1.7.2001

Feneyja-tvíæringur – borgarstjóri og MR


Nokkrar umræður hafa orðið um það, hvernig staðið skuli að þátttöku íslenskra myndlistarmanna í Feneyja-tvíæringnum. Á þessu ári tekur Finnbogi Pétursson þátt í tvíæringnum og er það ekki gagnrýnt heldur þykir ýmsum, að umbúnaður um íslenska þátttöku í þessum viðburði sé ekki nægilega glæsilegur. Er látið að því liggja, að í því efni hafi menntamálaráðuneytið brugðist. Í tilefni af þessum umræðum hefur verið farið yfir allt skipulag þessara mála á vettvangi ráðuneytisins og verður því haldið áfram, vonandi í góðu samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna.

Formleg þátttaka Íslands í Feneyja-tvíæringnum hófst árið 1984, en áður höfðu íslenskir listamenn sýnt þar á samsýningum eða sérstökum svæðum sem úthlutað var. Árið 1984 buðu Finnar Íslendingum afnot af skála, sem Alvar Aalto teiknaði vegna byggingarlistarsýningar á svæðinu, þar sem þeir þurftu ekki lengur að nota hann vegna þess að Finnland, Noregur og Svíþjóð byggðu nýjan skála. Árið 1986 var gerður samningur um leigu á skálanum til 8 ára. Finnar hafa ekki boðið með formlegum hætti upp á nýjan langtímasamning, en í raun hefur hann verið endurnýjaður fyrir hverja sýningu með þeim hætti að menntamálaráðuneytið hefur greitt leiguna. Ekki er við því að búast, að Íslendingar geti fengið leyfi til að reisa eigin sýningarskála á þessu svæði, þar sem það er fullbyggt. Eins og mál standa er því ekki unnt að fá betri sýningaraðstöðu á svæðinu, ef ætlunin er að sýna sérstaklega undir merkjum Íslands.

Menntamálaráðuneytið skipaði árið 1983 myndlistarnefnd til að undirbúa þátttöku í Feneyja-tvíæringnum og öðrum alþjóðlegum samsýningum. Síðan hefur starfssvið nefndarinnar orðið víðara, m. a. að veita ráðuneytinu umsögn vegna styrkveitinga. Ráðuneytið hefur frá upphafi lagt í hvert sinn frá 2,5 til 3,5 m.kr. til þátttöku í Feneyja-tvíæringnum. Í ár er fjárveitingin 3 m. kr. Af þessari fjárveitingu er greitt leigugjald fyrir skálann (80 þús. finnsk mörk) og kostnað við gæslu (15 þús. finnsk mörk), samtals um 1,4 m. kr. í ár. Einnig er greiddur flutningskostnaður, tryggingar, gerð og prentun sýningarskrár og kynningarefnis, ferðir sýningarstjóra og listamanns/manna, veitinga o.fl. og frá árinu 1993 hefur ráðuneytið einnig greitt fyrir aðstoðarmann á sýningarstað. Sýningarstjóri hefur verið ráðinn hverju sinni. Hlutverk hans er að sjá um framkvæmd á verkefninu, en hún felst m.a. í öflun efnis í sýningarskrá, pökkun og sendingu verkanna, umsjón og uppsetningu sýningarinnar í Feneyjum og eftir megni að koma íslenska listamanninum á framfæri við blaðamenn og sýningarstjóra og dreifa efni. Viðkomandi listamaður hefur einnig fengið styrk til að standa straum af ýmsum efniskostnaði o. fl. Finnbogi Pétursson naut auk þess í ár starfslauna úr listasjóðum, og ráðuneytið greiddi kostnað vegna aðstoðarmanns. Í ár var Gallerí i8 falið að útbúa sýningarskrá og kynningarefni gegn 500 þús. kr. greiðslu og samþykkt að sýningarskráin væri í ritröð galleríins. Gert var ráð fyrir að efnið yrði sent með listaverkunum eins og tíðkast hefur. en það kom of seint úr prentun til að það gæti gengið eftir.

