15.7.2001

Landsmót – nýting landgæða – haldlausar hrakspár.

Í annað sinn átti ég þess kost að sækja landsmót Ungmennafélags Íslands, að þessu sinni á Egilsstöðum, en þar tók ég þátt í hátíðlegri setningarhátíð mótsins föstudagskvöldið 13. júlí.



Eins og ávallt þegar efnt er til útihátíða á Íslandi eiga skipuleggjendur allt undir því að veðrið sé gott, því að sé vel að undirbúningi staðið, getur aðeins veðrið sett strik í reikninginn. Það var yndislegt veður á setningarathöfninni á nýja Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum, enda fór hún hið besta fram og þúsundir manna fylgdust með henni.



Laugardaginn 14. júlí blés nokkuð af norðri en þó var notalegt að sitja í sólinni við völlinn eða hjá sundlauginni og fylgjast með kappsfullu íþróttafólkinu. Austfirðingar binda vonir við, að umbæturnar á íþróttaaðstöðunni á Egilsstöðum leggi grunn að enn öflugra íþróttastarfi til framtíðar og kalli á fólk utan héraðs, sem vill nýta sér hinar bestu aðstæður til þjálfunar og keppni. Nýi íþróttavöllurinn er í raun í hjarta bæjarins og mikil og góð þjónusta í næsta nágrenni við hann.



Ég gisti að þessu sinni á Gistihúsinu Egilsstöðum, það tekur um fimm mínútur að ganga þangað úr bænum en þar finnur maður þó strax fyrir sveitakyrrð í virðulegu húsi, þar lögð hefur verið rækt við að varðveita hið upprunalega í húsbúnaði og matseld.



Austfirðingar stóðu vel að því að skipuleggja landsmótið en svo margt gerist á því á skömmum tíma og á mörgum stöðum, að ógjörningur er að komast yfir það allt saman. Var keppni í einstökum greinum dreifð um firðina auk þess, sem hún var háð á ýmsum stöðum á Egilsstöðum.



Ætla ég ekki að gera tilraun til að lýsa því öllu, en hitt er víst, að með því að standa svo myndarlega að mótinu sýndu Austfirðingar enn einu sinni, hvað í þeim býr.



Þegar ég var að hefja þingmennsku átti ég þess kost að fara um firðina í kosninga- og stjórnmálaferðalög með Agli Jónssyni, þáverandi alþingismanni, og heimsóttum við tugi fyrirtækja um allt kjördæmið.



Í störfum mínum sem menntamálaráðherra hef ég tekið þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum með Austfirðingum og kynnst því, að þeir eru tilbúnir til að fara inn á nýjar brautir sé það nauðsynlegt til að ná betri árangri en ella eins og nýgerður menningarsamningur 16 sveitarfélaga við menntamálaráðuneytið sýnir.



Í för minni til Egilsstaða að þessu sinni átti ég þess kost að ræða stuttlega um hugmyndir manna þar um aðstöðu til menningarstarfsemi, einkum í þágu sviðslista og safnastarfsemi. Þá hafa verið teknar ákvarðanir um framtíð Eiða, þar sem ekki eru lengur forsendur til skólastarfs, en einkaaðilar hafa keypt staðinn í því skyni að efla menntun og menningu. Að Skriðuklaustri hefur Gunnarsstofnun verið komið á laggirnar í samstarfi við heimamenn og menningarstarf er tekið að þróast undir merkjum hennar auk þess eru ferðamenn nú boðnir velkomnir í þetta einstæða hús. sem almennt vekur undrun og aðdáun gesta.



Nýting landgæða



Þegar rætt er um framtíð mannlífs á Austfjörðum, beinist athyglin nú einkum að stórvirkjunum og álveri í Reyðarfirði. Er ljóst, að slíkar framkvæmdir eru alls ekki í andstöðu við þá stefnu að efla menntun og menningu enn frekar á Austurlandi. Finnst mér ekki sannfærandi málflutningur, að virkjunum og stóriðju sé stillt upp sem andstæðu mennutnar og menningar.



