Kreppa Lindu – útlistun á skoðanakönnunum – gat verið satt.
Linda Vilhjálmsdóttir skáld skrifar um stjórnmálakreppu sína og andúð á Sjálfstæðisflokknum í Lesbók Morgunblaðsins 11. ágúst.
Linda segir: „Mér er loksins nóg boðið. Ég sætti mig ekki lengur við þetta þrúgandi þjóðfélagsástand sem einkennist af kaldrana og mannfyrirlitningu og ætla ekki að þola það stundinni lengur." R-listinn er eina ljósglætan, sem hún sér, einkum vegna þess að hann efndi til atkvæðagreiðslunnar um flugvöll í Vatnsmýrinni. R-listinn hefur fengið litlu áorkað á rúmum sjö árum, ef hin klúðurslega atkvæðagreiðsla, sem breytti engu til eða frá, er eina rósin í hnappagati hans að sögn eindregins stuðningsmanns.
Að mati Lindu eiga vandræði félagshyggjufólks í baráttu þess við Sjálfstæðisflokkinn ekki upptök innan raða þess sjálfs heldur í kosningalöggjöfinni. Hún segist hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir tíu ára vangaveltur, að lýðræðisþroski okkar Íslendinga hafi aldrei náð sér á strik „vegna vitleysisgangsins sem fjórflokkurinn kallar kosningalög og kjördæmaskiptingu." Félagshyggjusinnaðir Íslendingar hafa fyrst og fremst „leyft sér að taka óábyrga afstöðu í skjóli gallaðra kosningalaga." Íslenska kosningalöggjöfin „hefur ruglað veruleikaskyn félagshyggjumanna." Þeir, sem hún nefnir „einsmálsmenn" geti haft sinn eigin flokk á þingi. Má skilja hana á þann veg, að hún vilji, að landið verði eitt kjördæmi með reglum um, að flokkar verði að fara yfir þröskuld, sem byggist á lágmarksfylgi, til að fá menn kjörna á þing.
Þetta er forvitnileg greining á vanda vinstrisinna en ekki sannfærandi, síst af öllu, þegar hugað er að niðurstöðunni, því að fátt væri betur til þess fallið að ýta undir smáflokka og flokksbrot en að gera landið að einu kjördæmi. Nægir í því sambandi að benda á flokkagerið í Ísrael, sem er eitt kjördæmi.
Vilji Linda í raun knýja vinstri menn til samstarfs á grundvelli kosningalöggjafar á hún að velja einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi, sem gerir kjósendum kleift að velja yfir sig meirihlutastjórn og útiloka þannig hrossakaupin að kosningum loknum, en þau fylgja óhjákvæmilega hlutfallskosningum.
Kosningalöggjöfin er ekki undirrót vanda félagshyggjumanna á Íslandi. Vandi þeirra felst í því, að enginn getur skilgreint, hvað býr í hugtakinu félagshyggja. Hvernig geta menn safnast í stjórnmálaflokk um óskilgreinda stefnu? Þegar Linda lýsir ástæðunni fyrir pólitískri kreppu sinni nefnir hún meðal annars, að það sé lítil huggun harmi gegn „að hafa á Bessastöðum félagshyggjusinnaðan forseta og þéttir í raun aðeins þá suddamóðu sem byrgir vinstrimönnum sýn." Suddamóðan veldur því, að vinstrimenn komast aldrei til þess að finna sameiginleg pólitísk baráttumál en þeir sjá hins vegar jafnan Sjálfstæðisflokkinn og leitast að lokum við það eitt að sameinast gegn honum, ekki á málefnalegum forsendum heldur með því að ráðast á forystumenn flokksins, enda segir Linda, að íslenska stjórnkerfið minni með „hverjum degi sem bætist við forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar meir á einræði en lýðræði." Hvernig er unnt að rökstyðja fullyrðingu sem þessa? Auðvitað er það ekki hægt – en hún hljómar ljúflega í eyrunum á þeim, sem vilja starfa saman í stjórnmálum án þess að þurfa að ræða nokkra stjórnmálastefnu og kenna sig þess vegna við félagshyggju en láta stjórnast af óvild í garð forystumanna Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnmálasannfæring og vilji til að fylgja henni fram er í raun það, sem Linda Vilhjálmsdóttir óttast mest, því að nú eru að hennar mati blikur á lofti í Reykjavík, af því að vinstri/grænir „eru með illa dulbúnar hótanir um að kljúfa sig frá Reykjavíkurlistanum ef þeir fá ekki allt sem þeir vilja." Með öðrum orðum, vinstri/grænir eiga að láta af stjórnmálasannfæringu sinni en aðhyllast einvörðungu valdapólitík gegn Sjálfstæðisflokknum, annars er R-listinn í hættu.
