29.8.2001

Rætt um RÚV – þróun framhaldsskólans - borgarmál

Skólarnir taka til starfa hver af öðrum. Ég gat þess fyrr í sumar, að ég hefði fengið heldur sóðalegar kveðjur frá nokkrum grunnskólanemum, vegna þess að grunnskólinn hefst nú fyrr en áður vegna nýrra kjarasamninga kennara. Nú þegar skólinn hefst, fæ ég ekki neinn slíkan tölvupóst og raunar ekki neinar kvartanir vegna skólanna.

Menn eru helst að skrifa mér núna vegna umræðnanna um RÚV. Sýnist sitt hverjum um það, hvernig eigi að laga þessa stofnun að nýjum kröfum. Í því sambandi er athyglisvert að fylgjast með umræðunum í Bretlandi, en æ fleiri, þeirra á meðal vikuritið The Economist, hallast nú að því, að tími BBC sem ríkisfyrirtækis sé á enda kominn, BBC hafi ekki þá sérstöðu lengur, sem réttlæti, að ríkið reki það.

Af þeim ráðum, sem ég fæ send í tölvupósti vegna framtíðar RÚV, dreg ég helst þá ályktun, að annað hvort vilji menn óbreytt ástand eða að RÚV hverfi alveg úr ríkiseign. Mér finnst sjálfum næsta furðulegt að lesa hugleiðingar á þann veg, að ég sé að verða einn helsti talsmaður ríkisrekstrar á útvarpi. Stangast það að minnsta kosti all rækilega á við það, sem Jón Ásgeir Sigurðsson, formaður starfsmannasamtaka RÚV, hélt fram á málþingi um fjölmiðla fyrir nokkru í Háskóla Íslands, þegar hann leitaðist við að sýna fram á einstaka óvild mína í garð RÚV.
.
RÚV er stofnun sem lifir og hrærist í samtímanum og ætti að taka mikið mið af honum í öllu tilliti. Það hefur þó reynst erfiðara að laga starfsemi RÚV að núttímaháttum en skólakerfið, sem flestir hefðu þó talið mun íhaldssamara í eðli sínu.

Þróun framhaldsskólans

Um öll skólastigin hafa verið sett ný lög og innra starf skólanna hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum með nýjum námskrám og margþættri nýskipan. Í sumar var til dæmis horfið frá því að innrita í framhaldsskóla á grundvelli hverfaskiptingar og það markmið mitt náðist, að landið allt yrði eitt framhaldsskólasvæði. Gekk innritunin vel og fjölgaði nemendum í skólum, sem hafa átt undir högg að sækja vegna minnkandi aðsóknar á síðustu árum.

Í vetur er það nýja skref stigið í framhaldsskólastarfi að bjóða fötluðum nemendum að stunda þar fjögurra ára nám, en fyrsti árgangur fatlaðra nemenda er nú á sínu fjórða ári. Þeir, sem hafa fylgst með umræðum um fatlaða nemendur í framhaldsskólum, átta sig á því, hve hér er um sögulegan áfanga að ræða og hefur hann vakið athygli út fyrir landsteinana.

Framhaldsskólinn er einnig að búa sig betur en áður undir að taka á móti nýbúum. Þar er ekki síður um mikilvægt þróunarverkefni að ræða en starfið með fötluðu nemendunum. Að sjálfsögðu er óviðunandi, ef nýbúar njóta sín ekki í framhaldsskólunum. Við vitum af reynslu síðustu ára, að ekki er sanngjarnt að vera með alhæfingar í þessu efni, því að nýbúar hafa verið í fremstu röð námsmanna í framhaldsskólunum, þótt flestir þeirra hafi gefist upp á náminu.

