4.8.2001

Sum dýr jafnari – högg Svanfríðar – sérkennilegt fréttamat.

Þegar ég les sumt af því, sem skrifað er vegna máls Árna Johnsens, eða hlusta á það, sem sagt er í útvarpi eða sjónvarpi, dettur mér í hug dýralífsmynd frá Afríku. Hjörð af dýrum er á ferð um gresjuna, eitt þeirra heltist úr lestinni og ekki líður á löngu, áður en það er umkringt af hrægömmum, sem linna ekki látum, fyrr en þeir hafa fellt dýrið og drepið með því að rífa úr því innyflin.

Til þess að koma í veg fyrir, að þannig sé farið með okkur sjálf og meðbræður okkar, höfum við mennirnir komið á fót rannsóknakerfi og dómstólum, þar sem öllum á að gefast kostur á skýra mál sitt og setja fram málsbætur.

Hér féll að vísu hinn 19. desember 2000 hæstaréttardómur þess efnis, að væri maður í áberandi stöðu innan Sjálfstæðisflokksins, yrði hann að una því, að um þessi tengsl væri fjallað á opinberum vettvangi og bæri að fara varlega við að hefta slíka umræðu og því var ekki lagt á hæstaréttarlögmann að sanna ummæli sín um framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, þar sem sönnunarfærslan myndi reynast lögmanninum óhæfilega erfið. Með öðrum orðum er það svo samkvæmt dómi meirihluta hæstaréttar (2:1), að beri menn eitthvað á einhvern, sem gegnir áberandi stöðu innan Sjálfstæðisflokksins, þurfa þeir ekki að sanna, að þeir hafi rétt fyrir sé, ef það er þeim óhæfilega erfitt. Minnir þetta á það, sem George Orwell sagði: Öll dýr eru jöfn. En sum dýr eru jafnari en önnur.

Mál Árna Johnsens verður leitt til lykta með athugun á vegum ríkisendurskoðunar og fyrir atbeina ríkissaksóknara, sem leggur mál fyrir dómstóla. Árni mun taka út refsingu og hefur þegar sagt af sér þingmennsku, fyrstur manna vegna ávirðinga af þessum toga, síðan alþingi var endurreist árið 1843. Árni er ekki lengur í opinberri stöðu og verður því ekki hafður að skotspæni vegna þess.

Þá er að leita uppi næsta dýrið í hjörðinni. Fyrst að finna veika blettinn og síðan leggja til atlögu af fullum þunga.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur heldur úti föstum dálki á strik.is og segir svo í upphafi síðasta pistils síns, sem heitir Nobody knows you:

„Björn Bjarnason ber ábyrgð á Árna Johnsen einfaldlega vegna þess að hann skipaði manninn til þeirra starfa sem hann reyndist svo óheppilegur í. Björn Bjarnason taldi að Árni Johnsen hefði til að bera eftirsóknarverða eiginleika í það starf að stjórna bygginganefnd Þjóðleikhússins og bygginganefnd safnsins að Skógum og bygginganefnd á Laugavatni, svo að einungis séu nefndar nokkrar nefndir sem menntamálaráðherra taldi að væri best komnar í höndum Árna Johnsen. Reynslan hefur nú leitt í ljós að Birni Bjarnasyni skjátlaðist um þessa eiginleika Árna. Enginn grunar Björn um græsku í þessum málum – hitt er deginum ljósara að hann gerði sig sekan um dómgreindarskort. Og getur ekki þvegið hendur sínar af málinu."

Í flýti við að ganga frá texta á vefsíðu mína gerist það oftar en ég kýs, að ég dett í villupytti, en vinsamlegir lesendur rétta mér fljótt hjálparhönd og leiðrétti ég þá misfelluna. Eru menn almennt ekki að elta ólar við mig vegna þessarar fljótfærni og er ég þakklátur fyrir það. Ég get hins vegar ekki litið á það sem neina fljótfærnisvillu hjá Guðmundi Andra, að hann heldur því fram, að ég hafi skipað Árna Johnsen formann þriggja bygginganefnda og gefur jafnframt til kynna, að Árni hafi setið í fleiri nefndum á mínum vegum. Þessi staðhæfing Guðmundar Andra er forsenda fullyrðingar hans um, að ég sé sekur um dómgreindarskort.

