20.8.2001

Ánægjuleg hringferð - skýrslan um Árnamálið

Við Rut vorum á leiðinni til Hornafjarðar síðdegis miðvikudaginn15. ágúst, þegar mér var sagt frá því, að ríkisendurskoðun hefði sent frá sér skýrslu um rannsókn sína á umsýslu Árna Johnsens. Mánudaginn 13. ágúst fékk menntamálaráðuneytið þann hluta greinargerðarinnar, sem fjallaði um stjórnsýsluþátt málsins til umsagnar og athugasemda og átti ráðuneytið að láta álit sitt í ljós fyrir lok vinnudags þriðjudaginn 14. ágúst. Hafði ég því kynnt mér þann hluta skýrslunnar en vissi ekki, hvernig hann leit út í endanlegri mynd, þegar fréttir af útgáfu skýrslunnar bárust mér. Um hlut Árna vissi ég ekkert, því að þann þátt skýrslunnar hafði ég aldrei séð og fékk ekki vitneskju um hann, fyrr en ég hlustaði á fréttir klukkan 18.00 miðvikudaginn 15. ágúst og eftir þann tíma ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við mig en þá var ég staddur í Skaftafelli. Birtist frásögn af því viðtali í blaðinu fimmtudaginn 16. ágúst og var það hið fyrsta, sem ég sagði opinberlega um skýrsluna. Ég missti af sjónvarpsfréttum þetta miðvikudagskvöld enda var ég þá á ferð um Öræfin og Suðursveit, en við fengum ágætan kvöldverð við Jökulsárslónið.

Á leið okkar höfðum við hitt forráðamenn Byggðasafnsins í Skógum og farið um nýja húsið, sem er verið að reisa þar undir samgönguminjar. Hátt í 30.000 manns heimsækja safnið í Skógum ár hvert og ber það allt vitni um einstaka alúð og natni Þórðar Tómassonar. Í Vík í Mýrdal fórum við í Bryde-búð og skoðuðum nýja sýningu þar til minningar um skipsströnd á söndunum. Fimmtudaginn 16. ágúst hófum við með því að skoða jöklasýninguna í Höfn, sem fyrst var opnuð í fyrra og vex stöðugt fiskur um hrygg. Einnig fór ég og kynnti mér stöðu byggingaframkvæmda við nýjan framhaldsskóla, sem er að rísa í hjarta bæjarins en í sama húsi, Nýheimum, verður einnig ýmis önnur starfsemi í þágu mennta, rannsókna og menningar.

Áður en ég fór af hótelinu hringdi ég í Birgi Guðmundsson, fréttastjóra á DV, sem hafði óskað eftir samtali við mig. Þá heyrði ég, að Margrét Frímannsdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, vildi helst, að ég léti af ráðherrastarfi vegna þessa máls og Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði talað á svipuðum nótum. Sagðist ég ekki kippa mér upp við, að Jóhanna teldi sinn tíma kominn enn á ný og Margrét væri svo oft búin að krefjast afsagnar ráðherra, að hún minnti helst á þann, sem hrópaði alltaf: Úlfur! Úlfur!

Eftir að hafa lokið þessum heimsóknum í Hornafirði héldum við af stað í áttina að Hallormsstað en ferðinni var heitið þangað vegna þingflokksfundar sjálfstæðismanna. Áður en ég fór upp á Lónsheiðina og úr gsm-sambandi, gerði ég hlé á akstrinum og hringdi í Kristján Guy Burgess, fréttamann hljóðvarps ríkisins, sem hafði verið að reyna að ná í mig, og síðan í Ólöfu Rún á Stöð 2. Ræddi ég við þau í bílnum við afleggjarann að ratsjárstöðinni að Stokksnesi. Varð ég þá var við, einkum hjá Kristjáni, að látið væri að því liggja, að ég hefði lagt blessun mína yfir ólögmæt verk Árna Johnsens, af því að Hermann Jóhannesson, formaður stjórnar Endurbótasjóðs menningarbygginga og deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, hafði rætt við mig um málefni bygginganefndar Þjóðleikhússins. Virtist svo sem einhverjum þætti maklegt að túlka þessi samtöl á þann veg, að við Hermann hefðum verið að ræða lögbrot formanns bygginganefndarinnar á þessum fundum og ég ekki aðhafst neitt vegna þeirra. Hvergi er slíku haldið fram í skýrslu ríkisendurskoðunar heldur segir þar um þetta atriði, sem helst hefur verið hampað af þeim, sem vilja hlut minn í málinu sem verstan: „að hann [þ. e. Hermann Jóhannesson] hafi a. m. k. tvisvar tekið málið upp við ráðherra og gert honum grein fyrir því að bæta þyrfti verklag í [byggingar]nefndinni, þar sem þar væri ekki að öllu farið að settum reglum." Að túlka þessi orð á þann veg, sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert ræðst af pólitískri óvild en ekki málefnalegum rökum.