Menntamálaráðuneytið hefur litið á það sem hlutverk sitt að skapa aðstæður til þátttöku í tvíæringnum með því að leigja húsnæði og veita fé vegna framkvæmdarinnar. Á hinn bóginn hefur ráðuneytið ekki tekið að sér að sinna sérstöku kynningarstarfi vegna listamannsins.

Ástæðan fyrir því, að ég rek þetta svona nákvæmlega, er, að af viðtölum við myndlistarmenn í Morgunblaðinu í dag (sunnudag 1. júlí) má ráða, að þeir hafi aðra hugmynd um hlut menntamálaráðuneytisins í þessu máli og líti þannig á, að það hafi á einhvern hátt brugðist. Sérstaklega kemur mér á óvart, að látið er að því liggja, að í þessu efni eða vegna annarra listsýninga erlendis séu listamenn látnir standa undir öllum kostnaði en síðan komi forráðamenn og haldi ræður, væntanlega til að slá sér upp á kostnað listamannanna. Sagt er, að ríkið vilji ekki borga, en vilji þó endalaust skreyta sig með þessum fjöðrum. Ég veit ekki til þess, að í Feneyjum hafi íslenska ríkið leitast við að skreyta sig með nokkrum fjöðrum, hef ég raunar skilið gagnrýnina undanfarna daga á þann veg, að ríkið hafi meðal annars ekki látið nóg að sér kveða með veisluhöldum í Feneyjum.

Annar viðmælandi blaðsins segir, að menn hafi staðið eins og „gapandi apar", þegar hann sótti tvíæringin, af því að það hafi ekki verið neitt kynningarefni. Skellir hann skuldinni á fulltrúa menntamálaráðuneytisins og vísar þar væntanlega til myndlistarnefndarinnar, sem fyrr er getið, kallar þá býrókrata og segir þá ekki standa sig í stykkinu. Telur þessi listamaður menntamálaráðuneytið hafa komið mjög vel út úr þessu fjárhagslega, eins og það er orðað, vegna þess hve mikil sjálfboðavinna hafi verið unnin. Hann segir einnig, að svo mikill hafi þrýstingurinn verið á ráðuneytið, að menn hafi séð að sér og veitt Finnboga Péturssyni starfslaun listamanna í ár. Verða þessi orð ekki skilin á annan veg en þann, að ráðuneytið ákveði starfslaunin. Þar er enn um misskilning að ræða, því að ráðuneytið á engan þátt í ákvörðunum um þau heldur sérstök starfslaunanefnd, sem myndlistarmenn skipa.

Allir eiga rétt á því að njóta sannmælis. Sé þeirrar frumreglu ekki gætt í samskiptum, er ekki mikil von um góðan sameiginlegan árangur. Að hafa menntamálaráðuneytið eða starfsmenn þess fyrir rangri sök í þessu máli er ekki leiðin til sameiginlegra úrbóta. Ráðuneytið hagar fjárstuðningi við þetta framtak í samræmi við svigrúm á fjárlögum hverju sinni. Það er hvorki að hugsa um að tapa eða græða á verkefninu og því síður er það kappsmál, að slá sér upp á kostnað listamanna. Ráðuneytið hefur aldrei tekið að sér að standa undir öllum kostnaði vegna Feneyja-tvíæringsins eða greiða þeim laun, sem þar leggja hönd á plóginn.

Sjálfsagt og eðlilegt er að fara yfir allt vinnuferlið vegna Feneyja-tvíæringsins og laga skipulag þátttökunnar í ljósi reynslu og þróunar í sýningarhaldinu. Víða sést í erlendum fjölmiðlum, að ýmsum finnst nóg um íburðinn og snobbið. Meðalhófið er vandfundið en sjálfsagt að leita að því.

