5.9.2001

Nonni og Adenauer – stuðningur eykst – Hjörvar og Mörður

Um 150 kjörræðismenn Íslands hafa verið hér á ráðstefnu undanfarna daga og átti ég þess meðal annars kost að sitja kvöldverðarboð ríkisstjórnarinnar þeim til heiðurs mánudaginn 3. september. Þar þakkaði dr. Max Adenauer fyrir hönd gestanna, en hann er sonur Konrads, sem var fyrsti kanslari V-Þýskalands eftir stríð.

Dr. Max Adenauer varð níræður 10. september 2000 en hann hefur verið kjörræðismaður Íslands í Köln síðan 1980, hann sagði í ræðu sinni, að hjarta sitt væri að hálfu íslenskt og hefði verið það síðan hann kynntist landi og þjóð af lestri Nonna-bókanna, en annars staðar hefur Adenauer sagt, að fyrstu Nonna-bókina hafi hann lesið níu ára gamall. Í ræðunni sagðist hann hafa hitt Jón Sveinsson, Nonna, og hrifist af Íslandi vegna þess, hefði Nonni hvatt sig til sinnar fyrstu Íslandsferðar, árið 1930. Adenaeur varð yfirborgarstjóri í Köln og stofnaði íslenskt-þýskt vináttufélag í borginni 1955. Jón Sveinsson kom 1930 einnig í heimsókn til Íslands, þegar honum var boðið vegna hátíðarinnar í tilefni af 1000 ára afmæli alþingis og var hann þá meðal annars gerður að heiðursborgara í fæðingarbæ sínum, Akureyri, þar sem nú er safn til minningar um hann.

Jón Sveinsson var aðeins 12 ára, þegar hann fór héðan af landi árið 1870. Hér var þá kaþólskur prestur frá Frakklandi, faðir Baudoin, og heimsótti hann Einar Ásmundsson, alþingismann í Nesi við Eyjafjörð. Flutti hann þau boð, að auðugur, franskur greifi bæri góðan hug til Íslands og vildi gjarnan bjóða tveimur drengjum til Frakklands og koma þeim þar til mennta á sinn kostnað. Spurði hann Einar, hvort Gunnar sonur hans, 17 ára, mætti þiggja boðið, en faðir Baudoin hafði einnig augastað á syni Björns Halldórssonar, prests í Laufási, Þórhalli. Móðir Þórhalls vildi, þegar á reyndi, ekki, að hann færi og valdi þá faðir Baudoin Nonna að ráði Einars, en Nonni hafði misst föður sinn skömmu áður. Héldu þeir Gunnar utan sumarið 1870 og hittust í Kaupmannahöfn, þar sem þeir urðu innlyksa vegna stríðsins milli Frakka og Prússa og bjuggu á kaþólsku heimili hjá faðir Hermann Grüber og hlutu fræðslu um kaþólska trú og gerðist Gunnar kaþólskur í maí 1871 og sneri aftur til Íslands, þar sem hann var eini kaþólikkinn í 20 ár. Eftir að Sigríður Jónsdóttir, móðir Nonna, hafði samþykkt, að hann gerðist kaþólskur gekk það eftir sumarið 1871 en þá hélt hann til Amiens í Norður-Frakklandi og settist í skóla Jesúíta. Manni bróðir Nonna kom þangað 1872 og gerðist Jesúíti, en hann andaðist aðeins 24 ára og er grafinn í Louvain í Belgíu. Nonni lést árið 1944 og er grafinn í Köln.

Nonni var alþekkur vegna bóka sinna eins og Max Adenauer minnti okkur á í ræðismannakvöldverðinum og enn er verið er að þýða þær á erlend tungumál, því að í sumar kom bókin Nonni út á frönsku í þýðingu Gabriels Rollands, sem er bróðir séra Jakobs, prests í kaþólska söfnuðinum hér. Skrifaði ég formála að bókinni og las þá ýmislegt um Nonna og fræddist meðal annars um það, að hann hefði líklega flutt um 5000 fyrirlestra á ævi sinni, sem flestir snerust um æskuár hans á Íslandi. Hefur það oft gerst, einkum í Þýskalandi, að fólk hefur vikið því að mér, þegar ég segist vera frá Íslandi, að það þekki til landsins vegna Nonna.