Ég skipaði Árna Johnsen formann bygginganefndar Þjóðleikhússins, vegna þess að mörgum þótti hann eftirsóknarverður í starfið en hann hafði gegnt því í mörg ár, þegar ég varð menntamálaráðherra, og notið til þess trausts tveggja menntamálaráðherra, Svavars Gestssonar og Ólafs G. Einarssonar. Það var skoðun þeirra, sem þekktu best til mála, að Árni vissi meira um það, sem enn var ógert í Þjóðleikhúsinu, en flestir aðrir. Fékk hann umboð frá mér til að vinna að gerð áætlunar um næstu stórframkvæmdir til að Þjóðleikhúsið yrði endurgert með sómasamlegum hætti. Þær áætlanir liggja nú fyrir, ekki hefur verið ráðist í framkvæmdir á grundvelli þeirra en hins vegar hefur verið unnið að viðhaldsverkum í Þjóðleikhúsinu eftir því sem fjárveitingar leyfa og samdi Framkvæmdasýsla ríkisins við Árna um aðkomu hans að þessum verkum eins og kemur fram í bréfi forstöðumanns hennar.

Ég hef hvorki skipað Árna Johnsen formann bygginganefndar á Laugavatni né bygginganefndar safnsins að Skógum. Mér er ekki kunnugt um neina bygginganefnd á Laugavatni, en hins vegar var í vetur að störfum nefnd á mínum vegum undir formennsku Árna Johnsens, sem skilaði síðan tillögum um það á vordögum, hvernig standa ætti að því að koma á fót Íþrótta- og ólympíumiðstöð á Laugavatni og nýta gamla hérðasskólahúsið þar í því skyni. Á sínum tíma var samið um það, að lagt yrði fram fé úr ríkissjóði til að reisa hús yfir samgönguminjasafn að Skógum. Allar framkvæmdir eru á vegum byggðasafnsins og veit ég ekki, hvort það hefur skipað sérstaka bygginganefnd. Árni Johnsen hefur verið heimamönnum innan handar vegna þessara framkvæmda en ekki starfað á vegum menntamálaráðuneytisins. Ég geri mér ekki grein fyrir, hvaða nefndir aðrar á vegum menntamálaráðuneytisins Guðmundur Andri hefur í huga með orðum sínum.

Ég ætla ekki að þvo hendur mínar af neinu í máli Árna Johnsens og tek því eins og aðrir, sem rannsókn þess leiðir í ljós. Á hinn bóginn tel ég, að Guðmundur Andri yrði maður að meiri, ef hann leiðrétti þennan vefpistil sinn og hefði það sem sannara reynist og drægi síðan ályktanir sínar um dómgreindarskort minn á réttum forsendum. Hann ætti einnig að kanna betur heimildir sínar, þegar hann segir að „hinir ævintýralegu reikningar Árna Johnsens hafi komið í Menntamálaráðuneytið og menn þar hafi verið spurðir hvað í ósköpunum ætti að gera við þetta og hafi sagt. Borga og þegja."

Ef til vill kæmist meirihluti hæstaréttar að þeirri niðurstöðu, að það væri óhæfilega erfitt fyrir Guðmund Andra að sanna ummæli sín, enda ætti maður í áberandi stöðu í Sjálfstæðisflokknum í hlut – ég leyfi mér þó að efast um það.



Högg Svanfríðar

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins þriðjudaginn 31. júlí var viðtal við Svanfríði Jónasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, þar sem hún lýsti því, hvernig ég hefði hunsað ályktun alþingis. Daginn eftir fékk ég síðan tækifæri til að skýra fréttamanninum frá því um hvað þetta mál snerist og svara alvarlegri ásökun þingmannsins. Sendi ég fréttamanninum meðal annars þessar upplýsingar:

Alþingi ályktaði hinn 9. maí 2000 að fela menntamálaráðherra að láta fara fram könnun á læsi Íslendinga. Könnunin verði gerð á árunum 2000 og 2001 og taki til aldurshópanna 18 til 67 ára. Við undirbúning og framkvæmd verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Sumarið 2000 sneri menntamálaráðuneytið sér til Jóns Torfa Jónassonar prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og leitaði álits hans á því, hvernig best væri að standa að framkvæmd þessarar ályktunar. Hafði hann efasemdir um framkvæmd könnunarinnar og taldi hana verða kostnaðarsama. Ljóst var, að ráðuneytið hafði ekki fjármuni til að ráðast í könnunina á árinu 2000.