Borgarstjóri og MR

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um endurbætur á húsnæði Menntaskólans í Reykjavík og dregin fram andstæð sjónarmið okkar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Deilan snýst um það, hvort Reykjavíkurborg komi að því að skapa skólanum viðunandi starfsaðstöðu á þeim reit, sem honum hefur verið markaður, í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt lögum skiptist kostnaður við nýbyggingar framhaldsskóla milli sveitarfélaga (40%) og ríkisins (60%). Ingibjörg Sólrún segir þessa skiptingu ekki ná til Menntaskólans í Reykjavík (MR) eða Menntaskólans við Hamrahlíð (MH) og hefur þessi afstaða tafið fyrir því, að unnt sé að leysa úr húsnæðisvanda þessara skóla. Alþingi hefur til dæmis veitt fé til að reisa íþróttahús við MH, sem beðið hefur verið í meira en 30 ár. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og fjármálaráðuneytið heimila hins vegar ekki framkvæmdir nema fyrir liggi, að Reykjavíkurborg ætli að standa við 40% hlutdeild sína.

Þegar MR var gefin húseign við Þingholtsstræti til minningar um Elísabetu Sveinsdóttur, veitti samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og fjármálaráðuneytið heimild til að ráðast í endurbætur á húsinu og tengingu þess við Casa Nova, hús MR, þótt Reykjavíkurborg greiddi ekkert af þeim kostnaði. Jafnframt var áréttað, að ekki yrði um nýframkvæmdir að ræða fyrir MR nema með þátttöku Reykjavíkurborgar. Ljóst er, að ekki verður ráðist í endurbætur á húsnæði MR nema í senn verði gerð verkáætlun um nýbyggingar og viðgerðir á gömlum húsum. Viðhaldskostnaður er alfarið á herðum ríkisins en til nýbygginga þarf samstarf við Reykjavíkurborg.

Ingibjörg Sólrún skapar sér algjöra sérstöðu meðal forráðamanna sveitarfélaga með digurbarkalegum yfirlýsingum sínum í garð ríkisins vegna uppbyggingar á framhaldsskólum. Á sínum tíma var til dæmis ráðist í nýbyggingu við Menntaskólann á Akureyri í samstarfi ríkisins og sveitarfélaganna fyrir norðan. Vafalaust hefðu heimamenn getað skotið sér á bakvið lögfræðilegar álitsgerðir um að þeir hefðu engar skyldur í þessu efni, en úr lögfræðilegum ágreiningi af þessum toga verður ekki skorið að lokum nema honum sé skotið til dómstólanna. Það hefur Reykjavíkurborg ekki gert. Í Morgunblaðinu telur Ingibjörg Sólrún málstað sínum til stuðnings, að ríkið hafi ekki mótmælt lögfræðileum álitsgerðum og við það sitji. Þetta er í besta falli eins og hver annar útúrsnúningur. Borgarstjóri getur þess ekki, að það hefur verið efnt til viðræðna við Reykjavíkurborg í því skyni að leiða þetta mál til lykta og af hálfu ríkisins hefur ekki verið hvikað frá því, að skylda Reykjavíkurborgar sé skýr í þessu efni, hvað sem álitsgerðum lögfræðinga líður. Af hálfu ríkisins er skýrt, að afstaða borgrstjóra kemur í veg fyrir, að ráðist sé í nýbyggingar í þágu Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Hamrahlíð. Þetta er engin einkaskoðun menntamálaráðuneytisins.

Hlýtur fleirum en mér að blöskra, þegar þeir lesa ummæli borgarstjóra um framhaldsskólana í Reykjavík og aðstöðuleysi sumra þeirra. Þess hefur til dæmis verið lengi beðið, að borgaryfirvöld taki af skarið um landrými fyrir Kvennaskólann í Reykjavík eða Menntaskólann við Sund. Þessir skólar standa nú að því er húsnæði varðar verst að vígi framhaldsskólanna í höfuðborginni en ekki er unnt að leggjast á árarnar til að bæta úr aðstöðu þeirra, af því að ráðamenn borgarinnar hafa ekki tekið af skarið, hvar eigi að vera framtíðaraðsetur þeirra. Í þessu efni dugar borgarstjóra ekki að skjóta sér á bakvið lögfræðilegar álitsgerðir eða hreykja sér af framkvæmdum í þágu grunnskólanna.

Mér finnst Morgunblaðsviðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu um þetta mál skólabókardæmi um það, hvernig reynt er að slá ryki í augu almennings með því að hreykja sér á kostnað annarra í stað þess að leggja eitthvað jákvætt fram í því skyni að finna niðurstöðu í brýnu úrlausnarefni.