Er nærtækt að minnast þess, þegar ráðist var í virkjun Þjórsár við Búrfell á sjöunda áratugnum, þá varð að flytja inn verkkunnáttu við mannvirkjagerðina en nú getum við staðið að henni á eigin forsendum og á grundvelli eigin þekkingar og reynslu. Þegar rætt er um skort á fólki með þekkingu á tækni og í raunvísindum hér á landi, gleymist gjarnan, að tiltölulega skammt er síðan íslenskt atvinnulíf bauð mönnum með slíka menntun verðug verkefni. Eftir því sem þau verða fleiri, þeim mun meiri líkur eru á því að ungt fólk leggi sig eftir menntun, sem gefur því færi á að njóta sín á slíkum starfsvettvangi.



Friðrik Daníelsson verkfræðingur sendi á síðasta ári frá sér bókina 2000 árum eftir Vínlandsfund, þar sem hann ræðir ýmis helstu álitamál samtímans og framtíð Íslands. Umhverfismál, virkjanir og stóriðju ber hátt í bók hans. Hann segir til dæmis, að þensluatvinnuvegir árþúsundamótanna, upplýsingaiðnaður, fjarskipti og miðlun, ferðamennska, líftækni og verðbréfaviðskipti byggist aðeins að litlu leyti á sérstökum eða til framtíðar stöðugum landkostum á Íslandi, heldur að mestu á sérhæfni og framtaki manna hér. Ef eitthvað versni í umhverfi þessara atvinnugreina rýrni þær eða verkin færist þangað sem hagkvæmara eða betra er að framkvæma þau. Ferðamenn hætti að koma, ef efnahagur heima fyrir raskist, tíska breytist eða umhverfishamfarir hefjist hér. Atvinnustarfsemi, sem nýti auðlindir Íslands eingöngu, til dæmis orkuuppspretturnar eða gróðurlendið, sé bundin við að verkin séu unnin í landinu, hún fari ekkert. Ein þróuð atvinnugrein skapi grunn fyrir aðrar greinar, stundum alls óskyldar.



Friðrik bendir á, að léttmálmar, sem krefjast mikillar orku í framleiðslu, séu framtíðar smíðaefni mannkyns. Farartæki úr þeim séu sparneytin á eldsneyti og hagkvæm. Málmarnir séu góðir til smíða en ungir í tæknisögu manna, Íslendingar geti nýtt sér mikið rými til að þróa framleiðslu þeirra og notkun og íslensk fyrirtæki öðlast sess í léttmálmiðnaði. Það markmið náist þó ekki án hámenntaðs og sérhæfðs fólks, en svo vilji til, að Íslendingar hafi þar betri aðstöðu en margir því að menntunar- og tæknistigi sé hér hátt.



Haldausar hrakspár



Hér nefni ég aðeins eitt dæmi af mörgum, sem er að finna í bók Friðriks og er rökstuðningur hans fyrir glæstri framtíð Íslands, sé rétt haldið á málum. Ekki er síður athyglisvert, hvernig hann nálgast umræður um umhverfismál og umhverfisvernd eða loftlagsbreytingar. Af þeim lestri er ljóst, að það er ekki maðurinn heldur náttúran sjálf, sem ræður úrslitum. Spurning er, hvað mannshöndin getur gert til að virkja náttúrukraftana manninum og náttúrunni til framdráttar eða til að hefta eyðandi áhrif í náttúrunni sjálfri.



Umræðurnar, sem nú fara fram um virkjanir og raforkuiðnað, snúast um það, hvaða hömlur við viljum leggja á okkur sjálf við nýtingu landgæða eða náttúruauðlindir. Við höfum mótað leikreglur til að komast að niðurstöðu um það, hvernig skynsamlegt sé að haga þessari nýtingu. Það hefur hins vegar ekki verið lagt bann við henni og hún er ekki í andstöðu við markmið þeirra, sem vilja efla menntun og menningarstarf þjóðarinnar.



Þegar rætt er um virkjanir núna eða hættuna af stóriðju, eru hæg heimatökin hér á landi að kynna sér réttmæti málflutnings úrtölumanna gegn framkvæmdum af þessu tagi með því að rifja upp deilurnar vegna Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík. Fæst ef nokkuð af því neikvæða, sem þá var sagt, á upp á pallborðið í samtímanum. Umræðurnar um hættuna af því að erlent fjármagn væri nýtt með þeim hætti, að svissneskt fyrirtæki ætti álverið, hljóma líklega eins fáránlega í eyrum ungs fólks núna eins og þegar rætt er við það um deilurnar um það, hvort innleiða ætti litasjónvarp, afnema gjaldeyrishöft eða leyfa mönnum að nota greiðslukort.