Þurfti kreppu skálds og rúmar tvær síður í Lesbók Morgunblaðsins til að útlista þau gömlu sannindi um íslenska vinstrisinna, að andúðin á Sjálfstæðisflokknum er hið eina, sem þeir eiga sameiginlegt?
Útlistun á skoðanakönnunum
Niðurstöður í tveimur skoðanakönnunum voru birtar í síðustu viku. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í þeim báðum. 3% í könnun Gallups fyrir Ríkisútvarpið og fékk þar 41% fylgi – en sú könnun stóð yfir allan júlímánuð. Í DV-könnun, sem var gerð að kvöldi þriðjudagsins 7. ágúst, bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig 6,5% og fékk 42,1%.
Frásagnir fjölmiðla af þessum niðurstöðum benda til þess, að þar hafi menn búist við því, að Sjálfstæðisflokkurinn missti frekar fylgi en yki það vegna umræðnanna, sem verið hafa um mál Árna Johnsens síðustu vikur. Kemur þetta meðal annars fram í helgargrein eftir Birgi Guðmundsson, fréttastjóra á DV, en hann virðist gegna því sérstaka hlutverki á ritstjórn blaðsins að draga taum Framsóknarflokksins. Gerir hann sér von um, að forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fipist svo í umræðum um mál Árna Johnsens, að það skaði flokkinn, þótt síðar verði.
Þegar fréttamenn Ríkisútvarpsins sögðu frá niðurstöðu Gallup-könnunarinnar var bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi lögð áhersla á, að hægt hefði á fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins eftir því sem leið á júlímánuð - var þetta dregið sérstaklega út úr könnunni í frásögn af henni en ekki hitt, að flokkurinn hefði aukið fylgi sitt um 3%.
Í kvöldfréttum hljóðvarps birtist þetta viðtal miðvikudaginn 8. ágúst:
Þóra Ásgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Gallup: Já. Já, það kemur í ljós að fylgið við Sjálstæðisflokkinn var meira áður en að mál Árna Johnsens kom upp, þannig að niðurstöðurnar benda til þess að þetta mál hafi haft áhrif á fylgið.
Óðinn Jónsson [fréttamaður]: Munar þar miklu?
Þóra Ásgeirsdóttir: Ja, það munar 4 prósentustigum, sem að er svona talsvert.
Óðinn: Flokkurinn var á meiri siglingu getum við sagt en það dró úr henni við þessa umfjöllun?
Þóra Ásgeirsdóttir: Já.
Í kvöldfréttum sjónvarps birtist þetta miðvikudaginn 8. ágúst:
Þorlákur Karlsson, framkvæmdastjóri Gallups: Þannig er að við mælum jafnt og þétt allan mánuðinn fylgi flokkanna og tölum við hátt í 3 þúsund manns eða sem sé úrtak hátt í 3 þúsund manns í hverjum mánuði sem við dreifum svona jafnt yfir og þess vegna höfum við alveg afl í það að skipta svona úrtakinu í tvennt eða jafnvel oftar. Nú, við prófum það á þetta mál með Árna Johnsen kom upp akkúrat um miðjan mánuðinn um það bil, 13. og þá vorum við hálfnaðir með júlíkönnunina. Svo við einfaldlega skoðuðum fylgi Sjálfstæðisflokksins fyrir að málið kom upp sem sé, fyrir 13. júlí og svo eftir og meðan það var í umfjöllun. Og við fundum að það munaði 4 prósentustigum þannig að fylgi Sjálfstæðisflokksins seinni hluta mánaðarins var 4 prósentustigum lægra en fyrri hlutann. Nú vil ég ekki segja að þarna sé beint orsakasamband en þarna er - þetta er vísbending. Þarna er óumdeilanlega tengsl á milli, vísbending um það að þetta hafi áhrif. En eins og ég segi, ég vil undirstrika það að ég get ekki sagt að þetta sé orsökin en þarna er munur á milli fyrri hluta og seinni hluta og það kann að benda til þess að þetta Árnamál hafi áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins til lækkunar.
Í kvöldfréttum hljóðvarps birtist þetta fimmtudaginn 9. ágúst:
Þórólfur Þórlindsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands segir að ekki sé hægt að draga þá ályktun að mál Árna Johnsens hafi haft áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins eins og starfsmaður Gallups sagði í fréttum í gær.