Fjármál framhaldsskólanna eru á döfinni eins og oft áður, ekki síst eftir gerð kjarasamnings, því að það tekur alltaf einhvern tíma að átta sig á því til hlítar, hvað framkvæmd hans kostar. Samningurinn, sem var gerður síðastliðinn vetur, kallar á töluverðar breytingar á skólastarfi og er ekki við því að búast, að unnt sé að meta á skömmum tíma, hvað þær kosta. Að halda því fram eins og ég sá haft eftir skólameistara í Fréttablaðinu í morgun, að framhaldsskólinn sé að verða gjaldþrota stenst ekki. Skólarnir eru misjafnlega á vegi staddir fjárhagslega og með þeim reglum, sem gilda um fjárveitingar til þeirra, er auðveldara en áður að leggja mat á það, hvernig haldið er á fjármunum innan hvers skóla fyrir sig.

Nokkuð hefur verið rætt um fartölvuvæðingu framhaldsskólans í haust og britist til dæmis ágæt úttekt um hana í Morgunblaðinu föstudaginn 24. ágúst og í dag er sagt frá því í Morgunblaðinu, að fleiri nemendur séu að festa kaup á fartölvum en seljendur þeirra væntu. Skólarnir hafa einnig gert ráðstafanir til að skapa örbylgjuumhverfi til tölvusamskipta innan veggja sinna. Nú eru um tvö ár liðin frá því, að ég boðaði það á þingi með sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi vestra, að farið yrði inn á þá braut, að fartölvuvæða framhaldsskólana með þátttöku nemendanna sjálfra og viðskiptum þeirra við tölvufyrirtæki. Hefur þessi stefna hlotið betri hljómgrunn og leitt til meiri breytinga á skólastarfi á skemmri tíma en ég vænti.

Ég hef sótt tvö fjórðungsþing sveitarstjórnarmanna nú síðsumars, á Vopnafirði 23. ágúst og á Reykhólum 25. ágúst. Höfðu bæði Austfirðingar og Vestfirðingar áhuga á að fá mig til að ræða um menningarmál. Heyrðist mér að Vestrfirðingar hefðu fullan hug á því að feta í fótspor Austfirðinga og gera sérstakan menningarsamning við menntamálaráðuneytið.

Er ánægjulegt að fylgjast með því, hve vaxandi skilningur er á því um land allt, að það skipti verulegu máli fyrir þróun byggðar að leggja rækt við menninguna.

Borgarmál

Eftir að DV birti viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig laugardaginn 25, ágúst hafa enn á ný orðið umræður um það, hvort ég hyggist bjóða mig fram í borgarstjórn Reykjavíkur. Forvitnilegt þótti mér að sjá, að Ingibjörg Sólrún er nú hætt að hafa áhyggjur af því að ég valdi Sjálfstæðisflokknum skaða með því að leyfa umræður um hugsanlegt framboð mitt. Nú segir hún á baksíðu DV mánudaginn 27. ágúst: „Ég tel að Björn ætli að bíða átekta og sjá hvort flokkarnir sem standa að R-listanum nái saman. Hann ætlar ekki að hætta neinu til í pólitíkinni heldur nýta rýmið ef hann fær það upp í hendurnar og gefa þá kost á sér." Nú er ég sem sé annars vegar notaður sem svipa af borgarstjóranum til að berja saman R-listann og hins vegar segir hún, að þeir vinstri menn, sem ekki vilja vera innan vébanda R-listans, ráði því, hvort ég bíð mig fram til borgarstjórnar eða ekki!

DV spurði einnig nokkra Reykvíkinga að því, hvort það væri rétt hjá mér, að doði væri yfir höfuðborginni undir stjórn R-listans. Mér þótti svar séra Péturs Þorsteinssonar hjá Óháða söfnuðinum, staðfesta orð mín best, því að hann nefndi þrennt því til sönnunar, að ég hefði rangt fyrir mér: sundskýli í Nauthólsvík, menningarnóttina og listsýningar í Hafnarhúsinu. Þótt allt kryddi þetta mannlífið í borginni er ekkert af þessu til marks um sérstaka framtakssemi eða dugnað við stjórn höfuðborgarinnar, heldur sjálfsagðir hlutir í hægfara þróun hennar. Hitt þótti mér sérkennilegt hjá prestinum að uppnefna mig og ekki til marks um að hann hefði góðan málstað að verja.