Sumarið 2001 skilaði Jón Torfi Jónasson skriflegri greinargerð til ráðuneytisins um kostnað og kosti við að framkvæma könnunina. Hann hefur hinn almenna fyrirvara á afstöðu sinni, að hann telji slíka könnun ekki þjóna miklum tilgangi. Áður en til hennar sé gengið þurfi að gera sér grein fyrir því, hvað eigi að gera við niðurstöður könnunarinnar. Til lítils sé að afla vitneskju um ólæsi, ef ekki er jafnframt hugað að því, hvernig eigi að bregðast við vitneskjunni. Sé ríkissjóður aflögufær um fé til slíkrar könnunar sé nær að nota þessa fjármuni til að veita þeim aðstoð, sem vitað er, að glími við lestrarvanda.

Prófessorinn telur, að unnt sé að álykta um ólæsi fullorðinna á Íslandi af könnunum, sem hafa verið gerðar annars staðar á Norðurlöndunum. Þar komi í ljós, að 13% fullorðinna séu illa læs eða ólæs. Af þessum rannsóknum megi með mikilli vissu segja, að ólæsi hér sé á bilinu 10 til 15%. Vilji menn fá staðfestingu á því með könnun, séu fjórir kostir fyrir hendi.

Í fyrsta lagi taki Ísland þátt í rannsókn OECD, sem er að hefjast. Talið er, að þátttaka kosti 35 m. kr. Aðeins Noregur tekur þátt í könnuninni af Norðurlöndunum.

Í öðru lagi verði gerð sérstök, almenn íslensk könnun á læsi fullorðinna. Áætlaður kostnaður er 15 m.kr.

Í þriðja lagi verði efnt til afmarkaðrar rannsóknar á þeim hópum, sem verst standa að vígi vegna lestrarkunnáttu, og þeir bornir saman við hópa, sem standa betur að vígi. Áætlaður kostnaður er 10 m. kr.

Í fjórða lagi verði vel unnið læsispróf tengt samræmdum prófum í íslensku í einum árgangi í 10. bekk grunnskóla. Áætlaður kostnaður er 8,7 m. kr.

Jón Torfi Jónasson mælir með fjórða kostinum og telur hann skila mestum árangri til framtíðar. Þessi kostur er ekki í samræmi við ályktun alþingis.

Menntamálaráðuneytið hefur ekki fjárveitingu til að standa straum af kostnaði við neina af þessum könnunum. Ráðuneytið er sömu skoðunar og Jón Torfi Jónasson, að skynsamlegast sé að líta á fjórða kostinn, ef óska á eftir fé úr ríkissjóði til rannsókna af þessu tagi.

Í greinargerð flutningsmanna tillögurnar á alþingi segir meðal annars: „Eðlilegt væri að við undirbúning og framkvæmd könnunar á læsi fullorðinna væri haft náið samráð við aðila vinnumarkaðarins því ljóst er að til þeirra kasta kemur þegar niðurstöður liggja fyrir og ákvarðanir verða teknar um hvernig við skuli brugðist." Áður en ráðuneytið stígur frekari skref í þessu máli, hefur það óskað eftir áliti Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á þeim kostum, sem hér hefur verið lýst. Jafnframt eru það tilmæli ráðuneytisins, að aðilar vinnumarkaðarins veiti ráðuneytinu leiðsögn um gagnsemi þess að efna til slíkrar könnunar.

Ég legg það undir mat lesenda, hvort réttmætt sé að halda því fram, að ég eða menntamálaráðuneytið hafi haldið að sér höndum vegna þessarar ályktunar alþingis eða hunsað hana. Það hafa einfaldlega vaknað efasemdir um gildi þess að leggja fé í könnun af þessu tagi, eftir að Jón Torfi Jónasson prófessor gaf álit sitt, en hvað sem því áliti líður getur ráðuneytið ekki látið undir höfuð leggjast að vinna áfram að málinu, þess vegna hefur það snúið sér til aðila vinnumarkaðarins til að undirbúa framkvæmd málsins frekar.