Í könnun Gallups kom fram að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í júlímánuði hafi vaxið en í henni væri vísbending um að umfjöllun um brotamál Árna Johnsen hafi dregið úr fylgisaukningunni. Þórólfur segir að það megi alveg eins draga gagnstæða ályktun eða að minnkandi eða vaxandi fylgi Vinstri grænna tengdist máli Árna Johnsen. Aðferðafræðilega sé ekki hægt að draga þá ályktun að mál Árna Johnsen hafi haft áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Þórólfur Þórlindsson, prófessor: Til þess að það væri hægt að draga þessa breytingu þá hefðirðu þurft að spyrja beint um Árnamálið, það hefði verið eðlilegast að gera það, spyrja beint um Árnamálið það hefði verið eðlilegast og þá getum við séð til dæmis með því að spyrja fólk spurninga um málið, hvernig það skilur það og hvernig það vegur, hvort það tengir það, sko stjórnmálaumræðum með einhverjum hætti hvort það tengir það Sjálfstæðisflokknum eða á einhvern annan hátt umræðu í þjóðfélagi sem getur haft bein eða óbein áhrif á hið pólitíska umhverfi.
Þórólfur bendir einnig á að í fjölmiðlum hafi verið fjallað um mál Árna Johnsen sem mál einstaklings og það hafi ekki verið tengt við stjórnmál eða aðra einstaklinga.
Þórólfur Þórlindsson: Þau gögn sem Gallup kynnti í fréttatíma og lögð voru til grundvallar þessari frétt, þau gefa ekki tilefni til þess að álykta svona með neinni vissu. Við getum giskað en við getum giskað um svo margt annað, við getum alveg eins giskað á það að álmálið það hafi vegið þyngra í umræðunni í mánuðinum heldur en Árnamálið, málefni smábáta, kvóti á smábáta, þetta eru bara allt ágiskanir. Hins vegar stendur það eftir að í þessum mánuði að þá eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins, eykst úr 38% í 41% ef ég man rétt, þetta stendur eftir. Af hverju fylgið eykst vitum við ekki, hvort fylgið hefði aukist meira ef eitthvað annað hefði gerst á þessum tíma það vitum við ekki heldur.
Um þetta mál þarf í raun ekki að hafa fleiri orð en birtust fréttatímum RÚV. Sjálfstæðisflokkurinn jók fylgi sitt um 3%, það var fréttin í Gallup-könnununni – hvers vegna var leitast við að draga úr vægi hennar með haldlausum útlistunum? Útlistunum, sem reyndust enn haldlausari, eftir að niðurstaðan í DV-könnuninni birtist.
Gat verið satt.
Líkingamálið, sem ég notaði í síðasta pistli mínum, um hrægammana, hefur farið fyrir brjóstið á einhverjum. Lítið þótti mér leggjast fyrir þá, sem birtu kafla úr pistlinum á Pressunni, strik.is án þess að víkja einu orði að því, að kveikjan að skrifum mínum var, að Guðmundur Andri Thorsson, fastur dálkahöfundur á Pressunni, strik.is, bar mig sökum með fullyrðingum um störf Árna Johnsens á vegum menntamálaráðuneytsins, sem ekki eiga við rök að styðjast. Frásögnin af pistli mínum var álíka vönduð og menn lýstu bréfi með því einu að segja frá því, sem stæði utan á umslaginu.
Guðmundur Andri heldur áfram að fjalla um þetta í nýjasta pistli sínum og telur nú, að ég líti þannig á, að umfjöllun um mál Árna Johnsens hafi leitt til falls hans. Þetta er röng staðhæfing og stangast á við það, sem ég hef sagt efnislega um mál Árna. Það byggist ekki heldur á neinu, sem fram er komið, sem Guðmundur Andri gefur í skyn, að með umboði mínu hafi Árni eytt fé umfram fjárveitingar til viðhalds á Þjóðleikhúsinu.
Guðmundur Andri viðurkennir, að hann hafi hlaupið á sig með því að segja Árna Johnsen formann bygginganefnda í Skógum og á Laugarvatni en heldur síðan áfram og lætur eins og það gæti hafa verið satt og ég verði að una gagnrýni án þess að draga Guðmund Andra inn í dýralífsmynd í mínu höfði – sjálfsagt er að taka tillit til þessara óska dálkahöfundarins, en finnst honum betra hlutskiptið, sem minnir á málflutning Jónasar frá Hriflu, sem sagði, þegar bent var á rangfærslur hans um andstæðinga sína: En það gat verið satt!