Ég benti fréttamönnunum á, að menntamálaráðuneytið hefði þá um morguninn sent frá sér athugsaemdir við skýrslu ríkisendurskoðunar og bréfaskipti sín við framkvæmdasýsluna vegna þessa máls. Skjöl ráðuneytisins hefðu ekki minna gildi sem opinber gögn í málinu en skýrsla ríkisendurskoðunar. Með þessu á ég við það, sem segir um stjórnsýsluþátt málsins, því að hvorki ríkisendurskoðun né framkvæmdasýslan búa yfir sérþekkingu á því sviði. Ég sagðist ekki geta tekið undir það sjónarmið, að menntamálaráðuneytið sætti hörðu ámæli vegna afskipta sinna í skýrslu ríkisendurskoðunar og vísaði þar til þessara orða: „ má gagnrýna menntamálaráðuneytið" Á hinn bóginn væri ljóst, að innan ráðuneytisins yrði tekið mið af þessari gagnrýni og dreginn lærdómur af málinu öllu.

Við snæddum hádegisverð í hótelinu á Djúpavogi. Á Fáskrúðsfirði fórum við í safnið til minningar um frönsku sjómennina við Íslandsstrendur, sem Albert Eiríksson stofnaði á síðasta ári og rifjar skemmtilega upp einstakan þátt í sameiginlegri sögu Frakka og Íslands.

Frá Fáskrúðsfirði héldum við í Stríðsárasafnið á Reyðarfirði, sem hefur vaxið á undanförnum árum í gömlum kampi fyrir ofan bæinn. Þar vorum við kl. 16.30 og hafði ég sagt sjónvarpi RÚV, að ég gæti hitt Jóhann Hauksson, fréttamann RÚV, þar og kom hann og tók við mig viðtal.

Á leiðinni ræddi ég einnig við Ómar Friðriksson, blaðmann á Morgunblaðinu, og Garðar, blaðamann á Fréttablaðinu. Var öllum þessum samtölum lokið að kvöldi fimmtudagsins 16. ágúst, þegar voð renndum í hlað við Fosshótelið á Hallormsstað um kvöldmatarleytið. Þá hafði ég einnig heyrt í fréttum, að Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna sæi ekki ástæðu fyrir mig að hverfa úr ráðherramebætti vegna málsins.

Ég hafði ekki tök á að fylgjast með neinum umræðum um málið, hvorki í útvarpi né sjónvarpi, en var sagt föstudaginn 17. ágúst, að tveir prófessorar við Háskóla Íslands, þeir Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur og Sigurður Líndal lögfræðingur hefðu verið sammála um en þó ekki í sama þættinum, að ekki væri réttmætt að krefjast afsagnar minnar.

Þennan föstudag fór þingflokkur sjálfstæðismanna í skoðunarferð í fyrirtæki á Egilsstöðum og síðan héldum við í menningarmiðstöðina Skaftfell á Seyðisfirði og snæddum þar hádegisverð. Síðdegis var fundað á Hallormsstað.

Laugardaginn 18. ágúst fór þingflokkurinn fyrst í Skriðuklaustur og naut þar leiðsagnar Skúla Björns Gunnarssonar, forstöðumanns Gunnarsstofnunar og staðarhaldara, Er ánægjulegt að sjá, hve vel hefur tekist að koma nýrri menningarstarfsemi af stað í þessu einstaka húsi. Síðan héldum við upp á hálendið og ókum yfir í Hrafnkelsdal og þaðan niður að Brú í Jökuldal og síðan upp með Jökulsá á Dal að vestanverðu upp að Kárahnjúkum. Nutum við einstakrar leiðsagnar Björns Stefánssonar, verkfræðings hjá Landsvirkjun, Arnórs Benediktssonar, oddvita á Norður-Héraði, og Sveins Sigurbjarnarsonar bifreiðastjóra og framkvæmdastjóra Tanna ferðaþjónustu ehf. á Eskifirði.

