvart borgarstjóra, eins og dæmin sanna. Alfreð sagði í hádegisfréttum útvarps sunnudaginn 16. september, en þá var hann kallaður í fréttir til að segja álit sitt á ummælum Davíðs Oddssonar við upphaf SUS-þings 14. september, þegar hann vakti réttilega máls á árásum R-listans á ráðherra Framsóknarflokksins. Sagði Alfreð þetta ekki eiga við rök að styðjast vegna þess, að í ályktun um húsnæðismál hefði meirihluti borgarráðs samþykkt gagnrýni á Geir H. Haarde fjármálaráðherra! Einnig sagði Alfreð, að Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðsiflokksins, ráðist harkalega á Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra! Vildi hann með því afsaka árásir Helga Hjörvars, forseta borgarstjórnar, sem Alfreð styður, á iðnaðarráðherra. Þegar ég hlustaði á Alfreð gerði ég mér betur grein fyrir því, að innan Framsóknarflokksins í Reykjavík er töluverður órói og reiði vegna þess, að R-listinn er stjórnmálaandstæðingur ráðherra flokksins, en reykvískir framsóknarmenn eru samt að leita að rökum til að vinna að stjórnmálum með þessum andstæðingum sínum, þeir geta það þó ekki nema með hálmstrám, eins og Alfreð notaði í fréttaviðtalinu.

Í DV-viðtalinu gefur borgarstjóri til kynna, að ég fari ekki að lögum og skjóti mér undan ábyrgð, þegar ég krefst þess, að borgaryfirvöld vinni að því með ríkisvaldinu að skapa MR viðunandi húsnæði og byggja íþróttahús við MH. Segir hún Sigurð Líndal prófessor hafa gefið sér álit, sem varpi allri ábyrgðinni á ríkið. Eins og stjórnmálamenn vita best, er álit lögfræðinga þeim til leiðbeiningar við töku ákvarðana, stundum kemur fram, að þau bindi hendur þeirra, í öðrum tilvikum er ljóst, að þau gera það ekki. Þetta álit Sigurðar Líndals bindur hvorki hendur mínar né borgarstjóra. Ég er hins vegar bundinn af þeirri ákvörðun samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, að semja þurfi um aðild borgarinnar að framkvæmdum við MR og MH til að í þær verði ráðist. Þetta hef ég margsinnis kynnt borgarstjóra. Þótt hún telji sér ekki lögskylt í ljósi álits Sigurðar Líndals að koma að þessu verkefni, er henni það síður en svo bannað. Hún sýnir hug sinn einfaldlega til þessara skóla með því að vilja ekki taka þátt í uppbyggingu þeirra og styðja afstöðu sína með haldlausum rökum. Málið er ekki flóknara. Ingibjörg Sólrún er því í hinni gamalkunnu stöðu sinni, að kenna öðrum um eigin viljaskort til að taka þátt í að leysa mikilvægt verkefni, sem snertir borgarbúa. Við sjáum dæmin um slíka stöðnun á öllum sviðum borgarlífsins, og þegar borgarstjóri kennir ráðherrum Sjálfstæðisflokksins um eigið dugleysi, er ekkert eðlilegra en þeir bregðist við með því að skýra málstað sinn og sýna, hvar ábyrgðin liggur. Þetta kemur einstaklega illa út fyrir R-listann og borgarstjóra og þess vegna kveinkar hún sér.

Undir lok þessa DV-viðtals segist borgarstjóri eiga samleið með Samfylkingunni og er síðan beðin að skýra dapra útkomu flokksins í skoðanakönnunum. Hún segir: “Það hefur enn ekki tekist að búa til heilsteyptan pólitískan kúltúr í kringum flokkinn. Um leið og það er stærsta tækifæri flokksins að félagar hans koma úr ýmsum og ólíkum áttum þá er það honum enn fjötur um fót. Það mun einfaldlega taka lengri tíma en menn ætluðu að búa til heilsteyptan hóp.”

Áður en Össur Skarphéðinsson var kjörinn formaður Samfylkingarinnar, var það talið henni fjötur um fót og skýra dapurt gengi hennar, að hún hefði engan formann. Nú segir Ingibjörg Sólrún, að Samfylkinguna skorti pólitískan kúltúr og félagar í henni séu ekki nógu einsleitir. Hvað felst í þessum orðum? Að innan Samfylkingarinnar komist menn ekki að sameiginlegri niðurstöðu um nein pólitísk mál? Að flokksmennirnir en ekki forystan séu helsti vandi flokksins? Minnir þetta ekki á refinn, sem verður örmagna við að elta skottið á sjálfum sér?

Þráhyggja vegna Davíðs

Ég hef áður lýst undrun minni á Morgunblaðsgreinum Halldórs Þorsteinssonar um Davíð Oddsson. Ein slík birtist í Morgunblaðinu 16. september, full af dylgjum og hálfsannleik, sem einkennir jafnan málflutning manna með slæman málstað. Lætur Halldór sér ekki nægja að vega að Davíð heldur beinir nú spjótum sínum einnig að þeim, sem hafa talið Davíð hæfileikaríkan stjórnmálamann. Sérstaklega virðist honum í nöp við Ásdísi Höllu Bragadóttur, fyrrverandi aðstoðarmann minn og núverandi bæjarstjóra í Garðabæ, vegna þess að hún átti viðtal við Davíð í bók sinni Í hlutverki leiðtogans. Ég hef lesið fjölmörg erlend dagblöð og tímarit í áratugi og fullyrði, að hvergi teldu menn, sem er annt um, að orð sín séu marktæk, setjast niður og skrifa slíka grein um stjórnmálmenn í óvinahópi sínum – eða kannski vill enginn birta slíkar róggreinar. Hitt er að lokum umhugsunarefni: Hvaða málstaður verðskuldar slíka málsvara?