Þetta kom í huga minn, þegar ég hlustaði á dr. Max Adenauer og einnig hitt, að í ræðu sinni 3. september 2001 varpaði hann birtu á Íslending, sem hann hafði þekkt, þótt hann fæddist fyrir tæpum 150 árum. Var eins og árafjöldinn yrði að engu við að heyra þessa hlýju minningu um kynni hans af Nonna. Finnst mér, að við Íslendingar megum ekki gleyma Nonna, þegar við veltum því fyrir okkur, hver úr okkar hópi sé best þekktur í veröldinni. Eitt nýlegt dæmi: Þegar við vorum í Lublijana í Slóveníu fyrr á árinu fórum við í fornbókabúð og spurðum, hvort til væru Nonna-bækur, jú viti menn, tveir titlar þýddir á slóvensku fundust á svipstundu.

Stuðningur eykst

Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn eykst jafnt og þétt á milli skoðanakannana, þrátt fyrir að ýmsir andstæðingar okkar hafi talið víst, að við stæðum höllum fæti. Þvert á móti eru það þeir, sem helst beina spjótum sínum að okkur sjálfstæðismönnum, samfylkingarfólkið, sem tapar stuðningi, ef marka má þessar kannanir.

Hið einkennilega við þetta ástand er, að ekki er á neinum fjölmiðli leitast við að skýra, hvers vegna þróunin er í þessa átt. Það er líkast því, sem helst þyki niðurstöður kannanna fréttnæmar, þegar harðnar á dalnum hjá Sjálfstæðisflokknum. Einhvers staðar hefðu fjölmiðlar séð ástæðu til þess að gera úttekt á því, hvers vegna sá flokkur, sem helst hefur gert kröfu til þess að vera talinn til forystu andspænis Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingin, nær sér aldrei á strik, sama hvað á dynur. Bestu tilþrifin í skrifum um þetta eru að finna hjá Stefáni Hagalín á kreml.is.

Nýjustu raunir Samfylkingarinnar má rekja til ágreinings innan hennar vegna Kárahnjúkavirkjunar, en ljóst er, að flokkurinn er klofinn ofan í rót vegna þessa. Má ekki á milli sjá, hvor er á hraðari flótta undan málinu, Samfylkingin eða R-listinn. Var furðulegt að heyra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra áskilja sér rétt til að hafa ekki skoðun á málinu, líklega var hún að forðast að lenda í sama pyttinum og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sem hljóp af stað til að gera ríkisstjórninni lífið leitt en situr nú sjálfur eftir með sárt enni.

Hjörvar og Mörður

Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, og talsmaður R-listans í stjórn Landsvirkjunar hefur snúist gegn Kárahnjúkavirkjun og talar á þann veg um Landsvirkjun, að mesta undrun vekur, að hann sitji þar áfram í stjórn. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra hefur gefið til kynna, að það sé vegna stjórnarlaunanna, eða vegna þess að hann sé að gæta hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur. Er öllum ljóst af orðum iðnaðarráðherra, að hún telur Helga hafa gengið hvað lengst í andstöðu sinni við Kárahnjúkavirkjun og án fæstra skynsamlegra raka. Þegar hlustað er á orðaskipti þeirra Valgerðar og Helga um þetta mál, er ekki hjá því komist, að rifja upp, að Helgi situr sem forseti borgarstjórnar og stjórnarmaður í Landsvirkjun í skjóli Framsóknarflokksins í Reykjavík. Framsóknarmenn bera ekki síður ábyrgð á R-listanum en aðrir, sem að honum standa.

Ég sá það í DV, að Mörður Árnason, útvarpsráðsmaður fyrir Samfylkinguna, sem vill svipta RÚV auglýsingatekjum, telur fjármálaþrengingar RÚV mér að kenna, af því að ég hafi ekki heimilað alla þá hækkun afnotagjalda, sem RÚV hefur óskað. Hvers vegna skyldi Stöð 2 ekki hafa leyst fjárhagsvanda sinn með því að hækka áskriftargjöldin nægilega til að brúa bilið í rekstrinum? Eða Morgunblaðið? Hvaða varmenni skyldi koma í veg fyrir þá hækkun á gjöldum? Í skjóli þess, að um opinberan rekstur er að ræða, gera vinstrisinnar ekki aðrar kröfur um árangur við fjármálastjórn en að opinber gjaldtaka sé hækkuð – í skjóli slíks hugsanaháttar slævist öll kostnaðarvitund og vilji til að nýta fjármuni sem best. Vegna þessarar gjaldtöku- og gjaldþrotastefnu hefur einkavæðingin einnig fengið góðan byr.