Svanfríður Jónasdóttir hefði auðveldlega getið fengið allar þessar upplýsingar hjá menntamálaráðuneytinu, hefði hún haft áhuga á því, einnig hefði hún getað spurt mig á alþingi sl. vetur um gang þessa máls og ég hefði svarað henni og upplýst hana og þingheim um þær ábendingar, sem ráðuneytið hafði fengið frá sérfræðingi um, að hvorki væri nauðsynlegt að gera könnunina né væri ljóst, hvað ætti að gera við niðurstöðuna.

Svanfríður vissi vel, að alþingi hafði ekki veitt fé til að gera menntamálaráðuneytinu kleift að gera könnunina hennar. Í hennar huga var það aukaatriði. Best er að lýsa atbeina Svanfríðar með því að vitna í Þorgeir Hávarsson í Fóstbræðra sögu: „Eigi hafði hann nokkurar sakar til móts við mig en hitt var satt að eg mátti eigi við bindast er hann stóð svo vel til höggsins." Þorgeir vó sauðamanninn en högg Svanfríðar lendir á henni sjálfri.

Sérkennilegt fréttamat

Fréttablaðið birti á forsíðu sinni 31. júlí frétt undir þessari fyrirsögn: Sumarhöllin stærri en hreppurinn vildi – Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, fékk leyfi til að byggja 120 fermetra sumarbústað á ríkislóð við Þingvallavatn eftir að Þingvallanefnd hafði beitt hreppinn þrýstingi. Kjartan vildi sprengja ofan í klöppina fyrir „neðanjarðarbyrgi" en hreppsnefndin lét ekki segjast.

Fréttin byggist á viðtali við Ragnar Jónsson, bónda á Brúsastöðum, sem er oddviti Þingvallahrepps. Þar er þess getið, að ég sé formaður Þingvallanefndar og ranglega sagt, að hún sé skipuð af forsætisráðherra, því að nefndin er kjörin af alþingi. Enginn, sem les forsíðufyrirsögnina, getur efast um, að hér hljóti að vera maðkur í mysunni, enda höfðu fréttamaður Stöðvar 2 og blaðamaður Morgunblaðsins samband við mig vegna málsins. Lá í loftinu, að Kjartani Gunnarssyni hefði nýlega, með atbeina mínum í umboði Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, verið úthlutað lóð á vafasömum forsendum, Þingvallanefnd hefði sett hreppsnefnd Þingvallahrepps í skrúfstykki í þágu Kjartans auk þess sem Þingvallanefnd væri með óeðlileg afskipti af innri málum hreppsins.

Þegar betur er að gáð kemur þetta í ljós: Engri lóð hefur verið úthlutað á þessu svæði síðan 1974, Kjartan átti óvtíræðan rétt til að reisa bústað á leigulóð, sem hann fékk umráð yfir fyrir mörgum árum, hann fór í einu og öllu að óskum hreppsnefndar, sem gerði athugasemd við fyrstu hugmynd arkitekta um, að hluti bústaðarins yrði ofan í hrauninu. Þingvallanefnd leitaði upplýsinga hjá hreppsnefndinni um það, hvaða ákvarðanir hún hefði almennt tekið um heildarstærð húsa og við hvaða byggingar væri miðað þegar tekin væri afstaða til þess, að umrætt sumarhús félli ekki að umhverfi sínu. Hreppsnefndin var ekki beitt neinum þrýstingi. Í marga áratugi hefur Þingvallanefnd verið umsagnaraðili vegna framkvæmda í landi ríkisjarðarinnar Kárastaða og kemur fram sem leigusali gagnvart sumarbústaðaeigendum þar. Hefur hreppsnefndin ekki andmælt þeirri skipan við Þingvallanefnd, svo að ég viti.

Morgunblaðið sá ekki ástæðu til að birta neina frétt um þetta mál, eftir að hafa kynnt sér það. Stöð 2 ræddi við Ragnar oddvita og málið gufaði upp í samtalinu við hann. Sumarhöllin reyndist venjulegur sumarbústaður, engum var verið að hygla á ríkisjörð og þrýstingurinn frá Þingvallanefnd var ímyndunin ein.

Aðeins er eftir spurningin um það, hvers vegna Fréttablaðið ákvað að hafa þessa innantómu frétt myndskreytta á forsíðu sinni.