Hafi verið efi í mínum huga fyrir þessa ferð um það, hvort skynsamlegt sé að virkja Jökulsá á Dal við Kárahnjúka, hvarf hann við þá fræðslu, sem ég hlaut þarna, og kynni af virkjanasvæðinu.

Við komum á Egilsstaðaflugvöll kl. 20.30 og fór þá meginhópurinn fljúgandi til Reykjavíkur. Við Rut fórum hins vegar aftur að Hallormsstað og héldum þaðan akandi í áttina að Mývatni snemma sunnudaginn 19. ágúst. Fórum við þá í fyrsta sinn nýju leiðina, sem kennd er við Háreksstaði, og þótti okkur mikið til hennar koma.

Sumarið 2000 gekkst Félag íslenskra myndlistarmanna fyrir listsýningu í aflstöðvum Landsvirkjunar við Ljósafoss og Laxá. Sýningunni við Laxá hefur verið framhaldið í sumar vegna fjölda áskorana. Vettvangur sýningarinnar er í aðkomugöngum og hvelfingum nýjustu stöðvarinnar í Laxá sem tekin var í notkun 1973. Lögðum við lykkju á leið okkar til að skoða listaverkin við þessar óvenjulegu aðstæður og sáum ekki eftir því, en Ottó Valur Kristjánsson, vélstjóri við Laxárvirkjun, fór með okkur um göngin og fræddi um stöðina um leið og við skoðum listaverkin.

Við ókum heim að nýju kirkjunni að Ljósavatni en komumst ekki inn í hana, þar sem hún var læst. Hins vegar var Safnasafnið við þjóðveginn fyrir ofan Svalbarðseyri opið og litum við á einstæðar sýningar í því okkur til mikillar ánægju, en Niels Hafstein, forstöðumaður og frumkvöðull að safninu, leiddi okkur um það og fræddi. Safnið er opið 10.til 18 alla daga frá því 5. maí til 2. september. Held ég, að enginn sé svikinn af því að eiga þar viðdvöl.

Eftir að hafa gist hjá góðum vinum í Húnavatnssýslu ókum við í Reykholt í Borgarfirði, þar sem verið er að leggja síðustu hönd á innri búnað í þeim hluta skólahússins, sem menntamálaráðuneytið ráðstafar. Ræddum við þær framkvæmdir við sr. Geir Waage.

Til Reykjavíkur komum við úr þessari sögulegu hringferð um landið rétt um kl, 16.00 mánudaginn 20. ágúst. Hafði ég þá ekið 1697 km og verið samtals 22.07 klukkustundir undir stýri og farið á 77 km hraða að meðatali en bíllinn eyddi 8,8 lítrum að meðaltali á hverja 100 km.

Ég las við heimkomuna ályktun þingflokks Samfylkingarinnar um skýrslu ríkisendurskoðunar í máli Árna Johnsens. Þar er mikil áhersla lögð á athafnaleysi mitt, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir um „óeðlilegt verklag og skort á faglegum vinnubrögðum" í byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Þetta er orðalag Samfylkingarinnar en og notað af henni í flokkspólitískum tilgangi. Eftir að hafa búið til forsendur í málinu, telur þingflokkur Samfylkingarinnar, að ég hafi ekki gefið viðhlítandi skýringar á því, hvers vegna ég brást ekki við, og krefst þingflokkurinn undanbragðalausra skýringa á allir aðkomu minni. Þetta hef ég gert, en líklega verður aldrei nóg að gert í þessu efni af minni hálfu að mati Samfylkingarinnar, því að hún hefur búið sér til eiginn veruleika í þessu máli eins og flestum öðrum - þessum tilbúna veruleika get ég ekki breytt með neinum upplýsingum. Miðað við fyrri yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur og Margrétar Frímannsdóttur vakti athygli mína, að þess er ekki lengur krafist að ég segi af mér. Var það í raun aldrei neitt fréttnæmt, að þessir þingmenn krefðust afsagnar minnar - þær hafa aldrei stutt mig til neinna trúnaðarstarfa og vilja raunar alla ríkisstjórnina feiga.